Hagsmunaskráning: Takmörkuð og villandi mynd

Óli Björn KárasonÓli Björn Kárason

Krafan um að stjórnmálamenn geri grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sem kunna að hafa áhrif á framgöngu þeirra og ákvarðanir, er eðlileg og nauðsynleg til að koma í veg fyrir tortryggni og árekstra. Um þetta virðast flestir sammála. Ágreiningurinn er um hversu langt eigi að ganga.
Í gildi eru ákveðnar reglur um hagsmunaskráningu alþingismanna sem eiga stoð í þingskaparlögum. Samkvæmt reglunum ber þingmanni að gera grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum – öðrum en skuldum – og trúnaðarstörfum utan þings.

Þingmaður skal upplýsa um launaða starfsemi, launaða stjórnarsetu í félögum, launað starf eða verkefni, sem og starfsemi sem er rekin samhliða þingsetu. Þá verður þingmaður að upplýsa um fjárhagslegan stuðning, gjafir, utanlandsferðir og eftirgjöf skulda. Þingmaður þarf í engu að upplýsa um skuldir sínar eða hverjir kunni að eiga fjárhagskröfur á hann. En honum ber að upplýsa um ýmsar eignir, s.s. fasteign aðra en húsnæði til eigin nota og eignarhlut í hlutafélagi, sparisjóði eða sjálfseignarstofnun sem er;

  • meira en einnar milljónar króna virði,
  • 1% eða meira í félagi, sparisjóði eða sjálfeignarstofnun með eignir sem eru yfir 230 milljónir eða rekstrartekjur sem eru hærri en 460 milljónir,
  • 25% eða meira af hlutafé eða stofnfé félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar.

Þingmaður skal upplýsa um samkomulag við fyrrverandi eða verðandi vinnuveitanda. Þá ber þingmanni að veita „upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög önnur en stjórnmálaflokka óháð því hvort þessi störf eru launuð eða ekki“.

Hagsmunaskráning nær eingöngu til þingmannsins sjálfs en ekki til maka eða annarra í fjölskyldu hans.

Fjárhagslegt sjálfstæði

Þegar farið er yfir skráningu þingmanna kemur í ljós að fæstir eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta umfram flesta aðra landsmenn, hvorki er varðar fasteignir eða eignarhluti í félögum, sparisjóðum eða sjálfseignarstofnunum.

Reglurnar um hagsmunaskráningu, sem forsætisnefnd þingsins setur, taka eingöngu mið af eignum og þeim fjárhagslegu hagsmunum, sem þeim kunna að tengjast. Í engu varpa þær ljósi á það hvort og þá hvernig viðkomandi þingmaður eða ráðherra kunni að vera fjárhagslega háður lánardrottnum. Með öðrum orðum; hagsmunaskráning varpar engu ljósi á það hvort viðkomandi er fjárhagslega sjálfstæður eða ekki. Þannig er talið líklegra að fjárhagslegt sjálfstæði leiði til hagsmunaárekstra en fjárhagslegt helsi í formi skulda.

Þrátt fyrir þessa galla eða gloppur í reglunum er lítil umræða um hvort ekki sé rétt að upplýsingar um skuldir skuli liggja fyrir. Áhuginn beinist fyrst og fremst að því að skylda þingmenn að upplýsa um eignir maka og nú síðustu daga að þeir birti skattframtöl.

Hvað með aðra?

Í kjölfar upplýsinga um svokölluð aflandsfélög og tengsl stjórnmálamanna við þau, hefur krafan um ítarlegri hagsmunaskráningu fengið byr undir báða vængi. Krafan er að stjórnmálamenn upplýsi um eignir (ekki skuldir) sínar og maka. Fjölmiðlar og álitsgjafar, jafnt hér á landi sem í öðrum löndum, hafa verið duglegir við að krefjast þess að upplýsingar séu lagðar á borðið.

Kastljósið beinist að stjórnmálamönnum á meðan aðrir áhrifamiklir einstaklingar standa áhyggjulausir og rólegir í skugganum. Fáir leiða til dæmis hugann að fjölmiðlunum sjálfum – blaða- og fréttamönnum sem margir hafa meiri áhrif en einstaka þingmenn.

Samkvæmt lögum ber að upplýsa um eignahald fjölmiðla, en starfsmönnum þeirra ber engin skylda til að upplýsa um fjárhagslega hagsmuni – hvorki eignir eða skuldir. Ef ætla má að fjárhagslegir hagsmunir geti haft áhrif á störf og ákvarðanir þingmanna, hlýtur hið sama að eiga við um alla aðra – fjölmiðlamenn þar á meðal.

Það er því rétt og eðlilegt að fjölmiðlamenn geri ekki minni kröfur til sjálfs síns en þeir gera til kjörinna fulltrúa hvort heldur er á þingi eða í sveitarstjórnum. Í siðareglum Blaðamannafélags Íslands segir að blaðamaður varist „að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild“. Aðrar kröfur eru ekki gerðar og engar um upplýsingaskyldu.

Samkvæmt nýjum þjónustusamningi Ríkisútvarpsins og menntamálaráðherra, skal starfsfólk ríkismiðilsins starfa eftir siðareglum sem birta á eigi síðar en 1. maí næstkomandi og einnig skal endurskoða fréttareglur fyrir 1. júní. Forráðamenn Ríkisútvarpsins hljóta að huga að því hvort nauðsynlegt sé að taka upp hagsmunaskráningu frétta- og dagskrárgerðarfólks, þegar gengið er frá siða- og fréttareglum. Sama á við um aðra fjölmiðla.

Sérfræðingar og álitsgjafar

Það er ekki aðeins mikilvægt að almenningur átti sig á hagsmunum blaða- og fréttamanna. Ekki er síður mikilvægt að upplýst sé um bakgrunn þeirra álitsgjafa sem fengnir eru til að gefa álit og jafnvel fella dóma yfir mönnum og málefnum. Þetta á ekki síst við þegar álitsgjafarnir eru kynnir til leiks sem sérfræðingar og/eða fræðimenn. Ein forsenda þess að almenningur geti metið upplýsingar eða staðhæfingar álitsgjafa í fréttum eða fréttaskýringum, er að upplýsingar um viðkomandi liggi á borðinu.

Skoðanir eða fullyrðingar sem fyrrverandi ríkisskattstjóri setur fram geta vegið þungt í hugum flestra. En almenningur ætti auðveldara með að leggja gagnrýnið mat á staðhæfingar fyrrverandi embættismanns ef upplýst væri um þátttöku hans í stjórnmálum, sem pistlahöfundur, aðstoðarmaður og sérlegur ráðgjafi ráðherra auk setu í samninganefnd um Icesave – svokallaðri Svavarsnefnd.

Sama á við um ýmsa fræðimenn sem kynntir eru til leiks. Sjaldan eða aldrei er greint frá því hvort og þá hvaða hagsmuni þeir eiga að gæta. Þeir eru ekki spurðir. Fjölmiðlungar eru áhugalausir um hugsanlega hagsmunaárekstra eða hvort og þá hvað kunni að lita skoðanir álitsgjafanna.

Hversu langt skal ganga?

Upplýsingar um fjárhag eru í eðli sínu viðkvæmar og persónulegar. Líklegt er að margir verði fráhverfir því að leggja stjórnmál fyrir sig þegar kröfur um hagsmunaskráningu skulda og eigna, verða umfangsmeiri. Hið sama á við um fjölmiðlafólk.

Hér verður ekki lagt mat á hversu langt er nauðsynlegt að ganga í kröfunni um að þingmenn, fjölmiðlungar eða áhrifamiklar stéttir, upplýsi um fjárhagslega hagsmuni. Kröfur um að stjórnmálamenn einir veiti slíkar upplýsingar standa á veikum grunni. Hið sama á við þegar heimtað er að makar upplýsi um eignir sínar.

Eitt er að minnsta kosti augljóst. Hagsmunaskráning sem byggir aðeins á eignum gefur í besta falli takmarkaða mynd af fjárhagslegum hagsmunum viðkomandi. Í versta falli er myndin kolröng og blekkjandi.