Ef og hefði stjórnmálanna

Ef og hefði eru hugtök sem fæstir ættu að lifa eftir. Sá sem lendir í áföllum hugsar strax með sér, ef ég hefði gert eitthvað öðruvísi þá hefði þetta ekki farið svona. Það er svo sem mannlegt, að ætla sér að líta til baka með ef og hefði hugsun og reyna þannig að sjá fyrir hvar, hvenær og hvernig eitthvað fór úrskeiðis í lífinu.

Staðreyndin er samt sú að við vitum ekki hvað hefði átt sér stað ef við hefðum gert eitthvað öðruvísi og því áorkum við litlu með því að einbeita okkur að þeirri hugsun. Við þurfum alltaf að taka ákvarðanir miðað við þá þekkingu og reynslu sem við höfum hverju sinni, jafnvel þó svo að við vitum ekki alltaf hvernig hlutirnir fara á endanum. Það eina sem fortíðin gefur okkur er dýrmæt reynsla – og vonandi kennslustund í því hvernig hægt er að gera hlutina betur og öðruvísi í framtíðinni.

Þessar dýrmætu lífreglur eiga líka við í stjórnmálunum. Og það sem meira er, þær eiga við um öll umsvif ríkisins. Sem fyrr segir reynum við að taka ákvarðanir út frá því sem við vitum hverju sinni, meira getum við ekki gert.

***

Við vitum hvernig bankastarfsemi hér á landi er háttað núna. Ríkið á tvo viðskiptabanka; Landsbankann og Íslandsbanka. Þess utan rekur ríkið Íbúðalánasjóð, sem er svo gott sem gjaldþrota. Ef ríkið hefði eignast Arion banka í lok febrúar hefði nær öll bankaþjónusta í landinu verið í höndum ríkisins. Sem betur fer gerðist það ekki.

Það er þó full ástæða til að hafa varann á þegar kemur að ríkinu og fjármálastarfsemi, því við vitum ekki hver stefna ríkisins er í bankamálum og svo virðist sem ríkisstjórnin viti það ekki heldur. Það er ekkert sem bendir til þess að bankarnir verði seldir á næstunni og þeir verða því áfram í opinberum rekstri. Við vitum hins vegar ekkert um það hvernig bankastarfsemi verður eftir 5-10 ár nú þegar fjártæknifyrirtæki og aðrir aðilar eru að ryðja sér til rúms á fjármálamarkaði. Það verður að teljast harla ólíklegt að ríkisbankarnir verði í fararbroddi þegar kemur að nýrri tækni, þjónustu og auknu vöruframboði á næstu árum.

***

Stjórnmálamenn tala með ýmsum hætti um bankana og fjármálastarfsemi. Það eina sem flestir eru þó sammála um er að ríkið eigi að eiga einn banka, sem er undarleg afstaða. Framsóknarflokkurinn vill víst fá erlenda banka til landsins (en vill ekki leyfa Uber) sem verður að teljast mikil óskhyggja á meðan íslensk stjórnvöld skattleggja bankastarfsemi með allt öðrum og óbilgjarnari hætti en gengur og gerist, eins og Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, rekur í grein hér í blaðinu.

Miðað við það hvernig ríkisfyrirtæki á borð við RÚV, Isavia og Íslandspóst beita sér í samkeppni við einkaaðila með ósvífnum hætti verður ekki séð að nokkur hafi áhuga á því að keppa við ríkisbanka.

***

Við vitum ekki hvernig þetta endar en við getum þó gefið okkur að það endi illa. Þá þýðir ekki að kenna kapítalismanum eða frjálshyggjunni um. Ef við hefðum bara ekki látið ríkið ábyrgjast þetta allt saman, er eitthvað sem við gætum þurft að segja. Það að halda því fram að ríkið þurfi að reka banka er eins og að hafa haldið því fram fyrir 15 árum að ríkið þyrfti að reka vídeóleigu. Líklega vissu menn ekki þá hver örlög þeirra yrðu, en við vitum það heldur ekki með bankana nú.

***

En það er svo margt sem við bæði vitum og vitum ekki. Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl 2010, sem haldinn var í Stapanum (nú Hljómahöll) í Njarðvík, tilkynnti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir afsögn sína sem varaformaður flokksins. Fáum hefði þá dottið í hug að hún ætti, tæpum átta árum síðar, eftir að standa í sama sal og úthúða Sjálfstæðisflokknum og öðrum sem hún telur tengjast flokknum.

Ræða Þorgerðar Katrínar á nýliðnum landsfundi Viðreisnar fer í sögubækurnar sem eitt allsherjar rant eins og kallað er. Hún líkti oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík við risaeðlu og bar utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins saman við UKIP. Já, við erum víst komin þangað í umræðunni.

***

Þorgerður Katrín krafðist þess að skipuð yrði þverpólitísk nefnd „til þess að leggja mat á nýjar og breyttar aðstæður í alþjóðamálum, nýjar áskoranir fyrir Ísland og nýja möguleika til þess að bæta hag fólksins í landinu með því að taka nýtt skref í Evrópusamvinnunni“ eins og hún orðaði það – og hnaut síðan að því að ef ríkisstjórnin yrði ekki við þessum kröfum smáflokksins væri ríkisstjórnin „staðnaðri“ en hún hefði ímyndað sér. Nú er að vísu margbúið að taka þessa umræðu, skipa vinnuhópa, gefa út skýrslur og þannig mætti áfram telja. Við vitum samt fyrir fram að ef niðurstaðan verður ekki eins og forsvarsmenn Viðreisnar vill að hún sé fer allt í háaloft. Þannig varð flokkurinn til.

***

Annar innantómur frasi er að Viðreisn sé frjálslyndur flokkur. Því fer fjarri. Það eina sem flokkurinn skildi eftir sig í síðustu ríkisstjórn var jafnlaunavottun, sem er auðvitað ekkert annað en þvingunaraðgerð af hálfu ríkisins og kostar fyrirtækin í landinu talsvert fjármagn. Frjálslyndur flokkur hefði það á stefnuskrá sinni að lækka skatta og minnka umsvif ríkisins. Í ræðu sinni minntist Þorgerður Katrín ekki einu orði á lækkun skatta en talaði aftur á móti fyrir því að hækka svokallaða græna skatta, skatta á ferðaþjónustu og að sjálfsögðu um hækkun veiðigjalda.

***

Til að reyna að höfða til lægstu hvata samflokksmanna sinna sagði Þorgerður Katrín að hluti af þeim verðmætum sem skapast hefðu í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum lægi nú í fjárfestingum í Korputorgi (eins og það sé slæmt). Þess í stað færi betur á að innheimta hærri veiðigjöld til að nýta í samfélagsuppbyggingu í Vestmannaeyjum. Hinn frjálslyndi flokkur vill með öðrum orðum að ríkið taki meira til sín til að dreifa verðmætunum aftur til almennings. Af því að það gengur svo vel þar sem það hefur verið reynt?

***

Sjálfsagt hefur enginn tölu á því hversu miklum verðmætum sjávarútvegsfyrirtæki, hvort sem er í Vestmannaeyjum eða annars staðar, hafa skilað til samfélagsins. Þó mætti ætla að sjávarútvegurinn í Vestmannaeyjum hafi skilað meiri verðmætum til samfélagsins þar en ríkið myndi nokkurn tímann gera í formi úthlutunar sem alltaf yrði á forræði stjórnmálamanna hverju sinni.

***

Viðreisn er smáflokkur, minnsti flokkurinn á þingi, með tæplega 7% fylgi og fjóra þingmenn. Þorgerður Katrín er sjálf sjöundi þingmaðurinn í sínu kjördæmi. Og af hverju er þá verið að verja dýrmætu plássi á síðum Þjóðmála í að svara smáflokkum?

Jú, það er af því að árásir Þorgerðar Katrínar og Viðreisnar munu halda áfram. Það eru bara örvæntingarfullir stjórnmálamenn sem tala með þeim hætti sem Þorgerður Katrín gerði og örvæntingarfullir stjórnmálamenn reyna ítrekað að höfða til lægstu hvata almennings. Það að tala í innantómum frösum, segja sjálfan sig berjast fyrir almannahagsmunum gegn sérhagsmunum í annarri hvorri setningu og ítreka í sífellu eigið frjálslyndi er popúlísk hegðun. Slíkri umræðu þarf að svara.

Við eigum ekki að þurfa að vera í þeim sporum eftir nokkur ár að þurfa að líta til baka og hugsa, ef við hefðum bara svarað þessum popúlísku dylgjum miklu fyrr.

Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála.

_______________________

Ritstjórnarbréfið birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018.
Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is