Sótt að einkaframtakinu

Flestir stjórnmálamenn segjast styðja frjálsa samkeppni. Þeir hafa til að mynda lögfest strangar samkeppnisreglur og falið sérstökum eftirlitsstofnunum víðtækt vald til þess að grípa inn í rekstur fyrirtækja, ef ástæða þykir til, undir því yfirskyni að tryggja þurfi heilbrigða samkeppni og koma í veg fyrir skaðlega fákeppni.

Reyndin er hins vegar önnur. Hið opinbera leggur með skipulegum hætti steina í götu einkaframtaksins og hindrar í krafti yfirburðastöðu sinnar samkeppni í atvinnulífinu. Í stað þess að ryðja samkeppnishindrunum úr vegi hefur hið opinbera markvisst grafið undan einkarekstri og gert mörgum atvinnurekendum ómögulegt að reka fyrirtæki sín með hagnaði. Það er ekki nóg með að stjórnmálamenn leggi háa skatta og gjöld á fyrirtæki, setji þeim flóknar og íþyngjandi reglur og hafi með þeim strangt eftirlit. Undir verndarvæng stjórnmálamanna hafa ríkisfyrirtæki í ofanálag blásið til sóknar gegn einkafyrirtækjum á fjölmörgum sviðum
atvinnulífsins, allt frá bankaþjónustu og smásölu til fjölmiðlunar, kortagerðar og sorphirðu. Sú samkeppni er með öllu ósanngjörn, enda njóta ríkisfyrirtækin meðgjafar skattgreiðenda, sem bera auk þess áhættuna af rekstrinum.

Næsta ríkisstjórn á mikið verk fyrir höndum að draga úr ítökum hins opinbera í atvinnulífinu. Og raunar ekki aðeins í atvinnulífinu, heldur í samfélaginu öllu. Hún þarf að spyrja sig grundvallarspurninga á borð við: Hvert er grunnhlutverk hins opinbera? Á hið opinbera að teygja anga sína í hvern krók og kima mannlegs lífs eða á það að gefa fólki frið til þess að leita hamingjunnar á eigin forsendum? Eiga stjórnmálamenn að vasast í rekstri fyrirtækja á ábyrgð almennings eða er hlutverk þeirra fremur að skapa atvinnulífinu heilbrigt og lífvænlegt umhverfi?

Endurskilgreinum hlutverk hins opinbera

Það er engu líkara en við höfum misst sjónar á því hvert hlutverk hins opinbera á að vera. Flest erum við sammála um að á meðal mikilvægustu skyldna þess er að vernda borgarana gagnvart ofbeldi, setja almennar leikreglur í þjóðfélaginu og sjá fyrir þeim sem minna mega sín. En hver ákvað að hlutverk þess væri enn fremur að selja snyrtivörur, áfengi og sælgæti? Eða að reka fjölmiðil og póstþjónustu? Næsta ríkisstjórn þarf að skilgreina á nýjan leik hvert hlutverk hins opinbera í samfélaginu á að vera. Hún þarf að leggja mat á það hvaða þjónustu það á að sinna og hvernig henni verður sem best sinnt. Hún þarf að velta við hverjum steini og spyrja sig í hvert sinn sem ríkið ákveður að láta til sín taka hvort aðkoma þess sé í raun og veru nauðsynleg.

Það er hlutverk stjórnvalda hverju sinni að skapa atvinnulífinu umhverfi þar sem samkeppni og markaðslögmál fá þrifist, án sífelldra ríkisafskipta. Um leið og framtakssamir menn hasla sér völl á einhverju sviði, sama hvað það sé, eiga stjórnvöld að leggja niður sambærileg verkefni sín. Að sama skapi eiga stjórnvöld ávallt að leita leiða til þess að færa verkefni úr sínum höndum til fólks og fyrirtækja.

Hugmyndafræði vinstrimanna gengur út á að ríkið láti að sér kveða í efnahagslífinu, sanki að sér eignum og reki fyrirtæki á ábyrgð skattgreiðenda. Með hagfræðikenningar John Maynard Keynes að vopni juku stjórnmálamenn ítök ríkisins jafnt og þétt eftir síðari heimsstyrjöldina, en til marks um það má nefna að hér á landi nema opinber útgjöld nú um 44% af vergri landsframleiðslu en hlutfallið var aðeins 20% í stríðslok. Erfitt hefur reynst að sporna gegn þessari útþenslu. Það er gömul saga og ný að þeir kjörnu fulltrúar sem hafa það verk fyrir höndum að deila út fjármunum úr sameiginlegum sjóðum hafa sterkan hvata til þess að gera það í síauknum mæli, sér í lagi þegar stutt er í kosningar. Hagsmunir skattgreiðenda eru jafnframt dreifðir og léttvægir fyrir hvern og einn og sjá þeir því ekki mikinn hag í því að bindast samtökum um að berjast gegn auknum ríkisafskiptum, á meðan hagsmunir hinna fáu sem eiga sérhagsmuna að gæta og njóta góðs af ríkisafskiptunum eru miklir og þess virði að berjast fyrir. Stjórnmálamenn vilja auðvitað forðast það að fá slíka sérhagsmunahópa upp á móti sér. Afleiðingin verður sú að þeir leyfa ríkinu að þenjast út, án nokkurrar mótspyrnu.

Á sama hátt er oft sagt að frelsið glatist sjaldnast í einu lagi, heldur hægt og í smáum skrefum. Leiðin frá frelsi til ánauðar samanstendur af mörgum litlum skrefum sem öll virðast gerð í göfugum tilgangi, þó svo að fáir sætti sig við áfangastaðinn. Af þessum ástæðum þarf frjálslynt fólk ávallt að vera á varðbergi þegar viðraðar eru hugmyndir um aukin afskipti og útgjöld hins opinbera, sama hversu smávægilegar þær kunna að hljóma.

Markaðurinn er ekki fullkominn – ríkið því síður

Talsmenn ríkisafskipta halda því statt og stöðugt fram að markaðurinn sé ekki fullkominn. Ríkið þurfi því að láta til sín taka og laga þá „bresti“ sem þar er að finna. Það er vitaskuld rétt að markaðurinn er ekki fullkominn, rétt eins og önnur mannanna verk, en ríkisvaldið er að sama skapi fjarri því að vera fullkomið og raunar mun fjærri því en markaðurinn. Því er oft haldið fram að um leið og lög og reglugerðir hafa verið settar hverfi allar meinsemdir markaðarins eins og dögg fyrir sólu en kostir hans haldist undir tryggri leiðsögn velviljaðra embættismanna. Lausnin sé einfaldlega að sníða agnúana af markaðinum með opinberum afskiptum. En jafnvel þótt embættismenn séu allir af vilja gerðir til þess að vinna að almannahagsmunum og láta ekki undan þrýstingi sérhagsmunaafla, þá skortir þá það aðhald sem frjáls samkeppni á frjálsum markaði veitir mönnum. Hvatarnir eru ekki þeir sömu í ríkisrekstri og einkarekstri. Frjáls markaður byggist á tilraunastarfsemi. Austurríski hagfræðingurinn Joseph A. Schumpeter lýsti því sem svo að þar færi fram það sem hann kallaði „skapandi eyðilegging“ þar sem fyrirtæki færu reglulega í gjaldþrot og ný tækju við. Það sem væri skapað væri ný tækni, nýjar aðferðir og nýjar hugmyndir. Það sem væri eyðilagt væri það gamla. Fyrirtæki geta auðvitað farið illa að ráði sínu og endað í gjaldþroti. Það er eðlilegt í öllum fyrirtækjarekstri. Vonin um hagnað drífur menn áfram og gefur til kynna að reksturinn sé arðbær, að spurn sé eftir þeirri vöru eða þjónustu sem boðið er upp á, en tapið bendir hins vegar til þess að reksturinn standi ekki undir sér og breytinga sé þörf. Þessir hvatar eru hins vegar ekki fyrir hendi í opinberum rekstri. Þar gildir ekki lögmálið um skapandi eyðileggingu. Ef opinber stofnun er rekin með tapi er því jafnan tekið sem staðfestingu á því að hið opinbera verji ekki nægum fjármunum til viðkomandi málaflokks. Ekki hvarflar að mönnum að stofnunin sé einfaldlega illa rekin og fjármunum sóað. Stofnunin fer ekki í gjaldþrot, líkt og illa rekin einkafyrirtæki, sem skapar hættu á því að tapreksturinn haldi áfram og verði viðvarandi jafnvel árum saman. Byrðunum er á endanum velt yfir á skattgreiðendur.

Gjarnan er sagt að menn fari betur með eigið fé en annarra. Á því geta þó hæglega verið margar undantekningar. Ótalmörg einkafyrirtæki hafa farið illa með fé sitt og einnig eru dæmi um opinberar stofnanir sem eru reknar af mikilli ráðdeild og alúð. En kjarni málsins er sá að almennt má ætla að farið sé því betur með fé eftir því sem raunverulegir eigendur þess ráða meiru um hvernig því er ráðstafað.

Hugmyndabaráttan sem var háð hér á landi á tíunda áratug síðustu aldar snerist að miklu leyti um að draga úr þátttöku hins opinbera í efnahagslífinu. Viðhorfið til hins opinbera breyttist á aðeins örfáum árum og fækkaði þá talsmönnum ríkisrekstrar verulega. Ekki þótti lengur forsvaranlegt að stjórnmálamenn væru að vasast í rekstri fyrirtækja og úthluta almannafé til vildarvina. Velflest ríkisfyrirtæki landsins voru auk þess illa rekin, enda höfðu stjórnendur þeirra engan hvata til þess að draga úr kostnaði og leita leiða til þess að auka hagnað, án alls aðhalds frá markaðinum. En þótt ríkið hafi dregið úr ítökum sínum á ýmsum sviðum atvinnulífsins, þá eru þau enn sterk á öðrum sviðum. Og eru jafnvel vísbendingar um að þau hafi aukist fremur en hitt eftir fall bankakerfisins haustið 2008 og ríkið blásið til sóknar á hinum ýmsu mörkuðum.

Ríkisbankar eru tímaskekkja

Nærtækasta dæmið er ríkisvæðing bankakerfisins. Ríkið er enn á ný orðið ráðandi afl á íslenskum bankamarkaði, með 98% eignarhlut í Landsbankanum, 13% hlut í Arion banka og þá er Íslandsbanki allur kominn í ríkiseigu. Þetta jafngildir því að ríkið ráði vel yfir 70% af markaðinum. Slík ríkisumsvif eru með öllu óþekkt í bankakerfum vestrænna ríkja. Hlutfallið hér er svipað og það var í ríkjum eins og HvítaRússlandi, Indlandi og Sýrlandi árið 2010, samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðabankans, og jafnvel hærra en í sósíalískum ríkjum á borð við Rússland, Úrúgvæ og Venesúela. Bankasýsla ríkisins hefur margoft bent á að eignarhlutur ríkisins í viðskiptabönkunum er langstærstur á meðal Evrópuþjóða hvort sem litið er til hans sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu eða opinberum skuldum.

Þessi þróun er mikið áhyggjuefni. Ekki er síður ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvort stjórnmálamenn muni sýna kjark til þess að vinda ofan af ríkisvæðingunni og eins hvort pólitískur vilji standi yfir höfuð til þess. Þannig hafa margir vinstrimenn talað fjálglega um að skynsamlegt sé að ríkið reki banka á ábyrgð skattgreiðenda, jafnvel eins konar „samfélagsbanka“, sem skili aðeins lágmarksarðsemi. Þeir benda á að séu bankarnir í ríkiseigu renni hagnaður þeirra, sem hefur óneitanlega verið ríflegur undanfarin ár, óskiptur til ríkisins. Vissulega hefur ríkið notið góðs af hagnaði bankanna – um það er ekki deilt – en það má ekki gleymast að hagnaðurinn er að langmestu leyti kominn til vegna óreglulegra þátta eins og virðisaukningar útlána og endurmats á eignasöfnum. Bankarnir þurfa enn sem áður að bæta arðsemi af grunnrekstri sínum og það gera þeir ekki ef þeir verða áfram í ríkiseigu.

Við þekkjum af biturri reynslu hvernig fór fyrir gömlu ríkisbönkunum. Tap á rekstri ­þeirra var tap almennings. Það sama má ­segja um „samfélagsbankann“ Íbúðalánasjóð sem hefur undanfarin ár keppt – í krafti ríkisábyrgðar á skuldum sínum – af fádæma hörku við viðskiptabankana. Kostn­aður skattgreiðenda af rekstri sjóðsins hefur hlaupið á tugum milljarða króna á síðustu árum og sér ekki enn fyrir endann á þeirri sorgarsögu.

Eitt mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar verður að losa tangarhald ríkisins á bankakerfinu. Það verður ekki létt verk eða löðurmannlegt, en nauðsynlegt er það. Pólitísk sátt ætti að geta náðst um þá leið að skrá hlutafé ríkisins í viðskiptabönkunum á hlutabréfamarkað og ráðstafa því milliliðalaust til almennings. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mælti til að mynda með því á landsfundi flokksins fyrir um ári að ríkið afhenti almenn­ingi 5% hlut í bönkunum. Rík ástæða er til þess að kanna þá leið nánar og þá jafnvel með þeim hætti að ríkið framselji einfaldlega þjóðinni allt hlutafé sitt í bönkunum. Hver og einn Íslendingur gæti þá ákveðið hvort hann vill eiga hlutabréfin áfram, og hirða þannig af þeim arð, eða selja þau á markaði. Skattgreiðendur lögðu fram verulega fjármuni til þess að endurreisa bankana eftir að þeir féllu haustið 2008 og er því ekki nema sanngjarnt að þeir fái að njóta með beinum hætti þeirrar virðisaukningar sem hefur myndast í bankakerfinu síðan þá. Slík aðgerð myndi enn fremur auka traust almennings á bankakerfinu og hlutabréfamarkaðinum og skjóta styrkari stoðum undir fjárhag heimilanna.

Stærsti snyrtivörusali landsins

Annað og ekki síður brýnna verkefni næstu ríkisstjórnar verður að draga ríkið alfarið af smásölumarkaði. Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar rekur ríkið til dæmis sex verslanir í beinni samkeppni við innlenda smásala. ­Þessar ríkisverslanir þurfa ekki að standa skil á virðisaukaskatti og tollum, líkt og keppinautar þeirra, og í krafti aðstöðumunarins hefur fríhöfnin aukið markaðshlutdeild sína umtalsvert í smásölu. Er ríkið nú stærsti smásali snyrtivara hér á landi, með um þriðjungs markaðshlutdeild, og er hlutdeild ríkisins raunar sú sama í sælgætissölu. Til marks um umfangið seldi ríkið sælgæti fyrir 1.270 milljónir króna í flugstöðinni árið 2013, snyrtivörur fyrir 1.420 milljónir, fatnað fyrir 370 milljónir, leikföng fyrir 350 milljónir og áfengi og tóbak fyrir 4.170 milljónir. Víðast hvar erlendis er verslunarrými í flugstöðum boðið út til fyrirtækja sem býðst í staðinn að selja þar toll og skatt­­frjálsan varning. Hér á landi hafa stjórnmálamenn hins vegar látið það óáreitt að ríkið keppi við smásala í hefðbundinni verslunarstarfsemi. Er það einlæg sannfæring þeirra að hlutverk ríkisins sé að selja leikföng, snyrtivörur og sælgæti?

Ríkisvaldinu er ekkert heilagt

Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna um yfirgang ríkisvaldsins í atvinnulífinu. Íslandspóstur hefur frá stofnun farið með einokunarvald ríkisins á póstþjónustu í landinu. Það hefur þó ekki látið við það eitt sitja að sinna þessari kjarnastarfsemi sinni, sem einkarekin fyrirtæki ættu þó að geta með góðu móti sinnt, heldur hefur fyrirtækið aukið umsvif sín á undanförnum árum, þannig að eftir hefur verið tekið, og sótt á nýja markaði. Keppir það nú við sjálfstæða atvinnurekendur á sviði prentþjónustu, vörudreifingar, sendlaþjónustu og brettaflutninga, svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Í pósthúsum landsins selur ríkið í þokkabót sælgæti, geisladiska, ritföng, bækur og alls kyns hönnunarvörur. Ekkert virðist vera heilagt í samkeppni ríkisins við einkaframtakið.

Íslensk stjórnvöld, ólíkt öðrum Evrópuríkjum, leggja enn fremur undir sig útgáfu námsbóka, sem er fjórðungur hérlends bókamarkaðar, og stunda að auki umfangsmikla hljóðbókaútgáfu endurgjaldslaust, öðrum bókaútgefendum til tjóns. Opinbera fyrirtækið Strætó hefur auk þess á síðustu árum notað almannafé til þess að drepa niður frjálsa samkeppni í fólksflutningum um landið  þjónustu sem rútufyrirtæki hafa sinnt af miklum myndarbrag í marga áratugi.

Breytinga er þörf

Við þetta verður ekki unað. Sú ríkisstjórn sem tekur við valdataumum í haust þarf að spyrna við fótum og draga ríkisvaldið alfarið af samkeppnismörkuðum. Rökin eru ekki aðeins þau að tryggja þurfi heilbrigða samkeppni í atvinnulífinu, þar sem allir standa jafnfætis, heldur er ekki síður óverjandi að skattgreiðendur skuli látnir bera ábyrgð á áhættusömum samkeppnisrekstri hins opinbera. Breytinga er þörf.

Kristinn Ingi Jónsson er laganemi