Ríkisrekin bókaútgáfa

frelsisverdlaun-sus

Frá afhendingu Frelsisverðlaunanna; Jónas Sigurgeirsson, útgefandi hjá Almenna bókafélaginu, Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ríkið er einn stærsti bókaútgefandi landsins. Fæstir átta sig á því en Ríkisútgáfa námsbóka, sem síðar hét Námsgagnastofnun og nú Menntamálastofnun, einokar alla útgáfu kennslubóka fyrir grunnskólastigið. Það fyrirkomulag hefur ríkt um áratugaskeið og einskorðast við Ísland. Alls annars staðar í Evrópu er það hlutverk einkarekinna bókaútgáfa að framleiða bækur fyrir skólana. Raunar er slík útgáfa hornsteinninn í flestum bókaútgáfum og getur verið  á bilinu 20-30% af heildarveltu þeirra. Á Norðurlöndum skera Finnar sig úr, en þar er útgáfa námsbóka um 30% af heildarveltu útgefenda. Þetta er umhugsunarefni þegar borinn er saman hinn framúrskarandi árangur finnskra skólabarna í Písa-könnunum og svo hinn slaki árangur íslenskra skólabarna.

Þessar upplýsingar komu fram í ræðu sem Jónas Sigurgeirsson útgefandi hjá Almenna bókafélaginu hélt, þegar hann tók á móti Frelsisverðlaunum Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem hann hlaut ásamt Sigríði Á. Andersen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Jónas benti á að Ríkisútgáfa námsbóka er sú útgáfa hér á landi sem hefur flesta starfsmenn. Þar starfa fleiri en hjá Forlaginu sem er stærsta einkarekna útgáfa landsins. Ekki er hægt að skoða ríkisútgáfu námsbóka út frá veltu því að ævafornt úttektarmiðakerfi ríkir þar, með sovéskum brag. Skólarnir fá senda miða sem þeir síðar afhenda stofnuninni í skiptum fyrir bækur.

Vilja sömu tækifæri og kollegar í Albaníu

Þetta barst í tal á fundi með menntamálaráðherra og að það væri ekki ósanngjörn krafa að bókaútgefendur hér fengju að sita við sama borð og starfsbræður þeirra í Albaníu, Búlgaríu, Ungverjalandi og Rúmeníu. Engin rök væru fyrir því að Ísland eitt landa í Evrópu væri með ríkiseinokun í skólabókaútgáfu. Nákvæmlega engin.

Útgáfa námsbóka fyrir framhaldsskóla hangir vitaskuld í beinu samhengi við útgáfu námsbóka fyrir grunnskóla. Og þar sem einkaframtakið er ekki þar, er mjög veikur grundvöllur til útgáfu hjá bókaútgáfum til kennsluefnis í framhaldsskólum. Raunar hefur sú útgáfa nánast lagst af. Allir sjá hversu óheppilegt þetta fyrirkomulag er og hve ósanngjarnt það er í garð sjálfstæðra bókaútgáfa. Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að fá þessu breytt í frjálsræðisátt, þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með menntamálaráðuneytið á sinni könnu í nær tvo áratugi.

Ríkisútgáfa hljóðbóka

Hitt atriðið sem Jónas kom inn á snýr að útgáfu hljóðbóka. Ríkisútgáfa hljóðbóka, Hljóðbókasafnið, er fyrirbæri sem áður hét Blindrabókasafn Íslands. Starfsemi þess er lögleg en engu að síður á mörkum hins siðlega. Í grunninn gengur starfsemin út á að taka útgefin verk og lesa þau inn á hljóðskrár sem síðar eru sendar „viðskiptavinum“ safnsins. Þessar bækur, sem raunar eru flestar íslenskar skáldsögur og þýðingar sem gefnar eru út, eru teknar frá útgefendum endurgjaldslaust og lesnar inn. Höfundar verkanna fá um 16 þúsund króna eingreiðslu þegar bækur þeirra eru valdar. Ekki er þó vitað hver fær greiðslu frá hljóðbókasafninu sem einnig lætur lesa inn Tekjur Íslendinga sem Frjáls verslun gefur út.

Auðvitað er enginn á móti því að bækur séu gerðar aðgengilegar blindum og sjónskertum. Um það þarf ekki að deila. Meinsemdin liggur í því að hér á landi eru um tíu sinnum fleiri „meðlimir“ hjá Hljóðbókasafninu en í sömu stofnun í Noregi, sé miðað við höfðatölu. Engin gögn eru til hér á landi sem sýna að hér séu hlutfallslega margfalt fleiri sem eiga við blindu, sjóndepurð eða mikla lestrarörðuleika að etja en annars staðar.

Hljóðbókasafnið hefur þann hátt á að þegar bækur eru lesnar inn eru þær sendar í hljóðskrám sem hægt er að hala niður á opin svæði eða áframsenda að vild. Þannig geta hlauparar, sjómenn, vöruflutningabílstjórar og aðrir farið um með hljóðbækur í eyrunum. Hljóðbækur sem ríkið tekur, lætur lesa inn og gefur. Sagt er að Íslendingafélög erlendis hafi opin svæði eða miðlægar skrár þar sem samlöndum gefst færi á að hala niður nýjustu hljóðbókunum. Talið er að söluhæstu höfundar landins, til dæmis Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir og útgefendur þeirra, verði árlega af sölu mörg þúsunda bóka vegna gjafadreifingar ríksisins á framleiðslu þeirra. Það er vitaskuld eitthvað mjög bogið við að ríkið geti tekið bækur, sett þær í annað snið og dreift um borg og bý.

Að sjálfsögðu eru viðskiptavinirnir kátir með að fá hljóðbækurnar sínar frítt. Það sést meðal annars á því að Hljóðbókasafnið hefur unnið hin eftirsóttu verðlaun „þjónustustofnun ríkisins“ nokkur síðustu ár. Það var eflaust þessi þjónustugleði sem varð til þess að leikarar lásu eina bók Almenna bókafélagsins, Í krafti sannfæringar, eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, inn á hjóðskrá á vegum safnsins. Það var gert jafnvel þó að áður hefði komið út sama hljóðbók hjá einkarekinni hljóðbókaútgáfu með prýðilegum lestri höfundar bókarinnar. Í þessu liggur skýringin á því hvers vegna einkarekin hjóðbókaútgáfa hefur nú lognast útaf. Þær tvær einkareknu hljóðbókaútgáfur, sem reynt hafa fyrir sér á markaðnum, hafa nú báðar hætt starfsemi. Þær þrífast ekki í þessu umhverfi. Það er synd því að hljóðbókaútgáfa er sá angi bókaútgáfu sem vex einna hraðast í heiminum. Þannig er þessi markaður um 15% af heildar bókamarkaðinum í Svíþjóð. Hér er hann 0%, rétt eins og í námsbókaútgáfunni.

Samkvæmt þessu má ætla að Ríkið sé með um það bil 33–35% hlutdeild á ­íslenska bókamarkaðinum. Og er slík markaðshlutdeild ekki einsdæmi, en leita þarf þó til norðanverðs Kóreuskaga til að finna hærri hlutdeild.