Stjórnarskrárfélag í kreppu – hálmstrá stjórnarandstöðu

Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson var aðalræðumaður á fundi Stjórnarskrárfélagsins á Austurvelli 7. desember. Af ræðu hans að dæma virðist hann lítið vita um stjórnarskrármálið og gang þess. (Mynd: Skjáskot af visir.is)

Eftir að fluttar voru fréttir af því í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu að óhreint mjöl væri í pokahorni útgerðarrisans Samherja í Namibíu hófu samtök um nýja stjórnarskrá hér á landi, Stjórnarskrárfélagið, að efna til útifunda á Austurvelli. Fyrsti fundurinn var haldinn laugardaginn 23. nóvember 2019 og var kynntur á þennan hátt:

„Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag, Öryrkjabandalagið, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu, og hópur almennra borgara og félagasamtaka hefur tekið sig saman og flautað til mótmælafundar á Austurvelli nk. laugardag, 23. nóvember, klukkan 14.

Almenningur í Namibíu er rændur af íslenskri stórútgerð. Almenningur á Íslandi er rændur arðinum af auðlindum sínum. Tugir milljarða eru færðir árlega í vasa stórútgerða sem ættu að renna í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins.

Óréttlætið þrífst í skjóli úreltrar stjórnarskrár og pólitískrar spillingar. Stjórnmálaflokkar standa auðsveipir gagnvart sérhagsmunum örfárra sem náð hafa heljartaki á þjóðlífinu í skjóli lögverndaðs arðráns og ofsagróða. – Fjárhagsleg samskipti stórútgerða og stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka þarf að rannsaka og skera upp herör gegn skattaskjólum og peningaþvætti.“

Stjórnarskrárfélagið stóð að öðrum sambærilegum fundi á Austurvelli laugardaginn 7. desember. Þá bar fundurinn fyrirsögnina: Lýðræði ekki auðræði – Auðlindirnar aftur í okkar hendur.

Sjónvarpsþátturinn um spillingu í Namibíu blés nýju lífi í Stjórnarskrárfélagið og þá sem telja að það þjóni baráttu sinni gegn „arðráni“ að starfa með félaginu í baráttu þess fyrir nýrri stjórnarskrá.

Útifundir og krafa um stjórnarskrárbreytingu vegna uppljóstrana um mútur við öflun veiðiheimilda undan strönd Namibíu mynda ekki neina samstöðu í stjórnarskrármálinu hér á landi. Þvert á móti eru þessir fundir og málflutningurinn á þeim til þess eins fallinn að auka sundrung meðal þjóðarinnar.

Þegar grunnur var lagður að íslensku stjórnarskránni var það gert með rökum sem hnigu að því að festa í lögbækur rómantíska byltingarstrauma 19. aldar. Tilgangurinn var að veita borgurum frelsi til að ráða málum sínum sjálfir og móta eigin framtíð, þeir væru ekki viljalaust verkfæri í höndum þjóðhöfðingja með vald frá Guði.

Þegar stjórnarskránni var breytt í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins árið 1994 var það gert til að færa í orð og virkja strauma í mannréttindamálum sem mótast höfðu á lýðveldistímanum.

Ekkert sambærilegt viðfangsefni blasir við stjórnarskrárgjafanum núna. Tilraunin til að kollvarpa lýðveldisstjórnarskránni hófst 1. febrúar 2009 þegar samfylkingarkonan Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra. Hörðustu átökin urðu á Alþingi fyrstu vikurnar eftir valdatöku Jóhönnu þegar allt átti að gerast undir slagorðinu: Það varð hrun. Fyrir henni vakti meðal annars að svipta Alþingi stöðu stjórnarskrárgjafa og færa valdið í hendur stjórnlagaþingi. Allt rann þetta út í sandinn og þar er stjórnarskrármálið enn rúmum áratug síðar.

II.

Stjórnarskrárfélagið stuðlar ekki að nauðsynlegri samstöðu um breytingu á stjórnarskránni með vetrarfundum sínum á Austurvelli til að fylgja eftir gagnrýni á Samherja í sjónvarpsþætti. Í þágu stjórnarskrárbreytinga þjóna þessir fundir engum tilgangi og hafa frekar neikvæð en jákvæð áhrif skipti þeir nokkru máli almennt.

Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson var aðalræðumaður á fundi Stjórnarskrárfélagsins 7. desember. Um ræðu hans sagði Jón Hallur Stefánsson rithöfundur á Facebook 10. desember 2019 að sér rynni blóðið til skyldunnar sem vinstrisinna til að lýsa yfir að sér þætti „þetta ekki góð ræða“. Og einnig:

„Gagnrýnin umræða um Sjálfstæðisflokkinn hefur ríka og sívaxandi tilhneigingu til að vera ekki gagnrýnin umræða heldur óhamin útrás fyrir neikvæðar tilfinningar og um leið tilraun til að særa með öllum tiltækum ráðum, í þessari ræðu er mikilvægum pólitískum spurningum til dæmis hnýtt saman við persónulegar svívirðingar, háðsglósur um tertubakstur og upprifjun á einkamálum sem ekkert erindi eiga í opinbera umræðu. Öll gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn verður þannig að eitraðri blöndu af hatursorðræðu og heiftyrðum einsog þeim sem látin eru flakka í verstu hjónarifrildum. Tilætluð áhrif á andstæðinga flokksins geta varla verið önnur en að staðfesta og magna upp það skinheilaga og hvítglóandi hatur á þessum stjórnmálaflokki sem sett er í öndvegi í stað gagnrýnnar hugsunar.“

Við þessari færslu brást Hallgrímur Helgason rithöfundur á þennan hátt:

„Um mig hríslaðist sæluhrollur undir ræðunni, loksins einhver sem segir sannleikann. Eða hvar fór hann yfir strikið, hvað var ekki rétt? En það má aldrei vanmeta borgaralega íhaldssemi, hún lifir lengi lengi.“

Jón Hallur Stefánsson svaraði Hallgrími Helgasyni:

„Það er einmitt sæluhrollurinn sem ég er að vara við Hallgrímur, kikkið sem maður fær við að rífa kjaft og móðga einhvern, eða heyra einhvern annan gera það fyrir sig. Ég er ekki að biðja um kurteisi en ef þú ert að gagnrýna stjórnmálaflokk og stenst ekki mátið að slengja einhverjum krassandi merkimiða á hann (barnaníðingaflokkur, krabbamein) til að gleðja skoðanabræður þína ertu um leið að grafa undan því að gagnrýni þín hafi nein önnur áhrif en að vekja þennan eftirsótta sæluhroll. Þú getur að minnsta kosti ekki búist við málefnalegum svörum, er það?“

Hallgrímur svaraði Jóni Halli á þann veg að hann væri löngu hættur að búast við málefnalegum svörum, hann væri „búinn að standa í þessu of lengi til þess. Það eina sem bítur eru svona nicknames Bláa höndin og krabbamein“.

Jón Hallur svarar að sér þyki „sorglegt“ að Hallgímur beiti sjálfur „þessari aðferð“ þótt Bláa höndin hafi verið „fínt hugtak“, það hafi verið „greining í því“.

Hallgrímur Helgason ritaði grein í Morgunblaðið 13. september 2002 undir fyrirsögninni Baugur og Bláa höndin. Hann gagnrýndi þar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, fyrir að veitast ítrekað að „spútnikfyrirtækinu Baugi“. Guðfaðir nýja hagkerfisins hefði snúist gegn „bestu börnum þess“. Hallgrímur sagðist hafa vonað að íslenska efnahagskerfið væri loksins að fullorðnast og hann tæki sárt „að sjá lögregluvaldi misbeitt gegn framsæknum viðskiptamanni [Jóni Ásgeiri Jóhannessyni] á ögurstundu“. Einn stærsti árangur Íslendinga í alþjóðaviðskiptum hefði verið eyðilagður af litlum mönnum með stór völd. „Bestu viðskiptasonum Íslands“, Baugsmönnum, hefði ekki tekist að eignast Arcadia í Bretlandi með Philip Green.

Þarna vísar Hallgrímur til þess málatilbúnaðar Jóns Ágeirs að Philip Green hefði fallið frá viðskiptum við sig vegna lögreglurannsóknarinnar gegn sér. Hallgrímur Helgason tók upp hanskann fyrir peningaog viðskiptamenn fyrir hrun. Hann hvatti til þess að Samfylkingin beitti sér í þágu hluta þeirra til að fella Sjálfstæðisflokkinn og Davíð Oddsson. Aðför hans misheppnaðist og nú vonar hann að árangur náist með því að líkja Sjálfstæðisflokknum við krabbamein!

Sir Philip Green hefur átt skrautlegan feril. Tillaga um að svipta hann sir-nafnbótinni var samþykkt í neðri deild breska þingsins árið 2016 án þess að eftir henni væri farið. Hann stendur í stórræðum í Bandaríkjunum til að verjast ásökunum um kynferðislega áreitni. Fjármálaveldi hans er ekki svipur hjá sjón og er nú talað um hann sem fyrrverandi milljarðamæring.

III.

Í ömurlegri ræðu sinni á útifundi Stjórnarskrárfélagsins sagði rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson á hreinu að Sjálfstæðisflokkurinn væri „krabbamein“, „öll hneykslismál, allir skandalar, öll spilling á Íslandi tengist Sjálfstæðisflokknum á einn eða annan hátt“. Þá kom þetta:

„Það væri þá kannski eðlilegt ef heiðarlegir einstaklingar innan flokksins áttuðu sig á því hverskonar mafíu þeir tilheyra og færu í einhverskonar sjálfsskoðun. En nei. Aldrei í jarðarsögunni hefur krabbamein farið í sjálfsskoðun. Sjálfstæðisflokkurinn er þar engin undantekning.“

Bragi Páll veittist að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, auk annars fólks sem hann nafngreindi með orðavali og líkingum sem hér verða ekki endurbirtar. Að rithöfundur skuli setjast niður og semja slíkan texta til flutnings á útifundi lýsir innræti hans betur en þeim sem um er fjallað með níðorðunum.

Þegar kom að stjórnarskránni í fúkyrðaflaumnum sagði rithöfundurinn:

„Athugum líka að stjórnarskránni, sem Íslendingar kusu um og samþykktu, var stungið ofan í skúffu, og Bjarni Benediktsson sagði síðast árið 2017 að það væri engin ný stjórnarskrá til. Púff, ekki til! Veldu hönd, neibb, engin stjórnarskrá þarna! Hver elskar ekki smá daður við fasisma?“

Þessi orð sýna að Bragi Páll veit ekkert um stjórnarskrármálið og gang þess. Hann lifir og hrærist fyrir skítkast í garð þeirra sem hann er ósammála. Hann lauk hatursávarpi sínu á þessum orðum:

„Og hvað ætlum við þá að gera?

Ég veit allavega hvað ég ætla að gera. Kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Og héðan í frá ætla ég að tala um mafíusamtökin Sjálfstæðisflokkinn sem bláa krabbameinið.“

Þarna tengir Bragi Páll sig við Hallgrím Helgason og samhengið sannar enn málefnafátæktina og skortinn á sköpunargáfu.

Jón Hallur Stefánsson kemst réttilega að orði þegar hann segir:

„Viðbrögð meðlima og ráðamanna Sjálfstæðisflokksins geta ekki orðið önnur en þau að brynja sig gegn gagnrýninni einsog hún leggur sig. Fyrir þeim getur þetta ekki verið annað en óvinatal, fjandmenn að berja sér á brjóst, orðunum er ekki beint til þeirra heldur aðeins og eingöngu til jábræðra á vinstri kantinum. Það er alltof auðvelt að hrista af sér gagnrýni af þessu tagi, eitraða gagnrýni, hún er „ekki svara verð“ og henni er í raun og veru ekki svarandi. En er þessi orðræða þá til þess fallin að fylkja öllu „góðu“ fólki saman gegn Sjálfstæðisflokknum, einsog hlýtur eiginlega að vera tilgangurinn? Ég held ekki. Stjórnmálaumræða á Íslandi hefur tilhneigingu til að snúast alfarið um Sjálfstæðisflokkinn, á jákvæðum eða neikvæðum nótum, og ég þarf engan auglýsingasálfræðing til að upplýsa mig um hvaða áhrif það hafi. Púkinn á fjósbitanum, þið munið. Hættum þessu. Þetta er hvorki fallegt né vænlegt til árangurs.“

IV.

Fleira gerðist á þessum útifundi Stjórnarskrárfélagsins laugardaginn 7. desember 2019 en að rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson flytti óhróðurinn um Sjálfstæðisflokkinn.

Nú fær Valdimar H. Jóhannesson orðið. Hann kynnir sig sem andstæðing gjafakvótakerfisins og sagði á blogg.is sunnudaginn 8. desember 2019:

„Fundurinn var nýbyrjaður þegar hópur barna var leiddur fram á sviðið til að flytja afar umdeilanlegan áróður í loftslagsmálum og innflytjendamálum. Hópurinn var kenndur við barnaveldi og er í mínum huga skýrt dæmi um barnaníð af versta tagi þegar þessi litlu skinn eru heilaþvegin til að flytja áróður fyrir ljótar sálir sem þykir sæma að nota börn sem leikmuni í sínu glórulausa ofstæki í málum sem voru alls óskyld þeim málum sem ég var kominn til að mótmæla. Þetta var andleg nauðgun af versta tagi að leiða fólk í eins konar gildru til þess að fá sýnilegan stuðning hjá fólki sem alls ekki styður þennan málstað.

Ég gekk af fundi og mun aldrei láta sjá mig á opinberum fundi sem þetta fólk stendur fyrir í framtíðinni. Svei þeim!“

Þegar allt þetta er lesið er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að Stjórnarskrárfélagið hafi einfaldlega villst af leið. Það tileinki sér baráttuaðferðir sem gangi fram af öðrum en innvígðum og innmúruðum. Án sérstaks geðslags er ógjörningur að sjá að þetta séu rök fyrir nýrri íslenskri stjórnarskrá. Hvernig ætla menn að færa þennan boðskap í stjórnlagatexta? Þetta er ekki annað en pólitískt skítkast á lægsta plani.

V.

Alþingi samþykkti fjárlög ársins 2020 miðvikudaginn 27. nóvember 2019. Að samstaða náist um fjárlög og þau séu samþykkt svo snemma er til marks um góða samstöðu stjórnarflokkanna um þau mál sem mestu skipta um stöðu og stefnu þjóðarskútunnar.

Hér að ofan er því lýst hvernig sjónvarpsþáttur um spillingu í Namibíu hleypti lífi í Stjórnarskrárfélagið sem birtist síðan eins og öfgasamtök gegn Sjálfstæðisflokknum á Austurvelli. Sami þátturinn um Namibíu varð einnig haldreipi stjórnarandstöðunnar á lokametrum fjárlagaafgreiðslunnar.

Þá var fluttur spuni sem var reistur á þeim hugarburði að ríkisstjórnin og sérstaklega sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætluðu að beita eftirlitsstofnanir fjárhagslegum þvingunum til að þær hefðu ekki burði til að rannsaka mál tengd spillingunni í Namibíu.

Þegar fjárlögin komu til atkvæðagreiðslu sagði forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir að þau væru góð fjárlög sem stuðluðu að uppbyggingu en féllu um leið á árangursríkan hátt að hagsveiflunni. Jafnframt tók hún undir með fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra að eftirlits- og rannsóknarstofnunum yrði „tryggt fullt svigrúm“ til að sinna rannsóknum vegna ýmissa verkefna „sem nýlega eru komin upp“ eins og ráðherrann orðaði það.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagðist við atkvæðagreiðsluna ekki sitja undir ásökunum um að ætla að veikja eftirlitsstofnanir. Síðustu ár hefðu „gríðarlegir fjármunir“ runnið til að efla þær eftirlitsstofnanir sem nú væru nefndar til sögunnar. Rakti hún síðan ráðstöfunarheimildir ráðherra samkvæmt lögum um opinber fjármál. Yrði unnt að bregðast við óvæntum útgjöldum reyndist þess þörf vegna ásakana á hendur Samherja og öðrum.

Tveimur dögum fyrir atkvæðagreiðsluna um fjárlögin mánudaginn 25. nóvember gekk Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, út af þingfundi til að mótmæla fundarstjórn Guðjóns S. Brjánssonar (Samfylkingu), fyrsta varaforseta alþingis, sem gaf flokkssystkinum sínum svigrúm til að vega að ráðherranum með ásökunum um lögbrot. Hann ætlaði ekki að beita sér fyrir auknum fjárheimildum til rannsóknarstofnana heldur þjóna hagsmunum Samherja með skorti á fjárveitingum til innlendra rannsóknaraðila.

Þetta gerðu þingmennirnir undir dagskrárliðnum „fundarstjórn forseta“. Forseti maldaði í móinn en stýrði ekki fundinum. Guðjón S. Brjánsson afsakaði dugleysi sitt með því að ekki hefði verið vegið að æru Bjarna heldur störfum hans sem fjármálaráðherra. Þessi skýring dugar ekki. Forsetinn var einfaldlega sáttur við það sem á borð var borið. Alþingi setti niður þennan dag vegna þess hve illa forseti þingsins hélt á stjórn mála. Hann sýndi hvorki óhlutdrægni né myndugleika.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis, gagnrýndi fyrsta varaforseta sinn undir rós í deilu við Píratann Hrafn Helga Gunnarsson um fundarstjórn forseta þriðjudaginn 10. desember þegar hann sagði:

„Það er ævagömul venja hér að láta þingmenn ekki vanvirða dagskrána með þeim hætti að grauta saman umræðum um mál sem þegar eru á dagskrá fundar og taka þau undir öðrum liðum. Forverar mínir hafa hér mann fram af manni haldið mönnum við efnið í þessum efnum. Það þori ég að ábyrgjast með minni þingreynslu. Forseti er ekki að gera neitt annað en það sem fellur undir þá skyldu hans að halda góðri reglu á fundum.“

Þessi áminning forseta alþingis var tímabær. Vonandi tekst honum að fá þá sem sitja með honum í forsætisnefndinni til að virða hana og sýna þann myndugleik á forsetastóli sem dugar til að halda þingmönnum við efnið samkvæmt dagskrá þingsins.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.