Hvað þýðir Brexit fyrir Ísland?

Mikil umræða fer fram í Bretlandi um það með hvaða hætti tengslum landsins við Evrópusambandið skuli háttað í framtíðinni í kjölfar þess að brezkir kjósendur ákváðu í þjóðaratkvæðareiðslu í lok júní að segja skilið við sambandið. Ræddar hafa verið ýmsar leiðir í því sambandi en hver sem niðurstaðan kann að verða verður að teljast afar ólíklegt að Bretar eigi eftir að verða aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) líkt og Íslendingar, Norðmenn og Liechtenstein.

Hver sem lendingin í Bretlandi annars verður er ljóst að útganga landsins úr Evrópusambandinu varðar ríka íslenzka hagsmuni. Bretland hefur lengi verið einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands þegar horft er til einstakra landa. Ríkisstjórn Íslands fylgdist fyrir vikið náið með aðdraganda þjóðaratkvæðisins og setti af stað viðbragðsáætlun strax daginn eftir að niðurstöður þess lágu fyrir þar sem lögð var áherzla á að viðhalda nánum viðskiptatengslum við Bretland.

Þó fyrirhuguð útganga Breta úr Evrópusambandinu, sem nefnd hefur verið Brexit, varði mikla viðskiptahagsmuni Íslands er pólitíska hliðin ekki síður mikilvæg. Þannig hefur til að mynda ein helzta röksemd þeirra sem hafa viljað Ísland í Evrópusambandið í gegnum tíðina verið sú að Íslendingar ættu í mjög miklum viðskiptum við sambandið. Þar hefur að vísu verið byggt á hagtölum sem sýnt hafa Holland sem langstærsta viðskiptaland Íslands þegar kemur að útflutningi.

Þar koma til svonefnd Rotterdamáhrif sem fela í sér að talsverður hluti íslenzks útflutnings sem umskipað er í Rotterdam í Hollandi og öðrum stórum umskipunarhöfnum innan Evrópusambandsins er skráður sem útflutningur til viðkomandi ríkja. Þó endanlegur ákvörðunarstaður sé utan sambandsins. En jafnvel þó þessar tölur gæfu fullkomlega rétta mynd er ljóst að útganga Bretlands mun þýða að hlutfall utanríkisviðskipta Íslands við Evrópusambandið mun dragast verulega saman.

Framtíðarmarkaðirnir annars staðar

Fyrir vikið er ljóst að þau rök að Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið vegna viðskiptahagsmuna munu veikjast enn frekar. Þau rök standa þegar veikum fótum af ýmsum ástæðum. Ekki sízt í ljósi þess að hlutdeild sambandsins í heimsviðskiptum hefur dregist verulega saman á undanförnum árum. Fátt bendir til annars en að sú þróun eigi eftir að halda áfram. Líkt og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gekkst við fyrir um ári um síðan.

„Efnahagslega sjáum við fram á endalok dýrðarára Evrópusambandsins samanborið við það sem aðrir eru að gera,“ sagði Junckers í ávarpi sem hann flutti í Madrid, höfuðborg Spánar, í október á síðasta ári. Benti hann á að hlutdeild sambandsins í heimsbúskapnum færi minnkandi og yrði brátt einungis 15% af hagvexti á heimsvísu. Evrópusambandið glímdi einnig við alvarleg lýðræðisleg vandamál. Íbúum sambandsins færi fækkandi og meðalaldur þeirra yrði sífellt hærri.

Þetta var einmitt eitt af því sem talsmenn þess að Bretland gengi úr Evrópusambandinu lögðu áherzlu á í aðdraganda þjóðaratkvæðisins þar í landi í júní. Það er að sambandið væri hnignandi efnahagssvæði fyrir utan annað sem myndi draga Breta niður með sér ef þeir segðu ekki skilið við það. Bretland þyrfti að ganga úr Evrópusambandinu til þess að geta gert fríverzlunarsamninga á eigin forsendum við þau ríki og markaðssvæði í heiminum þar sem vöxturinn væri.

Þannig er ekki nóg að hugsa aðeins um stöðuna eins og hún er í dag í þessu sambandi heldur er mjög mikilvægt að hafa einnig í huga hvernig hlutirnir eru líklegir til þess að þróast til framtíðar. Fátt bendir þannig til þess að Evrópusambandið sé markaður til framtíðar þó sambandið muni áfram skipta máli fyrir utanríkisviðskipti Íslands. En það réttlætir hins vegar engan veginn að Íslendingar gangizt undir yfirstjórn stofnana Evrópusambandsins með því að gerast hluti sambandsins.

Geymi ekki öll eggin í sömu körfunni

Hitt er svo annað mál að það er ekki skynsamlegt fyrir Ísland að vera of háð einum markaði. Bæði af pólitískum og efnahagslegum ástæðum. Efnahagsleg áföll á þeim markaði geta fyrir vikið komið verr við landið en ella og sömuleiðis er mögulegt að þær aðstæður verði nýttar í pólitískum tilgangi. Líkt og Evrópusambandið reyndi að gera bæði í Icesave-deilunni og makríldeilunni. Það er að hóta refsiaðgerðum, og grípa jafnvel til þeirra,til þess að ná fram pólitískum markmiðum.

Fyrir vikið er mikilvægt að stefna Íslands þegar kemur að utanríkisviðskiptum byggist ekki einungis á því að auka breiddina í þeim vörum og þjónustu sem seld er til annarra ríkja heldur einnig aðgengi íslenzkra útflutningsfyrirtækja að erlendum mörkuðum. Komi þannig til verulegs samdráttar einhvers staðar eða pólitískra aðgerða, sem getur gerzt með skömmum fyrirvara, þarf að vera sem greiðast aðgengi inn á aðra markaði. Full seint er að hugsa að slíku þegar áföllin skella á.

Vitanlega segir þetta sig að miklu leyti sjálft enda byggist það einfaldlega á hinu sígilda heilræði að geyma ekki öll eggin í sömu körfunni. Þetta skiptir einnig miklu máli fyrir fullveldi Íslands. Ekki verði eins auðvelt fyrir önnur ríki að notfæra sér aðstæður gegn íslenzkum hagsmunum líkt og Evrópusambandið til að mynda hefur sýnt að það sé reiðubúið að gera. Veruleg breyting verður hins vegar á möguleikum sambandsins í þeim efnum við útgöngu Bretlands úr því

Ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að á síðustu árum hafa lagt mikla áherzlu á gerð fríverzlunarsamninga við ríki um allan heim. Þá annað hvort í
gegnum aðild landsins að Fríverzlunarsamtökum Evrópu (EFTA) eða með tvíhliða hætti líkt og gert var til að mynda í tilfelli Kína.
Ferlinu sem leiddi til þess samnings var einmitt ýtt úr vör þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með utanríkisráðuneytið. Aðrir flokkar hafa haft minni eða engan áhuga á fríverzlun.

Fyrirmynd að arftaka EES-samningsins?

Fróðlegt verður að sjá hvernig sambandi Bretlands og Evrópusambandsins verður háttað í framtíðinni. Takist samningar um fyrirkomulagið þar á milli gæti það hugsanlega orðið fyrirmynd að breyttum tengslum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið sem hafa undanfarna rúma tvo áratugi tengst sambandinu með ólíkum hætti. Eftir að Svisslendingar höfnuðu aðild að EES-samningnum í þjóðaratkvæði hafa þeir gert fjölda tvíhliða samninga við Evrópusambandið.

Evrópusambandið hefur lýst áhuga á því að samræma tengslin við EFTA-ríkin sem einnig væri til þess fallið að einfalda hlutina fyrir þau. Hins vegar verða að teljast engar líkur á því að Svisslendingar samþykki að gerast aðilar að EES-samningnum og svissneska leiðin er að öllum líkindum ekki í boði fyrir önnur ríki en Sviss í dag. Hins vegar væri hægt að fara millileiðina og breyta EES-samningnum og tvíhliða samningum Sviss í einn víðtækan annarrar kynslóðar fríverzlunarsamning.

Fríverzlunarsamningar sem gerðir hafa verið á síðustu árum eiga það sameiginlegt að vera af annarri kynslóð. Það er að þeir snúast ekki eingöngu um vöruviðskipti eins og fyrri kynslóðin heldur einnig um þjónustuviðskipti, opinber útboð, höfundarréttarmál, öryggisstaðla, innihaldslýsingar o.s.frv. Bæði EFTA og Evrópusambandið hafa lagt áherzlu á slíka samninga í viðskiptum við önnur ríki. Bretar vilja að sama skapi frekar gera slíkan samning en gerast aðilar að EES-samningnum.

Þegar er farið að ræða í Noregi um að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu gæti haft veruleg áhrif á tengsl Norðmanna við sambandið. Talsverð umræða hefur átt sér stað þar í landi um EES-samninginn og þann möguleika að breyta honum í nútímalegan annarrar kynslóðar fríverzlunarsamning. Rannsóknir hafa verið gerðar sem benda til þess að hagsmuni EFTA/EES-ríkjanna ætti að vera hægt að tryggja með slíkum samningi miðað við núverandi aðstæður.

Hliðstætt við umsókn nýrra ríkja

Frá pólitíska sjónarhólnum mætti einnig nefna að misheppnaðar viðræður ríkisstjórnar Davids Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið um breytt fyrirkomulag á veru Breta í sambandinu staðfestu það sem vitað var fyrir. Það er að ekkert sem raunverulega skiptir máli er í boði í þeim efnum. Jafnvel ekki fyrir stórt ríki eins og Bretland. Sáralítið kom út úr viðræðunum og ekkert sem fól í sér grundvallarbreytingar á veru Bretlands í Evrópusambandinu.

Viðræðurnar voru í eðli sínu hliðstæðar viðræður og eiga sér stað í kjölfar umsóknar ríkis um inngöngu í Evrópusambandið. Brezk stjórnvöld ætluðu að endursemja um veru Bretlands í sambandinu. Þrátt fyrir að ráðamenn í Brussel stæðu frammi fyrir þeim möguleika að stórt og mikilvægt ríki eins og Bretland gæti hugsanlega sagt skilið við Evrópusambandið, sem gæti þýtt alvarlegar efnahagslega afleiðingar fyrir sambandið, var ekki meira í boði.

Fyrir Íslendinga er kannski einna athyglisverðast að háttsettir stjórnmálamenn innan brezka Íhaldsflokksins skoruðu á Cameron meðal annars að fara fram á að endurheimta yfirstjórn sjávarútvegsmála Bretlands. Hann kaus hins vegar, eftir að hafa ráðfært sig fyrirfram við forystumenn Evrópusambandsins og ríkja þess, að láta ekki einu sinni reyna á það. Enda hefur lengi legið fyrir að ekki er í boði að semja um yfirstjórn þeirra mála gangi ríki í sambandið.

Þannig er ljóst að fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun hafa heilmikil áhrif á íslenzka hagsmuni og hefur í raun þegar haft það. Bæði frá pólitískum og viðskiptalegum sjónarhóli. Ekki má gleyma því að þrátt fyrir tilfallandi ágreining Íslendinga og Breta um sjávarútvegsmál og bankastarfsemi hafa lengi verið mikil tengsl á milli landanna á sviði viðskipta, menningar og stjórnmála. Þau tengsl munu klárlega ekki minnka eftir að Bretland hefur sagt skilið við Evrópusambandið og orðið á ný þjóð á meðal þjóða.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og MA í alþjóðasamskiptum.