Kæfandi faðmur ríkisins

Þó svo að aðdragandi nýliðinna kosninganna sé að mörgu leyti, eða réttar sagt að nær öllu leyti, undarlegur er ekki þar með sagt að kosningarnar sjálfar hafi verið það. Öllum mátti vera ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir þrír störfuðu saman í ástlausu hjónabandi; það var e.t.v. aðeins tímaspursmál hvenær annar litlu flokkanna guggnaði á því að sýna festu og ábyrgð í því samstarfi. Það væri þó að bera í bakkafullan lækinn að rekja ríkisstjórnarsamstarfið eða aðdragandann að stjórnarslitunum hér. Þess í stað verður horft til framtíðar.

Í byrjun október voru liðin níu ár frá hinu svokallaða hruni. Það er ekki langur tími en sá árangur sem við höfum náð sem þjóð er að mörgu leyti ótrúlegur, í það minnsta efnahagslega. Enn situr eftir reiði og vantraust og það mun taka lengri tíma fyrir þau sár að gróa – sérstaklega í ljósi þess að til eru aðilar sem gera út á það að viðhalda reiði og vantrausti.

Við búum við mikla hagsæld hér á landi. Efnahagslegar aðstæður eru að flestu leyti hagfelldar; hagvöxtur var í fyrra 7,2% (sá mesti í áratug) og er um 6% á þessu ári. Atvinnuleysi er lítið sem ekkert, kaupmáttur hefur aukist (um 5,3% sl. 12 mánuði), við skorum hátt í lífshamingjuvísitölum og þannig mætti áfram telja.

Þó eru blikur á lofti. Fram undan eru erfiðar kjarasamningalotur og óvíst er hvaða afleiðingar þær hafa. Miklar launahækkanir síðustu ára eru farnar að þrengja að fyrirtækjum og við bætast háir raunvextir og styrking krónunnar (þó að hún hafi gefið lítillega eftir upp á síðkastið). Óvissan í stjórnmálunum er ekki til þess fallin að valda hugarró og það sést t.a.m. á mörkuðum síðustu daga og vikur. Full ástæða er því til að hafa augun opin.

Aukin skattheimta

Og það er fleira sem veldur hugarangri. Umsvif hins opinbera hafa aukist gífurlega á síðustu árum og ekkert bendir til þess að þau muni minnka. Í umræðu um fjárlög fráfarandi ríkisstjórnar ræddi Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um stöðu hins opinbera í áhugaverðu samhengi. Óli Björn vísaði til þess að á síðasta ári voru skatttekjur ríkisins 229 milljörðum kr. hærri að raunvirði en árið 2000 og tekjuskattur einstaklinga liðlega 58 milljörðum kr. hærri. Virðisaukaskattur skilaði ríkissjóði tæplega 48 milljörðum kr. meira í kassann á síðasta ári, að raunvirði, á verðlagi síðasta árs, en aldamótaárið.

Óli Björn benti einnig á að útgjöld ríkisins hefðu vaxið verulega á sama tíma, eða um 220 milljarða króna.

„Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga skili ríkissjóði rúmlega 178 milljörðum króna. Þetta er nær 17 milljarða króna hækkun frá síðasta ári samkvæmt ríkisreikningi,“ sagði Óli Björn.

„Virðisaukaskattur skilar 21 milljarði meira í tekjur og í heild verða skattar á vörur og þjónustu um 38,5 milljörðum kr. hærri á komandi ári […] en var á liðnu ári. Í heild er reiknað með að skatttekjur og tryggingagjöld verði hvorki meira né minna en 76 milljörðum og 200 milljónum betur hærri á komandi ári en var á liðnu ári. Þetta jafngildir um það bil 900 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.“

Þetta er mikilvæg ábending frá Óla Birni og eðlilega velti hann upp þeirri spurningu hvort sitjandi ríkisstjórn ætlaði virkilega að þyngja byrðar landsmanna enn frekar með aukinni skattheimtu, eins og fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp gerði ráð fyrir. Ljóst er að áhyggjur manna um að hér væri við völd hægrisinnaðasta ríkisstjórn frá upphafi voru með öllu óþarfar. Eins og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, skrifaði um í sumarriti Þjóðmála leit út fyrir að stefna ríkisstjórnarinnar væri að festa í sessi skattahækkanir sem áttu sér stað á árunum 2009-2013.

„Vörðuðu þær á sínum tíma leiðina að hallalausum rekstri ríkissjóðs en nú þegar tekjustofnar bólgna út á ný eru þær meginástæða þess að Ísland hefur tekið fram úr öðrum ríkjum í skattheimtu. Það er spurning hvaða leið skal farin þegar til bakslags kemur næst. Það er ekkert svigrúm til skattahækkana í hagkerfinu,“ sagði Ásdís í grein sinni.

Þetta er rétt hjá Ásdísi. Með öðrum orðum mætti segja að búið væri að hækka flesta skatta í botn. Þrátt fyrir það tókst fjármálaráðherra að boða enn frekari skattahækkanir í fyrrnefndu fjárlagafrumvarpi. Einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa, eftir stjórnarslit, lýst því yfir að þeir hafi ekki ætlað sér að styðja skattahækkanirnar en það verður að teljast Óla Birni til tekna að hann var sá eini sem gerði það opinberlega fyrir stjórnarslit.

Umsvifamikill ríkisrekstur

Það var áhyggjuefni í aðdraganda kosninga að enginn virtis ætla sér að draga saman seglin í ríkisrekstrinum. Og það er ekki bara ríkissjóður sem bólgnar út og heimtar meira. Ríkið er alltumlykjandi. Það er nú eigandi tveggja af þremur stærstu bönkum landsins (og á reyndar hlut í þeim þriðja). Því til viðbótar situr ríkið uppi með gjaldþrota Íbúðalánasjóð og mun einn daginn þurfa að taka það högg á sig. Ríkið á alla flugvelli landsins og krafa er um að ríkið sjái um og beri ábyrgð á allri innviðauppbyggingu hér á landi. Svona mætti áfram telja.

Hins vegar má ekki mikið út af bera til að rekstur ríkisins keyri um koll og það er ekki sjálfgefið að skattgreiðendur verði aflögufærir til að taka reikninginn. Þess vegna þurfa stjórnmálamenn að hafa þor til að taka umræðuna um það hvort hægt sé að draga úr umsvifum hins opinbera.

Botnlaus rekstur spítala

Gott dæmi um umræðu sem enginn virðist þora að taka er rekstur Landspítalans. Sífellt eru uppi kröfur um aukið fjármagn frá ríkinu. Rekstur Landspítalans virðist vera botnlaus hít sem aldrei fær nóg af fjármagni.

En enginn vill ræða hvort hægt sé að taka til í rekstri spítalans. Enginn vill, eða þorir, að ræða um það hvort e.t.v. séu of margir millistjórnendur, hvort hægt sé að gera betur í innkaupum á aðföngum, hvort hægt sé að bjóða út ákveðinn rekstur spítalans o.s.frv. Þegar fjallað er um mögulegan einkarekstur ætlar allt um koll að keyra og einna verstir í þeirri umræðu eru stjórnendur ríkisspítalans. Þessi umræða fer aldrei fram með hagsmuni sjúklinga í huga, heldur einungis með hagsmuni ríkisspítalans að leiðarljósi.

Fyrst hér er búið að fjalla um komandi kjaraviðræður og rekstur ríkisspítalans er rétt að minna á að ekki er langt í að læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sjúkraliðar og fleiri stéttir innan heilbrigðisgeirans hefja kjaraviðræður. Allt eru þetta mikilvægar stéttir og þeim ber að greiða góð laun fyrir vinnu sína. Það sama mætti segja um kennara.

Hvernig sem komandi kjaraviðræður fara er rétt að hafa í huga að ekki er langt síðan samið var við allar þessar stéttir eftir harða baráttu í kjaraviðræðum og vitaskuld verður ekki langt í að það þurfi að gera aftur – og aftur og aftur. Það má ræða um kaup og kjör með ýmiss konar hætti – en það má alls ekki ræða það hvort ríkið sé yfirhöfuð góður vinnuveitandi og hvort rekstur á heilbrigðisþjónustu sé betur kominn í höndum annarra en ríkisins. Fyrir mörgum er ríkisrekstur trúarbrögð og í þeim tilvikum þarf ríkið bæði að greiða fyrir og veita þjónustuna, sbr. heilbrigðis- og menntakerfið. Ólíkt því sem margir halda hefur almenningur ekki hagsmuni af því að ríkisvaldið sé útblásið bákn. Þvert á móti er það almenningur sem þarf að taka það á sig ef eitthvað bregður út af í rekstri hins opinbera.

Innviðir á ábyrgð ríkisins

Annað dæmi um atvinnurekstur sem er algjörlega óþarft að sé í höndum ríkisins er rekstur flugvalla. Það er ekkert við rekstur flugvalla sem krefst þess að þeir séu reknir af ríkinu eingöngu. Fyrir utan landamæraeftirlit og tollgæslu er í raun algjör óþarfi að ríkið komi að rekstri flugvalla eða flugstöðva. Það er heldur engin ástæða fyrir ríkið (skattgreiðendur) að bera ábyrgð á uppbyggingu flugvalla eins og er í tilviki Keflavíkurflugvallar, þar sem fjárfestingarþörf næstu ára er gífurleg. Eigendur flugvalla hafa alla hagsmuni af því að mæta þörfum viðskiptavina sinna, hvort sem það eru flugfélög, farþegar, þeir sem reka verslanir á svæðinu eða sjá um aðra þjónustu.

Það sama mætti segja með vegi, hafnir og aðra innviði. Ríkið getur hæglega sett lög og reglugerðir sem tryggja þjónustu og öryggi á öllum þessum stöðum – en það er ekkert sem krefst þess að ríkið standi straum af uppbyggingu, viðhaldi og rekstri innviða.

Þetta voru aðeins nokkur dæmi þar sem umsvif ríkisins eru með öllu óþörf. Hins vegar er ástæða til að hafa áhyggjur af lítilli umræðu um þessi mál. Fráfarandi ríkisstjórn hafði t.a.m. engin áform uppi um að selja bankana sem ríkið á og rekur. Á næstu vikum gefst tækifæri til að spyrja forystumenn flokkanna hvort þeir hafi einhver áform um að minnka ríkisbáknið. Ef það stendur ekki til mætti í framhaldinu spyrja þá hver það er sem ætlar að greiða fyrir næstu niðursveiflu hins opinbera, taka á sig gjaldþrot Íbúðalánasjóðs og tryggja rekstur allra þeirra ríkisfyrirtækja og stofnana sem nú starfa – líka þegar þau lenda í vandræðum.

Gísli Freyr Valdórsson
Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í haustriti Þjóðmála. Rétt er að geta þess að greinin birtist fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar og hefur verið breytt lítillega í ljósi þess, þó ekki efnislega.