Eins og lesendur Þjóðmála hafa tekið eftir ritaði ég stutta samantekt um útgáfusögu Kjarnans í síðasta tölublaði. Þar var horft sérstaklega til tengsla fjölmiðilsins við eigendurna. Aðstandendur Kjarnans, þó sérstaklega ritstjórinn Þórður Snær Júlíusson, hafa verið frekir til fjörsins í fjölmiðlum og oft gagnrýnt aðra fjölmiðla og fjölmiðlamenn. Því þótti forvitnilegt að líta til orða og athafna þeirra sjálfra. Hugmyndin var að framkvæma sjálfstæða greiningu á rekstrarsögu miðilsins og setja hana í samhengi við ritstjórnarstefnuna.1
Ég varð var við að einstaka fjölmiðlamenn urðu undrandi á skrifum mínum. Þar hafa birst tvenn sjónarmið: annars vegar að hugsanlega væri ekki hyggilegt að kalla yfir sig reiði ritstjóra Kjarnans og hins vegar að rangt væri að gagnrýna miðilinn á þennan hátt.
Það fór eins og mig grunaði um að viðbrögðin reyndust harkaleg, reyndar svo að furðu sætir. Óhætt er að segja að umfjöllunin hafi strokið ritstjóranum öfugt og kallað á hörð viðbrögð úr Kjarnasamfélaginu. Málaferlum hefur verið hóta á hendur miðli sem vitnaði til fréttar minnar, skrifum mínum hefur verið svarað með mjög vanstilltum hætti, ég hef átt fund með stjórnarformanni Kjarnans og þá hefur verið reynt í tvígang að kæra skrif mín til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Siðanefndin vísaði málinu frá í bæði skiptin og taldi að ummæli mín væru innan marka þess tjáningarfrelsis sem blaðamenn hefðu og ætti ekki erindi til nefndarinnar.2 Kærurnar voru nánast samstofna og því í raun um að ræða sama málið í bæði skiptin og sýnir það að málið var sótt fremur af kappi en forsjá.
Rifjum upp atburðarásina. Vefritið Viljinn gerði grein minni nokkur skil fljótlega eftir birtingu og vakti athygli á breyttu heimilisfangi Kjarnans en félagið er nú með sömu starfsstöð og Vilhjálmur Þorsteinsson, annar stærsti hluthafi félagsins.3 Hafa má í huga að Vilhjálmur hefur áður sýnt augljósa þöggunartilburði gagnvart umfjöllun um sig. Til að mynda hótaði Vilhjálmur ritstjóra og útgefanda Eyjunnar málsókn og háum skaðabótakröfum eftir að fjölmiðillinn sagði fyrstur frá því að félög hans væru í skattaskjólum og tengdust Panamaskjölunum.4 Sama hefur hann gert síðar gagnvart öðrum fjölmiðlum sem ekki hafa verið honum þóknanlegir.
Hörðustu viðbrögðin birtust þó daginn eftir í grein Þórðar Snæs í Kjarnanum en henni hefur líkast til verið ætlað að vera svar við grein minni.5 Óhætt er að segja að Þórður Snær hafi þar beint spjótum sínum heldur harkalega að persónu minni eins og fyrirsögnin gefur til kynna („Hvað vakir fyrir Sigurði Má Jónssyni?“). Um leið orðaði ritstjórinn furðulegar samsæriskenningar. Þessari grein svaraði ég á bloggsíðu minni á mbl.is.6 Þar benti ég á þá augljósu staðreynd að í grein sinni hefði Þórður Snær ritstjóri ekki hrakið neitt af því sem ég hafði tekið fyrir í umfjöllun minni. Hafa má í huga að ritstjórinn sneri sér aldrei beint til mín með athugasemdir heldur sendi þær á ritstjóra Þjóðmála. Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans, falaðist hins vegar eftir fundi með mér og taldi ég sjálfsagt að verða við því og hittumst við á kaffihúsi þriðjudaginn 14. maí. Ég tel ekki rétt að tíunda efni fundarins en hann var kurteis í hvívetna. Átta dögum áður, eða 6. maí, hafði Þórður Snær hins vegar sent siðanefnd Blaðamannafélags Íslands kæru vegna greinar minnar. Um þá málsmeðferð vissi ég ekkert þar til 28. maí þegar upplýst var að siðanefnd hefði úrskurðað að vísa bæri kærunni frá með þeim rökum að hér væri um að ræða þjóðmálaumræðu sem ritstjórinn yrði að þola.7
Þórður Snær brást ókvæða við og skrifaði þetta á Facebook-síðu sinni 3. júní:
„Þetta er svona nett kostulegt. Maður sem lýgur heilan helling upp á fólk og fyrirtæki í fjölmiðli í því sem hann kallar sjálfur fréttaskýringu, er sviptur blaðamennskusjálfræði af siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.“
Um leið upplýsti hann að málið hefði verið kært aftur föstudaginn 31. maí, „með viðbótarupplýsingum sem eyða öllum vafa um hvers eðlis efnið var sett fram“.
Öll viðbrögð ritstjórans bera merki spuna, hann var að reyna að segja lesendum sínum að frávísun siðanefndar sé einhver áfellisdómur yfir mér. Þessi spuni barst inn í undarlega frétt Stundarinnar um málið.8 Viðbrögð mín birtust í pistli á bloggsvæði mínu nokkrum dögum síðar enda var nauðsynlegt að benda á hve fráleit þessi þöggunarherferð ritstjórans er.9 Siðanefndin vísaði málinu frá í bæði skiptin. Hún taldi að ummæli mín væru innan marka þess tjáningarfrelsis sem blaðamenn hefðu og ætti ekki erindi til nefndarinnar.10 Kærurnar voru nánast samstofna og því í raun um að ræða sömu málsrök í bæði skiptin sem sýnir að málið er sótt fremur af kappi en forsjá. Það er sérkennilegt að sjá hve langt ritstjórinn var tilbúinn að ganga til að þagga niður í umræðu sem hann sjálfan varðar og þar var hann ekki vandur að meðulum. Þegar niðurstaða siðanefndar lá fyrir var ritstjóra Þjóðmála enn á ný send krafa um leiðréttingu.
Vitaskuld undrast margir í blaðamannastéttinni þennan ofstopa eins og kom fram í pistli Andrésar Magnússonar, fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins:
„Svo er auðvitað annað í þessu, sem er að hefðin hefur um áratugaskeið verið sú að blaðamenn kæra ekki hver annan. Hvorki til siðanefndar né með stefnum fyrir dómstóla. Vegna þess að þeir hafa trú á mætti orðsins og málfrelsinu.“11
Nýir hluthafar og hagnaður breytist í „jafnvægi“
Í millitíðinni hefur það gerst að nýir hluthafar hafa komið inn í rekstrarfélag Kjarnans um leið og upplýst var um tap af rekstri síðasta árs.12 Meðal nýrra hluthafa er eignarhaldsfélagið Vogabakki ehf., í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar. Vogabakki keypti 4,67 prósent hlut í félaginu. Samkvæmt frétt Kjarnans er seljandi hlutanna Kjarninn miðlar sjálfir en félagið átti 6,25 prósent hlut í sjálfum sér. Auk þess hefur hlutafé í félaginu verið aukið lítillega. Nýtt hlutafé verður nýtt til að fjölga stöðugildum hjá Kjarnanum og þar með styrkja starfsemi miðilsins, segir í fréttinni. Um leið var upplýst um rekstrarniðurstöðu síðasta árs, sem gerði það að verkum að ritstjórinn varð að lauma þessari breytingu aftan við grein sína frá 25. apríl:
„Í upphaflegri útgáfu greinarinnar stóð að Kjarninn hafi verið rekinn með hagnaði 2018 og byggði það á bráðabirgðauppgjöri í þess árs. Í endanlegu uppgjöri vegna ársins er gjaldfærður einskiptiskostnaður sem gerir það að verkum að endanleg rekstrarniðurstaða varð neikvæð um 2,5 milljónir króna. Án þess kostnaðar hefði niðurstaða ársins verið jákvæð. Því hefur orðinu hagnaður í greininni verið breytt í ,jafnvægi‘ til samræmis við ársreikning félagsins.“13
Það er óhætt að segja að lítið fari fyrir þessari breytingu á greininni og það þarf nokkuð glöggan lestur til að taka eftir henni. Við blasir þó að 25. apríl 2019 vissi ritstjórinn ekki meira um afkomu eigin miðils árið 2018 en svo að hann fullyrti að um hagnað hefði verið að ræða. Um leið hafði hann upp hefðbundin stóryrði um meintar rangfærslur mínar. Blasir ekki við að fjárfestirinn Þórður Snær þarf að gera upp við sig hvort hagsmunir hans fari saman við hagsmuni blaðamannsins Þórðar Snæs?
Síðasta fjárfesting Vogabakka í fjölmiðlum var í Fréttatímanum sem fór í gjaldþrot án þess að hafa gert upp við starfsfólk sitt.14
Um vinnubrögð ritstjórans
Sá er þetta skrifar hefur rökstudda ástæðu til að efast um heiðarleika vinnubragða ritstjóra Kjarnans. Af því hef ég persónulega reynslu sem skal rakin hér stuttlega, lesendum til skýringar. Í vetrarhefti tímaritsins Þjóðmál 2016 skrifaði ég grein sem hét: „Bankahrun og byltingastjórnarskrá.“15 Í greininni rakti ég vinnu við nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs og reyndi meðal annars að setja hana í alþjóðlegt samhengi, að hluta til með vísun í þá einstaklinga sem höfðu tengst vinnunni. Greininni skilaði ég frá mér til þáverandi ritstjóra Þjóðmála, Óla Björns Kárasonar, hinn 16. nóvember 2016. Á þeim tíma var ég upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar og deildi skrifstofu með aðstoðarmönnum hans, þeim Benedikt Sigurðssyni og Ágústi Bjarna Garðarssyni. Vetrarheftið kom út í byrjun desember en þá var Sigurður Ingi enn forsætisráðherra. Efni greinarinnar byggðist á eigin hugleiðingum en það stangaðist ekki á nokkurn hátt á við stefnu ríkisstjórnar Sigurðar Inga. Reyndar var það svo að við Sigurður Ingi ræddum talsvert stöðuna í stjórnarskrármálinu, enda gerði hann tilraun til þess á lokadögum ríkisstjórnar sinnar að þoka vinnu við hana áleiðis.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum hinn 11. janúar 2017. Hún var sett saman af Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Bjartri framtíð. Það varð að samkomulagi við Bjarna Benediktsson að ég sæti áfram sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar hans með starfsaðstöðu í forsætisráðuneytinu, samkvæmt venju. Um þetta var engin ágreiningur enda starfar upplýsingafulltrúinn einkum með forsætisráðherra og telst til pólitískra aðstoðarmanna.
Líður nú og bíður þar til allt í einu að 17. mars 2017 birtist grein á Kjarnanum eftir ritstjórann sem bar heitið: „Skrif upplýsingafulltrúa ríkisstjórnar samræmast ekki stöðu hans“. Í inngangi fréttarinnar sagði að Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar teldi að skrif Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar í Þjóðmálum um stjórnarskrármál „samræmist ekki stöðu hans“.16 Þarna var augljóslega verið að setja upp fréttaleikrit, falsfrétt. Skrif mín vörðuðu á engan hátt nýja ríkisstjórn þar sem hún var skrifuð og birt í tíð annarar ríkisstjórnar, án athugasemdar.
Fréttin verður enn kostulegri þegar þessi setning er lesin:
„Óttarr setur þann fyrirvara að hann hafi ekki lesið sjálfa greinina heldur einungis endursögn Stundarinnar úr greininni.“17
Með öðrum orðum, Óttar hafði ekki lesið greinina sem um ræddi og þó voru orð hans um hana tilefni fyrirsagnar Kjarnans! Það stöðvaði þó ekki ritstjóra Kjarnans í að setja upp fréttaleikrit sitt. Í sömu „frétt“ kemur fram að Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, var spurður að því sama. Benedikt sá við blekkingunni og sagðist einfaldlega ekki hafa lesið greinina í Þjóðmálum og vildi þess vegna ekki ræða efni hennar. Varla þarf að taka fram að aldrei var gerð tilraun til að bera málið undir mig.
Þessi skrif fá nýja merkingu þegar eftirfarandi málsgrein er lesin í svari ritstjórans frá 25 apríl sl.:
„Þetta var nú allt samsærið gegn Sigmundi Davíð, manni sem Sigurður Már tók svo til starfa fyrir sem upplýsingafulltrúi og hagaði sér af slíkum óheilindum að þegar fyrir lá að hann yrði áfram við störf eftir að ný ríkisstjórn tók við 2016 þá höfðu ýmsir fjölmiðlamenn, af nokkrum mismunandi miðlum, samband við ráðgjafa nýrra stjórnarherra og gerðu þeim ljóst að þeir treystu sér ekki til að eiga í samskiptum við hann. Einfaldlega vegna þess að hegðun hans og atferli, og framganga í vinnslu eðlilegra beiðna um upplýsingar sem til hans var beint, hafði verið þess eðlis að þeir treystu honum ekki.“18
Allt voru þetta nýja upplýsingar fyrir mig og reyndar kannast enginn sem ég hef spurt um þetta mál við atburðarásina eins og ritstjóri Kjarnans lýsir henni.
Þetta stangast líka á við þær takmörkuðu fréttir sem fluttar voru af endurráðningu minni, eins og sjá mátti í pistli á Eyjunni.19 Þar var ég kallaður „ fagmaður“ og áframhald á ráðningarsamningi mínum var talinn vitnisburður um það. Þessi orð ritstjórans varpa þó ljósi á, að á sama tíma og hann var að reyna að gera störf mín tortryggileg með fréttablekkingum, eins og rakið hér að framan, starfaði hann við að ófrægja mig að baki tjalda. Hvað hefur þetta með ágenga og heiðarlega blaðamennsku að gera eins og hann vill skreyta sig með? Ekki er annað hægt en að skilja það svo að hann hafi sjálfur stýrt þessum „hópi“ fjölmiðlamanna sem hann vísar til því að enginn þekkti þennan hóp. Í þessu sambandi er vert að benda á önnur furðuskrif hans er tengdust mér.
Í maí 2015 birti ég grein á Kjarnanum sem fjallaði um „Leiðréttinguna“ og áhrif hennar.20 Sú grein var skrifuð að beiðni forsætisráðherra og í samráði við aðra samstarfsmenn hans. Þar benti ég á ýmsar rangfærslur sem Kjarninn hafði sett fram í baráttu sinni gegn Leiðréttingunni. Ekki er hægt að skilja endurtekin skrif ritstjórans öðru vísi en að hann hafi lagst gegn Leiðréttingunni.
Vitaskuld svaraði ritstjóri Kjarnans málinu með leiðara á eigin miðli. Það var viðbúið. Í stað þess að ræða málin efnislega kýs hann frekar að gera mig tortryggilegan, semsagt ad hominem rök eina ferðina enn. Þar segir ritstjórinn:
„Við þetta er margt að athuga. Sigurður Már er upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Íslands. Hann er á launum hjá almenningi. Þau laun virðist hann þiggja fyrir að vera varðhundur sjónarmiða ákveðins hluta ríkisstjórnarinnar.“21
Hér er freistandi að segja – en ekki hvað? Var nokkur dulinn þess að ég var pólitískt ráðinn og hluti þeirra pólitísku aðstoðarmanna sem heimilt er að ráða samkvæmt lögum og hundruð dæma eru um? Í mörgum tilvikum taka þessir aðstoðarmenn þátt í opinberri umræðu án þess að starfskjör þeirra séu gerð tortryggileg. Það hefur gerst oftar en tölu verður komið á að pólitískir aðstoðarmenn taka þátt í opinberri umræðu til að útskýra stefnu yfirmanna sinna. Nýlegt dæmi birtist fyrir stuttu þegar aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra birti grein í Morgunblaðinu þar sem hann gagnrýndi sérfræðilækna harðlega.22 Ekki var hann minntur á að hann þægi laun hjá almenningi í kjölfar þess, enda engin ástæða til.
Ég starfaði fyrir forsætisráðherra samkvæmt lögum um aðstoðarmenn, eins og forverar mínir og eftirmenn. Ég sigldi aldrei undir fölsku flaggi en það sama verður ekki sagt um ritstjóra Kjarnans.
Höfundur er blaðamaður.
—
Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson
—
Heimildir:
1. Sigurður Már Jónsson, „Kjarninn – að kaupa sig til áhrifa,“ Þjóðmál, vor 2019.
2. „Siðanefnd: Kæru vegna umfjöllunar um Kjarnann vísað frá,“ press.is, 11. júlí 2019.
3. „Kjarninn nú starfræktur inni á skrifstofu félags Vilhjálms,“ viljinn.is, 24. apríl 2019.
4. Samtal við Björn Inga Hrafnsson, 15. júlí 2019.
5. Þórður Snær Júlíusson, „Hvað vakir fyrir Sigurði Má Jónssyni?“ kjarninn.is, 25. apríl 2019.
6. Sigurður Már Jónsson, „Áfall í bergmálshellinum,“ mbl.is, 29. apríl 2019.
7. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, mál nr. 2/2019-2020.
8. Jóhann Páll Jóhannsson, „Siðanefnd vísar kæru Þórðar frá en telur ,fréttaskýringu‚ Sigurðar ekki vera fréttaskýringu,“ stundin.is, 3. júní 2019. Í greininni er þessi kostulegi myndatexti: „Sigurður Már lýsir sjálfum sér sem blaðamanni og grein sinni í Þjóðmálum sem fréttaskýringu.“ Eftir tæplega 35 ár í blaðamennsku telur Jóhann Páll ekkert til vitnis um það annað en mín eigin orð! Myndi orðið meinfýsni eiga við um svona skrif?
9. Sigurður Már Jónsson, „Að æra óstöðugan,“ mbl.is, 5.júní 2019.
10. „Siðanefnd: Kæru vegna umfjöllunar um Kjarnann vísað frá,“ press.is, 11. júlí 2019.
11. Andrés Magnússon, „Kjarni málsins,“ Viðskiptablaðið 18. júlí 2019.
12. „Nýir hluthafar hafa keypt hluti af Kjarnanum miðlum í Kjarnanum miðlum,“ kjarninn.is, 5. júlí 2019.
13. Þórður Snær Júlíusson, „Hvað vakir fyrir Sigurði Má Jónssyni?“ kjarninn.is, 25. apríl 2019. Færslan var síðast uppfærð 5. júlí 2019.
14. „Útgáfufélag Fréttatímans gjaldþrota,“ vb.is, 5. Júlí 2017.
15. Sigurður Már Jónsson, „Bankahrun og byltingastjórnarskrá“, Þjóðmál (vetur) 2016, bls. 35–43.
16. Þórður Snær Júlíusson, „Skrif upplýsingafulltrúa ríkisstjórnar samræmast ekki stöðu hans,“ kjarninn.is, 17.mars 2017.
17. Tveimur dögum áður hafði birst nafnlaus frétt á vef Stundarinnar sem var fremur samhengislaus endursögn á sumu því sem ég hafði skrifað í Þjóðmál. „Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar tengir nýja stjórnarskrá við Hugo Chavez og marxista,“ stundin.is, 15. mars 2016.
18. Þórður Snær Júlíusson, „Hvað vakir fyrir Sigurði Má Jónssyni?“ kjarninn.is, 25. apríl 2019. Færslan var síðast uppfærð 5. júlí 2019.
19. „Fagmaður á ferð,“ eyjan.is, 24. janúar 2017.
20. Sigurður Már Jónsson, „Leiðréttingin hefur hverfandi áhrif á verðbólgu,“ kjarninn.is, 6. maí 2015.
21. Þórður Snær Júlíusson, „Upplýsingafulltrúi á launum hjá almenningi býr til andstæðinga,“ kjarninn.is, 6. maí 2015.
22. Birgir Jakobsson, „Heilaþvottur“, Morgunblaðið, 21. júní 2019.