Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, fjallar um tíðar hótanir Pírata í stjórnmálaumræðunni og hvernig þær hótanir reynast í nær öllum tilvikum innihaldslausar í nýjasta riti Þjóðmála.
Í grein sinni rifjar Óli Björn upp fjölmörg dæmi um það hvernig Píratar og forverar þeirra hafa á síðustu árum ítrekað hótað vantrauststillögum á einstaka ráðherra án þess að láta af því verða að leggja fram slíkar tillögur. Nú í vor var greint frá því að þingflokkur Pírata hefði „sett saman vantrauststillögu á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra“ og að ef ekki kæmi fram fullnægjandi rökstuðningur fyrir tillögum ráðherrans um skipan dómara í Landsrétt, ætti að leggja tillöguna fram. Alþingi samþykkti þó tillögur dómsmálaráðherra og aldrei kom vantrauststillaga Pírata fram.
Óli Björn rifjar upp sambærileg dæmi, allt frá árinu 2012 þegar Birgitta Jónsdóttir, þá þingmaður Hreyfingarinnar (forveri Pírata) stóð fyrir undirskriftasöfnun meðal þingmanna til að lýsa vantrausti á forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Listinn var aldrei birtur og tillaga um vantraust á forseta kom aldrei fram.
„Digrar yfirlýsingar um væntanlegt vantraust á ráðherra og ríkisstjórnir endurspegla óþol gagnvart andstæðum skoðunum og hugmyndum. Í þingsal er því haldið fram að þingmenn sem ekki taka undir með ræðumanni, séu fulltrúar „gamla Íslands“, og „gamla kerfisins“. Gefið er í skyn að þeir hafi engin prinsipp eða hugsjónir, séu tækifærissinnar sem stundi grímulausa valdabaráttu,“ segir Óli Björn í grein sinni.
„Flest verk þingsins eru ófagleg, jafnvel lögbrot. Orðræðan í þingsal virðist oft hafa það eina markmið að komast undan því að ræða efnisatriði þingmála og setja sig inn í misflókin mál. Það er þægilegra og einfaldara að kalla eftir frekari upplýsingum, krefjast „fokking“ meiri tíma, og saka andstæðinga um ófagleg vinnubrögð. Engan skal undra að þeim stjórnmálamönnum fækki sem ræða um hugsjónir og tefla fram skoðunum í opinberri umræðu. Pólitík og meitlaðar skoðanir eru sagðar merki um sérhagsmunagæslu fyrir „gamla“ Ísland. Á samfélagsmiðlum er lagt til atlögu. Ráðist er á einstaklinga samkvæmt nýjum leikreglum óþolsins, sem virða ekki andstæðar skoðanir. […] Ég hef á öðrum stað sett fram þá kenningu að breytt orðræða hafi leitt til þess að margir (og þá ekki síst stjórnmálamenn) veigri sér við að setja fram ákveðnar skoðanir – orða hugmyndir sínar opinberlega. Þeir vita að sá sem setur fram skoðanir og veltir upp nýjum hugmyndum, á það á hættu að verða umsvifalaust „skotinn á færi“ í fjölmiðlum og netheimtum samfélagsmiðla.“