Hvernig kommúnismi varð að sjúkdómnum sem hann reyndi að lækna

Í byrjun nóvember sl. voru liðin 100 ár frá rússnesku byltingunni, þegar kommúnistar rændu völdum í Rússlandi með því að ráðast á Vetrarhöllina í St. Pétursborg. Vladimír Lenín leiddi þar hóp bolsévíka eins og þeir kölluðu sig og í kjölfarið voru Sovétríkin stofnuð. Á þeirri öld sem liðin er hafa að minnsta kosti 100 milljónir manna týnt lífi af völdum kommúnisma.

Eftir Richard M. Ebeling.

Frá róttækum byltingarmönnum að forréttindaskriffinnum

Hinn þekkti þýski félagsfræðingur Max Weber (1864-1920) setti fram skýringu á þróun sósíalískra ríkisstjórna á tuttugustu öldinni, þróun frá byltingarkenndri róttækni yfir í staðnað kerfi valda, forréttinda og eignaupptöku sem stýrt var af sovéskum eiginhagsmunasinnuðum ráðamönnum.

Í merku fræðiriti sínu, Economy and Society (1925), sem gefið var út að honum látnum, skilgreindi Weber leiðtoga með persónutöfra, eða karisma, sem mann sem sker sig úr fjöldanum vegna sérstaks þáttar persónuleika hans sem talinn er til marks um óvenjulega stjórnunarhæfileika.

Þessi maður er í krossferð vegna þess að hann býr yfir sérstakri gáfu sem gerir honum kleift að sjá það sem aðrir sjá ekki og skilja það sem flestum samborgurum hans er hulið. Weber segir að vald hans stafi ekki af því að aðrir viðurkenni hæfni hans sem slíka. Þessi tilfinning hans um vald og mikil örlög komi innan frá vegna þess að hann sé sannfærður um að hann búi yfir sannleika sem honum beri að opinbera öðrum og muni gera menn frjálsa; og að þegar aðrir sjái sannindin í því sem hann veit muni þeir augljóslega og óhjákvæmilega fylgja honum.

Vladimír Lenín (1870-1924) fellur vissulega að þessari lýsingu. Þótt margir sem hittu hann eða þekktu hafi nefnt hversdagslegt og jafnvel fráhrindandi útlit hans og litlausa nærveru lögðu flestir jafnframt áherslu á stefnufestu hans við að ná markmiðinu sem hann hafði óbilandi trú á, var staðráðinn í að ná fram og varð til þess að menn löðuðust að honum og viðurkenndu vald hans og forystu. Hópur lærisveina og félaga sem voru kallaðir og útvaldir safnaðist í kringum Lenín og persónutöfra hans og taldi sig þjóna sama markmiði: framgangi sósíalískrar byltingar.

Weber segir:

„…Hópurinn sem lýtur valdi persónutöfranna byggist á tilfinningalegu eðli félagslegra tengsla… Hann er… valinn á grunni persónutöfrandi eiginleika þeirra sem tilheyra honum. Spámaðurinn finnur lærisveina sína… Fyrir tilstilli leiðtogans verður til „köllun“ sem byggir á persónutöfrum þeirra sem hann velur…“

Hinir „útvöldu“ afneita (að minnsta kosti í orði ef ekki alltaf á borði) efnislegum freistingum af þeim veraldlega toga sem þeir með „krossferð“ sinni hafa að markmiði að kollvarpa og tortíma. Þetta setti líka oft mark sitt á laumulegan og stundum fábrotinn lífsstíl marxískra byltingarmanna og samsærishegðun þeirra.

Max Weber lýsti þessu þannig:

„Ekkert er til sem heitir laun eða lifibrauð. Lærisveinar eða fylgismenn hafa tilhneigingu til að lifa aðallega í kommúnískum tengslum við leiðtoga sinn… Hreinir persónutöfrar… hafa ímugust á og afneita fjárhagslegri hagnýtingu og fríðindum sér til framdráttar… Á hinn bóginn er „eignaupptaka“…, hvort sem hún er þvinguð fram með ofbeldi eða eftir öðrum leiðum, hin dæmigerða aðferðin við að beita persónutöfrum í því skyni að útvega nauðþurftir.“

En þegar maðurinn með persónutöfrana og fylgjendur hans eru komnir til valda verður skjót breyting á hegðun þeirra og tengslum við aðra þjóðfélagshópa. Þá verður ógerlegt að standa utan við hversdagsþætti lífsins. Ef þeir sökkva sér ekki niður í þá eiga þeir á hættu að vald þeirra yfir samfélaginu fjari út. Og brátt fer að draga úr eldmóði hugsjónakrossferðarinnar og byltingarandans.

Max Weber sagði:

„Aðeins lítill hópur ákafra fylgismanna og fylgjenda er tilbúinn að helga köllun sinni og hugsjónum líf sitt. Mikill meirihluti lærisveina og fylgjenda mun einnig, þegar fram líða stundir, gera ‚köllun‘ sína að ‚lifibrauði‘ í efnahagslegum skilningi… Þegar persónutöfrarnir verða hversdagslegir munu þeir leiða til ólögmætrar valdatöku og efnahagslegs ávinnings fylgjendanna og lærisveinanna og stýringar á upptöku nýrra meðlima í hópinn…

Í samræmi við þetta eru undirsátar, fríðindaþegar eða embættismenn í þróuðu pólitísku umhverfi aðgreindir frá „skattgreiðendum“. Hinir fyrrnefndu verða embættismenn ríkisins eða kjörnir flokksfulltrúar í stað þess að vera „fylgjendur“ leiðtogans… Þegar hversdagsleikinn tekur við hafa persónutöfrar hópsins tilhneigingu til að þróast yfir í eina eða aðra mynd hefðbundins valds, einkum …hina skriffinnskulegu.“

Ég vil halda því fram að í greiningu Max Weber sjáum við útlínur þeirrar sögulegu þróunar sem leiddi til þess að hópur marxískra byltingarmanna, sem voru sannfærðir um að þeir sæju gang sögunnar í öðru ljósi en aðrir dauðlegir menn, tók það upp hjá sjálfum sér að stuðla að upphafi nýrrar sögu með því að gera blóðuga byltingu.

En þegar glæður sigurs sósíalista kulnuðu, eins og gerðist í Rússlandi eftir byltingu ársins 1917, og blóðug þriggja ára borgarastyrjöld tók við urðu byltingarmennirnir að snúa sér að því hversdagslega verkefni að „byggja upp sósíalisma“. Að byggja upp sósíalisma þýddi að breyta þurfti samfélaginu og að breyta samfélaginu kallaði á eftirlit, yfirsýn, stjórnun og boðvald.

Eiginhagsmunir og nýja sósíalíska „stéttaþjóðfélagið“

Af þessum sökum varð til í hinum nýju Sovétríkjum það sem farið var að kalla Nomenklatúra, eða forréttindastétt. Árið 1919 hóf Kommúnistaflokkurinn að koma upp verklagi við að útbúa lista yfir stöður í ríkisstjórn eða skrifræðiskerfi sem útheimtu formlega útnefningu og jafnframt hliðarlista yfir fólk sem gæti átt rétt á að færast upp í þessar æðri valdastöður. Þannig varð til ný valdastétt undir verndarvæng sósíalismans.

Manna þurfti ráðuneyti, raða í stöður innan flokksins, þjóðnýtt fyrirtæki og samyrkjubú þurftu stjórnendur til að stýra framleiðslunni og sjá til þess að markmið miðstýrðrar áætlunar næðust, skipuleggja þurfti dreifikerfi ríkisins, verkalýðsfélög þurftu trausta flokksstjórnendur og fjölmiðlar ritstjóra og blaðamenn til að birta uppspunnar áróðursfréttir um tímamótasigra sósíalismans í tilrauninni til að skapa nýja Sovétmanninn í þessu nýja og dýrlega sameiningarstefnuþjóðfélagi.

En í stað þess að ný manntegund risi upp úr rústum fyrra skipulags, þegar hver nýr steinninn af öðrum var settur á sinn stað í uppbyggingu sósíalíska hagkerfisins, fór gamla og almenna mannlega eðlið að stinga sér út á milli steinanna: hvatir og sálfræði eiginhagsmunahegðunar, leitin að gróðavænlegum leiðum og tækifærum til að bæta eigið líf og líf fjölskyldu og vina með því að reyna að ná stjórn á og notfæra sér í eiginhagsmunaskyni „þjóðnýttu“ og fágætu auðlindirnar og framleiðsluna og nýta sér netverk og tengiliði innan sovéska skrifræðisins.

Þar sem ríkið hafði lýst sig eiganda allrar framleiðslu kom ekki á óvart að þegar ár og áratugir liðu færi fólk að líta á möguleikann á að komast í forréttindastéttina og hliðarstéttir hennar sem einu leiðina til betra og ánægjulegra lífs. Því fór svo að sósíalíska ríkið breytti ekki mannlegu eðli; mannlegt eðli fann leiðir til að notfæra sér sósíalíska ríkið í eigin þágu.

Boris Jeltsín (1931-2007) var félagi í rússneska Kommúnistaflokknum og átti meiri þátt í því en margir aðrir að binda enda á sögu Sovétríkjanna, stofna óháð Rússland árið 1991 og gera tilraun til að koma á lýðræði.

Hann lýsti því kerfi forréttinda og spillingar sem sovéski sósíalisminn hafði skapað. Í bók sinni Against the Grain (1990) sagði hann:

„Fyrir Kremlarskammtinn, sérstakan skammt af vörum sem almennt eru ófáanlegar, borga háttsettir menn aðeins helming af hefðbundnu verði og í honum eru fyrsta flokks matvæli. Í Moskvu njóta alls 40.000 manns þeirra fríðinda að fá þennan sérstaka skammt en þó í mismunandi magni og af mismunandi gæðum. Heilar deildir í GUM – risastóru stórversluninni sem stendur andspænis Kreml handan Rauða torgsins – eru lokaðar almenningi og aðeins opnar fyrir æðstu menn í flokknum, en aðrar sérstakar verslanir þjóna embættismönnum sem standa einu eða tveimur þrepum neðar í virðingarstiganum. Allt er kallað ‚sérstakt‘: sérstakt verkstæði, sérstakar efnalaugar, sérstakar læknastofur, sérstök sjúkrahús, sérstök hús og sérstök þjónusta. Þetta er afar kaldhæðnisleg notkun orðsins!“

„Stéttlausa samfélagið“ sem lofað hafði verið, þar sem efnahags- og samfélagslegur jöfnuður átti að ríkja, varð í reynd afar smásmugulegt kerfi goggunarraðar fríðinda og valda. Mútur, spilling, tengsl og vinavæðing gegnsýrðu alla þætti sovéska sósíalíska samfélagsins. Þar sem ríkið átti, framleiddi og dreifði einu og öllu þurftu allir að eiga „vin“ eða vini sem þekktu rétta fólkið sem hægt var sýna þakklæti með mútum eða annars konar greiðasemi fyrir að fá aðgang að einhverju sem „múgurinn“ gat alls ekki náð í eftir hefðbundnum leiðum miðstýrða dreifikerfisins.

Og yfir öllu þessu sósíalíska kerfi valda, forréttinda og eignaupptöku undir stjórn kommúnistaflokksins trónaði leynilögreglan, KGB, sem njósnaði og hótaði öllum sem ögruðu eða settu spurningarmerki við áróðurinn eða gangverk þessarar „paradísar verkalýðsins“.

Mótsagnir kommúnismans og endalok sovésks sósíalisma

Engar ýkjur felast í því að segja að allt sem marxistar sögðu að væri eðli kapítalísks kerfis – að fáir forréttindamenn arðrændu fjöldann, mikil misskipting auðs og tækifæra viðgengist og stafaði einfaldlega af sýndarstjórn á framleiðslu; brenglun á veruleikanum til að láta þræla halda að þeir væru frjálsir – var í raun eðli og kjarni sovésks sósíalisma. Hvílíkur rangsnúningur og afbökun á veruleikanum það var sem birtist í þessum hugmyndafræðilega spéspegli!

Þessu lauk loks árið 1991 þegar fríðindi, arðrán og fátækt „raunverulegs sósíalisma“ urðu til þess að sovétkerfið stóð ekki lengur undir sér. Þegar þar var komið var erfitt að finna einhvern hvar sem leitað var í Sovétríkjunum sem trúði á hina „fölsku stéttarvitund“ kommúnísks áróðurs. Sovétríkin voru komin í öngstræti hugmyndafræðilegs gjaldþrots og samfélagslegs ólögmætis. Ofurbygging“ sovésks valds hrundi.

Árið 1899 horfði franski sálfræðingurinn Gustave Le Bon (1841-1931) upp á vaxandi uppgang sósíalískra hreyfinga undir lok nítjándu aldar og við upphaf þeirra tuttugustu og sagði mæðulega í bók sinni The Psychology of Socialism:

„Að minnsta kosti ein þjóð mun þurfa að þjást… til þess að hinar læri sína lexíu. Þetta verður ein af þessum hagnýtu lexíum sem einar geta uppfrætt þjóðirnar sem láta sig dreyma um þá hamingju sem prestar hinnar nýju [sósíalísku] trúar boða þeim.“

Ekki aðeins Rússland heldur mörg önnur ríki í Austur-Evrópu, Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku hafa neyðst til að kenna okkur þá „hagnýtu lexíu“ um pólitíska harðstjórn og efnahagslegt öngþveiti sem sósíalískt samfélag, einkum í marxískri mynd, hefur boðið mannkyninu upp á.

Sú lexía er eins og áhrifamikil sýnikennsla í skelfilegum afleiðingum þess að samfélag kasti algjörlega frá sér pólitískri hugmyndafræði klassísks frjálslyndis, hagkerfi frjálsra viðskipta og viðurkenningu á einstaklingshyggju mannlegs eðlis í samfélagsgerð sem felst í sjálfviljugum tengslum og friðsamlegum samskiptum.

Við skulum vona að á þessu ári, þegar hundrað ár eru liðin frá byltingu kommúnista í Rússlandi, hafi mannkynið lært af þessum sorglegu mistökum og áttað sig á og viðurkennt að aðeins einstaklingsfrelsi og efnahagslegt frelsi geta leitt til þess réttláta, góða og velmegandi samfélags sem mannkynið getur skapað og á að njóta.

Richard M. Ebeling er BB&T prófessor í siðfræði og forystu í frjálsu framtaki við The Citadel í Charleston í Suður-Karólínu. Hann var forseti Foundation for Economic Education (FEE) frá 2003-2008. Greinin birtist upphaflega á vef FEE en er hér birt í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi höfundar. Greinin birtist í prentútgáfu Þjóðmála, 4. tbl. 2017.