Skammir stjórnmálamanna yfir eigin sinnuleysi

Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref, orti Nóbelsskáldið Halldór K. Laxness í Maístjörnunni. Um það verður ekki deilt að Halldór var magnaður rithöfundur og ritverk hans munu lengi lifa með þjóðinni. Að því sögðu er rétt að halda því til haga að líklega var Halldór á þeim tíma eini íslenski sósíalistinn sem átti þess kost að búa á sveitasetri, með Jagúar-bifreið í hlaðinu og sundlaug í garðinum.

Þrátt fyrir mikla góðæristíma á liðnum árum er mikil spenna í þjóðfélaginu – og ekki síst á vinnumarkaði. Það eru svo sem ekki erfiðir tímar, en það er augljóslega mikið atvinnuþref. Launakostnaður fyrirtækja hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum og hann verður ekki skorinn niður öðruvísi en með uppsögnum, því miður. Við höfum nú þegar séð þess merki; á liðnum vikum hafa fyrirtæki farið í hópuppsagnir, lokað starfsstöðvum eða gert aðrar breytingar á starfseminni til að hagræða í rekstri.

Og hver er krafa þeirra sem nú stýra stærstu verkalýðsfélögum landsins? Jú, að hækka launin enn frekar.

***

Í ritstjórnardálkinum Fjölni var í síðasta tölublaði Þjóðmála fjallað um störfin sem kunna að hverfa á næstu árum. Það gerist að miklu leyti vegna fjórðu iðnbyltingarinnar en einnig með sívaxandi kröfum um hærri laun. Fjölnir sagði í grein sinni: „Vinnumarkaðurinn er sífellt að taka breytingum og enginn veit hvernig hann mun líta út eftir nokkur ár. Í dag er til fjöldinn allur af störfum sem voru ekki til fyrir 20 árum og fyrir 20 árum var til mikið af störfum sem eru ekki til í dag. Á þessu virðast stjórnmálamenn hafa takmarkaðan skilning og svo virðist sem forystumenn verkalýðsleiðtoga hafi hann ekki heldur.“

Þetta sýndi sig meðal annars þegar þingmenn og heilu sveitarfélögin fóru að býsnast yfir því að tryggingafélagið VÍS ákvað að loka sumum af útibúum sínum á landsbyggðinni (í framhjáhlaupi má nefna að VÍS rekur eitt þjónustuútibú á öllu höfuðborgarsvæðinu). Samskipti með tryggingar fara að nær öllu leyti fram í gegnum netið nú til dags og þörfin fyrir rekstur sérstakra útibúa verður sífellt minni.

Sjálfsagt finnst fólki þægilegt að eiga sinn þjónustufulltrúa þegar eitthvað kemur upp á og enn betra er að vera málkunnugur honum eða henni. En fæstir eru til í að greiða hærri iðgjöld til að halda starfsgildinu í heimabyggð. Hver á þá að bera kostnaðinn af því?

***

Það er líka ákveðin kaldhæðni fólgin í því að sjá stjórnmálamenn býsnast yfir því að fyrirtæki hagræði í rekstri sínum með þessum hætti. Stjórnmálamenn á Alþingi hafa lítið gert til að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja á síðustu árum. Tryggingagjaldið vegur þar þyngst, en það hefur lítið lækkað og mun aðeins lækka í hægum skrefum næstu árin. Tryggingagjaldinu var upphaflega ætlað að fjármagna atvinnuleysisbætur en þegar atvinnuleysið hvarf ákváðu stjórnmálamenn að viðhalda háu tryggingagjaldi og nota fjármagnið í alls konar önnur verkefni. Við þetta bætist ýmiss konar regluverk, eftirlitsiðnaður og fleira sem kemur á færibandi frá stjórnmálamönnum með tilheyrandi kostnaði fyrir fyrirtæki.

Sveitarfélögin eru heldur ekki saklaus. Fasteignagjöld atvinnuhúsnæðis hafa hækkað umtalsvert með hækkandi fasteignamati. Ef það væri einhver alvöru samkeppni á milli sveitarfélaga um að halda fyrirtækjum í heimabyggð myndu þau byrja á því að lækka álagningu fasteignagjalda. Næsta skref yrði að einfalda stjórnsýsluna til að gera hana skilvirkari.

Í stuttu máli geta stjórnmálamenn ekki bæði haldið sköttum og gjöldum háum og á sama tíma skammað fyrirtæki fyrir að hagræða í rekstri. Stjórnmálamenn eiga það ekki inni að tala með þessum hætti.

***

Að því sögðu stendur VÍS vissulega frammi fyrir þeirri áskorun að viðhalda góðu sambandi við viðskiptavini sína, hvar sem þeir búa. Það sama má segja um önnur tryggingafélög og banka, en í báðum greinum hefur þjónusta og afgreiðsla færst í auknum mæli á netið með tilheyrandi fækkun starfa. En það er áskorun fyrirtækjanna, ekki stjórnmálamanna. Ég hef ekki enn hitt þann forstjóra sem ekki hefur brennandi þrá fyrir því að gera vel við viðskiptavini sína.

***

Ég hef heldur ekki hitt þann forstjóra sem nýtur þess að segja upp fólki. Að segja upp starfsmanni er sársaukafull aðgerð og er ekki tekin af léttúð.

En við erum aðeins að sjá upphafið að hagræðingarferlinu. Hvort sem það eru tryggingafélög, flugfélög, bankar, framleiðslufyrirtæki, þjónustufyrirtæki eða hvað annað – allir þurfa að hagræða og það er stundum gert með sársaukafullum aðgerðum. Það eru aðeins ríkisfyrirtæki og aðrar opinberar stofnanir sem geta haldið áfram óbreyttum rekstri, því ríkið passar upp á þau.

***

Aftur að verkalýðshreyfingunni. Hér var, meira í gamni en alvöru, minnst á ríkidæmi Halldórs Laxness. Það verður þó ekki af Halldóri tekið að hann aflaði auðæfa sinna með ritverkum og lifði í vellystingum.

Það var þó undantekningin frá reglunni. Nú hafa sósíalistar nútímans tryggt sér aðgang að digrum sjóðum verkalýðshreyfinganna eftir að hafa tekið þau yfir. Það stefnir í að áhugaleysi launamanna á störfum verkalýðsfélaganna komi í bakið á þeim sjálfum, enda hafa þeir sem nú stýra félögunum náð kjöri með afar lítið umboð á bak við sig. Það hversu lítil þátttaka hefur verið í kjöri forystumanna verkalýðshreyfinganna gefur ágæta mynd af hagsældinni hér í landi (þegar fólk hefur það gott er það lítið að hugsa út í valdabaráttu innan verkalýðsfélaga). Þrátt fyrir takmarkað umboð tala leiðtogar helstu verkalýðsfélaga með digurbarkalegum hætti um menn og fyrirtæki og stefna um leið atvinnulífinu í heild sinni í mikla hættu.

Það má ekki gleyma því að launþegar eru hluti af atvinnulífinu og það eru þeir sem fjármagna verkalýðsfélögin. Meginþorri félagsmanna í verkalýðsfélögum er þar til að geta leigt sér sumarbústað, fá styrk úr sjúkrasjóði og annað tilheyrandi.

Nú þurfa allir launþegar að spyrja sig að því hvort þeir séu tilbúnir að leggja heimilisbókhaldið undir til að fara í stríð með foringjum VR, Eflingar og annarra verkalýðsfélaga sem binda bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamennirnir. Ef svarið er já er rétt að upplýsa að ef stríðið vinnst tapa samt allir nema Gunnar Smári Egilsson.

Ætli svarið sé þá enn já?

***

Og að lokum. Nú í október verða liðin tíu ár frá hinu svokallaða hruni. Nú er í fyrsta sinn birtur greinaflokkur í Þjóðmálum þar sem nokkrir höfundar voru beðnir um að skrifa um sama málefnið, Áratugur frá hruni. Það er nauðsynlegt að greina eftirmála hrunsins með réttum hætti, en nú í október verður að öllum líkindum fjallað um hrunið frá ýmsum sjónarhornum, misgóðum.

Gísli Freyr Valdórsson

 

– Greinin birtist sem ritstjórnarbréf í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson