Smá af Verdi og Wagner

Giuseppe Verdi (vinstri) og Richard Wagner (hægri) voru samtíðarmenn en hittust þó aldrei.

Þannig háttar til að tvö af fremstu óperutónskáldum veraldar – annað þýskt, hitt ítalskt – fæddust sama árið, 1813. Þar af leiðandi er ekki langt síðan við fögnuðum því að liðin voru 200 ár frá fæðingu þeirra Richards Wagner og Giuseppes Verdi. Svo ber við að Wagner fæddist norðan Alpafjalla, Verdi sunnan og það er kannski írónískt en segja má að Alpafjöll hafi líka skilið hugsunarhátt þessara manna að, svo ólíkir sem þeir voru.

Wagner og Verdi voru afsprengi tveggja ólíkra menningarheima. Annars vegar ítalskrar endurreisnarmenningar sem sótti umboð sitt og innblástur til kaþólsku kirkjunnar, en óperuformið naut gríðarlegrar hylli á Ítalíu og átti vissulega þátt í að móta samfélagið, ekki hvað síst pólitískt. Þar stóðu fáir Verdi á sporði. Og hins vegar hámenningar þýskumælandi ríkja sem hvíldi meðal annars á barokkmeisturunum Bach og Händel og framlagi klassískra tónskálda á borð við Haydn og Mozart. Það má líka segja að með vaxandi menningarlegum, hugmyndafræðilegum, diplómatískum og ekki hvað síst efnahagslegum áhrifum hafi hinn þýskumælandi heimur orðið að vöggu nokkurs konar menningarbyltingar á 19. öld og þaðan er Wagner sprottinn.

Vísast gengu bæði Þýskaland og Ítalía í gegnum sambærilega þróun í þjóðernislegu tilliti á 19. öldinni en í tilviki beggja endaði sú þróun með stofnun sameinaðs ríkis; annað var þýskumælandi, hitt mælti á ítalska tungu. Og mitt í þeirri þróun sem átti sér stað sitt hvoru megin Alpafjalla höfum við Richard Wagner annars vegar og Giuseppe Verdi hins vegar.

Þessir tveir höfuðsmenn áttu fátt sameiginlegt allar götur frá fæðingu. Þannig má nefna að Verdi bar snemma með sér mikla tónlistarhæfileika og naut undirstöðumenntunar í tónlist (þótt síðar ætti hann eftir að eiga í útistöðum við tónlistarháskóla). Sem æskumaður sýndi Wagner hins vegar lítinn áhuga á tónlist. Þegar sá áhugi kviknaði tók hann stórstígum framförum, en hann var að mestu sjálfmenntaður.

Verdi og Wagner hittust aldrei en með þeim ríkti þó mikil samkeppni. Wagner fyrirleit að vísu samtímamenn sína í hópi óperutónskálda og fannst lítið til óperuformsins koma, það er að segja eins og það hafði þróast á Ítalíu. Síðar á ævinni afgreiddi hann ítalska óperuhefð með því að kalla afrakstur hennar: „Donizetti og félaga“. Wagner vísar ekkert í verk Verdis í ritum sínum en í dagbókarfærslu hjá Cosimu, eiginkonu Wagners, segir á einum stað: „Við heyrðum sálumessu Verdis í kvöld og um hana er best að segja sem minnst.“ Önnur heimild getur þess að Wagner hafi gert grín að laglínu eftir Verdi sem hann heyrði sungna á fljótum Feneyja.

Ítalskir gagnrýnendur töldu margir hverjir að áhrifa Wagners gætti í síðustu verkum Verdis, einkum frá og með Aidu. Á þetta mátti Verdi hins vegar aldrei heyra minnst og brást hann hinn versti við slíkum fullyrðingum. Verdi hrósaði hins vegar Tristan und Isolde en hafði lítið fallegt um Wagner að segja sem persónu.

Verdi sýndi jafnan mikla staðfestu í viðskiptum sínum við útgefendur, hann var sparsamur og gætti hófs en var örlátur við vini sína og samferðamenn. Tónskáldið bast traustum vináttuböndum sem vörðu í áratugi og helgaði sig eiginkonum sínum, en Verdi var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona hans, Margherita, lést þegar Verdi var að semja gamanóperuna Giorno di Regno, og um svipað leyti létust börnin hans tvö. Það er því ekki að furða að áratugir hafi liðið uns Verdi samdi gamanóperu á nýjan leik, en sú varð síðasta verk hans, Falstaff.

Verdi kvæntist aftur, að þessu sinni sópransöngkonunni Giuseppinu Strepponi, og hún veitti honum mikinn innblástur. Ýmislegt bendir til þess að Verdi hafi haldið við aðra sópransöngkonu síðar á ævinni, Teresu Stolz, en það fór ekki hátt og hvergi hallar Giuseppina orði á Teresu í ævibókarskrifum sínum þótt ganga megi út frá því sem gefnu að hún hafi vitað af tilvist hennar og sambandi hennar við Verdi.

Verdi samdi vinsælar óperu fram í háa elli. Hann skildi eftir hverju áhorfendur voru að slægjast, hvort sem þeir voru ítalskir eða franskir. Uppfærslur á verkum hans í París nutu hylli, þ.e.a.s. svo lengi sem verkin voru sungin á frönsku. Þá samdi Verdi þrjár óperur við franskt librettó sem voru hver öðrum betri og hentuðu þær allar franskri óperuhefð, svo sem I vespri siciliani.

Verdi bjó yfir mikilli þolinmæði, sem eitt og sér gerði hann mjög ólíkan Wagner, sem var frægur fyrir óþolinmæði. Besta dæmið er útistöðurnar sem Wagner átti í við stjórnendur Parísaróperunnar vegna uppfærslunnar á Tannhäuser. Áratugur leið uns óperan komst loks á svið, einungis til þess að valda æsingi meðal áhorfenda, sem púuðu frá byrjun verksins. Upp frá þessu nýtti Wagner hvert tækifæri til að níða skóinn af franskri menningu.

Wagner lifði hátt og fór mikinn. Hann sló lán hjá vinum en efndir urðu oft litlar. Síðar á ævinni var eins og Wagner hefði sannfærst um að það væri annarra að framfleyta honum. Launað starf var hvorki eitthvað sem hann mátti vera að né má merkja það af lestri heimilda að hann hafi haft einhverjar sérstakar áhyggjur af því hvar og hvernig hann sæi sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða.

Samband Wagners við konur var töluvert ólíkt Verdis. Hann átti í stormasömu hjónabandi við leikkonuna Wilhelminu Planer en það aftraði honum ekki frá því að halda við eiginkonur vina sinna, oftar en ekki í leit að peningum. En það var hjónabandið við Cosimu, dóttur Franz Liszt, sem reyndist farsælast. Cosima var miklu yngri en Wagner en hæfileikar hennar, vitsmunir og staðfesta urðu til þess að margir af draumum Wagners rættust. Bæði áttuðu þau sig sannarlega á snilligáfu Wagners og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að hans yrði minnst einmitt fyrir snilligáfuna en ekki þá karakterbresti sem hann bjó við.

Tónlistarlega séð eiga Wagner og Verdi ýmislegt sameiginlegt þó svo að það blasi ekki beinlínis við. Tónskáldaferill beggja skiptist til að mynda í þrjú tímabil. Báðir bötnuðu með aldrinum og báðir voru þeir sprottnir úr vöggu rómantíkurinnar. En þá má líka segja að hinu sameiginlega ljúki. Rætur Verdis lágu í gamla samfélaginu og þær má að hluta til rekja aftur til Rómaveldis og svo í gegnum kaþólsku kirkjuna (þó svo að sjálfur hafi Verdi verið trúlaus). Rætur Wagners lágu hins vegar meðal þeirra sem lögðu Róm að velli, ríki sem nefnt er Hið heilaga rómverska ríki (en var hvorki heilagt, rómverskt né ríki) og siðaskiptunum.

Verdi hélt áfram að útfæra óperuformið sem þróast hafði á Ítalíu og Frakklandi og það var hans að taka við af bel-canto meisturunum. Náðargjöf hans fólst meðal annars í hæfileikanum til að setja saman laglínur sem spunnust áfram í þykkum hljómsveitarvef. Það er líka þannig með tónlist Verdis (rétt eins og í tilviki Wagners og Mozarts) að það er nóg að heyra hana einu sinni – eftir það býr hún með manni.

Verdi var fyrst og fremst tónskáld mannlegra tilfinninga. Tónlistin er stundum svo sannfærandi, snertir svo djúpa kviku, að jafnvel gallaður söguþráður og óljós dramatísk framvinda eins og í verkum á borð við Il trovatore og Simon Boccanegra verður lítið áberandi.

Verdi var annt um aðstæður manna og vildi læra af mannlegri reynslu. Sá lærdómur birtist í persónum í óperum tónskáldsins, í persónum sem sýna af sér mannlega reisn og auðmýkt, ekki ídealisma eða trúboð.

Flestar óperur Verdis eru byggðar á sögulegum heimildum. Hann nýtti sér oftar en ekki leikrit og er þar auðvitað skemmst að minnast Shakespeare-óperanna Macbeth, Otello og Falstaff. Dramatísk framvinda í verkum Verdis eru oftast afar sannfærandi og mannlegar tilfinningar, gleði og sorg, komast skýrt til skila og dýptin er mikil.

Wagner sótti sér einnig innblástur í sögulegar heimildir, eða réttara sagt forsögulegar heimildir (þar á meðal norræna goðafræði), ásamt því að sækja innblástur í þýsku heimspekingana, einkum Schopenhauer og Nietzsche. Hér má auðvitað nefna Niflungahringinn sem á sér stað utan tíma og rúms. Markmið tónskáldsins var án efa að skapa grunn fyrir mýtur sem aftur skyldu móta grunn að menningu og þjóðerni hins nýja sameiginlega þýska ríkis. Þannig byggja persónur og leikendur í verkum Wagners á hugsjónum í stað þess að eiga sér fyrirmyndir í einstaklingum sögunnar.

Wagner sneri að mörgu leyti baki við þýskri tónlistarhefð. Hæfileikar hann voru ekki bundnir við tónlistarsviðið, enda var hann gott skáld og hafði næmt auga fyrir dramatískri framvindu. Sjálfur setti Wagner fram kenningu um listform framtíðarinnar í ritgerðum sem birtust árið 1849. Þar færði hann rök fyrir því að óperuformið ætti að sameina önnur listform, tónlist, söng, dans, kveðskap, sjónlistir og sviðslistir. Hið sameinaða listform nefndi Wagner „tónlistardrama“ og samdi sjálfur texta við eigin verk. Í verkum sínum skapaði hann frásögn sem fól í sér djúpa heimspekilega merkingu sem dýpkaði enn eftir að Wagner komst í kynni við Schopenhauer. Hann sannfærðist um að tilgangur tónlistar væri einhvers konar tjáning á frumspeki.

Wagner breytti miklu í tónlistarsögunni. Hann þróaði stíl þar sem hlutverk hljómsveitarinnar reyndist jafnmikilvægt og hlutverk söngvara. Við heyrum leiðarstefin leikin í hljómsveitinni, leiðarstef sem kynna til sögunnar persónur, hluti eða jafnvel tiltekna atburðarás. Allt er þetta ofið saman í vef sem tónskáldið spinnur.

Sem persóna átti Wagner sér fáa líka. Gallalaus var hann ekki, ekki frekar en við hin, en hann bjó yfir meiri sköpunarkrafti en dæmi eru um. Með óperum sínum, fræðigreinum og bókum hafði Wagner gríðarleg áhrif á þróun lista á 19. öldinni. Stundum eru verk hans sögð vera hornsteinn rómantíkurinnar en í verkum sínum kynnti Wagner til sögunnar miklar nýjungar í bæði hljómfræði og ekki hvað síst formi. Wagner notaði hljómfræði, þar með talið krómatík, til að ljá persónum sínum einkenni, hvort sem um er að ræða ákveðnar tóntegundir eða hljóma. Wagner gekk lengst í Tristan und Isolde með allri sinni krómatík og nægir þar að hlusta á blábyrjun verksins. Sennilega hefur ekki verið skrifað meira um nokkurn annan hljóm en Tristan-hljóminn.

Báðir reistu þeir Wagner og Verdi sér áþreifanlega minnisvarða. Í tilviki Wagners erum við auðvitað að tala um tónlistarhúsið í Bayreuth, sem var hannað og byggt með það í huga að flytja verk tónskáldsins. Þar er, eins og alþjóð veit, haldin tónlistarhátíð á hverju sumri. Byggingin var dýr og það var góðkunningi tónskáldsins, Lúðvík II. af Bæjaralandi, sem lét fé af hendi rakna svo að byggingin yrði að veruleika.

Wagner lést, skuldum vafinn að vanda, í Feneyjum í febrúar 1883. Hann hvílir ásamt eiginkonu sinni Cosimu í Bayreuth, en hún lést 47 árum síðar. Ævisöguritari Wagners, Ernest Newman, segir Wagner hafa dáið vinalausan; hann hafi verið búinn að nýta sér alla vináttu í eigin þágu og sá brunnur hafi verið uppurinn.

Aðra sögu var að segja af Verdi. Á dánarári Wagners var Verdi auðugur og átti þó enn ósamin meistaraverkin Otello (1887) og Falstaff (1893). Bæði eru samin við verk Shakespeares (rétt eins og Macbeth) en síðarnefnda óperan er einungis önnur gamanóperan sem Verdi samdi, eins og fyrr segir.

Á meðan Wagner reisti sér bautastein í Bayreuth byggði Verdi spítala og elliheimili fyrir aldraða tónlistarmenn, Casa di Reposo per Musicisti, í Mílanó. Síðustu árin helgaði hann sig enn fremur góðgerðarmálum og síðar meiri kallaði hann elliheimilið í Mílanó, Casa Verdi eins og það var nefnt í daglegu tali, besta verk sitt og þá að óperunum meðtöldum.

Í kjölfar þess að Verdi lést í janúar 1901 ríkti þjóðarsorg á Ítalíu og er talið að tvö hundruð þúsund manns hafi fylgt tónskáldinu til grafar. Meðan kistu Verdis var ekið um götur Mílanóborgar tók mannfjöldinn undir og söng „Va pensiero“ úr Nabucco.

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.