Mikilvægt skref Þórdísar

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur boðað mikilvægar breytingar á samkeppnislögum. Verði breytingarnar að veruleika munu þær efla íslenskt atvinnulíf. (Mynd: VB/HAG)

Það eru miklir lærdómar sem draga má af aðför Seðlabanka Íslands gegn Samherja, undir forystu Más Guðmundssonar. Um það mál hefur verið fjallað á síðum Þjóðmála og verður gert svo lengi sem nauðsyn krefur. Sem betur fer hafa forsvarsmenn Samherja ekki beygt sig og bugtað fyrir ofríkinu sem þeir máttu þola af hendi bankans og ríkisvaldsins.

Einn mikilvægasti lærdómur málsins er þó sá að það þarf nauðsynlega að takmarka völd hátt settra embættismanna og ríkisstofnana. Síðastliðinn áratugur hefur í raun verið gósentíð valdaþyrsta embættismanna og hafa stjórnmálamenn ýmist ekki þorað eða viljað setja þeim stólinn fyrir dyrnar. Sá stjórnmálamaður sem hreyfir við hugmyndum þess efnis að draga skuli úr vægi eftirlitsstofnana þarf um leið að svara fyrir hvort hann vilji í alvöru annað hrun! Þar erum við enn stödd í umræðunni.

***

Um ofríki eftirlitsstofnana hefur einnig verið fjallað hér í Þjóðmálum, enda full ástæða til. Helsta aðkoma stjórnmálamanna að rekstri og aðgerðum eftirlitsstofnana hefur verið sú að hlusta á hrakfallaspár þeirra sem stýra þessum stofnunum um að allt færi hér í kalda kol nema þær fengju auknar fjárveitingar. Þeim hefur yfirleitt orðið að ósk sinni, enda vill enginn stjórnmálamaður vera ábyrgur fyrir því að hér verði annað hrun!

***

Á þessu er þó að verða breyting, sem betur fer. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra hefur sett til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingar á samkeppnislögum. Drögin eru fremur hófstillt og sjálfsagt má ganga enn lengra en þar er boðað. Í stuttu máli er verið að færa lög um eftirlitið og starfsemi þess í sambærilegt form og þekkist annars staðar á Norðurlöndum.

Drögin að frumvarpinu eru mikilvæg og verða vonandi að lögum fyrr en síðar. Það hefur auðvitað verið áhugavert að fylgjast með andstæðingum málsins og málflutningi þeirra gegn frumvarpsdrögunum. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins sl. 14 ár, hefur látið mikið fyrir sér fara í andstöðu við málið og nýtur til þess stuðnings aðila sem hafa á liðnum árum starfað sem verktakar hjá stofnuninni, t.d. Gylfa Magnússonar hagfræðiprófessors (sem einnig er fv. stjórnarformaður stofnunarinnar).

***

Það er annað sem er mikilvægt í þessu máli. Það er sjálfsagt ekki tilgangur ráðherrans, en sem fyrr segir þarf að stíga stór og ákveðin skref í þá átt að takmarka völd embættismanna og ríkisstofnana. Samkeppniseftirlitið er þar ofarlega á lista.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), fjallaði um málefni Samkeppniseftirlitsins í grein á vef SA í lok maí. Þar taldi hann upp ýmsa þá þætti sem nauðsynlegt væri að breyta í lögum um stofnunina og benti réttilega á að margir aðilar í atvinnulífinu veigruðu sér við að fjalla um samkeppnismál af ótta við viðbrögð Samkeppniseftirlitsins.

Það er sorgleg staðreynd að það er ástæða til að óttast viðbrögð Samkeppniseftirlitsins. Eins og Halldór Benjamín benti á getur stofnunin hafið mál gegn fyrirtækjum, tilkynnt að meint brot séu til rannsóknar, safnað gögnum og borið sakir á einstaka stjórnendur eða starfsmenn fyrirtækja – án þess þó að það leiði nokkurn tímann til sekta eða dóma vegna samkeppnisbrota. Þetta hefur stofnunin ítrekað gert og það er ekkert útlit fyrir að stjórnendur hennar láti af þeirri venju.

Og það þarf í raun ekki gagnrýni á stofnunina til. Sá sem hér heldur á penna þekkir fjölmörg dæmi þess að aðilar í atvinnulífinu veigri sér einnig við því að óska eftir leiðbeiningum frá stofnuninni. Þeir sem það hafa gert hafa yfirleitt mætt skætingi og tortryggni í sinni garð – og auðvitað vill enginn stjórnandi í fyrirtæki að einföld fyrirspurn endi með húsleit og öllu því sem henni fylgir.

Það er nauðsynlegt að gera veigamiklar breytingar á starfsemi Samkeppniseftirlitsins og vonandi verða þær gerðar sem fyrst í þágu atvinnulífs og neytenda. Við skulum muna að hagsmunir atvinnulífs og almennings fara saman í þessu máli eins og öðrum.

***

Stjórnmálamenn liggja almennt ekki á skoðunum sínum. Þeir eru óhræddir við að hafa skoðanir á mönnum og málefnum og spara hvergi orð sín þegar kemur að einkafyrirtækjum. Því er þó öðruvísi farið með ríkisfyrirtæki og stofnanir. Stjórnmálamenn þögðu þunnu hljóði í fyrrnefndu Samherjamáli og horfðu á Seðlabankann misbeita valdi sínu. Þeir þögðu einnig og létu það átölulaust að embætti sérstaks saksóknara skyldi beita þeirri hörku sem embættið beitti við rannsókn hrunmálanna, t.d. að hlera símtöl lögmanna og sakborninga. Þeir hafa lítið sem ekkert sett út á starfsemi Samkeppniseftirlitsins. Svo virðist sem embættismenn og ríkisstofnanir fái alltaf að njóta vafans.

***

Á liðnum árum hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að takmarka völd stjórnmálamanna. Það má að mörgu leyti taka undir það, þó svo að umræðan hafi að mestu snúist um að takmarka þann tíma sem þeir mega sitja í kjörnum embættum sínum. Það er þó til lítils að takmarka völd stjórnmálamanna ef við ætlum að færa þau til embættismanna. Seðlabankinn og Samkeppniseftirlitið hafa, kannski sem betur fer, sýnt okkur hvernig embættismenn fara með völd sín. Það er ekki fögur sjón.

Við getum kosið stjórnmálamennina í burtu á einhverjum tímapunkti en embættismennirnir eru ekki að fara neitt. Þess utan hafa embættismenn ekkert lýðræðislegt umboð, þeir eiga aðeins að starfa eftir þeim lögum sem stjórnmálamenn setja.

***

Með því að kynna fyrrnefnt frumvarp sýnir Þórdís Kolbrún að hún sem ráðherra er ekki framlenging á embættismannakerfinu. Hún er fulltrúi almennings og það er hennar hlutverk að setja eftirlitsstofnunum stólinn fyrir dyrnar. Ef stjórnmálamenn gera það ekki gerir það enginn.

Í ljósi lofgjörðarinnar sem oft heyrist um umsvifamikið ríkisvald hjá frændþjóðum okkar felst auðvitað ákveðin kaldhæðni í því að horfa til þeirra með vonarglætu um að starfsemi íslenskra eftirlitsstofnana á borð við Samkeppniseftirlitið verði vonandi einn daginn eins og er hjá þeim. Það er ekkert sem kallar á að samkeppnislög, frekar en önnur lög, séu strangari eða þyngri hér en í öðrum norrænum löndum eða í öðrum nágrannaríkjum okkar. Það er ekkert sérstakt við íslenskt atvinnulíf sem kallar á strangari reglur en annars staðar. Hér eru aðilar á einkamarkaði einfaldlega að reyna að vinna vinnuna sína á milli þess sem þeir svara fyrirspurnum og erindum frá hinu opinbera. Og það er líklega ekki til sá embættismaður í Skandinavíu sem nú situr á skrifstofu sinni og veltir því fyrir sér með öfundsverðum hætti hvort íslenskir starfsbræður hans séu í raun þeir bestu í heimi.

Við gerum samfélagið hvorki betra né öflugra með því að efla ríkið eða ríkisstofnanir. Hluti af því að draga úr umsvifum ríkisins, sem er vonandi enn markmið Sjálfstæðisflokksins, er að draga úr hlutverki eftirlitsstofnana ríkisins. Þórdís Kolbrún hefur stigið mikilvægt skref í þá átt og það ber að lofa – og styðja.

Ritstjórnarbréfið birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.