Vinstrið heldur Silfrinu

Silfrið, 24. nóvember 2019. Hér frá vinstri má sjá Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmann VG, Egil Helgason þáttastjórnanda, Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og Atla Þór Fanndal sem hefur starfað sem blaðamaður. (Mynd: Skjáskot af vef RÚV).

Það getur verið vandasamt verkefni að stýra umræðuþætti um stjórnmál og önnur mikilvæg þjóðfélagsmál. Flestir gætu verið sammála um mikilvægi þess að slíkir þættir varpi fram ólíkum sjónamiðum á málefni líðandi stundar, dragi fram upplýsta umræðu og færi áhorfendum heima í stofu einhvers konar heildarsýn yfir þau mál sem helst ber á góma – eða jafnvel stjórnmál í heild sinni. Það getur á köflum verið erfitt, enda mál oft flókin og margþætt, en það má í það minnsta gera sitt besta. Það er mýta að halda því fram að fjölmiðlar séu hlutlausir, en þeir geta og eiga að vera sanngjarnir.

Á þessu er þó ein undantekning, því að í lögum um Ríkisútvarpið ohf. er skýrt kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Eftirfylgni á þessum lögum er þó ávallt háð huglægu mati. Ríkisútvarpið heldur úti nokkrum þáttum sem ætlað er að sinna þessu hlutverki, t.d. Vikulokunum á Rás 2 og Silfrinu í Ríkissjónvarpinu á sunnudögum. Í kynningu á Silfrinu á vef Ríkissjónvarpsins segir að stjórnendur þáttarins fái „til sín gesti til að kryfja með sér atburði liðinnar viku og pólitískt landslag hverju sinni“.

Síðastliðinn vetur gerði Þjóðmál úttekt á viðmælendum þáttarins. Þátturinn hefst iðulega með liðnum Vettvangur dagsins þar sem í flestum tilvikum fjórir viðmælendur ræða málefni líðandi stundar. Á síðasta vetri höfðu 142 viðmælendur tekið þátt í þjóðfélagsumræðu undir þessum lið, sumir oftar en einu sinni (sumir einstaklingar mæta oftar en einu sinni og er hver heimsókn talin). Hlutfall þeirra sem auðveldlega má flokka til vinstri var þegar þátturinn fór í sumarfrí 51%, alls 73 viðmælendur. Hlutfall hægrimanna var 19%, eða 27 viðmælendur. Aðrir voru ýmist flokkaðir á miðju (20%) eða óflokkaðir (10%).

Frá því að Silfrið hóf aftur göngu sína í haust hafa 68 viðmælendur tekið þátt í umræðum undir liðnum Vettvangur dagsins, í 16 þáttum. Vinstrimenn halda sínum hlut, þar sem 50% viðmælanda þáttarins eru vinstrisinnuð. Hlutfall hægrimann hefur farið lítillega hækkandi. Alls mætti flokka 17 viðmælendur sem hægrisinnaða (25% hlutfall viðmælanda) og tíu viðmælendur á miðjunni (15%). Á síðunni hér til hliðar má sjá lista yfir viðmælendur frá því að þátturinn hóf göngu sína á ný í byrjun september og fram að jólafríi.

Flokkun viðmælenda er vissulega aldrei yfir gagnrýni hafin og eflaust má deila um eitt og eitt nafn. Einhverjir hafa gagnrýnt Þjóðmál fyrir að setja einstaka fjölmiðlamenn undir liðinn „óflokkaðir“ og talið að þeir ættu frekar að flokkast vinstra megin. Flokkunin gefur engu að síður góða mynd af því hvernig þessi helsti umræðuþáttur ríkisins velur viðmælendur sína.