Halldór Benjamín: Trúnaður SA er ekki bara við atvinnurekendur heldur við fólkið í landinu

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (Mynd: HAG)

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að staðan væri önnur ef aðeins væri búið að semja við þriðjung markaðarins.

Rætt er við Halldór Benjamín í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar er, eins og gefur að skilja, nokkuð fjallað um aðdraganda og gerð Lífskjarasamningsins og stöðuna á íslenskum vinnumarkaði. Hluti viðtalsins hefur þegar verið birtur á vef Þjóðmála. Þá er einnig fjallað um þá samninga sem eftir eru og sömuleiðis varnaðarorð Halldórs Benjamín um mögulega kulnun hagkerfisins.

„[…] nú eigum við bara 3% eftir og þá vegur trúverðugleiki okkar málflutnings þungt og eykst einungis eftir því sem við fáum fleiri til þess að fylgja markaðri launastefnu,“ segir Halldór Benjamín í viðtalinu.

„Þetta er ekki bara launastefna SA, þetta er launastefna atvinnurekenda og launafólks – fólksins í landinu. Við verðum að virða það. Trúnaður SA er ekki bara við atvinnurekendur heldur við fólkið í landinu. Þegar SA gera kjarasamning við stóran hóp fólks felast í því fyrirheit um að samið verði á þeim grunni við alla aðra. Ef við horfum aftur í tímann sjáum við að íslenskur vinnumarkaður hefur einkennst af hinu margþekkta höfrungahlaupi. Stéttir A til Æ semja en svo kemur Ö og semur um aðeins meira. Þá þarf að leiðrétta allar hinar og svona gengur þetta endalaust fyrir sig. Á því höfrungahlaupi tapa allir og þeir mest sem minnst hafa á milli handa.“

Þá segir Halldór Benjamín að of snemmt sé að fagna sigri, en hann sé þó sannfærður um að Lífskjarasamningarnir muni skila bættum hag fyrir alla landsmenn.

„Mín trú er að þegar atvinnurekendur og launafólk líta til baka eftir þrjú ár og meta hvort þetta hafi verið gott eða vont, þá hafi kaupmáttur aukist á tímabilinu – jafnvel þótt launahækkanir hafi verið hóflegar og rúmast innan getu hagkerfisins,“ segir Halldór Benjamín.

„Á sama tíma og við gerum ráð fyrir auknum kaupmætti mun verðbólga yfir samningstímann vera afar hófleg, sennilega undir verðbólgumarkmiði, og vextir lægri en í 20 ár. Á endanum er þessi samsetta leið launabreytinga, vaxtalækkana og ívilnandi aðgerða stjórnvalda öflug aðgerð til að bæta lífskjör landsmanna.“

Halldór segir að launahækkanir Lífskjarasamningsins geri ráð fyrir hækkun mánaðarlauna um 17 þúsund krónur á fyrsta ári – samtals um 90 þúsund krónur fyrir fólk á lægstu töxtunum á samningstímanum til ársloka 2022. Einnig munu lægri vextir bæta hag heimilanna verulega. Frá undirritun samninganna hefur Seðlabanki Íslands lækkað stýrivexti um 1,5 prósentustig, niður í 3,0%.

„Flest heimili landsins skulda húsnæðislán og við hvetjum sem flesta til að endurfjármagna þau til þess að fá lægri vexti. Breytingar sem hægt er að ná fram þar eru margfaldar á við þær launahækkanir sem Lífskjarasamningurinn skilar í krónum talið og eru raunveruleg lífskjarabót,“ segir Halldór Benjamín.

„Þess vegna var lagt upp með samsetta lausn og það tókst. Gamla nálgunin miðaði alltaf að því að ná sem mestri launahækkun og þá var horft fram hjá öðrum afleiðingum til skemmri tíma. Afleiðingum sem höfðu afleit áhrif á hag heimilanna í kjölfar aukinnar verðbólgu sem ýmist jók skuldir heimilanna eða hækkaði óverðtryggða vexti og skerti beint ráðstöfunartekjur heimilanna. Matið sem fer fram við eldhúsborðið á öllum heimilum landsins hlýtur að felast í því að vega og meta bæði launahækkanir og fjölda annarra þátta. Mér finnst einboðið að við þróum þessa nálgun áfram með verkalýðshreyfingunni og sér í lagi er hagvaxtaraukinn sem kveðið er á um í Lífskjarasamningnum mikilvægur. Hann byggist einfaldlega á því að við skiptum gæðum samfélagsins ef vel gengur. Ef hagvöxtur á mann eykst, þ.e. ef verðmætasköpun eykst í hagkerfinu, þá skilar það sér inn í kjarasamninginn sem viðbótarlaunahækkun. Það er bæði skynsamlegt og sanngjarnt. Þetta er markmiðið með Lífskjarasamningnum og er til þess fallið að styrkja sáttina í samfélaginu.“

Það verður ekki horft framhjá því að þrátt fyrir að Lífskjarasamningurinn bæti hag heimilanna er hann kostnaðarsamur fyrir fyrirtækin í landinu. Aðspurður um þetta bendir Halldór Benjamín á að 98% atvinnurekenda innan vébanda SA hafi samþykkt samninginn í atkvæðagreiðslu.

„Laun á Íslandi eru vissulega há og hagkerfið stendur ekki undir frekari launahækkunum með góðu móti,“ segir Halldór Benjamín og vísar þar til atvinnulífsins í heild sinni en ekki bara nýjustu samninga.

„Í alþjóðlegum samanburði eru laun á Íslandi ein þau hæstu í heimi. Það er ákveðinn ventill í hagkerfinu og loftið mun fara út um þann ventil ef við hækkum laun of mikið. Á undanförnum árum hefur ventillinn verið verðbólga í gegnum fall krónunnar. Því er ekki að heilsa núna, verðbólga er undir verðbólgumarkmiði og gengið er stöðugt. Sennilega hefur raungengið styrkst varanlega og við erum enn með viðskiptaafgang í utanríkisviðskiptum þótt hagvöxtur sé hverfandi. Raunaðlögun í hagkerfinu er öðruvísi en áður. Það á sér stað ákveðin hagræðing í atvinnulífinu, fyrst og fremst með framleiðniaukandi aðgerðum, lækkun kostnaðar og tækniþróun. Þetta er einfaldlega fórnarkostnaður þess að vera með há laun í landinu. Við þurfum að vera raunsæ, bæði forystumenn SA og verkalýðshreyfingin. Upp á hið síðara virðist oft vanta. Það er rúmt ár síðan ég lýsti því yfir að það ríkti svikalogn í hagkerfinu. Hagtölurnar á þeim tíma studdu ekki þá fullyrðingu og ég var gagnrýndur harðlega. Við höfðum nýlokið fundaherferð um landið þar sem við fórum og ræddum við atvinnurekendur og fólk á landsbyggðinni um hvernig gengi. Þá var fólk byrjað að finna fyrir því að aðstæður voru að breytast. Síðastliðna átján mánuði hef ég verið sannfærður um að kólnun væri fram undan, eins og er að koma í ljós um þessar mundir. Það er ekkert í líkingu við það sem átti sér stað haustið 2008; þetta er þvert á móti eðlileg aðlögun í hagkerfinu en hún er sársaukafull meðan á henni stendur. En spáin reyndist hárrétt.“

Sem fyrr segir er rætt nánar við Halldór Benjamín í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Fyrir utan aðdraganda og gerð Lífskjarasamningsins fjallar hann um nýja skýrslu samtakanna um menntamál, aðkomu einkaaðila að heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu innviða, um hina hugmyndafræðilegu baráttu sem á sér stað um markaðshagkerfið og fleira.

Viðtalið birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.