Af Sergej Lemeshev

Rússneski tenórsöngvarinn Sergej Lemeshev (1902-1977) naut gríðarlegra vinsælda í Sovétríkjunum og átti dygga aðdáendur sem mynduðu andstæða fylkingu við aðdáendur Ivans Kozlovsky (1900-1993), helsta keppinautar Lemeshevs.

Það er stundum sagt að Arturo Toscanini hafi talið helsta afrek sitt á löngum ferli að hafa útrýmt söngstíl 19. aldar; söngstíl sem einkenndist af portamentói (tilhneigingu til að renna sér á milli tóna), ekka, tilgerð og kannski falsettu. Gamli maðurinn á endrum og sinnum að hafa dregið fram hljóðritun af aríu Alfredos, „De’ miei bollenti spiriti“, úr öðrum þætti La traviata með ítalska tenórsöngvaranum Fernando de Lucia, og sagt að svona ætti ekki að syngja. Í staðinn kynnti hann til sögunnar söngvara á borð við Jan Peerce sem telst vart spennandi í dag – að minnsta kosti ef dæma má af hljóðritunum. Í Sovétríkjunum eimdi hins vegar eftir af ekka þeirra ítölsku, eins og stundum er sagt, og það vel fram yfir miðja 20. öld.

Sergej Jakovlevits Lemeshev fæddist í Staroye Knyazevo í Tver-sýslu í Rússlandi árið 1902. Foreldrar hans voru fátækir bændur og var syninum ætlað að nema skósmíði. Þær fyrirætlanir breyttust þegar Sergej missti föður sinn aðeins tíu ára gamall og það kom í hlut hans að sjá fjölskyldunni farborða. Aðstæður hans breyttust hins vegar þegar Kvashnin-fjölskyldan fluttist í næsta nágrenni við Lemeshev-fjölskylduna.

Hjónin Nikolaj Aleksandrovits og Evgenia Nikolaevna Kvashnin tóku ástfóstri við Lemeshev og þar komst hann í fyrsta skipti í kynni við klassíska tónlist en það sem mikilvægara er, hjónin uppgötvuðu tónlistarhæfileika drengsins. Þau hvöttu Lemeshev til að læra söng en móðir hans var efins; hún vildi að sonurinn legði drög að öruggara framtíðarstarfi. Það var ekki fyrr en henni var tjáð að sonurinn myndi þéna meira á einu kvöldi sem söngvari en á heilu sumri úti á akrinum að hún samþykkti að Lemeshev fengi að þreifa fyrir sér sem tónlistarmaður.

Það var því einn kaldan desembermorgun árið 1919 að Lemeshev lagði af stað til borgarinnar Tver í næsta nágrenni við Staroye Knyazevo til að þreyta frumraun sína sem söngvari. Efnisskráin samanstóð af tveimur aríum og nokkrum rússneskum þjóðlögum og nægði, þótt fábrotin væri, til að vinna hug og hjörtu áhorfenda.

Fjölskylda Lemeshevs var lítt efnum búin og hafði því ekki ráð á að kosta hann til háskólanáms. Til þess að láta drauminn rætast innritaðist hann því í herskóla í Tver árið 1921, en innan vébanda skólans var lítil listadeild. Hæfileikar Lemeshevs duldust þó engum og innan tíðar hlaut hann styrk til að nema söng við Listaháskólann í Moskvu og óperustúdíó Bolshoj-leikhússins undir leiðsögn leikstjórans Stanislavskys.

Lemeshev útskrifaðist 1925 og fékk þegar samning við Bolshoj-óperuna en aðeins upp á smærri hlutverk. Hann afréð því að flytja sig um set og syngja stærri hlutverk við minni hús, fyrst í Sverdlovsk (nú Jekaterinborg) árið 1926 og síðar í bæði rússnesku óperunni í Harbin í Kína og loks í Tiblisí í Georgíu. Lemeshev sneri aftur í Bolshoj-leikhúsið 1931 og söng sem aðaltenór við húsið til 1956 ásamt aðalkeppinauti sínum, Kozlovsky.

Við Bolshoj-óperuna söng Lemeshev öll helstu rússnesku hlutverkin en hann lét þó ekki hvað síst að sér kveða í ítölskum og frönskum hlutverkum. Hér má nefna Almaviva greifa í Rakaranum í Sevilla, Alfredo í La traviata, Greifann af Mantúa í Rígólettó og Rodolfo í La bohème; enn fremur má tína til Nadir í Perluköfurum Bizets, Fra Diavolo í samnefndri óperu Aubers, titilhlutverkið í Werther eftir Massenet og þó ekki hvað síst hlutverk Fausts í samnefndu verki Gounods.

Uppistaðan var þó rússnesk hlutverk. Oftast söng hann hlutverk Lenskís í Évgení Onegin eftir Tsjaíkovsky, hlutverk sem hann söng fimm hundruð og einu sinni á sviði, fyrst árið 1927 og í síðasta skipti í tilefni af sjötugsafmæli sínu 1972 – þá að undangengnum þremur hjartaáföllum og með annað lungað samfallið.

Það er haft fyrir satt að Lemeshev hafi lifað sig algjörlega inn í hlutverk skáldsins unga og að einkenni sem Alexander Púshkin léði Lenskí hafi endurspeglast í fari söngvarans, það er að segja karakter sem er duttlungafullur, harmrænn og kannski eilítið einfaldur.

Helsti keppinautur Lemeshevs var, eins og fyrr segir, Ivan Kozlovsky. Þeir voru gjörólíkir til orðs og æðis; Lemeshev hlédrægur og fágaður en Kozlovsky meira út á við og þreifst best á ótakmarkaðri athygli aðdáenda sinna. Kozlovsky hafði líka betri hæð en Lemeshev – það var óumdeilt – og ólíkt Kozlovsky átti Lemeshev átti það til að klikka á viðkvæmum stöðum þar sem reyndi mikið á háa tónsviðið. Kozlovsky var líka frægur fyrir alls kyns sýndarmennsku og var raunar umdeildur. Breskur gagnrýnandi orðaði það eitt sinn svo að ein hugsanleg leið til að skipta heiminum væri á milli aðdáenda og andstæðinga Kozlovskys og hann átti það sannarlega til að vera smekklaus – því er ekki að neita – jafnvel á mælikvarða tíðarandans.

Því má líka bæta við að Kozlovsky var eftirlætissöngvari Stalíns og eru til ýmsar sögur af samskiptum þeirra. Stalín átti það til að kalla eftir söngvaranum á ólíklegustu tímum sólarhringsins og leika sjálfur undir á píanó þegar Kozlovsky söng. Vinskapur þeirra varð þó ekki til þess að Kozlovsky fengi að syngja á Vesturlöndum, enda kom hann aldrei fram utan Sovétríkjanna.

En snúum okkur aftur að Lemeshev. Í ævisögu sinni víkur Galína Vísnevskaja víða að honum og þá ávallt hlýlega. Hún minnist meðal annars sýninga með Lemeshev, þeirra áhrifa sem hann hafði á samferðafólk sitt og ekki hvað síst á rússneska alþýðu. Við skulum grípa hér rétt sem snöggvast niður í skrif Galínu, hér í íslenskri þýðingu Guðrúnar Egilson (1990), þar sem hún dregur saman mannkosti Lemeshevs:

„Áratugum saman var Sergej Lemeshev átrúnaðargoð almennings. Lenskí, Rómeó, Alfredo, Hertoginn af Mantúa, Fra Diavolo, Almaviva … í þessum hlutverkum átti hann ekki jafnoka og í Sovét-Rússlandi hefur ekki verið, og mun ekki verða lengi enn, listamaður sem sameinar bestu kosti hans, heillandi rödd, ómótstæðilega töfra og sjálfsstjórn. Hann var listamaður fram í fingurgóma og í öllu sínu viðmóti, hreyfingum, svipbrigðum og brosi. Allar þær tilfinningar, sem hann túlkaði, frá ást til haturs, voru ósviknar og listrænar. Hann var alltaf glæsilegur og háttvís og hafði næma tilfinningu fyrir búningum hvers tímabils.

Allt fram að lokum ferils síns var hann æskumaður á sviðinu, elskaður og viðkvæmur. Þó að hann væri orðinn sjötugur komust aðdáendur hans í leiðslu í hvert skipti sem hann söng Lenskí við Bolshoj. Þær tilfinningar, sem hann vakti upp hjá konum, voru ekki ástríðuþrungnar heldur í ætt við blíðu og vorkunnsemi, en þannig er konum eiginlegast að finna til og slíkar tilfinningar þeirra eru upprunalegri og varanlegri en aðrar. Sergej Lemeshev! Söngvari ástarinnar, söngvari harmsins!“

Það eru engar ýkjur hjá Galínu Vísnevskaju að Lemeshev hafi verið átrúnaðargoð alþýðunnar. Hann söng á óteljandi tónleikum víða um Sovétríkin og lagaval hans naut mikilla vinsælda; efnisskrá hans taldi 700 rússnesk þjóðlög, rómönsur og sönglög. Sem dæmi má nefna að hann söng allar hundrað rómönsur Tsjaíkovskys á fimm tónleikum árið 1939 við einstaklega góðar undirtektir.

Það var þó fyrst og fremst með hógværð og óeigingirni sem Lemeshev ávann sér ómældar vinsældir; hann frábað sér alla tilgerð og var þekktur fyrir vinnusemi og alúð við þau verkefni sem hann tók sér fyrir hendur hverju sinni. Honum hefur enda stundum verið líkt við austurrískan starfsbróður sinn, ellefu árum eldri, sem naut sambærilegra vinsælda í Þýskalandi og Lemeshev bjó við í Sovétríkjunum, það er að segja Richard Tauber.

Það má kannski segja að rödd Lemeshevs hafi verið bæði mjúk og björt en um leið ofin harmrænum þráðum. Hann hafði þennan dæmigerða silfurtæra slavneska hljóm sem þó var ekki stór en í senn algjörlega áreynslulaus, jafnvel upp á hæstu tóna (þó svo að stundum hafi hann átt erfitt með hæðina). Bent hefur verið á að Lemeshev hafi sungið sul soffio, eða með öðrum orðum hallað sér á andann og forðast grunna öndun með öllu, ekki ósvipað Caruso og Lori-Volpi.

Lemeshev söng nánast aldrei utan Sovétríkjanna. Það er nú skammt á milli þeirra félaga og keppinauta, Lemeshevs og Kozlovskys, þar sem þeir hvíla í Novodevichykirkjugarðinum í Moskvu. Lemeshev lést 1977 en Kozlovsky lést í hárri elli árið 1993, þá á 94. aldursári, en níræður hafði hann síðast sungið opinberlega.

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson
.