Drápsvélin Che Guevara

„Grunnurinn í allri minni hugmyndafræði er trúin á réttlætiskennd hverrar ­manneskju og mannhelgi,“ svarar hún og vitnar í Che Guevara […] en hann sagði að líf einnar ­manneskju væri meira virði en allur auður hins auðugasta samanlagður. Hún segist trúa þessum orðum á hverjum einasta degi.

– Úr viðtali við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, á vefsíðunni Kjarninn.is.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, bar mikið lof á byltingarmanninn Che Guevara í viðtali við vefsíðuna Kjarninn.is um miðjan september. Þar sagði hún að ­grunnurinn í allri ­hennar hugmyndafræði væri „trúin á rétt­lætiskennd hverrar ­manneskju og mannhelgi.“

Í framhaldinu vitnaði hún í Che Guevara, sem sú sem viðtalið tók kallaði „frægan byltingar­sinna sem barðist fyrir réttindum fólks í Suður-Ameríku um miðja 20. öldina“ og sagði að hann hefði haldið því fram að „líf einnar manneskju væri meira virði en allur auður hins auðugasta samanlagður.“ Sólveig Anna sagðist trúa þessum orðum á hverjum einasta degi.

Guevara tók þátt í byltingu sósíalista á Kúbu 1959, sem leiddi Fidel Castro til valda. Það verður seint sagt að hann hafi metið líf fólks mikið. Fyrstu mánuðina eftir byltinguna voru um 2.000 manns voru teknir af lífi, margir án þess að hafa hlotið dóm. Það er ekki vitað með sanni hversu marga Guevara drap sjálfur, tölur eru á reiki frá 50 – 150. Það hvort hann hafi einungis drepið 50 með eigin hendi í stað 150 þarf ekki endilega að vera talið honum til tekna, en vitað er að hann hafði umsjón með töluverðum fjölda aftaka á þessum tíma.

Guevara fyrirleit samkynhneigða og eftir að byltingarstjórnin hafði komið á vinnubúðum ­(nokkur konar gúlag að sovéskri fyrirmynd) voru samkynhneigðir menn sendir þangað. Það var mun verr farið með þá en aðra, að skipun Guevara.

Að því sögðu er rétt að taka fram að Guevara mat réttindi verkafólks lítils. Sem (misheppnaður) seðlabankastjóri og síðar iðnaðarráðherra hafði hann réttindi verkafólks að engu heldur jók við vinnuskyldu og dró úr öllum félagslegum réttindum.

Þetta er aðeins brot úr söguupprifjun og staðreyndum um Che Guevara. Vitað er að hann var á móti frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsi, eftir hann liggur fjöldi rasískra ummæla og hann bar litla sem enga virðingu fyrir konum.

Við ljúkum sögustundinni á einni frægustu setningu Guevara;

„Byltingarmaðurinn þarf að verða kaldrifjuð drápsvél drifin af hreinu hatri.“

Góð fyrirmynd það.