Halldór Benjamín: Vinnulöggjöfin hamlar framþróun

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (Mynd: HAG)

Núgildandi vinnulöggjöfin er nátttröll sem hamlar framþróun á vinnumarkaði. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála.

Halldór Benjamín tók við starfi framkvæmdastjóra SA í byrjun árs 2017. Þau þrjú ár sem liðin eru hafa meira og minna einkennst af kjaraviðræðum, sem enn er ólokið þótt búið sé að semja við meginþorra launamanna. Eftir langt ferli og skæruverkföll var stórum áfanga náð í byrjun apríl sl. þegar Lífskjarasamningurinn var kynntur seint að kvöldi í Ráðherrabústaðnum.

„Sá grunnur sem þar var lagður nær til 97% launamanna á almennum vinnumarkaði. Nær allir sem heyra undir almenna kjarasamninga fá kjarabætur Lífskjarasamningsins og hafa samþykkt hann með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslum. Þarna náðist mikil sátt á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga; tíminn mun leiða í ljós hversu farsæl lausnin verður en ég er vongóður. Ég tel að þetta sé mjög góður samningur, bæði fyrir atvinnurekendur og launafólk,“ segir Halldór Benjamín.

„Eftir standa um það bil 3% launafólks á almennum vinnumarkaði. Það mun taka lengri tíma að ljúka þeim samningum en við hin 97%. Það eitt og sér er umhugsunarefni. Um þessar mundir eru SA meðal annars í viðræðum við Blaðamannafélagið, flugumferðarstjóra og aðrar flugstéttir. Síðan eru orkufyrirtækin og álverin eftir ásamt ýmsum öðrum vinnustaðasamningum.“

Halldór Benjamín segir að kjaraviðræður síðustu ára hafi fengið mikla athygli en það gleymist oft hversu marga kjarasamninga þarf að gera hér á landi. Þeir skipti hundruðum.

„Það halda margir að SA þurfi eingöngu að gera 5-10 kjarasamninga og mestu athyglina fá samningarnir við stór stéttarfélög á borð við VR, Eflingu og félög iðnaðarmanna,“ segir Halldór Benjamín.

„Minnsti kjarasamningurinn sem SA gerir er við einn starfsmann og næstminnsti er fyrir tvo starfsmenn. Það sér hver maður að þetta er fráleitt fyrirkomulag. SA hafa í þessari lotu gert 80 kjarasamninga og um 60 er ólokið. Samt eru 97% launamanna afgreidd. Þá er ótalinn allur opinberi markaðurinn. Íslenskur vinnumarkaður, þ.e.a.s. samskipti verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, sker sig mikið úr borið saman við aðrar Norðurlandaþjóðir. Þar eru verkalýðsfélögin færri og stærri og kjarasamningar gerðir á grundvelli atvinnugreina, en ekki starfsgreina og landsvæða eins og hér á landi. Þetta er að mínu mati mikill ókostur, bæði fyrir atvinnurekendur, sem þurfa að semja við mjög smá verkalýðsfélög víða um land, og ekki síður fyrir launafólk. Stéttarfélag, sem er aðeins með tugi eða hundruð félagsmanna, er í eðli sínu veikburða og hag þeirra launamanna væri betur borgið að vera hluti af stærri skipulagsheild.“

Halldór Benjamín segir að í áranna rás hafi átt sér stað samtal við verkalýðshreyfinguna um að breyta þessari uppsetningu og einfalda, en það hafi ekki skilað nægum árangri.

„Margir skilja rökin en það er lítill vilji til þess að hrinda breytingum í framkvæmd. Þetta hefur þó gengið vel þegar kemur að lífeyrissjóðunum og okkur hefur tekist að fækka þeim verulega. Nú eru sjö lífeyrisssjóðir sem heyra undir samningssvið SA og ASÍ og þeim þyrfti að fækka frekar með sameiningum,“ segir Halldór Benjamín.

„Það verður að höggva á þennan hnút með t.d. þeim hætti að löggjafinn setti lágmarksstærð á stéttarfélög með sama hætti og gert er fyrir sveitarfélög. Þetta mætti gera með góðri aðlögun, til dæmis á 5-10 ára tímabili. SA hafa reglulega vakið máls á þörf fyrir breytingar á vinnulöggjöfinni, þ.e. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, á liðnum árum. Það er vitanlega umdeilt og pólitískur vilji eða kjarkur virðist ekki fyrir hendi þótt hún sé barn síns tíma og hafi lítið breyst frá því að hún var sett árið 1938. Löggjöfin er að verða níræð og er nátttröll sem hamlar framþróun á vinnumarkaði. Viðkvæðið hjá stjórnmálamönnum hefur verið að það þurfi að vera fyrir hendi algjör sátt á milli SA og ASÍ til þess að breyta löggjöfinni. Sú algjöra sátt hefur í raun aldrei náðst og mun ekki nást.“

Þú nefnir að íslenskur vinnumarkaður skeri sig úr í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Eru aðrir þættir sem hafa heppnast vel þar sem við gætum nýtt okkur hér á landi?

„Það eru fjölmargir þættir. Í Danmörku, þar sem stéttarfélög eru skipulögð á starfsgreinagrundvelli eins og hér á landi, andstætt atvinnugreinaskipulagi í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, þurfa félög sem eiga ósamið að taka afstöðu til samningsins sem markað hefur stefnuna,“ segir Halldór Benjamín.

„Það þýðir að lítil stéttarfélög geta ekki dregið endalaust að gera samning við viðsemjendur sína og reynt að ná fram meiri launahækkunum en almennt hefur verið samið um, því eftir ákveðinn umþóttunartíma leggur ríkissáttasemjari Danmerkur fram eina sameiginlega miðlunartillögu sem nær til allra stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði með þeim kjarabreytingum sem felast í hinum stefnumarkandi kjarasamningi sem stóru heildarsamtökin hafa samið um. Þar skapast sterkur leikjafræðilegur hvati fyrir stéttarfélög að semja snemma til þess að hafa áhrif á niðurstöðuna. Þar með er búið að breyta því ferli sem er mjög tafsamt á Íslandi og sér ekki enn fyrir endann á. Þess vegna hefur málflutningur okkar verið alveg kristaltær gagnvart okkar viðsemjendum; við erum að semja um Lífskjarasamninginn og útfærslur á honum. Útfærslur geta verið ýmsar á samningnum en grunnurinn sem er markaður, krónutöluhækkanir yfir samningstímabilið, hagvaxtarauki og launaþróunartrygging, eru grunnþættir Lífskjarasamningsins sem munu gilda og marka launastefnuna í landinu. Frá þeirri nálgun munum við hvergi hvika.“

Kemur ekki til greina að víkja frá þessum þáttum til að klára samninga við þau 3% sem eftir eru?

„Afdráttarlaust nei, og ég á þetta samtal við vini mína í verkalýðshreyfingunni mjög oft,“ segir Halldór Benjamín.

„Það er ekki valkostur fyrir SA að svara kröfum einhvers stéttarfélags með þeim hætti að félagsmenn þess séu það sérstakir eða fáir að þeim standi til boða allt öðruvísi samningur en Lífskjarasamningurinn og meiri launahækkanir. Ef SA kæmu fram með þeim hætti myndu þau þurfa að rekja upp alla gerða kjarasamninga, við u.þ.b. 70 stéttarfélög og 120 þúsund manns. Grunnurinn er alltaf sá sami; að gera stefnumarkandi kjarasamninga og fylgja þeim síðan eftir allt til loka samningalotunnar. Í leikjafræðinni kallast þetta fullkomlega trúverðug hótun, þ.e. hver og einn á að geta séð fyrir viðbrögð okkar við samningaborðið.“

Sem fyrr segir er rætt nánar við Halldór Benjamín í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar fjallar hann um um aðdraganda og gerð Lífskjarasamningsins sem var undirritaður á árinu, um nýja skýrslu samtakanna um menntamál, aðkomu einkaaðila að heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu innviða, um hina hugmyndafræðilegu baráttu sem á sér stað um markaðshagkerfið og fleira.

Viðtalið birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.