Borgarstjórn, Landsréttur og umskurður

Eins og jafnan áður beinist athygli vegna sveitarstjórnarkosninganna (26. maí) einkum að því sem gerist í Reykjavík. Þar hefur undarlegur meirihluti farið með stjórn mála undanfarin átta ár. Fyrri fjögur árin með Jón Gnarr sem borgarstjóra í baksætinu og Dag B. Eggertsson sem bílstjóra. Síðari fjögur árin með Dag B. í borgarstjóra- og bílstjórasætinu fyrir hönd fjögurra flokka: Samfylkingar, Vinstri grænna (VG), Bjartrar framtíðar og Pírata. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn og flugvallarvinir hafa setið í minnihluta undanfarin fjögur ár og mátt sín lítils – raunar klofnaði Framsóknarflokkurinn á tímabilinu.

Borgarfulltrúum fjölgar nú úr 15 í 23 og þess vegna sitja 46 manns á framboðslistum í vor í stað 30 áður. Þegar þetta er ritað er óvíst hve margir hópar geta mannað slíka lista fyrir lok framboðsfrestsins. Sveitarfélögin eru alls 74 í landinu og stjórnmálaflokkarnir standa ekki alls staðar eins að framboðum eða að vali fólks á lista sína.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík ákváðu að tvískipta ferlinu, annars vegar að hafa leiðtogaprófkjör og hins vegar að fela kjörnefnd að raða í önnur sæti á listann.

Í leiðtogaprófkjörinu 27. janúar 2018 greiddu 3.885 flokksfélagar atkvæði. Eyþór Arnalds vann afgerandi sigur, 2.320 greiddu honum atkvæði sitt (61%). Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi hlaut 788 atkvæði og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi 460 atkvæði.

Fimmtudaginn 22. febrúar samþykkti fundur Varðar, fulltrúráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, einróma tillögu kjörnefndar sem starfaði undir formennsku Sveins H. Skúlasonar, gamalreynds innanbúðarmanns í flokknum. Aðeins einn fyrrverandi borgarfulltrúi, Marta Guðjónsdóttir, er á listanum.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins létu fyrir fund Varðar eins og þar mætti búast við miklum átökum. Það reyndust draumórar.

Áslaugu Maríu Friðriksdóttur mislíkaði að verða vikið af listanum á þennan hátt og sagði að góður stuðningur í hefðbundnum prófkjörum hefði litla þýðingu, þegar leikreglum væri breytt og uppstillingarvaldið sett í fárra hendur. Á Facebook sagði hún:

„Mér eru það vissulega vonbrigði að eiga ekki sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ég óskaði eftir að skipa 2. sæti listans, þrátt fyrir að vita að ég hefði ekki stuðning meirihluta kjörnefndar nema nýr leiðtogi styddi þá tillögu. Svo reyndist ekki vera og því fór sem fór.“

Eyþór Arnalds staðfesti að þetta væri rétt hjá Áslaugu. Annað hvort vildi hann ekki beita sér innan kjörnefndarinnar eða hann vildi jafn róttæka breytingu á listanum og við blasir.

Þá sagði Áslaug:

„Mér líst vel á nýju konurnar á framboðslistanum og hef reyndar heyrt að þær séu skoðanasystur mínar í mörgum málum. Vonandi munu þær fylgja skoðunum sínum eftir og kanna öll mál með opnum huga. Flokkurinn þarf ekki á því að halda að allir séu steyptir í sama mót.“

Reynsla af prófkjörum innan Sjálfstæðisflokksins segir að draga megi í efa að konur hefðu hlotið 2. og 3. sæti á listanum eins og gerðist í uppstillingunni. Dæmi sanna að prófkjör leiða ekki endilega til úrslita sem gleðja sjálfstæðiskonur.

Þórdís Arnljótsdóttir frá fréttastofu ríkisútvarpsins beið tíðinda af Varðarfundinum við höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Hún hóf samtal við Hildi Björnsdóttur lögfræðing, í öðru sæti á D-listanum, með þeim orðum að líklega næði Hildur kjöri í borgarstjórn! Benti Sveinn H. Skúlason fréttakonunni á að hún væri nú of svartsýn, hann gerði sér vonir um 9 eða 10 fulltrúa D-listans af 23 borgarstjórnarfulltrúum.

Þórdís vildi vita hvort Hildur sæi ekki eftir borgarfulltrúunum Áslaugu og Kjartani á listanum. Hildur svaraði: „Ég hef því miður aldrei hitt Kjartan og Áslaugu.“ Þetta svar segir í raun allt um þáttaskilin sem verða innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík með nýja borgarstjórnarlistanum.

Í byrjun mars tilkynnti Eyþór Arnalds að Kjartan Magnússon yrði sérlegur ráðgjafi sinn í kosningabaráttunni. Verði sjálfstæðismenn í meirihluta að kosningum loknum og Eyþór borgarstjóri ætlar hann að ráða Kjartan sem aðstoðarmann sinn.

Því verður ekki trúað að Reykvíkingar telji hag sínum best borgið áfram enn eitt kjörtímabil undir svipaðri stjórn og verið hefur í borginni undanfarin átta ár. Hér hefur oftar en einu sinni verið áréttuð nauðsyn flokkslegs átaks sjálfstæðismanna í Reykjavík. Forystumenn flokksins þar verða að vera samstiga. Þeim er það skylt gagnvart félögum sínum og borgarbúum öllum, vilji þeir endurvekja traust til flokksins. Í Fréttablaðinu birtust miðvikudaginn 28. febrúar niðurstöður í skoðanakönnun á fylgi flokka í Reykjavík. Hún sýnir Sjálfstæðisflokkinn í góðri sókn með 35% fylgi og níu borgarfulltrúa. Samfylkingin er næststærsti flokkurinn með rúm 27% og sjö borgarfulltrúa.

II.

Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð 1. desember 2017 hefur verið gerð hörð hríð að Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Stjórnarandstæðingar litu strax á hana sem skotmark til að fella ríkisstjórnina. Með því að varpa rýrð á skipun hennar á dómurum í landsrétt vildu þeir reka ríkisstjórninni náðarhöggið – þingmenn Vinstri grænna (VG) mundu ekki þola álagið og hlaupa frá stuðningi við stjórnina.

Árásir á dómsmálamálaráðherra mögnuðust eftir dóma hæstaréttar 19. desember 2017 í málum tveggja umsækjanda um embætti landsréttardómara. Þeir voru í 15 manna hópi útvalinna hjá nefndinni sem dæmdi um hæfi umsækjenda en ekki á lista dómsmálaráðherra sem var samþykktur á alþingi í sumarbyrjun 2017. Hæstiréttur taldi að ráðherrann hefði ekki lagst í nægilega mikla rannsóknarvinnu í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga áður en hún tók fjóra af lista dómnefndarinnar og setti aðra fjóra í staðinn til að tryggja að þingmenn samþykktu tillöguna með vísan til jafnræðis milli kynja. Dæmdi hæstiréttur körlunum tveimur miskabætur.

Eftir þetta báru andstæðingar dómsmálaráðherra henni á brýn að hún væri lögbrjótur. Þeir nutu eindregins stuðnings vefmiðilsins Stundarinnar. Annar vefmiðill, Kjarninn, skipaði sér í andstöðu við ráðherrann og sömu sögu má segja um fréttastofu ríkisútvarpsins.

Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu, var kjörin formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis. Fór hún strax mikinn í landsréttarmálinu í von um að koma höggi á ráðherrann.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, var boðaður á fund þingnefndarinnar og þótt hann segðist ekki rannsaka sömu atriði og væru til athugunar hjá nefndinni ákvað nefndin, að tillögu Helgu Völu, á fundi sínum 6. febrúar að gera hlé á rannsókn sinni „á embættisfærslum Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra í tengslum við skipun dómara“ í Landsrétt á meðan málið væri til skoðunar hjá umboðsmanni alþingis.

Umboðsmaður tilkynnti nefndinni um fjórum vikum síðar að hann sæi ekki ástæðu til að rannsaka neitt varðandi þátt dómsmálaráðherra. Hann hefði fengið fullnægjandi skýringar frá ráðherranum varðandi ákvörðun hennar við skipun landsréttardómaranna.

Landsfundi Samfylkingarinnar lauk sunnudaginn 4. mars. Þar fluttu Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi flokksformaður, og Logi Einarsson, núverandi formaður, ræður sem snerust um að leggja bæri höfuðáherslu á að „bjarga“ vinstri grænum úr stjórnarsamstarfinu við höfuðóvinina sjálfstæðismenn og framsóknarmenn.

Björgunarstarf Loga hófst strax að kvöldi mánudags 5. mars þegar hann lagði fram tillögu um vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Meðflutningsmaður var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Tilgangur tillögunnar var að sjálfsögðu ekki að bjarga neinum heldur að valda VG sem mestum vandræðum. Jóhanna og co. í Samfylkingunni hafa aldrei fyrirgefið Steingrími J. Sigfússyni og félögum hans að stofna VG þegar sameina átti alla vinstrisinna í Samfylkingunni árið 2000.

Logi vissi að Katrín Jakobsdóttir stæði vörð um ráðherra í stjórn sinni og þar með stjórnarsamstarfið. Atkvæði um tillöguna féllu þannig þriðjudaginn 6. mars að 33 þingmenn lýstu trausti á dómsmálaráðherra en 29 vantrausti, einn þingmaður Miðflokksins greiddi ekki atkvæði.

Þegar Logi Einarsson flutti tillögu sína og Pírata sagði hann meðal annars:

„Aðalatriðið er þó að vegna ólögmætrar embættisfærslu er óvissa um heilt dómstig. Bréf umboðsmanns Alþingis gefur fullt tilefni til að ætla að allt sé komið fram er varðar embættisfærslur dómsmálaráðherra. Engin mál fyrir dómstólum snúast um stöðu dómsmálaráðherra. Þau snúast eingöngu um slæmar afleiðingar ólögmætrar embættisfærslu ráðherra. Þess vegna er dómsmálaráðherra ekki treystandi til að fara með málefni dómstólanna í landinu eða vinda ofan af þeim vandræðagangi sem dómstólar eru komnir í. Hún verður því að axla ábyrgð á þeim og það er nauðsynlegt að það birtist með skýrum hætti. Þess vegna leggja Samfylkingin og Píratar fram vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra.“

Þarna talar Logi um „óvissu um heilt dómstig“ og víkur að „vandræðagangi“ hjá dómstólum sem rekja megi til dómsmálaráðherra og þess vegna verði Sigríður að víkja.

Helga Vala Helgadóttir sagði í vantraustsræðu sinni „að fjöldi dómsmála vegna embættisfærslna“ ráðherrans liðaðist „um allt hið íslenska réttarkerfi, öll dómstigin; héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt“ þess mætti vænta að málin færu til mannréttindadómstólsins í Strassborg enda snerist „málið fyrst og fremst um sjálfstæði dómstóla samanber stjórnarskrá og samanber 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu“. Sjálfstæði dómstóla skyldi vera ótvírætt og hafið yfir allan vafa. Væri vafi fyrir hendi bæri að lagfæra ágalla án tafar.

Þetta er í raun ekkert annað en orðaflaumur án inntaks. Ekkert af þessu hefði breyst með samþykkt tillögunnar um vantraust. Talið um að sjálfstæði dómara verði dregið í efa erlendis vegna þess að ráðherra skipaði þá er marklaus spuni.

Logi og Helga Vala hafa líklega farið í smiðju til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns. Hann krafðist þess fyrir landsrétti að einn dómara sem ekki var á lista dómnefndar en á lista ráðherrans lýsti sig vanhæfan til að dæma í máli sem sneri að umbjóðanda Vilhjálms H. Landsréttur úrskurðaði að dómarinn væri ekki vanhæfur.

Hæstiréttur vísaði fimmtudaginn 8. mars vísaði frá kæru Vilhjálms H. og sagði í dóminum:

„… snúa röksemdir varnaraðila [Vilhjálms H.] í hvívetna að því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun þessa dómara. Jafnvel þótt á það yrði fallist gæti það …. aldrei orðið til þess að krafa varnaraðila yrði tekin til greina. Hefur hann því í málatilbúnaði sínum klætt það álitaefni, sem hann í raun leitar úrlausnar um, ranglega í búning kröfu um að dómarinn víki sæti í málinu. Úrskurður Landsréttar 22. febrúar 2018 snýr þannig ekki að réttu lagi að ágreiningi um það efni og getur hann af þeim sökum ekki átt undir kæruheimild til Hæstaréttar samkvæmt b. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Máli þessu verður því án kröfu vísað frá Hæstarétti.“

Málatilbúnaður Vilhjálms H. Vilhjálmsson er í raun blekking að mati hæstaréttar. Kemur það í sjálfu sér ekki á óvart þegar hann á í hlut. Að lögmaðurinn sé síðasta haldreipi Samfylkingar og Pírata í þessu máli segir allt sem segja þarf um málstaðinn. Er nú mál að linni.

III.

Sumir telja að „mál málanna“ á því alþingi sem nú situr sé flutt af Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Frumvarpið felur í sér breytingu á almennum hegningarlögum um að við því getið legið allt að sex ára fangelsi að umskera drengi. Með þessu er vegið að siðvenju gyðinga og múslima og hún „glæpavædd“ eins og það hefur verið orðað.

Lögmennirnir Brynjar Níelsson alþingismaður og Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari, hafa bent á að frumvarpið sé flutt af vanþekkingu, í íslenskum hegningarlögum séu þegar ákvæði sem banni mönnum að valda börnum líkamsmeiðslum.

Í frumvarpi Silju Daggar segir:

„Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Flutningsmenn nýja frumvarpsins grafa með því undan almenna ákvæðinu um bann við líkamsmeiðslum á börnum. Þeir vilja greinilega sérgreina refsiverða verknaði í stað þess að treysta almenna ákvæðið í sessi.

Nokkur hundruð íslenskir læknar hafa ritað undir yfirlýsingu þar sem segir meðal annars:

„Læknisfræðilegar ábendingar fyrir umskurði eru til, en þær eru fáar. Við teljum að án slíkra ábendinga gangi umskurður á ungbörnum gegn Genfaryfirlýsingu lækna og samræmist því síður grundvallarviðmiðum Helsinki-yfirlýsingar lækna um réttinn til sjálfsákvörðunar og upplýsts samþykkis.“

Þarna kemur enn fram að engin sérstök nauðsyn sé til að setja um þetta sérstakt bann í íslensk lög. Almenn hegningarlög taka á aðgerðum sem valda börnum líkamsmeiðingum og til eru alþjóðlegar yfirlýsingar sem ná til lækna og snerta þetta mál.

Auk Silju Daggar eru átta meðflutningsmenn að frumvarpinu úr Vinstri grænum, Pírötum og Flokki fólksins, þar eru engir úr Miðflokki, Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki eða Viðreisn.

Í framsöguræðu Silju Daggar kom fram að öldum saman, eða í um 5.000 ár, hefði sá siður tíðkast víða að umskera barnunga drengi, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, gyðinga og múslima aðallega. Á 19. öld hefði tíðni umskurða aukist verulega þegar almennt var hvatt til þess að drengir yrðu umskornir til að koma í veg fyrir ýmsa kvilla og hegðun. Umskurðir á sveinbörnum tíðkuðust þó ekki eingöngu innan gyðingdóms og hjá trúfélögum múslima. Þeir væru t.d. nokkuð algengir í kristnum ríkjum í Afríku og í Bandaríkjunum.

Fylgni á milli trúarbragða og umskurðar væri þannig alls ekki algild heldur væri einnig um samfélagslega venju eða hefð að ræða.

Gegn þessum ævaforna svið er snúist með frumvarpinu. Þóttu Silju Dögg það „gróf afskipti“ að Samtök gyðinga á Norðurlöndunum sökuðu hana um atlögu gegn gyðingdómi. Í sameiginlegri yfirlýsingu samtakanna, sem send var öllum alþingismönnum, sagði að með frumvarpi Silju Daggar væri ráðist gegn gyðingdómi þannig að það snerti gyðinga um heim allan. Taldi hún það „ákveðna yfirgangssemi“ að gyðingasamtökin mótmæltu opinberlega en ekki í umsögn til þingnefndar.

Vegna kveinstafa þingmannsins sá Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis, ástæðu til að telja í Silju Dögg kjark í útvarpsviðtali miðvikudaginn 14. febrúar þegar hann sagðist „stoltur“ af því að alþingi tæki málið til umræðu. Þingforseti sagði orðrétt: „Ég er frekar stoltur af því að Alþingi Íslendinga tekur frumkvæði í máli af þessu tagi sem vekur alþjóðlega athygli af því að ég tel að þetta mál eigi fullt erindi inn í umræðuna en það þarf auðvitað að skoða það og vinna það vel.“ Þingmenn „ættu ekki að bogna“ þótt slík mál kveiktu viðbrögð.

Frétt um flutning frumvarpsins birtist á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC mánudaginn 19. febrúar. Hún hófst á því að trúarhópar hefðu fordæmt framlagningu frumvarpsins. Forystumenn gyðinga og múslima kölluðu það árás á trúfrelsi. Silja Dögg svarar og segir að málið snúist um rétt barna en ekki rétt til trúar.

Í BBC-fréttinni segir að umskurður sé löglegur alls staðar í Evrópu þótt meira sé rætt um réttmæti hans en áður. Í Svíþjóð og Þýskalandi hafa verið lögfestar reglur um að hverju læknum ber að gæta við aðgerðina. Þá hefur Evrópuráðið mælt með því að þjóðir geri ráðstafanir til að tryggja góða læknisfræðilega aðgæslu og gott hreilæti við aðgerðina. Árið 2016 féll dómur í Bretlandi um að múslimskur faðir gæti ekki látið umskera syni sína eftir að móðir þeirra hafnaði aðgerðinni. Segja má að þetta séu allt reglur sem staðfesti einstaklingsbundinn rétt sé ákveðinna skilyrða gætt.

Silja Dögg kvartar ekki aðeins yfir að samtök gyðinga hafi lýst andstöðu sinni heldur segir hún að „hörð andstaða og framganga fólks innan íslensku þjóðkirkjunnar“ hafi komið sér í opna skjöldu „sem og gríðarleg athygli að utan“ (Morgunblaðið 26. febrúar). Viðbrögð Silju Daggar við gagnrýni á frumvarp hennar sýnir að hún hefur ekki hugsað málið til enda.

Menachem Margolin, formaður Evrópsku gyðingasamtakanna, hitti Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Belgíu, í Brussel föstudaginn 23. febrúar. Í frétt um fundinn á vefsíðu gyðingasamtakanna segir Margolin að hann sé ánægður með fundinn, sendiherrann hafi lýst fyrir honum að ríkisstjórnin stæði ekki að baki frumvarpinu heldur væri um þingmannamál að ræða og óvíst væri um stuðning við það á þingi. Næsta skref sé að ræða beint við íslenska þingmenn.

Formaðurinn sagðist hafa lýst undrun yfir því að slíkt frumvarp þætti nauðsynlegt á Íslandi, þar sem í mesta lagi mætti búast við að þrír íslenskir drengir gengju undir slíka aðgerð ár hvert vegna gyðingatrúar. Að frumvarpið væri flutt lyktaði af þeim popúlisma sem því miður birtist nú víða á meginlandi Evrópu. Löggjöf af þessu tagi kynni að verða notuð sem fyrirmynd meðal annarra Evrópuþjóða og leiða til þess að eðlilegt þætti að stimpla alla gyðinga sem „glæpamenn“ fyrir að standa að þessari „mikilvægu, ómissandi og dýrmætu helgiathöfn okkar. Það má ekki og verður ekki látið gerast,“ sagði Margolin.

Þessi orð Margolins hljóma kunnuglega í eyrum þeirra sem lásu Bakþanka Óttars Guðmundssonar læknis í Fréttablaðinu 17. febrúar. Hann sagði að yrði frumvarp Silju Daggar að lögum sköpuðu Íslendingar sér „algjöra sérstöðu í heiminum með því að úthýsa endanlega þessum gamla ættbálki frá Júdeu áður en hann gæti mögulega orðið vandamál hérlendis. Skilaboð okkar til umheimsins eru skýr og gamalkunn: Gyðingar geta ekki verið meðlimir í íslensku samfélagi….“

Óttar segir frumvarpið „fljótræðislegt“ og eigi „ekki erindi í sal alþingis“. Vilji þingmenn stíga einhver skref í þessa átt felist „skynsöm varúð í því að ganga ekki lengra en Svíar eða Þjóðverjar“.

Silja Dögg og félagar reisa sér hurðarás um öxl með frumvarpi sínu. Alþjóðlegu afleiðingarnar eru meiri en Silja Dögg vænti, afstaða talsmanna trúarhópa valda henni undrun og loks er frumvarp í þessu búningi óþarft með hliðsjón af gildandi íslenskum lögum.

 

Af vettvangi stjórnmálanna birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018.