Beethoven og Fidelio

Ludwig van Beethoven fæddist 1770 og lést 1827.

Þýska tónskáldið Ludwig van Beethoven fæddist í Bonn árið 1770 en við vitum ekki nákvæmlega hvenær. Af lestri kirkjubóka má sjá að hann var skírður 17. desember það ár og samkvæmt hefð voru börn á þessu landsvæði borin til skírnar degi eftir fæðingu. Þetta (auk nokkurra fleiri atriða) hefur orðið til þess að flestir fræðimenn hafa sammælst um að Beethoven hafi fæðst hinn 16. desember 1770. Það þýðir að í desember árið 2020 eru liðin 250 ár frá fæðingu tónskáldsins. Búast má við að þeim tímamótum verði fagnað víða um heim, til að mynda með fyrirlestrum, tónleikum og upptökum.

Engum blöðum er um það að fletta að Beethoven er í hópi frægustu tónskálda veraldar. Það kom í hans hlut að brúa bilið milli klassíska tímabilsins í tónlistarsögunni og þess rómantíska og hann hafði gríðarleg áhrif á sporgöngumenn sína. Fyrsta sinfónían sem hann samdi er til að mynda háklassísk en við erum strax farin að heyra áður óþekktar ómstríður í 3. sinfóníunni. Frægustu verk hans eru hverju mannsbarni kunn og nægir þar að nefna upphafsstefið úr 5. sinfóníunni, Für Elise og aðalstefið úr 4. kafla 9. sinfóníunnar, Óðnum til gleðinnar. Þá má einnig tilgreina Allegretto (2. kaflann) úr 7. sinfóníunni. Brot úr þessum verkum geta allir raulað, hvort sem þeir hafa áhuga á klassískri tónlist eða ekki.

Beethoven samdi fjölda verka. Hér má tína til níu sinfóníur, fimm píanókonserta, fiðlukonsert, 32 píanósónötur, 16 strengjakvartetta, óperu og tvær messur svo eitthvað sé nefnt. Tónskáldaferli hans er jafnan skipt í þrjú tímabil og nær hið fyrsta fram til ársins 1802, miðtímabilið frá 1802-12 og hið síðasta frá 1812 og uns Beethoven lést í mars 1827.

Lengst af ævinnar átti Beethoven andstreymt og átti gjarnan í útistöðum við samtíðarmenn sína. Mikið af þessum karaktereinkennum hefur verið rakið til heyrnarleysis hans, en Beethoven byrjaði snemma að missa heyrn og var orðinn nánast alveg heyrnarlaus árið 1811. Þá hætti hann að mestu að koma fram á tónleikum, hvort sem það var sem píanóleikari eða stjórnandi, en hélt þess í stað áfram að semja. Mörg af sínum helstu verkum samdi hann því alveg heyrnarlaus. Hér ætla ég að fjalla stuttlega um tilurð eins af meistaraverkum Beethovens, óperuna Fidelio (eða Leonore eins og Beethoven sjálfur kaus að kalla hana). Þrátt fyrir að vera í hópi bestu verka tónskáldsins er Fidelio að mörgu leyti gallað verk enda gekk fæðingin ekki þrautalaust. Það er líka að því leyti sérstakt að smíði þess teygir sig yfir tvö tímabil á ferli tónskáldsins, það er að segja hann hóf að semja óperuna snemma á miðtímabilinu (1802-12) en lauk ekki endanlega við hana fyrr en á síðasta tímabili tónskáldaferilsins (1812-27).

Beethoven lagði fyrstu drög að óperu árið 1803, þegar hann var ráðinn til þess að semja slíkt verk við texta Emanuels Schikaneder (hann þekkjum við einmitt sem textahöfund Töfraflautu Mozarts). Þær áætlanir runnu hins vegar út í sandinn en eitthvað af því sem Beethoven samdi af þessu tilefni nýttist í Fidelio (hér má nefna dúettinn „O namenlose Freude“ sem rataði í 2. þátt lokagerðar óperunnar).

Árið 1804 hóf Beethoven hins vegar að semja óperu við nýjan texta, að þessu sinni þýska þýðingu Josephs Sonnenleithner á leikriti franska skáldsins Jean-Nicolas Bouilly, Leonore, oder Der Triumph der ehelichen Liebe (1794), og var verkinu að mestu lokið þegar kom fram á árið 1805.

Ýmsar tafir urðu til þess að óperan var ekki frumflutt fyrr en 20. nóvember sama ár. Frumflutningurinn fór fram í Vínarborg (Theater an der Wien), sem þá var hersetin af mönnum Napóleons, og viðtökurnar voru ekki góðar. Óperan, sem þá var í þremur þáttum, þótti meðal annars of löng og hún var aðeins sýnd þrisvar sinnum í upprunalegri gerð. Forleikurinn að verkinu var sá sem við þekkjum nú sem Leónóruforleikinn nr. 2.

Í sem stystu máli segir óperan Fidelio frá baráttu Leónóru (sem er dulbúin lengst af í óperunni sem karlmaður undir nafninu Fidelio) fyrir því að frelsa eiginmann sinn, Florestan, sem hefur verið dæmdur til dauða. Hann er samviskufangi sem situr í fangelsi nálægt Sevilla á Spáni og óperan gerist seint á 18. öld (en er oft flutt til í tíma í uppfærslum nú á dögum). Inn í söguþráðinn blandast svo meðal annars óendurgoldin ást, harðræði í fangelsinu og frelsisþrá. Segja má að það síðastnefnda, frelsisþráin, og svo hatur á harðstjórn stemmi vel við lífsskoðanir Beethovens, sérstaklega á miðtímabili tónskáldaferils hans.

Beethoven tók strax til við að endurskoða verkið, m.a. með aðstoð Stephans von Breuning sem vann í textanum, og varð úr að óperan var stytt úr þremur þáttum í tvo. Þá samdi Beethoven einnig nýjan forleik að verkinu (sem við þekkjum nú sem Leónóruforleikinn nr. 3). Var það sett á nýjan leik upp í Vínarborg 29. mars 1806 (aftur í Theater an der Wien) en viðtökur létu enn á sér standa, þótt þær væru betri en við frumflutning óperunnar.

Að þessu sinni gerðist lítið fyrr en árið 1814 nema hvað Beethoven samdi konsertstykki tengt óperunni fyrir flutning árið 1807 í Prag sem við þekkjum nú sem Leónóruforleikinn nr. 1. Enn tók Beethoven til við að endurskoða verkið og að þessu sinni vann Georg Friedrich Treitschke í textanum.

Aftur var óperan sýnd í Vínarborg, að þessu sinni hinn 23. maí 1814 í Kärtnertortheater, og sló þá í gegn. Meðal söngvara það kvöld var Johann Michael Vogl sem fór með hlutverk fangelsisstjórans Pizarros en Vogl var náinn vinur og samstarfsmaður Schuberts. Sjálfur var hinn 17 ára gamli Franz Schubert viðstaddur frumsýninguna en hann hafði selt hluta af bókakosti sínum til að eiga fyrir aðgangseyrinum. Enn samdi Beethoven nýjan forleik að verkinu, að þessi sinni Fidelio-forleikinn sem jafnan er leikinn þegar verkið er sett upp nú á dögum (hann er mun styttri en Leónóruforleikirnir nr. 1-3). Einhvern tímann á 19. öld komst sú hefð á að leika Leónóruforleikinn nr. 3 á undan lokaatriði óperunnar (seint í 2. þætti) og var sá siður lengi vel ranglega rakinn til Gustavs Mahler. Fæstir gera slíkt nú á dögum, hvorki á sýningum né á upptökum.

Kannski má segja að helstu gallarnir á verkinu komi í ljós snemma – en ef við miðum við dramatíska framvindu fer Fidelio ekki að líkjast óperu fyrr en í seinni hluta 1. þáttar, það er að segja frá og með fangakórnum („O welche Lust“). Framan af einkennist verkið einkum af söngatriðum sem eru tengd saman með töluðu máli (þýska Singspiel) en sum þeirra eru þó með því fallegasta sem nokkurn tímann hefur verið sett á blað (eins og til að mynda kvartettinn „Mir ist so wunderbar“).

Það breytir því þó ekki að Fidelio skipar sér í hóp með vinsælustu óperum heims þótt hún sé meira flutt í þýskumælandi löndum en annars staðar. Þannig má nefna að á tímabilinu 2004-18 voru uppfærslur á henni í heiminum alls 326 talsins og sýningar tæplega 1.700.

Þrjár prýðilegar hljóðritanir af Fidelio: Abbado (2011), Klemperer (1962) og Karajan (1962).

Það eru til margar prýðilegar hljóðritanir af Fidelio (og reyndar að minnsta kosti ein af Leonore eins og Beethoven vildi nefna verkið þar sem reynt er að komast sem næst þeirri gerð sem frumflutt var árið 1805 en stjórnandinn á þeirri upptöku er Sir John Eliot Gardiner). Mig langar að nefna hér þrjár upptökur sem ég hlusta mikið á en þær eru býsna ólíkar. Claudio Abbado (DECCA) stjórnaði konsertuppfærslu af verkinu í Lucerne árið 2011 með þeim Ninu Stemme og Jonasi Kaufmann í hlutverkum Fidelios (Leónóru) og Florestans. Þetta er ljómandi vel sungin og spiluð upptaka og hljóðið er fyrsta flokks. Þá eru tvær upptökur frá árinu 1962 sem ég held mikið upp á. Úr stúdíói kom klassísk útgáfa sem Otto Klemperer (EMI) stjórnaði með þeim Christu Ludwig og Jon Vickers í hlutverkum Fidelios (Leónóru) og Florestans. Þetta var lengi talin viðmiðunarútgáfa (e. reference recording) af verkinu og þrátt fyrir að vera orðin hátt í 60 ára gömul stendur hún enn fyrir sínu. Herbert von Karajan gerði stúdíóhljóðritun af Fidelio árið 1970 (EMI) en það er hins vegar meira varið í upptöku með honum sem gerð var á sýningu í Vínaróperunni hinn 25. maí 1962 (Deutsche Grammophon) og gefin var út fyrir nokkrum árum. Hann er með sömu söngvara í aðalhlutverkum og Klemperer (Ludwig og Vickers) og upptakan er rafmögnuð.

Þess má geta að Karajan tók við stjórnartaumunum í Vínaróperunni 1956 og stýrði húsinu fram til 1964, síðustu tvö árin að vísu fyrst í félagi við Walter Erich Schäfer og síðar Egon Hilbert. Sambúðin var á köflum stormasöm og Karajan gekk á dyr í mars 1962, tæpum tveimur mánuðum áður en umrædd sýning á Fidelio var frumsýnd. Sættir tókust en þó aðeins tímabundið því Karajan sagði endanlega af sér sem tónlistarstjóri Vínaróperunnar vorið 1964 og sneri ekki þangað aftur fyrr en 1977 og þá aðeins sem gestastjórnandi.

Deilurnar snerust um hvaða listræna stefnu skyldi taka en Karajan hafnaði viðteknum venjum, við mismikla hrifningu íhaldssamra áhorfenda í Vínarborg. Deilurnar tóku stundum á sig býsna broslega mynd. Um það leyti sem Karajan deildi hvað harðast við Egon Hilbert um völd og áhrif stjórnaði hann sýningu á Fidelio í húsinu. Á viðkvæmum stað í 2. þætti spyr Florestan fangavörðinn Rocco hver sé eiginlega fangelsisstjórinn hér. Svarið er vissulega Pizarro en í salnum var ormstunga meðal áhorfenda sem greip spurninguna á lofti og æpti: „Egon Hilbert!“

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.