Vernda starfsleyfisveitingar stjórnvalda neytendur eða framleiðendur?

Starfsleyfisveitingar stjórnvalda hafa verið mér afar hugleiknar undanfarið. Til að mega starfa á mínum starfsvettvangi, húsnæðismarkaðnum, þarf að sækja um mörg mismunandi leyfi og alltaf eru það ríkisstofnanir sem veita þau. Eitt dæmi um slíkt er rafvirkjun og annað dæmi er sala á húsnæði, þ.e. fasteignasala. Mörg dæmi er líka að finna í öðrum starfsgreinum og fara þau eftir því hvaða land er skoðað. Ef við lítum til alls heimsins sjáum við að alls kyns starfsemi og störf eru háð leyfum, svo sem hárgreiðsla, húðflúrun og húsamálningar; listinn er óralangur.

Eitt er það sem næstum allar kröfur um starfsleyfisveitingar eiga sameiginlegt: ástæðan sem gefin er fyrir þeim er nær alltaf neytendavernd. En hversu oft á það við rök að styðjast?

Tökum dæmin tvö af sænska fasteignamarkaðnum, rafvirkjun og fasteignasölu, og reynum að skilja í hvaða mæli leyfi til að starfa í þessum greinum verndar neytendur. Í Svíþjóð þarf fólk í báðum þessum starfsgreinum tilskilda menntun til að mega starfa við þær. Þetta segir fólki auðvitað að þeir sem starfa við þetta hafi til að bera nauðsynlega kunnáttu til að vinna gott verk. Ef við hugsum ekki frekar út í þetta, sem fæstir gera, virðast starfsleyfisveitingarnar eiga rétt á sér.

En spyrjum okkur nokkurra spurninga. Hvað getur farið úrskeiðis ef einhver sem ekki hefur leyfi vinnur verkið?

Höldum okkur við þessar tvær starfsgreinar. Ef maður sem ekki hefur leyfi til að vinna sem rafvirki (og er óþjálfaður) leggur rafmagn í húsinu okkar brennur húsið í versta falli. Ef maður sem ekki hefur leyfi til að vinna sem fasteignasali selur okkur hús, hvað getur þá gerst? Að mínu mati ekkert sérstakt.

Ein af rökunum sem ég hef heyrt eru þau að leyfislaus fasteignasali fái ef til vill ekki besta verðið fyrir húsið sem hann selur fyrir ykkur eða að þið þurfið að greiða of hátt verð fyrir eitthvert hús. Þessi rök hvíla vitaskuld á þeirri ályktun að fasteignasalinn hafi vald til að hafa áhrif á lokaverðið (sem er rangt) og að þið vitið ekki hvað þið eruð tilbúin að greiða fyrir húsið (en að eins og fyrir eitthvert kraftaverk viti fasteignasalinn það).

Mikill munur er á þessum dæmum. Svo virðist sem að í sumum starfsgreinum gæti, í þágu neytendaverndar, þurft starfsleyfi frá stjórnvöldum (þ.e. til að starfa sem rafvirki því annars gæti húsið ykkar brunnið). Ég myndi halda því fram að sú ályktun sé röng.

Ef ekki væru starfsleyfisveitingar stjórnvalda í dæminu um rafvirkjann, er þá útilokað að markaðstengdar starfsleyfisveitingar væru mögulegar? Ég myndi segja að mjög líklegt væri að þær yrðu til. Flestir húseigendur tryggja heimili sín og slík trygging nær yfirleitt til bruna af völdum rafmagnsbilunar. Á markaði þar sem næstum hver sem er gæti unnið við rafmagn myndi húsum sem brenna sennilega fjölga. Til að tryggja hagsmuni sína myndu tryggingafyrirtæki krefjast þess að öll vinna við rafmagn væri unnin af rafvirkja með starfsleyfi og þannig yrði til markaður fyrir útgáfu starfsleyfa.

Ef til vill verða þessi rök skýrari ef við skoðum annað og öfgakenndara dæmi. Tökum dæmi af fólki sem vinnur í öðrum starfsgreinum, hárgreiðslumeistara og skurðlækni. Báðir þessi aðilar þurfa í sumum löndum starfsleyfi til að mega vinna við þetta (í síðara tilvikinu í næstum öllum löndum). Báðir vinna þeir líka verk sitt á líkömum ykkar en gífurlegur munur er á alvarleikanum ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef sá fyrri gerir mistök þurfið þið í versta falli að ganga með húfu eða hatt í einn mánuð. Ef hinn síðari gerir mistök eru það í versta tilviki síðustu mistökin sem þið verðið fyrir. Hvað myndi gerast ef ekkert starfsleyfi þyrfti til að vinna við þessar tvær greinar?

Hugsum okkur að ég opni hárgreiðslustofu á morgun. Ég gæti í fyrstu fengið nokkra viðskiptavini en brátt bærist út að ég væri verri hárgreiðslumaður en flestir aðrir á markaðnum og hárgreiðslustofan mín yrði ekki langlíf. Ástæðan fyrir því að ég fengi viðskiptavini þótt ég kunni ekkert til verka í hárgreiðslu er sú að gjaldið fyrir mistök er lágt (fyrir viðskiptavininn) og gjaldið fyrir að leita sér upplýsinga um hæfni mína er hátt (eða að minnsta kosti nógu hátt til að viðskiptavinirnir slepptu því að leita að þessum upplýsingum). Hugsum okkur svo að ég færi að vinna sem skurðlæknir á nýju læknastofunni minni. Fengi ég viðskiptavini? Sennilega ekki. Gjaldið fyrir mistök er svo hátt að allir viðskiptavinir myndu leggja í kostnað við að spyrjast fyrir um hæfni mína.

Auk þess myndu hæfir skurðlæknar á þessum markaði hafa tilhneigingu til að koma sér upp einhvers konar staðfestingu á hæfni sinni til að draga úr kostnaði væntanlegra viðskiptavina – og einkastarfsleyfisveiting gæti orðið að veruleika. Ef starfsleyfisveitingar stjórnvalda vernda í raun ekki neytendur, hvers vegna eru þær þá við lýði? Svarið fyrir flestar starfsgreinar sem háðar eru leyfisveitingu snýr líklega að hinum aðilunum, framleiðendum. En hvað græða framleiðendur á leyfisveitingum?

Eitt af uppáhalds líkönum mínum til að skilja fyrirtækja- eða markaðssamkeppni er fimm krafta líkan Porters. Á markaði þar sem fimm kraftar Porters eru sterkir er samkeppni hörð og hagnaðarvon fyrirtækja lítil.

Einn þessara krafta sem hefur áhrif hér er Hætta á inngöngu nýrra aðila. Því auðveldara sem það er að öðru jöfnu fyrir ný fyrirtæki að koma inn á markaðinn, þeim mun minni verður hagnaðarvonin. Leyfisveitingar og menntunarkröfur eru góð leið til að draga úr hættu á nýjum markaðsaðilum, þar sem þetta hækkar kostnaðinn við að koma inn á markaðinn. Það þýðir að leyfisveitingar draga úr samkeppni og tryggja fyrirtækjum sem eru þegar á markaðnum meiri hagnað. Ekki ætti að koma á óvart að það eru yfirleitt fyrirtæki sem þegar eru á markaði sem tala fyrir leyfisveitingum en sjaldan neytendur eða einhverjir aðrir.

Hvað þýðir þetta fyrir neytendur?

Leyfisveitingakerfi sem sögð eru stuðla að neytendavernd koma sér líklega, þegar allt kemur til alls, illa fyrir neytendur vegna þess að þau draga úr samkeppni sem leiðir til hærra verðs og minni nýsköpunar en frjáls markaður myndi bjóða upp á.

Höfundur er lektor í fasteignafræðum við Háskólann í Lundi.

 

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.