Berlínarmúrinn og endir sögunnar

Yfirvöld í Austur-Þýskalandi, Alþýðulýðveldinu Þýskalandi, hófu framkvæmdir á mörkum Austur- og Vestur-Berlínar í ágúst 1961. Þau vildu koma í veg fyrir áframhaldandi flótta þúsunda sem vildu komast úr fátækt og kúgun í efnahagslegan uppgang og lýðræði í Vestur-Þýskalandi. Múrinn féll í nóvember 1989, en hér má sjá einn af mörgum varðturnum hermanna sem gættu þess að enginn færi yfir á meðan hann stóð.

Í ágústmánuði 1986, þegar liðinn var aldarfjórðungur frá því að bygging Berlínarmúrsins hófst, óraði engan fyrir því að saga hans yrði senn öll. Þýskalandi var skipt milli Bandamanna eftir seinni heimsstyrjöldina, vesturhlutinn var undir stjórn Bandaríkjamanna, Breta og Frakka, austurhlutinn undir stjórn Sovétríkjanna. Höfuðborginni Berlín var skipt á sama hátt.

Kalt stríð var á milli þessara ríkja og helsta tákn þess var þessi tröllaukni múr. Hann var ekki járntjald í bókstaflegum skilningi eins og Winston Churchill lýsti í frægri ræðu í Westminster College í Missouri í Bandaríkjunum árið 1946. Þá sagði Churchill:

„From Stettin in the Baltic to Trieste in the Adriatic an iron curtain has descended across the Continent.“

7.000 kílómetra víggirt landamæri

Í veruleikanum var járntjaldið 7.000 kílómetra víggirt landamæri austurs og vesturs, gaddavír, girðingar, múrar og jarðsprengjusvæði. Hermenn vöktuðu járntjaldið úr eftirlitsturnum og aðeins var hægt að fara á milli um sérstök hlið. Þekktasta hliðið er án efa Checkpoint Charlie í Friedrichstrasse í Berlín. Hvergi var járntjaldið óárennilegra en í Berlín. Múrinn sem umlukti Vestur-Berlín var tákn skiptingar Evrópu.

Yfirvöld í Austur-Þýskalandi, Alþýðulýðveldinu Þýskalandi, hófu framkvæmdir á mörkum Austur- og Vestur-Berlínar 13. ágúst 1961. Þau vildu koma í veg fyrir áframhaldandi flótta þúsunda sem vildu komast úr fátækt og kúgun í efnahagslegan uppgang og lýðræði í Vestur-Þýskalandi. Í munni kommúnistastjórnar Alþýðulýðveldisins voru þetta andfasískar varnir og múrinn andfasískur varnarveggur, „antifaschistischer Schutzwall“. Talið er að á fjórðu milljón hafi flúið vestur yfir þangað til múrinn var reistur. Áfram héldu Austur-Þjóðverjar að reyna að flýja, mörgum tókst það en fjöldi féll fyrir kúlum landamæravarða við múrinn.

Erfið landamæraskoðun

Það var óhugnanleg upplifun að fara á milli borgarhluta Berlínar og sæta strangri leit á leið frá Austur-Berlín. Speglum var rennt undir bíla, þreifað með prjóni inn í bensíntanka, farangur grandskoðaður, bókum flett, allt undir vökulum og tortryggnum augum hermanna og lögregluliðs með alvæpni. Það var erfitt, raunar ómögulegt að skýra þessar aðfarir og múrinn sjálfan fyrir fimm ára syni sem var með í för.

Fréttamaður reyndist ekki sannspár

Fréttamaður fer með fleipur við Berlínarmúrinn.

13. ágúst 1986 stóð ég með hljóðnema við múrinn í Berlín og sagði þetta eitthvert alræmdasta mannvirki heims, sem skipti borginni í tvo hluta þvert á stræti, torg og hús. Þetta tákn kúgunar og ófrelsis hefði staðið þarna í 25 ár og fátt benti til annars en að hann yrði þarna einnig eftir önnur 25 ár!

Sem betur fer reyndist fréttamaðurinn ekki sannspár. Það liðu ekki nema þrjú ár uns múrinn féll. Atburðarásin var hröð eftir að fyrstu sprungurnar í veldi Sovétríkjanna mynduðust. Fram að þessu höfðu yfirvöld í Kreml ekki hikað við að beita hervaldi til að kveða niður andspyrnu í grannríkjunum í vestri sem þeir höfðu stjórnað frá stríðslokum 1945. Austur-Berlín 1953, Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakía 1968. Í Póllandi reyndi Wojciech Jaruzelski hershöfðingi að brjóta á bak aftur verkalýðshreyfinguna Samstöðu, Solidarność, með því að setja herlög.

En 1989 var Sovétstjórnin ekki lengur reiðubúin að beita hervaldi. Mikhaíl Gorbatsjov fetaði ekki í fótspor Stalíns, Krútsjovs og Brezhnevs.

Sovétveldið hrundi sem spilaborg

Fáir sáu þessa þróun fyrir; það lá ekki í augum uppi að kommúnisminn stæði á brauðfótum. Sovétríkin og bandalagsríki þeirra í Varsjárbandalaginu réðu yfir gríðarlega öflugum herafla en efnahagslífið var veikara en flestum á Vesturlöndum var ljóst.

Einn viðmælandi minn sagði þó 1988 að kommúnisminn í Austur-Evrópu væri kominn að hruni. Þetta var Alp Mehmet, sem kom til starfa í breska sendiráðinu í Reykjavík það ár. Hann kom til Íslands frá Rúmeníu og af glöggskyggni sá hann að miklir atburðir væru í vændum. Mehmet kom svo aftur til starfa á Íslandi fyrir utanríkisþjónustu hennar hátignar, þá sem sendiherra. Spá hans um að alræði kommúnista í Austur-Evrópu væri að renna sitt skeið á enda rættist 1989.

Atburðir gerðust hratt það haust. Víðast var það vegna friðsamlegra fjöldamótmæla og andspyrnu almennings gegn alræðisstjórnunum. Fyrst féll kommúnisminn í Póllandi, hinn svokallaði Sameiningarflokkur pólskar alþýðu féll frá einflokkskerfi og haldnar voru fyrstu kosningar Austur-Evrópu sem kallast gátu frjálsar að hluta. Samstaða vann yfirburðasigur í þeim kjördæmum þar sem samtökunum var leyft að bjóða fram. Það má heita merkilegt að einræðisríki þar sem valdhafar studdust við her og lögreglu skyldu öll falla án þess að til átaka og blóðsúthellinga kæmi. Rúmenía er þar undantekning.

Í nóvember 1989 horfði hinn vestræni heimur með gleðiblandinni undrun á veldi Sovétríkjanna molna og hrynja. Heimsmyndin var að gjörbreytast.

Gleðidagar í Berlínarborg

Friðrik Páll Jónsson við Berlínarmúrinn í nóvember 1989.

„Þúsundir manna reyndu að flísa úr múrnum með sleggjum, meitlum og hömrum,“ sagði Friðrik Páll Jónsson, fréttamaður Ríkisútvarpsins, sem fylgdist með við múrinn í nóvember 1989. Hann sagði að spenna væri í lofti en engin ógn af neinu tagi.

Þegar skörð voru komin í Berlínarmúrinn streymdu Austur-Þjóðverjar til Vestur-Berlínar fótgangandi og í Trabant-bílum sínum. Gleði og hamingja var augljós, fólk grét á strætum úti og ókunnugir föðmuðust.

„Allur þessi dagur var eiginlega ein samfelld gæsahúð og öll borgin var í geðshræringu,“ sagði Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi, sem þá var búsettur í Berlín, í fréttaþætti á RÚV 2009.

„Þróuninni verður örugglega ekki snúið við, fólk furðar sig örugglega á því að boð og bönn síðustu 40 ára skuli springa eins og sápukúlur á sólskinsdegi,“ sagði Ágúst Þór Árnason við Friðrik Pál í fréttum RÚV í nóvember 1989. Ágúst Þór, sem lést fyrr á þessu ári, langt fyrir aldur fram, var þá námsmaður í Berlín.

Gerbreytt heimsmynd

Auðvitað vissi enginn þessa bjartsýnu haustdaga 1989 að sameining þýsku ríkjanna væri handan við hornið, fall Sovétríkjanna aðeins tveimur árum seinna, en mikil bjartsýni ríkti. Heimsmyndin sem kynslóð eftirstríðsáranna hafði alist upp við var horfinn. Ógnarjafnvægið og kjarnorkuváin var úr sögunni hélt fólk að kalda stríðinu loknu.

Francis Fukuyama skrifaði bók sína, The End of History and the Last Man þar sem hann spáði sigri lýðræðisins. Kenningar Fukuyamas eru oft misskildar, hann var að tala um lengri tíma þróun og að slegið gæti tímabundið í bakseglin.

Sú hefur verið raunin; lýðræðisþróun sem hófst í ríkjum Austur-Evrópu eftir fall múrsins hefur ekki orðið með þeim hætti sem vonast var til á bjartsýnismisserunum eftir fall múrsins. Þó að kosið sé reglulega í flestum þeim ríkjum sem áður voru hluti Sovétríkjanna er vart hægt að ræða um þau sem lýðræðisríki. Eystrasaltslöndin eru þar undantekning. Í sumum öðrum ríkjum sem voru á áhrifasvæði Sovétríkjanna hafa stjórnvöld á síðustu árum skert frelsi fjölmiðla og sjálfstæði dómstóla.

Öfugþróun sem veldur áhyggjum

Heimurinn varð ekki fullkominn við hrun Berlínarmúrsins og er fall Sovétríkjanna og margt í þróun pólitískrar umræðu síðustu ára verulegt áhyggjuefni, ekki síst uppgangur lýðskrumara. Hatursumræða, tortryggni, hræðsla við framandi hluti og fólk hefur aukist. Flokkar og stjórnmálamenn sem byggja málflutning sinn á að ala á ótta en ekki von, sundrungu en ekki samstöðu, virðast á stundum njóta æ meiri stuðnings.

Ættjarðarást breytist í þjóðernishyggju þar sem kynt er undir andúð á öðrum. Allt framandi er gert tortryggilegt og trúarbrögðum misbeitt, umburðarlyndi og skilningur á trú annarra er gert tortryggilegt, jafnvel þar sem síst skyldi; báðir stóru flokkarnir í Bretlandi eru sakaðir um andúð annars vegar gegn gyðingum og hins vegar gegn múslimum og leiðtogar flokkanna virðast hafa takmarkaðan skilning eða vilja til að berjast gegn slíkum öflum innan flokka sinna.

Rökhyggja og staðreyndir hafa látið undan í umræðu fyrir afbökuðum og röngum málflutningi og skírskotun til tilfinninga og þá er oft höfðað til lægstu hvata, öfundar, hræðslu og græðgi.

Þegar bent er á þá staðreynd að glæpum hafi í raun fækkað og þjóðfélagið víðast á Vesturlöndum sé öruggara en fyrir tveimur eða þremur áratugum en svar lýðskrumarans: „Já, en fólki finnst það ekki.“ Órökstuddar tilfinningar mega sín meira en staðreyndir.

Breskur ráðherra sem var í umræðu þegar honum var bent á að málflutningur hans stangaðist á við álit þeirra sem best þekktu til sagði einfaldlega: „Ég held að fólk sé orðið leitt á sérfræðingum.“

Lýðskrumarar í Bandaríkjunum tala um „alternative facts,“ eins og fólk geti valið um hvað sé staðreynd og hvað ekki, tveir plús tveir þurfi ekki endilega að vera fjórir, geti verið það sem hentar málflytjenda. Veist er með hatursfullum hætti – eða kannski af ísmeygilegri kænsku – að pólitískum andstæðingum af öðrum litarhætti og kyni.

Þeim er skipað að hypja sig „heim“ eins og réttur þeirra til byggja samfélagið sé minni en þeirra sem eru annarrar skoðunar og með annan litarhátt. Þetta er rasismi og kvenfyrirlitning í senn.

Lygi er margtuggin með hætti sem heimurinn kynntist með svo ömurlegum afleiðingum á fyrri hluta síðustu aldar. Netið, sem átti að verða til að upplýsa fólk, sundrar því gjarna í fylkingar sem ræðast ekki við, umræðan verður í hópum þar sem gagnrýni kemst ekki að, öfgaskoðanir og kenningar verða ofan á, þeir sem hafa hæst tala aðrar skoðanir í kaf.

Jákvæðar breytingar

Ekki má gleyma því í örvæntingu vegna þess sem bjátar á að heimurinn fer batnandi á mörgum sviðum. Þrátt fyrir hörmulegar styrjaldir og átök hefur þeim fækkað ár frá ári frá lokum síðari heimsstyrjaldar sem láta lífið í vopnuðum átökum. Sjúkdómum hefur verið útrýmt – eins og bólusótt – eða mannkyni tekist að ná miklum árangri í baráttunni gegn þeim, þar má nefna HIV og alnæmi og malaríu. Hundruðum milljóna hefur verið lyft úr örbirgð á síðustu árum. Samkvæmt því sem hinn bjartsýni Hans Rosling segir í bók sinni Factfulness bjó helmingur mannkyns við sára fátækt árið 1966, en níu prósent 2017. Meðal ævilengd er nú 72 ár og hefur hækkað ekki síst vegna þess að færri ungbörn deyja, matvælaframleiðsla og uppskera hefur stöðugt aukist á undanförnum árum.

Auðvitað er enn margt að – meiri ógn virðist steðja að því frjálslynda, umburðarlynda og jafnaðarsinnaða stjórnmálakerfi sem ríkt hefur frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar í flestum vestrænum ríkjum – en við megum samt ekki missa sjónar af því góða sem er að gerast. Ella hefði fall múrsins verið til lítils.

Höfundur er fréttamaður Ríkisútvarpsins og kom fyrst til Berlínar 1977.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.