Heimsmeistarar tefla á Selfossi í nóvember

Skákfélag Selfoss og nágrennis fagnar 30 ára afmæli í ár. Í tilefni þess verður haldin alþjóðleg skákhátíð á Hótel Selfossi dagana 19.-29. nóvember, sem ber nafnið Ísey skyrskákhátíðin. Aðalviðburður hátíðarinnar verður heimsmeistaramót í skák, þar sem etja munu kappi 10 meistarar af báðum kynjum, sem samtals hafa unnið 14 heimsmeistaratitla í mismunandi aldursflokkum.

Fjórir Íslendingar hafa unnið heimsmeistaratitil í skák. Jón L. Árnason varð heimsmeistari 17 ára og yngri árið 1977, Hannes Hlífar Stefánsson og Héðinn Steingrímsson urðu heimsmeistarar árið 1987 í flokki 16 ára og yngri og í flokki 12 ára og yngri. Fyrir aldarfjórðungi eignuðust Íslendingar síðast heimsmeistara í skák þegar Helgi Áss Grétarsson varð heimsmeistari ungmenna (20 ára og yngri) árið 1994. Allir íslensku heimsmeistararnir munu tefla á skákhátíðinni fyrir utan Jón L. Árnason.

Öflugir erlendir meistarar

Dinara að tafli á Reykjavíkurskákmótinu fyrr í ár.

Erlendir keppendur heimsmeistaramótsins koma frá fjórum heimsálfum. Á meðal þeirra eru tvær ungar skákkonur frá Kasakstan og Íran sem eru meðal bestu skákkvenna í heimi. Dinara Saduakassova frá Kasakstan hefur þrívegis orðið heimsmeistari í mismunandi flokkum og síðast heimsmeistari kvenna 20 ára og yngri. Sarasadat Khademalsharie frá Íran hefur bæði orðið heimsmeistari í flokki 12 ára og yngri og heimsmeistari 16 ára og yngri í hraðskák. Báðar hafa þær verið reglulegir gestir á Reykjavíkurskákmótinu.

Frá Egyptalandi kemur Ahmed Adly, sem varð heimsmeistari 20 ára og yngri 2007. Frá Brasilíu kemur Rafael Leitão, sem varð heimsmeistari 12 ára og yngri 1991 og heimsmeistari 18 ára og yngri árið 1996. Hinn 17 ára Semyon Lomasov, heimsmeistari 14 ára og yngri 2016, er yngsti þátttakandinn í mótinu. Hann varð einnig Rússlandsmeistari 21 árs og yngri árið 2018. Mikhail Antipov, heimsmeistari 20 ára og yngri 2015, teflir einnig á mótinu. Sergei Zhigalko frá Hvíta- Rússlandi verður einnig meðal þátttakenda. Það fer vel á því að alþjóðlega skákhátíðin fari fram á Selfossi. Þar hvílir Bobby Fischer, einn allra þekktasti skákmaður allra tíma, og komið hefur verið á fót safni um afrek hans þar.

Sara Khadem frá Íran er ein efnilegasta skákkona heims.

Glæsilegur keppendalisti. Það verður fróðlegt að fylgjast með veislunni á Selfossi. En það eru ekki bara heimsmeistarar sem tefla á Selfossi!

Ekki bara heimsmeistarar

Auk heimsmeistaramótsins verða margir aðrir viðburðir á á alþjóðlegu skákhátíðinni. Haldið verður opna Suðurlandsmótið í skák, Íslandsmót í Fischer-slembiskák, skákkennaranámskeið, skákdómaranámskeið, barnaskákmót, hraðskákmót og málþing um stöðu skákíþróttarinnar á Íslandi. Skákkennara- og skákdómaranámskeiðið er haldið í samstarfi Skákfélags Selfoss og nágrennis og Skáksambands Íslands, sem er meðal stuðningsaðila við mótshaldið.

Skákkennaranámskeið

Stórmeistararnir Henrik Danielsen og Bragi Þorfinnsson tefldu fyrir SSON á Íslandsmóti skákfélaga.

Skákkennaranámskeið stendur greinarhöfundi nærri enda er það stefna Skáksambands Íslands að efla skákkennslu í grunnskólum. SÍ stendur þessa dagana að því að efla skákbúnað grunnskóla landsins og er með metnaðarfulla dagskrá þess efnis að heimsækja skóla víðs vegar um landið – til að hjálpa skólum að byggja upp skákkennslu. SÍ og SSON hafa fengið til landsins Jesper Hall, sænskan skákfrömuð og alþjóðlegan meistara, sem heldur hér námskeið í kringum mótshaldið. Tilgangur námskeiðsins er að kynna kennurum árangursríkar kennsluaðferðir við skákkennslu – og þá ekki síst hinum almenna kennara að geta kennt skák – en sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum að skák eykur bæði námsgetu og félagsfærni.

Kraftur í Selfyssingum

Skákfélag Selfoss og nágrennis hefur heldur betur komið kröftugt inn undanfarið. Félagið berst um Íslandsmeistaratitilinn við Víkingaklúbbinn og er í öðru sæti á Íslandsmóti skákfélaga.

Félagið sendi fimm sveitir á Íslandsmótið, næstflestar sveitir allra félaga. Aðeins hið rótgróna Taflfélag Reykjavíkur sendi fleiri sveitir til leiks.

Þeir sem eiga mestan heiðurinn af árangri SSON síðustu misseri eru Björgvin S. Guðmundsson, formaður félagsins, og Oddgeir Ottesen, framkvæmdastjóri skákhátíðarinnar. Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga verður haldinn á Selfossi í mars næstkomandi. Það væri ekki amalegt ef heimamenn næðu fyrsta Íslandsmeistaratitli sínum á heimavelli.

Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.