Stjórnarskrá sem virkar – vanhugsað ef henni verður umbylt

Helgi Áss Grétarsson

Helgi Áss Grétarsson

Atburðarás í íslenskum stjórnmálum síðustu daga sýnir „að gildandi stjórnskipun landsins sé reist á traustum grunni og að vanhugsað væri að umbylta stjórnarskrá lýðveldisins frá árinu 1944“. Þetta er mat Helga Áss Grétarssonar, dósents við Lagadeild Háskóla Íslands.

Í grein sem Helgi Áss skrifar í Morgunblaðið í dag – fimmtudag – segir að stjórnskipun Íslands hafi það meðal annars að „markmiði að tryggja festu og jafnvægi í samskiptum þeirra sem fara með ríkisvald“. Gildandi stjórnarskrá hefur jafnan virkað að þessu leyti þegar reynt hefur verið á, segir Helgi Áss sem bendir jafnframt á að forsetaembættið hafi átt þátt í að móta framvindu mála:

„Þannig urðu ríkisstjórnarskipti í ársbyrjun 2009 í eldfimu ástandi án þess að til stjórnmálalegs öngþveitis kæmi. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Stjórnskipun Íslands hélt einnig velli hina viðburðaríku daga 4.-7. apríl síðastliðinn en hinn 5. apríl síðastliðinn bar forsætisráðherra, sem þá sat, upp erindi við forseta Íslands. Eðli þess erindis liggur ekki fyllilega fyrir en reikna má hið minnsta með að til tals hafi komið að rjúfa þing og að boðað yrði til kosninga, sbr. 24. gr. stjórnarskrárinnar.“

Helgi Áss segir að hvernig sem á málin sé litið hafi viðbrögð forseta verið innan þeirra heimilda sem stjórnarskráin markar. Eðlilegt hafi verið að forseti óskaði eftir nánari upplýsingum og rökum áður en fallist er á beiðni um þingrof:

„Aðstæður þær sem komu upp fyrrnefndan dag voru á margan hátt einsdæmi í sögu íslenskrar stjórnskipunar og áttu eldri fordæmi, um samþykki forseta á beiðni forsætisráðherra um þingrof, ekki við. Það var því rökrétt af hálfu sitjandi forseti að grípa til úrræða í því skyni að tryggja starfhæfa ríkisstjórn í landinu.“

Helgi Áss lýkur greininni með þessum orðum:

„Að mínu mati sýnir nýafstaðin atburðarás í íslenskum stjórnmálum að gildandi stjórnskipun landsins sé reist á traustum grunni og að vanhugsað væri að umbylta stjórnarskrá lýðveldisins frá árinu 1944.“