Skiljanlegt vantraust

Jón Ragnar Ríkharðsson

Á alþingi verður vart þverfótað fyrir stirðmæltum unglingum á ýmsum aldri – en það þótti sjálfsagt fyrr á árum, að stjórnmálamenn hefðu kunnáttu í ræðumennsku. Þegar fólk sem hefur atvinnu af að tala kann það varla – er eðlilegt að hinum almenna kjósanda lítist illa á mannskapinn. Brennandi hugsjónir vekja eldmóð í hjarta og láta tunguna næstum ósjálfrátt mæla ótal orð frá vörum sem lýsa þeirri framtíðarsýn sem hugmyndafræðin boðar – hugsjónaeldurinn er betri en ræðunámskeið haldin af fremstu mælskumönnum. Þannig að líklega hafa fáir stjórnmálamenn brennandi hugsjónir – heldur eitthvað sem er meira í ætt við skoðanir.

Eftir hrun urðu ákveðin tímamót í pólitík – traust á hefðbundnum stjórnmálaflokkum féll og það heldur áfram að falla. Því veldur m.a. ákveðinn fortíðarvandi – stjórnmálamenn hafa lengi haft þann sið að hunsa kjósendur á milli kosninga og fjarlægð er góð leið til að skapa tortryggni. Í stað þess að rækta stöðugt tengsl milli þings og þjóðar – tala við kjósendur af einlægni hjartans hafa stjórnmálamenn kosið að halda sig frá hinum almenna borgara, sennilega vegna þess að þeir óttast að fólk sjái að þeir eru ekkert merkilegri, gáfaðri eða betri en annað fólk. Það er reyndar staðreynd – pólitíkusar eru ekkert annað en synir og dætur þessarar þjóðar. En þeim ber hinsvegar skylda til að hefja hugann ofar hefðbundnu dægurþrasi og láta fagrar hugsjónir lyfta sér á flug – vera óhræddir við nálægð við sig. Það gerir ekkert til þótt kjósendur átti sig á að stjórnmálamenn eru bara ósköp venjulegt fólk. En oftast fjárfesta þeir í rándýrri PR-ráðgjöf sem kennir þeim hegðun og atferli mikilmenna og það er auðveldara að leika en vera.

Vegna þess að stjórnmálamenn vel menntaðir í leikaraskap og brellum reyndust ekki í neinum fötum þegar hrunið skall á – hrundi traustið á þeim um leið. Til að sanngirni sé gætt – þá vann ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins heilmikið afrek með neyðarlögunum og allt var gert til að milda áhrif hins alþjóðlega fjármálahruns. Í ljósi þekkingar þess tíma er hæpið að segja stjórnvöld hafi gert mikil mistök – það er alltaf hægt að gera betur þegar horft er til baka. Vonandi lærum við af hruninu og verðum betur í stakk búin að takast á við næsta áfall.

En helstu mistök stjórnmálamanna fyrir hrun var að þakka sér allt þetta gríðarlega peningaflæði – þá sannfærast kjósendur um að hrunið hafi líka verið þeim að kenna.

Vantraustið varð til þess að kjósendur hófu örvæntingafulla leit að betri stjórnmálamönnum og þá skipti engu hvaða reynslu menn höfðu eða hvort þeir gátu yfirleitt stjórnað af viti. Fjarlægðin gerði það að verkum að flestir töldu stjórnmálamenn aðra dýrategund en hinn venjulega mann. Markmiðið var einfalt; finna fólk sem hafði aldrei komið nálægt stjórnmálum og ekki „svikið“, – heiðarlegan og góðan einstakling. Þá birtist Jón Gnarr eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hann sagðist ekki vera stjórnmálamaður, lofaði hátíðlega að svíkja öll loforðin sín og hann stóð við það, sveik þau öll og telja má hann í hópi orðheldnustu stjórnmálamanna sögunnar.

Hinir örvæntingafullu kjósendur tóku ekkert eftir því þótt borgarstjórinn segði að frelsarinn hafi líklega verið „hommi“ því hann var alltaf að faðma og knúsa karlmenn. Þeim þótti flott þegar Jón Gnarr borgarstjóri mætti í viðtöl og kvaðst ekki hafa hugmynd um hvað væri í gangi í borgarmálunum. Það þótti bara nokkuð gott þegar borgarstjórinn sagði í viðtali við Gísla Martein að hann hafi ekki haft neina stefnu í fjármálum borgarinnar þegar hann óskaði eftir umboði til að stjórna henni. Færi einhver með bíl á verkstæði til manns sem kynni ekki að mæla olíuna? Nei – en svona tókst stjórnmálamönnum með klúðri að rugla kjósendur, þeir gleymdu að reglulegt samtal skapar traust.

Í kjölfar Jóns Gnarr og Besta flokksins komu Píaratar sem farið hafa með himinskautum í skoðanakönnunum. Píratar höfðu enga hugmyndafræði sem miðar að ábyrgri efnahagsstjórn eða reynslu af að stjórna eða byggja upp traustan rekstur fyrirtækja í opinberri eða einkaeign. Eina sem fólk dáðist að var sú staðreynd að þeir hafa „aldrei svikið kosningaloforð“ – þess vegna ætti að gefa þeim tækifæri til að sanna sig.

Píratar heimta að tillögur stjórnlagaráðs verði að nýrri stjórnarskrá, að ráðherrar sitji ekki á þingi og að allir fái borgaða framfærslu fyrir að gera ekki neitt. Þeim þykir það óttalega gamaldags að vinna fyrir peningum.

Þessir langþreyttu kjósendur – sem treysta ekki lengur „fjórflokknum“ eru ekkert að spekúlera í hvað Píaratar eru að segja í raun og fáir „hefðbundnir stjórnmálamenn“ eða fræðimenn taka til máls. Ný stjórnarskrá byggð á tillögum stjórnlagaráðs hefur engin mælanleg áhrif til góðs. Tillögurnar eru ekki alslæmar en lykta mjög af almennum lögum og það er slæmt. Svo tekur það dómstóla langan tíma að aðlagast nýrri stjórnarskrá frá grunni og löggjafann að sjálfsögðu líka – það kostar að sjálfsögðu mikla peninga.

Að ráðherrar sitji ekki á þingi er alger mark­leysa og flækir málin ef eitthvað er. Ekkert bendir til annars en flokkar sem ná meirihluta í kosningum velji ráðherra til að framfylgja sinni stefnu. Flækjan við það birtist m.a. í því að stjórnmálamenn þurfa að leiðbeina ráðherrunum sem þeir völdu í stað þess að ráðherra úr þeirra röðum vinni verkin – þeir hafa stefnuna en ekki endilega þeir ráðherrar sem þeir ráða.

„Borgaralaun“ er arfavitlausasta hugmynd sem stjórnmálaflokkur hefur borið á borð fyrir kjósendur – þau munu rústa öllu því sem byggir einstaklinga og þjóðir upp og ganga í berhögg við eitt af elstu lögmálum tilverunnar: „eins og maðurinn sáir mun hann uppskera.“

Svo hefur Birgitta Jónsdóttir sem leiðir listann í Reykjavík sagt að hún vilji alls ekki verða forsætisráðherra og það þykir bara flott. En stjórnmálaleiðtogi sem hefur ekki kjark til að sanna sig í æðsta embætti þjóðarinnar er að sjálfsögðu vita gagnslaus.

Þetta er allt á ábyrgð „fjórflokksins“ og þar bera þeir allir jafna sök. Vegna þess að þeir hafa ekki náð að tala sig í hjarta ­þjóðarinnar á tungumáli sem hún skilur, þá treysta þeim stöðugt færri og færri kjósendur. Allur eldmóður hefur vikið fyrir embættismannahugsun – það er slæmt. Því kerfið er algerlega sálarlaust fyrirbæri – það eru stjórnmálamenn sem eiga að vera sálin í því. Ef að sálin og líkaminn verða eitt ráða lægstu hvatir för með skelfilegum afleiðingum.

Sjálfstæðisflokkurinn er merkasti ­flokkur íslenskrar stjórnmálasögu – það hefur enginn flokkur unnið eins stór afrek og hann. En því miður hefur embættismennskan sett sitt mark á flokkinn – þótt það glitti í brenn­andi hugsjónir annað slagið. Það er alveg rétt – formaður flokksins og fjármálaráðherra er klárlega sá sterkasti á sviðinu í dag og hann hefur staðið sig vel í sínum störfum. Afnám hafta, niðurfelling tolla o.s.frv., eru allt nauðsynleg skref í rétta átt. Sitjandi ríkisstjórn hefur unnið vel í flestum málum og ætti að njóta miklu meira fylgis.

Takist okkur Sjálfstæðismönnum að virkja eldmóð sjálfstæðisstefnunnar – tala við kjósendur á tærri íslenskri tungu, sýna að við berum raunverulega umhyggju fyrir henni – þá eru okkur allir vegir færir.

Við gerum stundum grín að kallinum sem svaraði konunni sinni þegar hún spurði hvort hann elskaði sig – svarið var: „ég sagði þér það þegar við giftum okkur og ég skal láta þig vita þegar það breytist“.

Sjálfstæðisflokkurinn er eins og kallinn í skrítlunni.

Jón Ragnar Ríkharðsson er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.