Verkfallsaðgerðir ófaglærðra starfsmanna hjá leikskólum Reykjavíkurborgar hófust í gær. Um 3.500 börn voru send heim á hádegi, með tilheyrandi raski fyrir foreldra sem treysta á þessa þjónustu borgarinnar. Gera má ráð fyrir öðru eins raski á morgun, fimmtudag, og aftur næstu daga áður en varanleg vinnustöðvun hefst.
Öllum er ljóst að laun starfsmanna á leikskólum eru ekki há. Það væri þó óðs manns æði að hækka þau í samræmi við þær kröfur sem lagðar hafa verið fram af hálfu Eflingar (enda eru þær kröfur jafn vel ígrundaðar og hugmyndafræði þeirra sem nú stýra Eflingu). Það er aftur á móti ekkert náttúrulögmál sem segir að laun þeirra starfsmanna þurfi að vera lág.
En af hverju eru launin lág?
Eitt helsta stefnumál R-listans, hins fyrri, var að lækka leikskólagjöld í Reykjavík. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 og 2006 voru meira að segja viðraðar hugmyndir um gjaldfrjálsa leikskóla. Það hefur ekki mikið farið fyrir slíkum hugmyndum eftir efnahagshrunið 2008, enda átta sig flestir á því hversu óraunhæfar þær eru.
Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er áætlaður kostnaður við rekstur leikskóla borgarinnar í ár um 17 milljarðar króna. Kostnaður foreldra með börn á leikskólum borgarinnar er um 15% af raunkostnaði. Það hlutfall ræðst af pólitískri ákvörðun vinstri flokkanna í Reykjavík og í samræmi við stefnu þeirra sl. tvo áratugi.
Sautjánþúsund milljónir króna vaxa ekki á trjánum, slíkt fjármagn er innheimt með hámarksútsvarinu sem núverandi R-listi leggur á útsvarsgreiðendur og háum fasteignagjöldum. Þegar tekin er pólitísk ákvörðun um að innheimta algjört lágmarksgjald er ljóst að það er ekki mikið svigrúm til að hækka laun leikskólastarfsmanna. Kostnaður borgarinnar við rekstur leikskóla er svo gott sem beinn kostnaður.
Stefna vinstri manna um ódýra og jafnvel gjaldfrjálsa leikskóla skilar engu nema óánægðum starfsmönnum á lágum launum, skertri þjónustu og auðvitað háu útsvari (láglaunamaður greiðir sama hlutfall í útsvar og hálaunamaður). Meginþorri foreldra hefur efni á því að greiða hærri leikskólagjöld og það er ýmis úrræði í boði fyrir þá sem hafa það ekki.
Það er vert að hafa þetta í huga næst þegar stjórnmálamenn lofa lágum gjöldum fyrir opinbera þjónustu, hvort sem það er fyrir leikskóla, heilbrigðisþjónustu eða menntun.
Hvað ætli það sé langt í að einhverjir starfsmenn Landsspítalans fari fram á að fá laun sín „leiðrétt“?