Ójöfnuður, óréttlæti og ójöfn tekjuskipting

Verri lífskjör almennings felur jafnframt í sér verri afkomu ríkissjóðs.

Það eina sem kapítalisminn og sósíalisminn eiga í raun sameiginlegt er að hvor hugmyndafræðin vinnur að því að reyna leysa lögmálið um skortinn; það geta ekki allir fengið allt sem þeir vilja, þegar þeir vilja það – þannig að einhvern veginn þarf að ráðstafa því hvernig maðurinn skiptir með sér auðæfum heimsins. Sú lausn sem er valin hefur þó mikil áhrif. Í henni liggur munurinn á hagsæld eða fátækt, frjálsum viðskiptum eða pólitískum þvingunum, jafnvel frelsi eða alræðisstefnu.

Þeir sem tala máli sósíalismans tala um um ójöfnuð máli sínu til stuðnings. Oftar en ekki er talað um ójöfnuð og óréttlæti í sömu andrá. Í þeirri hagsæld sem skapast hefur á Íslandi hafa margir, sem betur fer, hagnast vel á vinnu sinni og viðskiptum og aukin velferð orðið áberandi i þjóðfélaginu. En er ójöfnuður það sama og óréttlæti? Getur verið að þó svo að tveir menn hafi ójafnar tekjur að annar þeirra sé á einhvern hátt beittur óréttlæti? Er rétt að tala um ójöfnuð og óréttlæti sem sama hlutinn?

Um þetta deila menn og hafa gert lengi. Virðing og réttlæti er mikilvægur hlutur í frjálsum samfélögum og óréttlæti ekki svo auðveldlega liðið. En til að viðhalda virðingu og réttlæti fyrir manninum þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvað er óréttlæti annars vegar og ójöfn tekjuskipting hins vegar og hvort, og þá hver, munurinn er þar á milli.

***

Fjölnir rakst fyrir alllöngu á leik sem notaður var í æskulýðsstarfi hér á landi (leikurinn átti sér þó erlenda fyrirmynd). Leikurinn kallast í einfaldri þýðingu Slagur um ríkidæmi og völd. Við skulum til gamans kalla hann Eflingarleikinn.

Þema leiksins er fátækt, öryggi og heimsvæðing og eru börn fengin til að velta fyrir því óréttlæti sem fólgið er í fátækt, svo vísað sé í leiðbeiningar leiksins. Þar segir jafnframt að markmið leiksins sé að „auka skilning á óréttlæti sem er afleiðing ójafnarar skiptingar auðs og valda”. Gert er ráð fyrir 10-25 manna hóp í leiknum.

Leikurinn felur í sér að 100 smápeningum er dreift á gólfið og þátttakendur látnir setjast í hring í kringum peningana. Búið er að setja sokka á hendur nokkra leikmanna fyrir leikinn (sem á að tákna ójöfn tækifæri) en einnig er búið dreifa hluta smápeninganna til örfárra þannig að þeir aðilar byrja með aðeins meira en aðrir. Þrír þátttakendur eru teknir til hliðar. Þeir eru táknmynd upp á flóttamenn og fá ekki að taka þátt í leiknum í byrjun. Þegar leyfi er gefið eiga þátttakendur að safna þessum smápeningum til sín, eins mikið og þeir geta á sem skemmstum tíma.

Þegar því er lokið eiga þátttakendur að skipta sér upp í þrjá flokka eftir því hversu marga smápeninga þeir náðu að safna, þá sem eiga mikinn auð, einhvern auð og lítinn auð. Þá eru flóttamennirnir settir hver í sinn flokk. Þátttakendum er í kjölfarið gefið færi á því að gefa frá sér peninga eða skipta þeim jafnt niður kjósi þeir svo. Eftir það er þátttakendum aftur raðað í fyrrnefnda flokka og kunna einhverjar breytingar að hafa átt sér stað. Þegar þessu er lokið er hópunum gefinn kostur á því að koma með tillögur (hver í sínu horni) um hvernig megi skipta auðnum með það að markmiði að minnka bilið milli hópanna. Tillögurnar eru síðan bornar undir atkvæði. Atkvæðunum er hins vegar ekki skipt jafnt niður. Hópurinn sem á mikinn auð fær fimm atkvæði á mann, hópurinn með einhvern auð fær þrjú atkvæði á mann og hópurinn sem á lítinn auð fær eitt atkvæði á mann. Eftir að búið að er kjósa um tillögurnar er auðnum skipt eftir þeirri tillögur sem fékk flest atkvæði.

***

Eftir leikinn fara fram umræður. Þar er meðal annars spurt hvort allir hafi fengið sömu meðferð við dreifingu og söfnun peninganna? Hvers vegna sumir gáfu peninga? Var það vegna samviskubits eða til þess að hljóta heiður? Hvernig leið þeim sem fengu gefna peninga, voru þau þakklát eða niðurlægð? Hvernig leið þeim sem voru með sokkana á höndunum? Hvers konar fólk áttu þau að leika? Í hvaða hópi enduðu þau? Eiga þau sem nóg hafa yfirleitt að láta sig varða um þau sem hafa ekki nóg? Hvers vegna? Hví ættu þau sem hafa nóg að gefa hinum peninga? Leysir það fátæktarvandann? Hvað geta þau sem ekki hafa nóg gert til að bæta aðstæður sínar?

***

Þetta hljómar eins og áhugaverður leikur og fari svo að meðlimir Sósíalistaflokksins lesi þennan pistil má búast við því að hann verði spilaður á skrifstofu Eflingar.

Leikur þessi lýsir þó vel ákveðnu hugarfari. Ekki fá allir sömu tækifæri í leiknum og mjög hæpið er að þeir sem tóku þátt í söfnuninni endi allir með sömu upphæð eftir fyrstu atrennu. Slíkt gæti þó gerst eftir einhvers konar samninga en ekki í upphafi. Leiknum er sem fyrr segir ætlað að varpa mynd á það óréttlæti sem fólgið er í misskiptingu auðs. Væntanlega hefur höfundur leiksins gefið sér að hann endurspeglaði á einhvern hátt raunveruleikann. En það er nokkuð við þetta að athuga.

***

Í fyrsta lagi er lagt upp með að þeir 100 smápeningar sem notaðir eru í upphafi leiksins tákni auð jarðarinnar. Ljóst er að sá auður mun ekki skiptast jafnt á milli allra leikmanna. Hins vegar er hæpið að takmarka auð, hvort sem um fjárhagslegan auð er að ræða eða ekki, við ákveðna tölu. Hér er gengið út frá því að eins manns dauði sé annars manns brauð, þ.e. að ef einn fær eitthvað ákveðið þýði það að annar geti ekki fengið það líka. Leikurinn gerir ekki ráð fyrir því að peningarnir 100 geti orðið 150, 200 eða jafnvel meira. Það eitt ætti segir okkur að ekki sé búið að hugsa málið til enda.

***

Í öðru lagi er byrjað með peninga sem enginn á og snýst leikurinn um að taka sér eitthvað ófrjálsri hendi. Ekki er gert ráð fyrir því að peningarnir fari manna á milli í frjálsum viðskiptum, s.s. launagreiðslum, viðskiptum með vörur og þjónustu og svo framvegis. Þetta endurspeglar þó viðhorf marga vinstri manna, að þeir sem meira hafi á milli handanna hafi tekið það fjármagn ófrjálsri hendi.

Þeir sem hafa tekið sér mest eru álitnir eiga mikinn auð og eru svo spurðir hvort þeir vilji gefa hann eða eiga sjálfir. Þeir sem ekki höfðu tækifæri (t.d. þeir sem voru heftir með sokk á hendi) til að taka sér jafn mikið ófrjálsri hendi eru álitnir fátækir. Eini möguleikinn sem þeir sem minna fengu eftir söfnunina er sá að hinir ríku gefi þeim eitthvað af sínu eða þá að þeir leggi fram tillögu um aukinn jöfnuð og sigri hana í kosningum. Þeim er ekki gefið færi á að vinna sér inn meira fjármagn og búa til sitt eigið ríkidæmi. Innan hópanna tveggja sem hafa minna á milli handanna eru líkur á því að þar leynist hæfileikar sem gætu, í raunheimum, skapað viðkomandi auknar tekjur – jafnvel mikinn auð. Það er þó ekki hægt í Eflingarleiknum, því auður heimsins takmarkast við 100 peninga.

***

Í þriðja lagi er enginn ástæða til að gera kosningarétt ójafnan eins og gert er. Væntanlega er það gert hér til að sýna fram á misjöfn völd og áhrif en það er hins vegar ekki sjálfgefið að þeir sem eigi meiri pening hafi meiri völd og áhrif en aðrir, þó eflaust kunni að vera einhver dæmi um það í vanþróuðum ríkjum.

***

Gallar Eflingarleiksins eru ljósir öllum skynsömum mönnum. Hér er hann þó notaður sem dæmi því umræðan um ójöfnuð og ójafna tekjuskiptingu fer ósjaldan fram á sama grunni. Sú hagsæld sem hefur skapast í vestrænum ríkjum sl. 200 ár eða svo kemur þó til af frjálsum viðskiptum með vörur og þjónustu – sem aftur leiðir af sér tækniframfarir, nýsköpun, framfarir í læknavísindum, aukinni menntun, auknu jafnrétti og þannig mætti áfram telja.

***

Eflingarleikurinn er þó í samræmi við hugmyndir John Rawls. Hann gerir ráð fyrir því að í upphafi sé eitthvað til skiptanna og menn verði að finna sanngjarna leið til að skipta auðnum. Kenningar hans gera ekki ráð fyrir því að fyrst þurfi að búa til auðinn heldur virðist hann þegar vera til (bara í ákveðnu magni, líkt og í leiknum) og einhvern veginn þurfi að skipta honum. Rawls telur, líkt og höfundur leiksins, að réttlætið feli það í sér að auðnum sé skipt nokkuð jafnt á milli manna. Rawls telur að hámarka þurfi kjör þeirra sem verst hafa það og það á kostnað allra hinna. Hann gerir sér grein fyrir því að algjör jöfnuður er ekki til en að dreifing auðsins eigi aftur á móti að vera með jöfnu móti.

Robert Nozick telur hins vegar að menn eigi að njóta góðs af eigin hæfileikum og fá tækifæri til að búa til verðmæti úr þeim. Hann lítur ekki svo á að þó að einn búi sér til verðmæti úr einhverju sé hann að taka þau frá öðrum nema þá með því að aðrir greiði honum af fúsum og frjálsum vilja. Þannig má taka dæmi um hæfileikaríkan tónlistarmann. Hann auglýsir tónleika og fólk borgar sig inn til að heyra hann spila. Tónlistarmaðurinn hagnast vissulega á kostnað annarra, en það kemur til af frjálsu vali, ekki óréttlæti. Til að vera beittur óréttlæti eða ranglæti þarf geranda. Ef ekki er verið að svindla eða brjóta á fólki er ekki hægt að tala um óréttlæti. Þannig þarf ójöfn tekjuskipting ekki að vera óréttlát.

***

Til gamans, en þó ekki, mætti taka Eflingarleikinn alla leið og útfæra hann í samræmi við þau skilaboð þeirra sem hér boða sósíalisma. Leikurinn færi þá þannig fram að maður í köflóttri skyrtu heldur á peningunum. Í stað þess að sturta honum á gólfið fyrir þátttakendur að safna velur hann að útdeila þeim eftir eigin hentugleika og tryggja þannig að allir hafi það jafn slæmt.

Nokkrir félagsfræði- og hagfræðiprófessorar fengu síðan nokkra aura fyrir að skrifa skýrslu um það hvað þetta fyrirkomulag sé frábært. Þetta virkaði ekki í Sovétríkjunum, í Kína, á Kúbu eða í Venesúela.

En það er ekkert víst að það klikki á Íslandi.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.