Ferð með Forman

Tékkneski leikstjórinn Milos Forman fæddist í Čáslav í Tékkóslóvakíu (nú Tékkland) árið 1932. Hann lést í Bandaríkjunum í apríl á þessu ári. Hér sést hann við tökur á Gaukshreiðrinu (e. One Flew Over the Cuckoo's Nest), en hann hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn myndarinnar.

Þegar það var hringt í mig afsakandi og ég spurður hvort ég gæti fylgt Milos Forman í þrjá eða fjóra daga á meðan hann væri hér á Íslandi því hann væri að taka við heiðurslaunum RIFF? En það væri einn hængur á, „þú færð ekkert greitt, við erum að berjast í bökkum“.

Þá svaraði ég: „Fæ ég ekkert greitt? Ertu að hringja í mig um djobb sem ég fæ ekkert greitt fyrir?“

„Já, ég skil, ekkert mál.“

„Nei, ég var að grínast. Milos Forman? Ég myndi taka mér frí úr vinnunni alltaf til að fylgja honum. Ég myndi segja upp vinnunni minni til að reima skóreimarnar hans. Takk fyrir boðið. Ég tek djobbinu á stundinni.“

Milos Forman er einn af stóru meisturum kvikmyndaleikstjórnar síðustu aldar og fram á þessa. Hann gerði Hárið, Slökkviliðsballið, Amadeus, Fólkið gegn Larry Flynt, Ástir blondínu, Gaukshreiðrið og ég veit ekki hversu margar aðrar snilldarmyndir hann gerði. Elskaður af Hollywood og þeim sem vildu virðast gáfaðir í Evrópu. Milos Forman var elskaður af öllum.

Ástæðan fyrir því að hringt var í mig er að ég er sá eini á landinu sem bæði tala tékknesku og er kvikmyndaleikstjóri og lærði í sama skóla og hann. Orðið bæði átti reyndar ekki lengur við í þessari setningu minni þarna áðan þegar það þriðja kom.

Þegar Forman mætti var hann einstaklega viðkunnanlegur og við kynntum okkur og ég tók töskurnar hans. Á leiðinni í bæinn var hann ekki ánægður með landslagið, þetta var ekki eins og vinur hans Milan Kundera hafði lýst því. Við vorum sammála um að þetta væri ekki fínt, þetta væri eins og á tunglinu. Ég sagði honum að ég væri vanalega ekki að skammast mín fyrir landslag Íslands, þar sem ég væri bara ánægður ef einhver yrði fyrir vonbrigðum en núna þar sem hann væri á staðnum væri ég óánægður með hvernig eldfjöllin hefðu staðið sig í því að dæla út úr sér eldi. Þau hefðu átt að gera þetta með meiri fagurfræði.

„Kannski ekki svo slæmt hjá þeim“, sagði hann. Þegar við komum á hótelið sagði hann hvað honum þætti vænt um að ég kynni tékknesku. „Það eru fáir í heiminum sem nenna að læra annað en ensku,“ sagði hann.

Ég sótti hann næsta morgun bljúgur og eftir orð hans tilbúinn að reima skóreimar hans hvenær sem hann þurfti. Þegar ég vakti hann sagði hann: „Já, ekki koma fyrr en þetta. Þegar maður er orðinn gamall þarf maður tólf tíma til að ná góðum svefn. Maður liggur og getur ekki sofnað, svo liggur maður, sofnar og vaknar svo aftur og liggur og sofnar síðan aftur.“

Það er merkilegt hvað virkilega góðu listamenn heimsins eru alltaf næs. Ef þú hittir miðlungs listamenn geta þeir verið nastí og leiðinlegir en ef þú hittir meistara eru þeir eiginlega undantekningarlaust kurteisir og vinsamlegir. Ég man eftir viðtali sem ég tók við Jim Jarmusch. Þegar því var lokið leiddu samræður okkar til þess að ég sagði; „já, ég skil, ég fann fyrir því sama þegar ég gerði mína fyrstu kvikmynd“. Hann sagði strax, „Ha? Ertu kvikmyndaleikstjóri líka? Hva? Afhverju komstu ekki með myndina með þér? Ég hefði viljað sjá hana“.

Ég starði á hann í forundran. Það má vel vera að hann hafi bara verið að segja þetta upp á kurteisi en samt svo næs að segja svona. Ég hef talað við fjölda stjarna í leikara- og leikstjórabransanum og þeir sem eru á toppnum eru eiginlega alltaf vinsamlegir. Það þarf ansi margt í fari manna að ná saman til að komast á toppinn en einn faktorinn er án vafa að vera mannvinur.

Á öðrum degi fylgdar minnar rétti ég Milos Forman myndina mína og hann tók við henni og rétti mér hana til baka og sagði: „Silný kafe?“

„Já,“ sagði ég. „Þetta er fyrsta bíómyndin mín,“ og tók við DVD-disknum aftur.

„Ég er fyrir löngu búinn að sjá hana. Mjög góð bíómynd. Einn af leikurunum þínum, hann Jirí Lábus, er vinur minn og hann var ánægður með leikstjórn þína. Þú átt að halda áfram. Það sem mér fannst best við myndina þína er að ég trúði öllum leikurunum. Það er sjaldan þannig þegar ég horfi á bíómyndir. Þú vinnur mjög vel með leikurum.“

Milos Forman kynntist helstu helstefnum heimsins. Hann var strákur þegar nasistar réðust inn í Tékkland. Foreldrar hans voru mótmælendatrúar og fóru í andspyrnuna. Nasistarnir pyntuðu og myrtu þá báða. Síðan tóku kommúnistar við völdum í landinu og hann upplifði harðræði þeirra. Eftir að Krúsjeff hélt ræðuna frægu um Stalín þar sem hann lýsti fyrirlitningu sinni á harðstjórn þess einræðisherra árið 1956 kom í framhaldinu blómlegra tímabil hjá kommúnistaríkjunum, þar sem aðeins meira frjálslyndi réði ríkjum. Forman sagði að þetta hefði breytt öllu arðandi feril hans. Hann og fleiri listamenn þorðu að taka áhættu og þorðu að segja það sem þeim lá á hjarta.

Árið 1968 þegar hann var orðinn nokk þekktur listamaður og var í Bandaríkjunum að reyna að fá fjármagn í næstu bíómyndina sína réðust Sovétmenn inn í Tékkland til að stöðva frjálslyndisbyltinguna sem er í gangi. Milos Forman kom ekki aftur til Tékklands fyrr en rúmum áratug seinna. Bjó sér til feril í Bandaríkjunum frekar en að fara í fang þess fantaskapar sem tók við í Tékklandi eða öllu heldur Tékkóslóvakíu eins og það var þá.

Þar sem að á sama tíma og hann og allir listamenn í austurhluta Evrópu voru að gagnrýna og jafnvel að ráðast á kommúníska yfirvaldið réðu kommúnistar flestu í menningarheimi Vesturlanda spurði ég hann hvernig tilfinning það hefði verið.

Hann sagði að auðvitað hefði það verið óþægilegt. Hann hefði verið í Cannes þegar frægur kvikmyndaleikstjóri á Vesturlöndum hefði dregið þjóðfána sinn niður til að koma rauða flagginu upp. Táknmynd þeirrar kúgunar sem þeir í austrinu voru að berjast gegn.

Ég reitti hann til reiði í tvígang, í annað skiptið sagði ég að kommúnistar hefðu kannski ekki verið svo slæmir í Tékklandi. Þeir drápu milljónir í Rússlandi fyrir það eitt að vera annarrar skoðunar en í Tékklandi voru þetta ekki nema nokkur hundruð sem fengu að fjúka fyrir það að hafa vitlausa skoðun. Hann stoppaði á göngunni og leit á mig forviða. Ég stoppaði líka og hlustaði síðan á smá ræðu um að þeir sem voru drepnir fyrir það að vera með vitlausa skoðun hefðu samt verið samt einstaklingar, hver og einn sem hafði gert það eitt af sér að hugsa ekki í takt við yfirvaldið. Svo voru það hundruð þúsunda sem voru settir í vinnubúðir eða fengu ekki möguleika á menntun fyrir það eitt að hugsa öðruvísi.

Hitt skiptið var þegar ég stakk upp á því að við fengjum okkur hvalkjöt að borða á Þremur Frökkum. „Hval? Ætlar þú að borða þessa fallegu skepnu? Það mun ég aldrei gera.“

Jæja, hugsaði ég með mér, þá fæ ég mér hval næst. Borða bara rjúpu núna þótt mér finnist hún jafnvel fallegri.

Einhvern tímann yfir kvöldmatnum kom hann með fallega líkingu á muninum á því að búa í vestrinu eða austrinu. Hann sagði að kommúnisminn hefði ekki verið alslæmur. Því að fyrir utan þá sem kommúnistar myrða og fangelsa fá flestir hinir að borða og fá húsaskjól. „En í austrinu varstu eins og belja bundin í bás og þú fékkst að borða á hverjum degi og þér varð ekki kalt en þú fékkst ekki að hreyfa þig. Í vestrinu ertu í frumskóginum. Hann er hættulegur en þú kemst út um allt og hann er svo fallegur, hann er svo ofsalega fallegur“.

Flestar af myndum hans fjalla um utangarðsmenn. Til dæmis Gaukshreiðrið, Ákæruvaldið gegn Larry Flynt og Manni á tunglinu. Uppreisnarmennirnir í þessum myndum eru ekki aktívistar eða auðnuleysingjar, þeir eru að berjast fyrir einstaklingnum, frjálsri hugsun og því að fá að vera það sem þeir eru.

Forman hefur oft talað um að þetta sé glíman sem fylgi þróun mannkynsins. Barátta einstaklingsins gegn stofnunum. „Við þurfum stofnanir. Við setjum þær á laggirnar til þess að auðvelda okkur lífið. Þeim er ætlað að þjóna okkur og við borgum þeim. En smám saman byrja allar þessar stofnanir að hegða sér eins og þær borgi okkur til að þjóna sér. Þetta er ævagömul togstreita.“

Hann vildi meina að þótt aðstæður væru allar betri í dag í Evrópu og í Bandaríkjunum væri baráttan fyrir frelsinu alltaf í gangi. Og yrði það áfram. Nota bene, allt sem hann sagði var fyrir stjórn Obama og Trump.

Höfundur er rithöfundur.