Leiðtogar með vindla

Talið er að Winston Churchill hafi reykt um 250 þúsund vindla í þau tæpu 70 ár sem hann reykti.

Ef við hugsum um fræga stjórnmálamenn og vindla er það helst Winston Churchill sem kemur upp í hugann. Churchill er líklega einn þekktasti vindlareykingamaður 20. aldarinnar og til eru óteljandi myndir af honum með stóran vindil í hendi. Winston Churchill var á 91. aldursári þegar hann lést í janúar 1965.

Það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess í ljósi þess óheilbrigða lífsstíls sem hann lifði. Fyrir utan það að reykja alla jafna tíu vindla á dag drakk hann nær daglega umtalsvert magn af áfengi. Talið er að hann hafi reykt um 250 þúsund vindla á þeim tæpu 70 árum sem hann reykti vindla.

Á venjulegum degi vaknaði Churchill um klukkan átta, kveikti sér í vindli, fékk sér viskí og las blöðin. Þessi rútína hans tók um tvo tíma og eiginkona hans, Clementine, lét hann hafa sérstakan vindlasmekk til að forða því að fá ösku á náttfötin og sængurfötin. Það eru mörg dæmi þess að hann hafi eyðilagt jakkaföt og gólfteppi vegna vindlareykinga.

En allt byrjaði þetta einhvers staðar og einhvern tímann. Árið 1895, þegar Churchill var um tvítugt og genginn í breska herinn, var hann sendur til Kúbu til að fylgjast með sjálfstæðisstríðinu þar í landi. Þar og þá kviknaði áhugi hans á vindlum. Hann hafði þó nokkrum árum áður, þá aðeins 15 ára, byrjað að reykja sígarettur en lét fljótt af þeim slæma vana.

Churchill reykti þennan La Corona-vindil (frá Kúbu) í ferð sinni til Parísar árið 1947. Churchill hafði flogið til Parísar og flugstjóri vélarinnar, William Alan Turnar, geymdi vindilinn í mörg ár á eftir. Eins og sést á myndinni er vindillinn sérmerktur Churchill. Árið 2017 var vindillinn seldur á uppboði fyrir 9.000 sterlingspund.

Á Kúbu kynntist hann tveimur vindlategundum sem áttu eftir að fylgja honum alla ævi; Romeo y Julieta og La Aroma de Cuba. Báðir þessir framleiðendur hafa á síðari árum gert út á notkun Churchills á vörum þeirra, eðlilega. Þegar Churchill kom til Kúbu hafði Romeo y Julieta starfað í tæp 20 ár. Vörumerkið varð þekkt í Evrópu nokkrum árum eftir að Churchill byrjaði að reykja vindlana frá þeim. Það var þó ekki hann sem gerði þá fræga heldur sá sem keypti fyrirtækið nokkru síðar, Jose Rodriguez Fernandez. Hann fór í mikla söluferð um Evrópu og bauð viðskiptavinum sínum upp á sérhönnuð bönd utan um vindlana. Fyrirtækið átti þó síðar eftir að nefna eina af tegundum sínum Julieta no. 2, eftir Churchill. Það gerðist þegar hann heimsótti Kúbu aftur árið 1946. Eftir byltinguna á Kúbu, þar sem tóbaksfyrirtækin voru þjóðnýtt, flutti fyrirtækið til Dóminíska lýðveldisins og selur þaðan vörur sínar inn á Bandaríkjamarkað.

Churchill lifði stormasömu lífi, bæði í einkalífinu og á vettvangi stjórnmálanna, en stóð í þeirri staðföstu trú að vindillinn veitti honum ró og frið á erfiðum stundum. Það er meðal annars af þeirri ástæðu sem hann lét hanna sérstaka gasgrímu fyrir sig meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð, grímu sem hann gat reykt vindil í gegnum.

The Romeo Y Julieta Churchill no. 2 er sjö tommu vindill (178 mm) sem framleiddur er í Dóminíska lýðveldinu. Hann er bragðmikill en flokkast þó sem meðalsterkur vindill. Þvermál vindilsins er 18,7 mm.

Sem fyrr segir reykti hann upp undir tíu vindla á dag, en þó ekki alla upp til agna. Hann átti það til að tyggja endann á þeim og leyfa sumum þeirra að brenna upp. Hann bjó sjálfur til aukalag á vindlana, sem kallað er bellybando (það er í raun ekki til neitt íslenskt orð yfir það). Það var brúnn pappi sem hann vafði utan um endann á vindlum sínum. Churchill klippti aldrei vindlana sína þrátt fyrir að hafa fengið gefins ógrynni af vindlaklippum í gegnum tíðina. Hann lét sér nægja að vefja þá með fyrrnefndu lagi.

Forsetarnir engu sér vindil, en ekki lengur

Það eru þó fleiri þekktir stjórnmálamenn 20. aldar sem nutu þess að fá sér vindil. Flestir forsetar Bandaríkjanna reyktu vindla, ýmist að staðaldri eða við sérstök tilefni. Þeir Calvin Coolidge og Herbert Hoover reyktu báðir vindla að staðaldri. Coolidge byrjaði daginn iðulega á því að fá sér vindil og var duglegur að bjóða upp á vindla á fundum. Hann leit á vindla sem ákveðið vopn í erfiðum viðræðum við aðra stjórnmálamenn. Það að geta tekið upp vindil, boðið með sér og kveikt í fyrir aðra gat verið byrjun á góðum samræðum.

John F. Kennedy var einnig mikill unnandi góðra vindla. Hans uppáhaldstegund var H. Upmann Petit Corona frá Kúbu.

John F. Kennedy var einnig mikill unnandi góðra vindla. Hans uppáhaldstegund var H. Upmann Petit Corona frá Kúbu. Kennedy var ekki stórreykingamaður, en fékk sér þó vindil nær daglega. Fræg er sagan af því að áður en hann undirritaði viðskiptabann á Kúbu árið 1962 bað hann fjölmiðlafulltrúa sinn, Pierre Salinger (sem einnig var vindlaáhugamaður) um að verða sér úti um eins mikið magn og hægt væri af kúbversku vindlategundinni. Salinger náði að verða sér úti um 1.200 stykki áður en Kennedy skrifaði undir bannið. Seinna sama ár fór Salinger til Moskvu og átti þar fund með Nikita Khrushchev. Í lok fundarins afhenti Khrushchev honum vindla frá Kúbu (sem þá voru orðnir ólöglegir í Bandaríkjunum), 250 stykki.

Kennedy brá nokkuð þegar Salinger afhenti honum vindlana og skipaði honum að afhenda þá tollayfirvöldum. Salinger spurði Kennedy hvað hann hygðist láta gera við vindlana. „Eyða þeim,“ svaraði Kennedy að bragði. Mörgum árum síðar sagði Salinger opinberlega að Kennedy hefði vissulega látið eyða þeim, einum í einu.

Í tíð Richards Nixons (sem sjálfur reykti aðeins vindla við hátíðleg tilefni) áttu sér stað þau tímamót að hætt var að bjóða upp á vindla í Hvíta húsinu nema við sérstök tilefni.

Bill Clinton sást oft með vindil á golfvellinum, en aldrei vindil sem búið var að kveikja í. Uppáhaldsvindlar hans eru taldir vera Gurkha Grand Reserve. Í hans tíð voru reykingar bannaðar í Hvíta húsinu og allir öskubakkar fjarlægðir, þó ekki að hans frumkvæði.

Það var þó ekki fyrr en í tíð Bills Clinton sem reykingar voru bannaðar í Hvíta húsinu og allir öskubakkar fjarlægðir. Clinton fékk sér þó vindil af og til. Til eru myndir af honum með vindla sem ekki er búið að kveikja í en hann passaði sig á því að reykja aldrei á almannafæri. Það er skjalfest að hann átti Gurkha Grand Reserve vindla frá Dóminíska lýðveldinu. Þeir vindlar eru ekki ódýrir, líklega dýrasta vara sem framleidd er af Gurkha.

George W. Bush er líklega eini forseti Bandaríkjanna sem hefur farið í áfengismeðferð. Hann drakk (og drekkur sjálfsagt enn) þó reglulega óáfengan bjór og fékk sér öðru hvoru vindil. Eins og Clinton gætti hann þess þó að reykja ekki á almannafæri.

Gurkha lét framleiða sérstaka línu af vindlum fyrir innsetningarathöfn núverandi forseta, Trump Presidente. Þeim var dreift til góðra vina og samstarfsmanna forsetans en Donald Trump reykir ekki vindla sjálfur.

Við myndum að öllum líkindum ekki sjá stjórnmálamenn í dag reykja vindla á almannafæri. Það fer gegn lýðheilsumarkmiðum flestra vestrænna ríkja og er auðvitað ekki jafn töff og það þótti einu sinni. Margir þeirra fá sér þó vindla í góðra vina hópi eða við hátíðleg tilefni. Meira að segja íslenskir stjórnmálamenn kunna gott að meta þegar kemur að vindlum. Það er önnur og lengri saga.

Höfundur er ráðgjafi, ritstjóri Þjóðmála og áhugamaður um vindla.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Í samræmi við 7. gr. laga um tóbaksvarnir (6/2002) er rétt að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra tegunda sem hér er fjallað um. Samkvæmt íslenskum lögum má fjalla um einstakar áfengistegundir en ekki um einstakar vindlategundir, nema þá sérstaklega til að vara við skaðsemi þeirra.