Óseðjandi tekjuþörf ríkisins

Í huga flestra embættismanna - og margra stjórnmálamanna - er ekki til það vandamál sem ríkið getur ekki leyst með peningum. Umræðan snýst frekar um hvernig sækja á aukið fjármagn. (Mynd: VB/BIG).

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, skrifaði áhugaverða grein í ViðskiptaMoggann um miðjan nóvember sl., þar sem hún taldi upp rúmlega 80 tekjustofna ríkisins og tæplega 40 tekjuliði úr fjárhagsáætlun sveitarfélaga. Sú spurning sem Ásta varpaði fram í fyrirsögn á fullan rétt á sér: Hvað þarf hið opinbera marga tekjustofna?

Á Íslandi eru skatttekjur hins opinbera 33% af vergri landsframleiðslu. Aðeins Svíþjóð stendur okkur ofar í Evrópu. Skattbyrðin á Íslandi er þannig sú önnur þyngsta í Evrópu.

Tekjuþörf ríkisins er engu að síður óseðjandi – og hið sama gildir um sveitarfélög. Líklega myndu embættismenn fjármálaráðuneytisins svara því til að ríkið þyrfti alla þessa tekjustofna og fleiri til. Það er enginn skortur á þeim verkefnum og málaflokkum sem hið opinbera tekur að sér og við heyrum reglulega kröfur um að enn megi gera meira í þessum efnum. Það þarf ekki að fylgjast lengi með pólitískri umræðu til að heyra hverja má skattleggja enn frekar og hvar megi auka „skattstofna“ ríkisins.

***

Það þarf þó að hrósa því sem vel er gert. Í fjármálaráðherratíð Bjarna Benediktssonar hefur tekjuskattur einstaklinga lækkað um tæpa 25 milljarða króna á undanförnum árum vegna ýmissa breytinga sem gerðar hafa verið á tekjuskattskerfinu. Að auki hafði hann, þá í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forystu um skattfrjálsa ráðstöfun séreignasparnaðar vegna íbúðarkaupa. Sú ríkisstjórn felldi einnig niður flesta tolla og almenn vörugjöld. Auðlegðarskatturinn rann sitt skeið (skv. ákvörðun vinstristjórnarinnar sem sat 2009-2013) og þrátt fyrir þrýsting frá vinstriflokkunum var hann ekki tekinn upp aftur. Allt voru þetta liðir sem skiptu heimilin í landinu verulegu máli.

***

Aðrir skattar hafa þó hækkað eða staðið óáreittir. Tekjur ríkisins af virðisaukaskatti hafa aukist vegna breytinga á skattstofninum, lagðir hafa verið á grænir skattar (t.d. kolefnisgjald) og þá hefur hinn undarlegi bankaskattur fengið að standa þrátt fyrir að vitað sé að hann bitnar helst á tekjulægri einstaklingum og fyrirtækjum.

***

Það er áhugavert að skoða hegðun ríkisins í skattamálum, ef svo má að orði komast. Ríkið er auðvitað ekki persóna en hagar sér samt með ákveðnum hætti eftir því hverjir stjórna því. Á liðnum árum virðist sem embættismenn móti frekar hegðun ríkisins en stjórnmálamenn.

Tryggingargjaldið er eitt af því sem dregur fram ákveðið hegðunarvandamál hjá ríkinu. Gjaldið var snarhækkað í kjölfar hins svokallaða hruns haustið 2008. Allt í einu sá ríkið þarna skattstofn sem gildnaði hratt og það var, og er, erfitt að lækka hann. Tryggingargjaldið hefur vissulega lækkað lítillega á undanförnum árum en í raun allt of lítið. Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað allverulega frá því að gjaldið var hækkað þá var ríkið búið að ráðstafa þeim upphæðum sem gjaldið átti að skila.

Það var í raun orðið að þægilegum tekjustofni fyrir ríkið að innheimta hátt tryggingargjald þar sem heimilin í landinu finna ekki fyrir því með beinum hætti. Það eru bara atvinnurekendur sem finna fyrir tryggingargjaldinu og þeir njóta ekki mikillar samúðar, hvorki á Alþingi né hjá embættismönnunum (sem aldrei þurfa að liggja andvaka yfir launagreiðslum).

***

Annar þáttur í þessu er það sem einu sinni var kallað markaðar tekjur. Nú er það þannig að allar skattgreiðslur, hvort sem um er að ræða tekjuskatt, virðisaukaskatt eða aðrar „markaðar tekjur“ á borð við útvarpsgjald, vörugjöld, sérstaka skatta á eldsneyti eða önnur gjöld sem hið opinbera hefur lagt á skattgreiðendur, renna saman í einn pott, ríkissjóð. Það er síðan allur gangur á því hvort fjármagnið skili sér í þau verkefni sem þeim er ætlað. Þau gjöld sem innheimt eru af ökutækjum og eldsneyti renna til að mynda ekki til vegagerðar eins og þeim er ætlað – en eru engu að síður innheimt. Gistináttagjaldið og kolefnisgjaldið eru líka dæmi um tekjustofna sem renna bara í hítina sem kallast ríkissjóður, þótt þeim hafi upphaflega verið ætlað annað hlutverk.

***

Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga því reglulega heyrum við af frjóum hugmyndum stjórnmálamanna um einstaka skatta og gjöld sem hægt sé að innheimta til að setja í margvísleg verkefni á vegum hins opinbera. Það hefur til dæmis verið rætt um að setja komugjald á ferðamenn í þeim tilgangi að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaða. Það verður að teljast afar ólíklegt að það fjármagn myndi skila sér þangað í gegnum Arnarhól.

***

Í framhaldi af spurningu Ástu sem fjallað var um hér í upphafi mætti einnig spyrja: Verður einhvern tímann hægt að vinda ofan af þessu?

Eins og staðan er núna yrði svarið líklega nei. Það bendir ekkert til þess að á næstu árum verði undið ofan af verkefnum ríkisins. Það er enginn flokkur sem raunverulega hefur það á stefnuskrá ríkisins að minnka umsvif þess (minnka báknið). Stjórnmálaflokkarnir hafa mismunandi góðar leiðir til að ráðstafa því fjármagni sem ríkið aflar en það verður sjaldnast til þess að minnka umsvif ríkisins.

Í huga þeirra flestra er ekki til það vandamál sem ríkið getur ekki leyst með peningum. Umræðan snýst sem fyrr segir frekar um hvernig sækja á aukið fjármagn.

***

Við byrjum iðulega á öfugum enda þegar við ræðum um skatta og metum skattstefnuna út frá þörfum ríkisins – sem er sem fyrr segir óseðjandi.

Kjörtímabilið er nú rúmlega hálfnað og að öllu óbreyttu verða alþingiskosningar árið 2021. Sjálfstæðisflokkurinn er líklega eini flokkurinn sem mun tala fyrir skattalækkunum en þó er rétt að stilla væntingum í hóf. Flokkurinn þarf engu að síður að móta alvöru skattastefnu, stefnu sem miðast ekki við þörf ríkisins fyrir fjármagn heldur eingöngu það hvernig bæta megi enn frekar hag heimila og fyrirtækja í landinu.

Annars er allt eins líklegt að Miðflokkurinn geri það. Sigmundur Davíð hefur áður sýnt að hann er maður stórra hugmynda og er líklegur til að koma þeim í verk.

Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.

Ritstjórnarbréfið birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.