Sigurður Már Jónsson
Fyrir stuttu birtust útreikningar dr. Hersirs Sigurgeirssonar á Vísindavefnum um kostnaðinn af Icesave-samningi þeim sem kenndur hefur verið við Svavar Gestsson. Hersir reiknaði út að eftirstöðvar Svavars-samningsins til greiðslu úr ríkissjóði, miðað við 100% heimtur höfuðstóls úr þrotabúi Landsbankans, næmu nú 208 milljörðum króna. Það samsvarar 8,8% af VLF 2016. Þessi upphæð skyldi greiðast í 32 ársfjórðungslegum greiðslum næstu átta árin, frá 5. júní 2016. Það þýðir að sjö ára skjóli því sem
Svavari Gestssyni, aðalsamningamanni Íslands, varð svo tíðrætt um er að ljúka. Skattgreiðendur yrðu því að standa skil á 26 milljörðum króna á ári næstu átta árin. Ekki lítil upphæð, sérstaklega þegar haft er í huga að hana yrði að greiða í erlendum gjaldeyri.
En þetta segir ekki alla söguna. Í raun er hægt að segja að efnahagur landsins hafi þróast á besta veg undanfarið. Skuldir einstaklinga, fyrirtækja og þjóðarbúsins lækka jafnt og þétt. Krónan styrkist ár frá ári og því er ljóst að sú upphæð sem hægt er að reikna vegna Icesave er mun lægri en ella hefði orðið. Ef krónan hefði farið í samsvarandi veikindafasa værum við líklega að tala um skuld upp á um 300 til 400 milljarða króna. Allt þetta er vert að hafa í huga þegar við blasir að efnahagur landsins er með miklum ágætum, öfugt við það sem við sjáum í mörgum nágrannalöndum okkar. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að flestir hagspekingar hafi talið nauðsynlegt á sínum tíma að skrifa undir samninga við Breta og Hollendinga.
Ef við lítum aftur til þess tíma þegar viðræður um Icesave-kröfuna áttu sér stað þá er augljóst að margir töldu nauðsynlegt að semja. Sæti í samfélagi þjóðanna væri í húfi og öðruvísi yrði efnahagur landsins ekki endurreistur. Reyndar er athyglisvert að það voru fremur hagfræðingar sem töluðu fyrir samningum á meðan lögfræðingar virtust telja dómstólaleiðina allt eins farsæla. Af hverju skyldi það vera? Jú, svo virðist sem margir hagfræðingar hafi tengt samninga við Evrópusambandsumsóknina og að í raun væri um að ræða tvær hliðar á sama peningnum. Að með því að ýta þessu deilumáli til hliðar yrði aðild auðsóttari. Og með tilstyrk ESB yrði síðan auðveldara að takast á við klyfjar samningsins. En það voru ekki einu röksemdirnar sem hafðar voru uppi. Það var skoðun margra að samningar myndu hafa í för með sér hraðari endurreisn og styrkingu krónunnar.
Vonin um að samningur leiddi til skjótrar endurreisnar
Þetta mátti meðal annars lesa í áliti meirihluta Efnahags- og skattanefndar (Fylgiskjal I) frá 19. ágúst 2009. Þá lá fyrir skrifleg umsögn Seðlabanka Íslands um Icesave-samningana og áhrif þeirra á erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins, sem bankinn taldi að gæti farið talsvert yfir 200% af VLF árið eftir (2010). Meirihlutinn sá stöðuna með þessum hætti:
,,Ríkissjóður á hins vegar hvorki tiltækt erlent lausafé né ákveðnar tekjur til að mæta Icesave-ábyrgðinni og þess vegna er það verkefni næstu 15 ára að afla ríkissjóði tekna til að mæta þessu. Til lengri tíma litið eru áhrif samninga af þessari stærðargráðu þau að veikja gengi krónunnar frá því sem annars hefði orðið og getur sú þróun haft áhrif á vaxtastig til hækkunar fremur en lækkunar. Um leið verður að hafa í huga að verði frumvarpið ekki samþykkt verður Icesave-málið ekki úr sögunni og óvissan sem því fylgir getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir gengis- og vaxtaþróun. “
Undir þetta skrifuðu Guðbjartur Hannesson, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Bjarkey Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Þór Saari (með fyrirvara).
Að hluta var þingmönnum vorkunn. Margir áhrifamenn í samfélaginu kröfðust samninga, helst sem fyrst. Tveimur dögum áður en áðurnefnt meirihlutaálit var skrifað hafði Viðskiptablaðið eftir Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), að Icesave málið hefði tafið alla framþróun hér á landi of lengi og þess vegna þyrfti að ganga frá því sem fyrst. Og Vilhjálmur bætti við:
„Þetta hefur haft áhrif á svo margt, s.s. lánagreiðslur, lánshæfismat, endurfjármögnun bankakerfisins, fyrirhugaðar virkjanir og allt atvinnulífið í heild.“
Um leið hafði blaðið eftir Vilhjálmi að hann vonaðist til þess að frágangur málsins yrði til þess að hjólin gætu byrjað að snúast á ný.
Sama dag ræddi Viðskiptablaðið við Gylfa Arnbjörnsson, formann ASÍ. Hann taldi nauðsynlegt að Evrópusambandið lagaði þá ágalla sem kynnu að vera á lögum um innstæðutryggingar og að samningsleiðin væri nauðsynleg:
„Við getum ekki hætt á það að lánamarkaðir lokist, það er einfaldlega ekki valkostur. Burtséð frá því hvort við teljum að það sé illa komið fram við okkur eða ekki þá verður íslenskt atvinnulíf að hafa aðgang að fjármagni.“
Sviðsmyndin sem ekki rættist
Vitaskuld voru þeir Vilhjálmur og Gylfi að endurvarpa skoðunum margra í atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Þekktust eru líklega ummæli Þórólfs Matthíassonar hagfræðiprófessors í fréttum Stöðvar 2, 31. júlí 2009:
„Við erum búin að fá ítrekun á greiðslur eins og á Icesave og við sinnum þeim ekki og þá gerist það náttúrlega að lánveitendur okkar vilja ekki láta meira fé af hendi rakna … og þá hrynur krónan. Hún fer niður fyrir allt sem við höfum nokkurn tíma þekkt. Og lífskjör hrynja gjörsamlega. Atvinnuleysi eykst. Þannig að við erum að horfa upp á hrikalega sviðsmynd. Og ég bara vona að slíkar sviðsmyndir ekki rætist.“
Þessi dökka sviðsmynd sem hagfræðiprófessorinn sá fyrir sér rættist ekki og var reyndar aldrei líkleg á meðan Íslendingar réðu sínum málum sjálfir. Sterkar útflutningsgreinar og sjálfstæður gjaldmiðill sáu til þess. Nú þegar útreikningar Hersirs liggja fyrir væri áhugavert að fá nánari greiningu á því hvernig mál hafa þróast og hvort frestun samninga og síðan höfnun þeirra hafi yfir höfuð neikvæð áhrif. Það bíður betri tíma. Vitaskuld var ákveðinn þrýstingur frá þeim sem áttu ekkert í húfi svo sem lánshæfismatsfyrirtækjum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þessir aðilar vildu bara eyða óvissu sem hentaði illa þeirra bókum. Þessi þrýstingur síaðist inn víða eins og birtist í ummælum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á blaðamannafundi 24. september 2009, þegar hann var spurður um tafir á afgreiðslu láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum:
,,Þetta hefur því miður strandað á Icesave-málinu. Það er bara rétt að segja það eins og það er, þannig að þeir sem um það véla ættu að hugsa sig um tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, þegar þeir taka ákvörðun um framhald þess máls.“
Lausn með samningi var þannig að dómi margra eina ástættanlega niðurstaðan. Breytti engu þó að í áðurnefndri skýrslu Seðlabanka Íslands frá því í ágúst 2009 sé að finna ágætar lýsingar á því sem íslenskt samfélag gæti átt von á ef samningurinn yrði samþykktur. Meðal annars umtalsverða hækkun á virðisaukaskatti til að standa undir ábyrgð ríkisins. Var þar gert ráð fyrir að neðra þrep skattsins (7%) hækkaði um 0,88% og efra þrepið (24,5%) um 3,07%. Með öðrum orðum, íslenskir neytendur hefðu setið uppi með hækkanir á skattkerfinu og að öllum líkindum hefði verið ómögulegt að ráðast í þær lækkanir sem hafa átt sér stað á tollum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hvað þá að unnt hefði verið að afnema vörugjöldin sem margir stuðningsmenn samningaleiðarinnar í hópi atvinnurekenda fagna nú. Líklega hefðu neytendur misst þarna af tugmilljarða ávinningi. Það er tala sem taka þarf með í reikninginn þegar dæmið er gert upp í heild sinni.
Að lokum má geta þess að undirritaður hefur haldið úti Facebooksíðu um nánast allt er varðar Icesave-samningana síðan bók mín um þá kom út fyrir jólin 2010. Það hefur meðal annars orðið til þess að hin orðmargi blaðamaður Vísis, Jakob Bjarnar Grétarsson, hefur sagt að það hafi enginn áhuga á Icesave nema ég og útgefandi minn, Jónas Sigurgeirsson, sem vel að merkja, sendi einmitt fyrirspurnina til Vísindavefsins. Auðvitað hefur Jakob rangt fyrir sér en ummæli hans eru táknræn um þá þöggun sem margir fjölmiðlar ástunda um málið. Þannig sá fréttastofa Ríkisútvarpsins aldrei ástæðu til að fjalla um bók mína á sínum tíma og er hún þó eina ritið sem um málið hefur fjallað sérstaklega. Ríkisútvarpið hefur í engu getið útreikninga Hersirs. Það er í takt við ákvörðun fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem hefur ákveðið að mæta þeim með þögn. Maðurinn sem sagði við afgreiðslu Svavars-samningsins á Alþingi:
„Ég trúi því að sagan muni sýna að við séum hér að gera rétt. Að endurreisn Íslands, sjálfstætt og velmegandi í samfélagi þjóðanna muni sanna það, muni verða sönnunin.“
Annað kom á daginn.
Sigurður Már Jónsson er höfundur bókarinnar; Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar?