Ofurstarfsmenn ríkisins í góðum málum

Flestir þeir sem vinna tvö störf gera það tilneyddir í þeim tilgangi að láta enda ná saman í heimilisbókhaldinu. Það telst sem betur fer sjaldgæft en þekkist þó – því miður.

Á þessu eru þó undantekningar og í nær öllum tilvikum eru það starfsmenn ríkisins sem þar eiga í hlut. Það fólk sem um ræðir virðist búa yfir þeim hæfileika að geta sinnt tveimur störfum í einu er svo lánsamt að hafa, ólíkt hinum almenna borgara, aðgang að tveimur vel launuðum störfum.

Þannig greindi ViðskiptaMogginn frá því um miðjan október að Aldís Hilmarsdóttir hefði á tímabilinu mars 2018 til ágúst 2019 sent Samkeppniseftirlitinu verktakareikninga upp á 7,5 milljónir króna. Hún hafði þannig að jafnaði rúmlega 440 þúsund krónur á mánuði í tekjur vegna starfa sinna, sem vel að merkja er ekki lokið, við meint samkeppnisbrot skipafélaga. Það verður að teljast óvenjulegt með öllu að Samkeppniseftirlitið ráði til sín einkalögreglu til að sinna rannsóknum, en stofnunin grípur nú til ýmissa ráða eftir að hafa rannsakað skipafélögin í nærri áratug án nokkurrar niðurstöðu.

Aldís hefur samhliða rannsóknarstörfum sínum verið í fullu starfi sem framkvæmdastjóri húsnæðisbótasviðs Íbúðalánasjóðs. Áður var hún yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hér hlýtur að vera um einhvers konar ofurstarfsmann að ræða, því ekki ætlum við henni annað en að hún sinni báðum þessum störfum fyrir ríkið af fullum krafti, skilvirkni og samviskusemi. Fyrst og fremst er þó ástæða til að samgleðjast henni yfir því að hafa aðgang að tveimur vel launuðum störfum hjá ríkinu. Þessar launagreiðslur standa ekki öllum til boða.

Aldís er þó ekki eini ofurstarfsmaður ríkisins. Hæstaréttardómarar hafa um áraraðir sinnt ýmsum launuðum aukastörfum fyrir ríkið og ná samt að sinna því starfi sem þeir voru æviráðnir til að sinna. Jón H. B. Snorrason, fv. aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, fékk á sínum tíma að minnsta kosti 18 milljónir króna í greiðslur frá Embætti sérstaks saksóknara fyrir verktakavinnu sína – sem hann sinnti samhliða fullu starfi sínu sem aðstoðarlögreglustjóri.