Forstjóri SÍ skerpir á hugmyndafræði VG

Það hefur ekki alltaf gefist vel að auka ríkisrekstur í heilbrigðismálum.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að stjórnmálaflokkar standi fyrir hinum ýmsu námskeiðum og fundum um stjórnmál, stefnumál flokkanna, hugmyndafræði og þannig mætti áfram telja.

Rétt er þó að hafa í huga að það er talsverður munur á fundum og námskeiðum í þessu tilliti. Það er algengt að stjórnmálaflokkar haldi upplýsinga- eða kappræðufundi þar sem fengnir eru til leiks aðilar með ólík sjónarmið og ólíka stefnu til að ræða einstök málefni.

Stjórnmálaskólar eru aftur á móti haldnir til að skerpa enn betur á hugmyndafræðinni og þeir eru í flestum tilvikum sóttir af ungu fólki sem hefur brennandi áhuga á stjórnmálum. Í flestum tilvikum eru fengnir til leiks kjörnir fulltrúar viðkomandi stjórnmálaflokks eða aðrir aðilar sem ýmist gegna trúnaðarstörfum eða teljast með einhverjum hætti áhrifavaldar (með raunveruleg áhrif) innan flokksins.

Vinstri grænir standa í vikunni fyrir stjórnmálaskóla þar sem fjallað er um „umbætur í heilbrigðisþjónustu“ eins og það er orðað í auglýsingu skólans.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun sjálf stýra fundinum en margir af hennar nánustu samverkamönnum munu halda þar erindi.

Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og fv. landlæknir mun halda erindi um það hvað þurfi að bæta í íslensku heilbrigðiskerfi. Birgir hefur á seinni árum verið einn helsti hugmyndafræðingur VG að auknum ríkisrekstri í heilbrigðiskerfinu, jafnvel þó að vitað sé um slæmar afleiðingar þeirrar stefnu.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við HÍ, mun halda erindi um forgangsröðun og siðferðisleg gildi. Vilhjálmur hefur í gegnum tíðina talað máli vinstri flokkanna en kærir sig þó lítið um að vera kenndur frekar við þá. Hann er auðvitað bara hlutlaus fræðimaður.

En mestu athyglina vekur þó að María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, mun halda erindi um kaup á heilbrigðisþjónustu. María var pólitískt skipuð forstjóri Sjúkratrygginga á síðasta ári, einmitt af Svandísi Svavarsdóttur. Það hlýtur að vekja upp spurningar þegar forstjórar í ríkisstofnunum halda erindi í stjórnmálaskólum flokkanna, þar sem stefna flokkanna er kennd. Það er hlutverk Sjúkratrygginga að kaupa gæðaþjónustu á sem bestu verði og tryggja það að almenningur hafi aðgang að þeirri aðstoð sem hann þarf á að halda.

Allir þessir aðilar eru talsmenn aukins ríkisreksturs í heilbrigðiskerfinu. Hvernig hefur sú stefna gengið í nútímasögunni?