Bland í poka og glötuð tækifæri

Geir ÁgústssonGeir Ágústsson

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið birt. Hún er bland í poka. Sumt er gott og annað ekki eða svo sýnist mér í fljótu bragði. Sumt leiðir til hærri byrði á herðar skattgreiðenda en annað síður.

Mér sýnist ríkisstjórnin ætla að missa af tækifæri til að vindan endanlega ofan af brunarústum seinustu ríkisstjórnar. Stjórnarandstaðan er áköf að fá kosningar sem fyrst á meðan skoðanakannanir eru henni hagstæðar og áður en almenningur gerir sér grein fyrir því að hagur hans hefur vænkast töluvert undanfarin misseri. Örfá en veigamikil mál hafa fengið alla athyglina, t.d. staða hins sovéska heilbrigðiskerfis og götóttar götur Reykjavíkur sem enginn kennir borgarstjórn um.

Ákafa stjórnarandstöðunnar hefði mátt nýta til að keyra góð mál hratt í gegn og veifa á meðan kosningadagsetningu eins og gulrót fyrir framan nefið á henni. Mér sýnist menn ætli að fara í keppni í óþarfakurteisi og bjóða upp á dagsetningu fyrir kosningar áður en nokkur mál hafa hlotið brautargengi. Þessu má líkja við að bjóða lötum 12 ára strák að vinna sér inn vasapening með heimilisverkum en borga þá fyrirfram. Eftir stendur að verkin eru aldrei unnin en peningarnir eru horfnir.

Nú finnst mér sjálfum ólíklegt að 60% kjósenda ætli sér að kjósa núverandi stjórnarandstöðuflokka. Það á eftir að koma í ljós. Ríkisstjórnin virðist samt að vera að spila frá sér öllum trompunum og vona að spilastokkurinn breytist þegar líður á leikinn.