Sögulegar ákvarðanir alþingis um fjármálaáætlun og dómara í Landsrétti

Alþingi fór i sumarleyfi fimmtudaginn 1. júní, degi síðar en ráðgert var í starfsáætlun þingsins.

Að venju flutti forseti alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir Sjálfstæðisflokki að þessu sinni, ávarp á lokafundi þingsins. Hún minnti á að þingið hefði komið saman við „óvenjulegar aðstæður“ 6. desember 2016. Þá hefði það ekki gerst í hartnær 40 ár „að þingsetning að loknum alþingiskosningum færi fram án þess að fyrir lægi meirihlutasamstarf og ný ríkisstjórn“.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, var mynduð 11. janúar 2017. Þingforseti minntist þess að við upphaf þessa þings hefðu aldrei fleiri nýir þingmenn tekið sæti á þingi og aldrei fyrr hefðu jafn margar konur hlotið kosningu til Alþingis. Þingreynsla manna væri sú minnsta frá því að mælingar hófust, um fjögur ár að meðaltali. Mikil endurnýjun alveg frá alþingiskosningum 2007 hefði orðið í þingmannahópnum.

Þá sagði Unnur Brá:

„Eflaust eru skiptar skoðanir á því hvort slík ör endurnýjun sé góð eða slæm en víst er að í fáum nálægum þjóðþingum hafa breytingar sem þessar orðið á jafn stuttum tíma og hér.“

Þingflokkar eru nú sjö. Fyrir utan stjórnarflokkana þrjá: Framsóknarflokkur, Píratar, Samfylking og vinstri-grænir. Ríkisstjórnin hefur aðeins eins atkvæðis meirihluta. Stjórnarandstaðan stendur hins vegar ekki alltaf saman, hvorki flokkarnir fjórir né þeir sem eru innan hvers flokks fyrir sig.

Klofningur í röðum Framsóknarmanna er opinber þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður, berst ákveðið gegn eftirmanni sínum þótt hann gefi ekki upp um hvort hann ætli að leita eftir formennsku að nýju á flokksþingi í janúar 2017.

Stjórn þingflokks Pírata sagði af sér. Ásta Guðrún Helgadóttir, fráfarandi þingflokksformaður, birti yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni 15. maí 2017 þar sem sagði:

„Í ljósi ágreinings milli mín og meirihluta þingflokks Pírata varðandi innra skipulag þingflokksins hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem þingflokksformaður Pírata. Við vorum með ólíka sýn á hvert þingflokkurinn ætti að stefna og því held ég að það sé farsælast að annar taki við því starfi. Hlakka til að gerast óbreyttur þingmaður á ný, en þá gefst meiri tími til að vinna að þeim málefnum sem eru mér hugleikin.“

Ásta Guðrún sagði ekki hvert var efni ágreiningsins innan þingflokksins. Líklegt er að Birgittu Jónsdóttur hafi þótt Ásta Guðrún standa öðrum stjórnarandstöðuflokkum of nærri. Helsta einkenni á starfi Pírata á alþingi er að þeir telja sig ekki fá nægar upplýsingar til að taka afstöðu til þingmála, skila því auðu eða vilja að afgreiðslu sé frestað.

Þrír þingmenn Samfylkingarinnar standa saman í þingflokki sínum og virðast ætla að keppa til vinstri við vinstri-græna sem mælast með mest fylgi af stjórnarandstöðunni. Þeir slaga í sumum könnunum upp undir 25% í fylgi, aðeins Sjálfstæðisflokkurinn er stærri með 25 til 30% fylgi.

Katrínu Jakobsdóttur tekst enn að halda vinstri-grænum saman undir einu merki en vaxandi spennu gætir meðal flokksmanna milli 101-liðsins svonefnda undir forystu Svandísar Svavarsdóttur annars vegar og landsbyggðarþingmanna hins vegar.

II.

Í ávarpi sínu 1. júní 2017 sagði Unnur Brá Konráðsdóttir þingforseti:

„Um það verður ekki deilt að veigamesta mál þessa þings hefur verið fjármálaáætlunin fyrir árin 2018–2022. Fjármálaáætlun hefur kallað á breytt verklag við fjárlagagerð, bæði í ráðuneytum og á Alþingi. Ljóst er að allt ferlið á eftir að slípa enn betur, bæði undirbúning við gerð fjármálaáætlunar í Stjórnarráðinu og meðferð málsins í þinginu. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í vikunni um að flýta eigi framlagningu fjármálaáætlunar svo meiri tími gefist til umfjöllunar þingsins.

Hér á Alþingi þarf forysta þingsins að fara yfir reynsluna af umfjöllun nefnda um fjármálaáætlun. Ég tel jafnframt einsýnt að styrkja þurfi þjónustu við nefndir þingsins og tryggja að þingmenn fái nauðsynlega aðstoð til að geta lagt sjálfstætt mat á ýmsa þætti áætlunarinnar.

Til að svo megi verða þarf Alþingi aukið fjármagn. Við þurfum einnig að endurskoða starfsáætlun Alþing-is með tilliti til fjármálaáætlunarinnar. Reynslan í ár sýnir að gefa þarf henni meira rými í vinnuskipulagi þingsins. En á móti er líka ljóst að fjárlagameðferðin á haustþingi ætti að geta styst og jafnvel ætti að vera mögulegt að afgreiða fjárlög fyrr en verið hefur. Slíkt væri til mikilla bóta fyrir alla aðila sem þurfa að skipuleggja starfsemi sína á grundvelli fjárlaga hvers árs.“

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr norðvestur-kjördæmi, er formaður fjárlaganefndar alþingis. Verulega reyndi á hæfni hans til að leiða nefndina við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2017 á dögunum frá 6. desember 2016 fram til 22. desember þegar þau vor samþykkt í bærilegri sátt á tíma starfsstjórnarinnar.

Eftir áramótin kom það svo í hlut Haralds að stýra störfum fjárlaganefndar við afgreiðslu fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og síðan fjármálaáætlunarinnar fyrir árin 2018 til 2022 sem var „veigamesta mál“ vorþingsins svo að vitnað sé til ávarps forseta. Áætlunin er reist á lögum um opinber fjármál sem tóku gildi á árinu 2016 og hafa greinilega meiri áhrif á störf alþingis en áður hefur verið rætt á opinberum vettvangi. Haraldur sagði meðal annars þegar hann kynnti álit meirihluta fjárlaganefndar á áætluninni:

„Ég tel fullkomlega raunhæft að við breytum líka tímasetningum til að bæta umfjöllun um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp. Ég vil meina […] að það sé vel gerlegt, eftir að við höfum farið jafn ítarlega yfir fjármálaáætlunina og við höfum gert að þessu sinni og munum þá bæta það verklag, að umræðan um fjárlagafrumvarp taki þá mögulega styttri tíma að hausti en verið hefur. Mér finnst það vera markmið sem við ættum að setja okkur að ljúka umfjöllun og afgreiðslu fjárlaga fyrir 20. nóvember ef þess er nokkur kostur og miða starfsáætlun þingsins við það.“

Í samtali á ÍNN 7. júní 2017 sagði Haraldur að endurskoða yrði starfsáætlun alþingis í heild til að laga hana að nýjum kröfum til þingsins vegna ríkisfjármálanna. Þá taldi hann einnig að lögbundin skylda nýrrar ríkisstjórnar um að leggja fjármálastefnu sína fyrir alþingi og fjármálaráð sérfræðinga verði til þess að ríkisfjármálin móti framvegis stjórnarmyndunarviðræður og sáttmála nýrra ríkisstjórna.

Árið 2004 samþykkti alþingi fjárlög fyrir árið 2005 snemma, það er 4. desember 2004. Í vefriti fjármálaráðuneytisins sem kom út skömmu síðar var sagt að þetta mætti rekja til þess að vinnubrögð alþingis og fjárlaganefndar væru orðin „mun markvissari en var fyrir nokkrum árum“. Í vefritinu sagði einnig: „Áður voru fjárlög afgreidd mun seinna í desember, gjarnan rétt fyrir jól og undir miklum þrýstingi og tilheyrandi næturfundum í nefndum.“

Eftir 2004 sótti að nýju í gamla farið við afgreiðslu fjárlaganna. Nú vilja forseti alþingis og formaður fjárlaganefndar þingsins gera bragarbót. Takist að innleiða nýtt vinnulag við meðferð fjárlagafrumvarpsins og virkja allar þingnefndir til efnislegrar og málefnalegrar þátttöku í málsmeðferðinni markar það tímamót við meðferð ríkisfjármála.

Breyting í þessa veru er hugsanlega auðveldari en ella væri vegna mikillar endurnýjunar á þingi. Þess gætti stundum áður fyrr að innan fjárlaganefndar töldu menn sig eina vita hvað þingi og þjóð væri fyrir bestu.  Nú lýsti Haraldur Benediktsson vinnubrögðunum með þessum orðum:  „Ég segi bara: Við höfum núna öll saman mokað okkur í gegnum þennan skafl og komið fram með ábendingar, fyrirspurnir og skerpt á þeirri stefnu sem nauðsynlegt er að undirbyggja.“

III.

Hvarvetna gagnrýnir stjórnarandstaða stjórnarflokka fyrir að verja ekki nægu fé til málaflokka sem helst eru taldir höfða til kjósenda. Þetta á ekki síst við um heilbrigðismál en útgjöld vegna þeirra eru í raun aldrei nógu há miðað við kröfur. Deilan um ríkisútgjöld tekur á sig ýmsar myndir og auðvelt er að rugla fólk í ríminu með því að nota mismunandi kvarða og segja síðan að ekki sé við þá staðið.

Í bandarískum sjónvarpsþætti um útgjöld þar var þingmaður repúblíkana spurður hvernig hann gæti sagt að útgjöld hækkuðu þegar demókratar héldu fram gagnstæðu sjónarmiði. Hann svaraði að útgjöldin hækkuðu á mælikvarða ríkisútgjalda en ekki nóg á mælikvarða demókrata.

Er ekki málum háttað á svipaðan veg hér? Annars vegar er um að ræða mælikvarða ríkisútgjalda og hins vegar mælikvarða sem stjórnarandstaðan smíðar til að gera ríkisstjórn og einstaka ráðherra tortryggilega.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvestur-kjördæmi er formaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis. Þann sagði í upphafi ræðu sinnar við 2. umræðu um fjármálaáætlunina að þar væri gert ráð fyrir að ríkisútgjöld yrðu um 212 milljörðum kr. hærri árið 2022 en gert væri ráð fyrir í fjárlögum ársins 2017. Hækkunin næmi 2,5 milljónum kr. að raunvirði á hverja íslenska fjölskyldu. Útgjöld til heilbrigðismála verða 34 milljörðum kr. hærri að raungildi árið 2022 en árið 2017. „En samkvæmt þeim umræðum sem hafa átt sér stað í allan dag og í allt kvöld þá mætti helst halda að hér væri blóðugur niðurskurðarhnífur á lofti,“ sagði Óli Björn. Er þetta ekki einnig einkenni umræðna um útgjöld til málaflokksins utan þings? Undir þessa aukningu útgjalda til heilbrigðismála fellur ekki stofnkostnaður.

Í ræðu sinni sagði formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins sem fjallar meðal annars um skattamál að auðvitað mætti gagnrýna fjármálaáætlunina frá ýmsum hliðum og margir teldu líklega of langt gengið í útgjöldum í henni, að vöxtur útgjalda væri orðinn „hættulega mikill, sérstaklega miðað við þær efnahagslegu aðstæður“ sem við blöstu um þessar mundir. Engu að síður væri ætlunin að lækka skatta þó ekki væri það mikið.

Í þingumræðum um áætlunina var því hreyft hvort eðlilegt væri að ríkið stæði í samkeppni á smásölumarkaði með verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Einnig var óskað eftir að skoðað yrði hvort nýta ætti fé sem bundið væri í samgöngumannvirkjum ríkisins á Keflavíkurflugvelli til að festa í vegagerð. Hugmyndir af þessu tagi urðu til þess að Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður vinstri-grænna, spurði: „Selja bara allt undan okkur hér vegna þess að það má ekki skattleggja auðmagnið í landinu?“

Þingmenn vinstri-grænna lögðu til að heildarskattheimta hækkaði um 334 milljarða kr. frá 2018 til 2022, það er um 50 til 70 milljarða kr. á hverju ári. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir upplýsti Lilja Rafney ekki hvernig ætti að standa að þessari skattheimtu.

Umræður um skattamál vegna fjármálaáætlunarinnar snerust einkum um hvort ferðaþjónustan ætti að greiða jafn háan virðisaukaskatt og aðrar atvinnugreinar. Gagnrýnendur þessara áforma töldu að hækkun skattsins græfi undan atvinnugreininni, helsta vaxtarbroddi efnahagslífsins um þessar mundir. Aðrir bentu á koma yrði straumi ferðamanna í viðráðanlegan farveg, 30% fjölgun ár eftir ár yrði til vandræða og hefði í raun neikvæð áhrif.

IV.

Hvað sem segja má um gerð fjármálaáætlunarinnar, aðferðina við afgreiðslu hennar á alþingi eða efni hennar er framlagning hennar í krafti laganna um opinber fjármál markvert spor við stjórn ríkisfjármála. Óttist menn að hlutur embættismanna aukist við ákvarðanir um niðurstöðu fjárlaga með þessum nýju vinnubrögðum eru áformin um að breyta vinnubrögðum þingmanna og auka sérfræðiþekkingu á ríkisfjármálum innan þings eðlileg viðbrögð við þeim ótta. Þingmenn setja sig þó aldrei betur inn í mál en þeir sjálfir ákveða. Umræður þeirra um dægurmál í upphafi þingfunda undir mismunandi dagskrárliðum benda til að einföld mál og fyrirsagnir frétta eða viðleitni til að bregða neikvæðu ljósi á andstæðinga þyki meira spennandi en að rýna í skýrslur og skjöl til málefnalegra umræðna.

Aðferðin sem mótuð var við afgreiðslu fjármálaáætlunarinnar þegar allar fagnefndir þingsins voru virkjaðar við gerð umsagna eftir að hafa kallað ráðherra og aðra á fund sinn gefur öllum þingmönnum færi á að kynnast efni fjárlaga betur en áður hefur verið.

Í lok þings er birt tölfræði til að gefa mynd af störfum þess. Hún lýsir þó ekki nefndarstörfunum sem öðlast sífellt meira vægi í þingstörfunum. Tölfræði segir ekki heldur neitt um hvað ræðukóngar hafa til málanna að leggja enda segir reynslan að efni málsins ráði sjaldan þegar menn biðja um orðið um allt milli himins og jarðar. Beinar sjónvarpsútsendingar kalla menn sem þrá athygli í ræðustólinn. Einhvern tíma var spurt hvort ekki mætti stytta fundartíma þingsins með því að setja þá sem detta í þennan pytt í stillimyndina.

V.

Þingmenn tókust á við nýmæli með afgreiðslu fjármálaáætlunarinnar. Sama gerðu þeir á lokadegi þingsins þegar þeir greiddu atkvæði um dómara í Landsrétt, nýjan millidómstól, sem tekur til starfa í haust.

Dómnefnd gerði tillögu um 15 dómara til Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Hún ákvað að skipta út fjórum af þessum 15 og gerði tillögu um nýja menn. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis ræddi tillögu ráðherrans og stjórnaði nýliði meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Njáll Trausti Friðbertsson, úr norðaustur-kjördæmi, afgreiðslu málsins í nefndinni en Sjálfstæðisþingmaðurinn, Brynjar Níelsson, vék af formannsstóli og úr nefndinni við afgreiðslu málsins þar sem eiginkona hans var í hópi dómaraefna í tillögu ráðherrans.

Sigríður Á. Andersen, afhenti forseta alþingis 29. maí 2017 tillögu sína. Lög mæla fyrir um að þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skuli hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir alþingi til samþykktar. Að fengnu samþykki þingsins skal ráðherrann senda tillöguna til forseta Íslands sem skipar í embættin.

Í áliti meirihluta þingnefndarinnar segir:

„Fyrir nefndinni var rætt að skiptar skoðanir hafa verið um hvort ráðherra eigi að vera bundinn af umsögn slíkra dómnefnda, en með því mundi dómnefnd í raun ráða hverjir verði skipaðir dómarar. Ef ráðherra væri undantekningarlaust skylt að fara eftir áliti dómnefndar væri ábyrgðin á skipun dómara hjá stjórnvaldi sem er ekki ábyrgt gagnvart þinginu en slík tilhögun hefur sums staðar þótt orka tvímælis. Meirihlutinn tekur fram að með þeirri tilhögun sem samþykkt var með lögum á Alþingi um að ráðherra sé óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, nema Alþingi samþykki tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjenda sem fullnægir að mati dómnefndar skilyrðum laganna, er tekin skýr afstaða til þess að veitingarvaldið er hjá ráðherra en ekki hjá dómnefndinni. Til þess að tillaga ráðherra sem víkur frá niðurstöðu dómnefndar öðlist gildi þarf hún engu síður aðkomu annars handhafa ríkisvaldsins, í þessu tilviki löggjafarsamkomunnar.“

Þarna er vikið að mikilvægu sjónarmiði sem verður að halda til haga til að sporna gegn þróun sem miðar að því að svonefnd „fagleg“ sjónarmið eigi að ráða frekar en ákvarðanir kjörinna fulltrúa fólksins, þingmanna og ráðherra. Í því felst raun ákveðinn hroki sérfræðinga eða innmúraðra að halda því fram að aðeins sérfróðir og innmúraðir geti verið „faglegir“, aðrir láti geðþótta eða jafnvel annarleg sjónarmið ráða gerðum sínum við veitingu embætta, úthlutun styrkja eða aðrar ákvarðanir sem sérhagsmunahópar vilja taka úr höndum kjörinna fulltrúa. Á þessu sviði birtist ein mesta sérhagsmunagæsla í samfélaginu og þeir sem tala ákafast fyrir henni hallast yfirleitt til vinstri í stjórnmálum.

VI.

Meirihlutinn að baki ríkisstjórninni stóð einhuga að því að samþykkja tillögu dómsmálaráðherra. Tillögu stjórnarandstöðunnar um að vísa málinu frá var hafnað með 31 atkvæði gegn 30. Þegar tillaga ráðherrans um 15 dómara var borinn upp sátu Framsóknarmenn hjá og voru því 22 atkvæði gegn henni.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, tók sér þetta mál mjög nærri. Hann varð sér til skammar með orðbragði sínu og framkomu við flutning ræðu í þingsalnum og eftir að málið var afgreitt og þing farið í sumarleyfi ræddi þingmaðurinn við Guðna Th. Jóhannsson, forseta Íslands. Sagði Jón Þór að forseti ætlaði að „taka sér góðan tíma að fara vel yfir málið“.

Skoðanasystkini Jóns Þórs hófu að safna undirskriftum undir þennan texta:

„Alþingi samþykkti skipun 15 dómara gegn ráðlagningu fagnefndar í einni atkvæðagreiðslu, en dómara skal þingið samþykkja hvern fyrir sig ef farið er á skjön við ráðlagningu. Því er lögmæti skipunarinnar í vafa og við hvetjum forseta Íslands að skrifa ekki undir hana. Það er ekki í lagi að leyfa ráðherra að skipa dómara eftir forsendum sem einungis hún þekkir. Stöndum vörð um réttarkerfið okkar og krefjumst útskýringa.“

Þetta er ambögulegt bænarskjal til forseta sem er ábyrgðalaus af stjórnarathöfnum. Fráleitt er að hann geti neitað að skrifa undir skipunarbréf dómaranna.

Rætt hefur verið hvort þingmenn hafi átt að greiða atkvæði um hvert nafn á lista ráðherrans. Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðismanna, benti á að þingsköp giltu um atkvæðagreiðslur á alþingi, enginn þingmaður hefði óskað eftir að einstakir liðir í tillögu ráðherrans yrðu bornir sérstaklega undir atkvæði eins og þingforseti gerir jafnan þegar um er beðið.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra skýrði ástæður þess að hún lagði til breytingar á niðurstöðu dómnefndarinnar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. júní 2017:

„Nú hefur þingið í fyrsta sinn fengið tækifæri til þess að axla þá ábyrgð sem það kallaði eftir árið 2010. Ráðherra [Sigríði sjálfri] varð það strax ljóst, eftir viðræður við forystumenn flokkanna, að niðurstaða dómnefndar um skipan dómara við Landsrétt myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi. Rökstuðningur ráðherra hefði þar engu breytt.

Sjálfum fannst ráðherra niðurstaða nefndarinnar of einstrengingsleg. Að virtum öllum sjónarmiðum sem máli skipta gerði ráðherra tillögu til Alþingis um tiltekna 15 einstaklinga úr hópi þeirra 24 sem hann hafði metið hæfasta. Virtist mikil og góð sátt um tillögu ráðherra í upphafi. Það breyttist hvað stjórnarandstöðuflokkana varðaði. Það kann að vera að vonbrigði þeirra sem höfðu verið á lista dómnefndar en ráðherra gerði ekki tillögu um, og þeim tengdra, hafi haft þar áhrif. Þá verður ekki fram hjá því litið að umræða í fjölmiðlum getur ært óstöðugan.

Þessi reynsla gefur tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort þingið sé í stakk búið til þess að axla þessa ábyrgð, hvort það sé yfirleitt sanngjarnt að ætlast til þess af því með tilliti til hlutverks þess. Dómsmálaráðherra getur í öllu falli fullyrt, nú í ljósi reynslu sinnar, að endurskoða þarf reglur og fyrirkomulag við veitingu dómaraembætta.“

Með öðrum orðum sá Sigríður dómsmálaráðherra eftir forkönnun meðal þingmanna að óbreytt tillaga dómnefndarinnar, fagnefndarinnar, yrði ekki samþykkt á þingi. Miðvikudaginn 7. júní 2017 var upplýst að þingflokkur Viðreisnar hefði lagst gegn tillögu dómnefndarinnar vegna skorts á jafnrétti, of fáar konur væri þar að finna.

Dómsmálaráðherra breytti því tillögunni og fékk hana samþykkta en eftir flokkspólitískt uppnám af því tagi að Sigríður vill ekki að slíkur leikur í kringum dómstólana endurtaki sig á þingi – að hennar mati féll þingið á prófinu.

VII.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ritaði undir skipunarbréf dómaranna 15 fimmtudaginn 8. júní. Í tilefni af undirrituninni sendi forseti frá sér sérstaka yfirlýsingu. Forseti segir að „tveimur sólarhringum eftir að mér bárust þau [skipunarbréfin] í hendur“ hafi hann ritað undir þau.

Þetta tekur hann líklega fram vegna orða Jóns Þórs Ólafssonar um að hann ætlaði að „taka sér góðan tíma að fara vel yfir málið“. Þá tekur forsetinn það fram sem öllum er ljóst sem þekkja stjórnskipun íslenska lýðveldisins „að forseti er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt“.

Í yfirlýsingunni nefnir forseti að sú staða geti „þó vissulega komið upp að forseti þurfi að íhuga hvort hann vilji staðfesta stjórnarathafnir“. Nefnir hann sem dæmi að forseti verði var við augljósar villur í skjölum sem honum eru afhent og krefjist leiðréttingar á þeim.

Ekkert slíkt var á döfinni í þessu tilviki. Taldi forseti nauðsynlegt að rannsaka hvort alþingi hefði staðið rétt að málum við afgreiðslu tillögu dómsmálaráðherra um dómaraefnin! Fól hann forsetaritara að kalla á gögn frá skrifstofu alþingis um málsmeðferð þingsins. Skrifstofan leggur öll gögn vegna atkvæðagreiðslna í hendur forseta þingsins og taldi að sjálfsögðu rétt að málum staðið og í samræmi við þingskapalög.

Hvað varð til þess að forseti Íslands hóf þessa rannsóknarvinnu vegna skjala sem fyrir hann voru lögð á réttan hátt?

Jú, að lögfræðingar hefðu lýst „yfir efasemdum um að rétt hefði verið að málum staðið, að vísu einatt með fyrirvara um að málsatvik lægju ekki fyllilega ljós fyrir“.

Í öðru lagi vísaði forseti til einkennilega textans sem birtur er hér að framan með hvatningu til hans um að verða ekki við skyldu sinni til að undirrita skjölin.

Í þriðja lagi „hafði Jón Þór Ólafsson, alþingismaður og 3. varaforseti Alþingis, samband við mig og lýsti efasemdum um lögmæti atkvæðagreiðslunnar“ segir forseti.

Af þessum orðum má ráða að orð Jóns Þórs vegi þyngra en ella þar sem hann situr í forsætisnefnd alþingis. Að þingflokkur Pírata veiti honum umboð til þess og aðrir þingmenn samþykki er til marks um virðingarleysi fyrir alþingi.

Af vettvangi stjórnmálanna birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2017.