Efni haustheftis Þjóðmála er fjölbreytt að venju en meðal annars er þar:
Af vettvangi stjórnmálanna – Uppstokkun
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var felldur úr formannsembætti Framsóknarflokksins á sögulegu flokksþingi í byrjun október. Fimm mánuðum áður hafði þingflokkurinn gert uppreisn gegn honum. Píratar eru komnir í vandræði. Þeir þurfa aðstoð vinnusálfræðings til að skila Birgittu Jónsdóttur. Hugsjónir munu ekki þvælast pírötum fyrir við stjórnarmyndun heldur barátta um völd og baktjaldamakk vegna skorts á gegnsæjum, skilvirkum stjórnarháttum og reglum. Björn Bjarnason skrifar um stöðu stjórnmálanna í aðdraganda kosninga 29. október næstkomandi.
Sótt að einkaframtakinu
Allir segjast styðja frjálsa samkeppni en í reynd eru stjórnmálamenn duglegir við að leggja steina í steina í götu einkaframtaksins. Kristinn Ingi Jónsson segir að í krafi yfirburðastöðu sinnar hindri hið opinbera samkeppni í atvinnulífinu.
Að lifa eða deyja
Styrmir Gunnarsson fjallar um stöðu íslenskra stjórnmálaflokka og varpar ljósi á þau verkefni sem blasa við á komandi árum.
Hvað þýðir Brexit fyrir ísland?
Hjörtur J. Guðmundsson segir að fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu hafi mikil áhrif á íslenska hagsmuni. Bæði frá pólitískum og viðskiptalegum sjónarhóli.
Árangur ríkisstjórnar
Af þeim u.þ.b. 80 hlutlægu markmiðum sem finna má í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er nú ríflega helmingi lokið. Lætur nærri að ríflega fjórðungur þessara markmiða sé í vinnslu en eins og flestum er kunnugt varð það niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna að stytta kjörtímabilið um eitt þing í kjölfar þess umróts sem varð í stjórnmálum í apríl 2016. Sigurður Már Jónsson tók saman.
Skiljanlegt vantraust
Jón Ragnar Ríkharðsson heldur því fram að á alþingi sé vart þverfótað fyrir stirðmæltum unglingum á ýmsum aldri. Þegar fólk sem hefur atvinnu af að tala kann það varla – sé eðlilegt að hinum almenna kjósanda lítist illa á mannskapinn.
Draumórar eða raunsæi
Bjarni Jónsson segir að kostnaðaráætlanir vegna sæstrengs milli Íslands og Skotlands séu ótrúverðugar. Verkefnið í heild sinni, virkjanir og flutningslínur á Íslandi, sæstrengur og endamannvirki hans, getur ekki staðið fjárhagslega óstutt af opinberum aðilum. Það er tæknilega flókið í hönnun, framkvæmd og rekstri, og því fylgir mikil tæknileg og fjárhagsleg óvissa fyrir alla, sem tækju þátt í þessu verkefni. Óhjákvæmilegt er raforkuverð hækki á Íslandi. Bjarni segir það kolrangt að engir árekstrar verði á milli orkusölu hér innanlands og orkuútflutnings um sæstreng.
Nýlendulok
Allt frá barnsaldri hefur Þorsteini Antonssyni fundist austurlenskt mannlíf standa sér nær en það íslenska. Síðari hluti greinar Þorsteins birtist hér.
Bækur – Villikettir VG
Í bókinni Villikettirnir og vegferð VG eftir Jón Torfason er varpað ljósi á innanmein Vinstri grænna. Loforð voru svikin. Þetta er bók sem allir áhugamenn um íslensk stjórnmál eiga að lesa. Þjóðmál birtir kafla úr bókinni.
Ríkisrekin bókaútgáfa
Leslisti Þjóðmála
Þjóðmál hafa útbúið leslista fyrir þá sem hafa áhuga á sögu kommúnismans, ævisögum og bókum um samtímann. Útgefandi er Almenna bókafélagið.