Borg fyrir fólkið

Að óbreyttu munu skuldir borgarsjóðs á íbúa nærri þrefaldast frá 2014. Í fjárhagsáætlun sem samþykkt var í desember á að taka 52 milljarða lán á næstu 12 mánuðum. Milljarð á viku.

Eyþór Arnalds.

Ein mesta uppgötvun mannsins er að búa saman í þéttbýli. Í borg. Skipta verkum og skipuleggja störf með miklu meiri fjölbreytni en hægt er í dreifbýli. Sérhæfingin varð til, peningakerfið og ritmál, enda þurfti að skrá framleiðslu með verkaskiptingunni. Borgin varð fljótt öflugt tæki og jafnframt tækifæri fyrir þá sem fluttu þangað. Borgarþróun hefur verið drifkraftur í markaðsbúskap og sköpun, sem var hægt að sinna miklu meira. Borgin er vettvangur menningar, byggingartækni, samgangna og fjölmiðlunar. Borgarmenningin á sér um sex þúsund ára sögu en kom frekar seint til Íslands.

Reykjavíkurborg er ekki gömul borg. Aðeins sex þúsund manns bjuggu í kaupstaðnum Reykjavík í upphafi síðustu aldar. Fljótlega upp úr því tók Reykjavík stökk. Vatnsveitan tók til starfa 1909 og Elliðaárvirkjun, sem nú er friðlýst, árið 1921. Hitaveita Reykjavíkur, sem lengi var stærsta hitaveita í heimi, hóf rekstur árið 1930. Einn helsti hvatamaður þessara framfara var Jón Þorláksson verkfræðingur, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Vatnið og jarðvarminn var þannig hluti af uppbyggingu borgarinnar og er það enn. Reykjavík var mikill segull á tuttugustu öld. Fólkið flutti á mölina. Svo mjög að það var talið sérstakt byggðavandamál, þó að í reynd væri Ísland einmitt að verða mun byggilegra vegna borgarþróunarinnar.

Fyrir fólkið í landinu er gríðarlega mikilvægt að hér sé borg í fremstu röð sem er raunverulegur valkostur við önnur lönd. Ungt fólk hefur val um hvar það velur sér búsetu, hvar það vill læra, vinna og ala upp börn. Einmitt þess vegna þarf borgin að vera samkeppnishæf við aðrar borgir svo við missum ekki fólk frá okkur. Störfin þurfa að vera til og vera fjölbreytt. Húsnæði til leigu eða sölu á viðunandi verði. Fjölbreytt menning og íþróttastarf fyrir sem flesta. Skólakerfi sem tekur mið af einstaklingnum. Mótar ekki alla í sama mót. Þannig borg getur af sér hæfileikafólk. Og hæfileikafólk dregur að sér hæfileikafólk.

Báknið borgin

Verðmætin verða ekki til í opinbera kerfinu. Það er einkaframtakið sem hefur allt frá upphafi iðnbyltingar skapað framfarir. Það hefur ekki breyst. Ríkið og sveitarfélögin hafa notið góðs af framförunum með meiri skatttekjum. Þrátt fyrir þessa stöðugu sögu framþróunar frá miðri átjándu öld eru sumir enn þeirrar trúar að best sé að fjölga opinberum starfsmönnum. Hægt sé að stækka kerfið með skuldsetningu. Það er ósjálfbær sýn eins og sagan hefur sannað. Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélag landsins og ætti að njóta hagkvæmni stærðarinnar. En því er ekki að heilsa. Starfsmenn Reykjavíkurborgar eru um 18% fleiri miðað við íbúafjölda en í nágrannasveitarfélögunum. Rekstrarkostnaður er hærri í Reykjavík þrátt fyrir tækifæri í rekstrarhagræðingu þess stóra. Þau eru einfaldlega ekki nýtt og kostnaður í borginni er mun hærri við sambærilega þjónustu.

Til að reyna að standa undir þessu rukkar Reykjavík hærra hlutfall tekjuskatts, eða útsvars, en hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar uppgangur síðustu ára er genginn niður velur borgin að fjármagna sig með gríðarlegum lántökum. Ekki er það sjálfbær búskapur. Íbúar og jafnvel fyrirtæki eru talin vera baggi, eins og glöggt kom fram í alræmdum útreikningum borgarinnar um kostnað hennar af ferðamönnum. Stærsta atvinnugreinin sem stóð á bak við uppsveiflu síðasta áratugar var talin vera kostnaður fyrir höfuðborgina. Heilar 8.300 milljónir króna á ári. Ferðafólk og fólk sem vinnur við ferðaþjónustu var samkvæmt þessu að kosta borgina milljón á klukkutímann. Með þessum útreikningum hefði gjaldþrot WOW og lokun landamæranna átt að skila Reykjavíkurborg miklum ábata. Það kom því ýmsum á óvart þegar forsvarsmenn meirihlutans í Reykjavík óskuðu eftir sérstakri fjárhagsaðstoð frá ríkissjóði upp á 50 milljarða króna. Og þegar það gekk ekki eftir ákvað borgin að lögsækja ríkið vegna jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það er víða leitað ullar í geitarhúsi hjá borginni.

Leigjendur verði eigendur

Félagsbústaðir voru stofnaðir árið 1997 utan um 828 félagslegar íbúðir. Kerfið hefur meira en þrefaldast og eru nú 2.923 íbúðir komnar í kerfið. Planið hjá borginni er að kaupa meira en 100 íbúðir á ári næstu árin. Það kallar á meira en þrjá milljarða á ári í viðbótarfjárfestingar. Hverju einasta ári. Þau sem nú eru leigjendur og eiga á hættu að missa heimili sín ef þau vinna sér inn viðbótartekjur geta þá orðið eigendur. Nýtt sér hlutdeildarlán og fengið eiginfjárlán frá borginni. Halda heimilinu. Eignast öryggi og höfuðstól. Þannig styrkjast fjölskyldur og einstaklingar og báknið bólgnar minna.

Borgin 2.0

Að óbreyttu munu skuldir borgarsjóðs á íbúa nærri þrefaldast frá 2014. Í fjárhagsáætlun sem verið er að samþykkja nú í desember á að taka 52 milljarða lán á næstu 12 mánuðum. Milljarð á viku. Lánakjör borgarinnar hafa snarversnað eftir að „græna planið“ var kynnt. Skuldaplanið græna gerir ráð fyrir 175 milljörðum í fjárfestingar og þær eru svo sannarlega ekki allar grænar. Í maí seldi borgin skuldabréf með 2,99% kröfu, en nú er hún komin í 4,5%. Það er miklu hærri vaxtakostnaður en gert var ráð fyrir. Það var því ljóst áður en planið var samþykkt að það gengur ekki upp. Það sem þarf núna er alger stefnubreyting. Borgin þarf að nútímavæðast og hagræða í rekstri líkt og fyrirtækin gera. Nýta tæknina betur. Bjóða út miklu meira. Efla samkeppni. Selja þær eignir sem ekki tilheyra rekstri sveitarfélags, eins og malbikunarstöð og fjarskiptafélag. Þar liggja tugir milljarða. Borgin þarf uppfærslu eins og tölva sem er með minnisleka og höktir.

Reykjavík 2.0 á að setja sér mælanleg markmið á flestum sviðum. Bæta lestur og kunnáttu skólabarna með mælanlegum markmiðum. Minnka tafatíma og forgangsraða fjármunum betur í samgöngumálum. Búa borgina undir sjálfkeyrandi tækni. Auka loftgæði með þrifum og hvötum til að slíta götum minna. Stórauka framboð á hagstæðu byggingarlandi til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem nú þarf að leita annað. Fjölbreyttari byggingar, ekki einhæfar blokkir. Hlusta á fyrirtæki og stofnanir sem þurfa aðstöðu en hrekja þau ekki annað. Lækka álögur og gjöld. Einfalda stjórnkerfið. Leyfa fólki sem nú er fast í félagslegu húsnæðiskerfi að eignast íbúðina með kaupum. Minnka báknið. Bæta þjónustuna. Þetta er stórt verkefni en framkvæmanlegt. Í dag eru fjórir ólíkir flokkar við stjórn. Þeir eru hver með sínar áherslur og hrossakaupin eru dýr. Ný borgarstjórn þarf að hafa skýra sýn og áttavita í lagi. Með þessari uppskrift er hægt að taka Reykjavík á næsta stig. Árið 2020 verður brátt að baki. Það verður gott að horfa fram til 2022 þegar borgarbúar geta tekið ákvörðun um að uppfæra borgarforritið. Borgin 2.0 er það sem þarf. Ekkert minna.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.