Eftir Þórlind Kjartansson, Guðmund Hafsteinsson og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur
Síðastliðið haust kynnti ríkisstjórnin nýsköpunarstefnu sína undir heitinu Nýsköpunarlandið Ísland. Stýrihópur með þátttöku allra þingflokka, hagsmunaaðila í atvinnulífinu, háskólasamfélagsins, frumkvöðla og fjárfesta lagði fram stefnuna, en verkefnastjórn stýrði vinnunni, sem svo var skilað sem tillögu til ráðherra og var lögð fram í ríkisstjórn.
Í stefnumótuninni var lögð mikil áhersla á að leggja sterkan grundvöll undir ákvarðanatöku í málaflokknum til langs tíma með því að setja fram skýra nálgun á viðfangsefnið ásamt fjölmörgum tillögum og ábendingum, stórum og smáum.
Skilgreindir voru fimm hornsteinar nýsköpunar á Íslandi og sett voru fram tíu leiðarljós, eins konar boðorð um nýsköpunarhugsun, sem varpa eiga góðu ljósi á hvernig mælt er með því að hugsað sé um nýsköpun á Íslandi og stefnumótun í tengslum við málaflokkinn.
Hornsteinarnir fimm eru: Hugarfar, mannauður, fjármagn, umgjörð og markaðsaðgengi. Undir hverjum hornsteini voru sett fram markmið um stöðuna árið 2030 og fjölmargar hugmyndir um aðgerðir. Leiðarljósin 10 snúast um þá nálgun sem stýrihópurinn mælir með að stjórnvöld hafi á nýsköpun sem málaflokk, og þau má sjá í dálki sem fylgir með greininni. Von okkar er að með þessu móti sé mögulegt að leggja grundvöll að ákvarðanatöku í málaflokknum sem nokkuð góð pólitísk sátt geti ríkt um til langs tíma og þannig verði hægt að tryggja sæmilega stöðuga undirstöðu í málaflokki sem er í eðli sínu síbreytilegur.
Síðan stefnan var kynnt hefur verið unnið að kynningu á innihaldi hennar auk þess sem nú þegar hafa verið tekin til framkvæmda ýmis atriði sem lagt var upp með í stefnunni og aðrar ákvarðanir sem tengjast málaflokknum hafa tekið mið af þeim grundvallaratriðum sem þar eru tilgreind. Allt of snemmt er að leggja mat á árangur af stefnumótunarvinnunni eða þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið á grundvelli hennar. Það er hins vegar eðlilegt að velta stöðugt fyrir sér hvernig áherslurnar í stefnumótunarvinnunni passa við það sem þykir best vera gert í heiminum.
Í bókinni Boulevard of Broken Dreams (Breiðstræti brostinna vona) fjallar Josh Lerner, prófessor við Harvard-háskóla og einn virtasti sérfræðingur heims um málefni nýsköpunar, um margvíslegar tilraunir stjórnvalda víða um heim til þess að efla nýsköpunarumhverfi. Stærsti lærdómur bókarinnar felst í því að gera sér grein fyrir því að þótt til séu fræg dæmi um vel útfærðan stuðning við nýsköpun hefur stærstur hluti slíkra tilrauna í gegnum tíðina skilað litlum eða engum árangri; raunar er ekki óalgengt að íhlutun hins opinbera í nýsköpunarumhverfið reynist á endanum vera beinlínis skaðlegt.
Þegar stýrihópur um mótun nýsköpunarstefnu fór af stað með vinnu sína haustið 2018 var sérstök áhersla á að hafa hugfastar þær villigötur sem slík stefnumótun getur ratað í og reyna með öllum mætti að forðast þær. Einkum og sér í lagi var lögð áhersla á að stefnumótunin færi ekki offari í útbelgdu sjálfstrausti um hver þróun atvinnulífs yrði í framtíðinni, heldur að einblína á leiðir til þess að skapa hugviti og framkvæmdagleði skapandi einstaklinga frjósaman farveg til framkvæmda.
Í þessu yfirliti eru skoðaðar tólf þumalfingursreglur sem Lerner setur fram í síðasta kafla bókar sinnar um hvað þurfi að hafa í huga til þess að auka líkur á því að opinber inngrip í nýsköpunarumhverfið skili árangri. Vert er að hafa í huga að auðmýkt gagnvart viðfangsefninu er mikilvæg; alls kyns atriði sem engin leið er að hafa stjórn á geta ráðið úrslitum um árangur. Hér gildir það, eins og á skurðstofum, að mikilvægara er að „sjúklingurinn“ nái bata en að „aðgerðin heppnist“. Stjórnvöld sem gera allt sem hægt er af algjörri skynsemi geta nefnilega ekki verið algjörlega örugg um að árangur náist, og stjórnvöld sem enga áherslu leggja á nýsköpunarumhverfið geta dottið í lukkupottinn og fylgst aðgerðalaus með blómlegu umhverfi sprota- og nýsköpunarstarfs verða til án síns atbeina. Eins og í svo mörgum öðrum flóknum viðfangsefnum getur verið mjög erfitt að tryggja að góður árangur náist. Ofan á þessar flækjur bætist sú staðreynd að mótun og þroski góðs nýsköpunarumhverfis tekur langan tíma; og því gildir oftast nær að þeir stjórnmálamenn sem fyrstir kveikja eldana þurfi að sætta sig við að fylgjast með öðrum njóta þeirra, jafnvel pólitískum andstæðingum sínum. En það er auðvitað algjört smáatriði í samhengi hlutanna.
Í þessari grein skoðum við þumalfingursreglur Lerners og fjöllum stuttlega um hverja og eina og reynum að leggja mat á það hvort nýsköpunarstefnan sé í samræmi við þær ráðleggingar.
- Frumkvöðlastarfsemi fyrirfinnst ekki í tómarúmi.
Lerner leggur áherslu á að undirstrika mikilvægi þess að í kringum frumkvöðla sé til staðar þétt net af alls kyns þjónustu og sérfræðiþekkingu sem aukið getur líkurnar á árangri. Hér er meðal annars átt við sérfræðinga á borð við lögfræðinga með alþjóðlega reynslu, fjármögnunarmöguleika, markaðsfólk, verkfræðinga, hönnuði og ýmsa aðra sem mikilvægt er að hafa með í ráðum þegar unnið er að þróun viðskiptaeða vöruhugmyndar. Frábær hugmynd hjá öflugum frumkvöðli á sér lítillar viðreisnar von ef ekki eru til staðar margvíslegir innviðir sem styðja við fjármögnun og vöxt á fyrstu stigum.
Í nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að til staðar sé skilningur á þessu atriði og að leitað sé leiða til þess að tryggja að umhverfi íslenskrar nýsköpunar standi ekki höllum fæti þegar kemur að aðgengi að sérhæfðri þjónustu. Þó er líklegt að sú sé einmitt staðan nú, og hafi verið jafnvel í enn meiri mæli á undanförnum áratugum. Íslensk fyrirtæki í nýsköpun líða að nokkru leyti fyrir bæði mannfæðina á Íslandi, landfræðilega einangrun og tiltölulega mikla einhæfni í atvinnulífinu.
Í þroskuðu umhverfi frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar er til staðar þétt net af ýmiss konar ráðgjöf og þjónustu sem þrífst á frjálsum samkeppnismarkaði. Mjög oft er talað um „klasa“ í þessu samhengi. Slíkir „klasar“ eru fáséðir og þurfa fyrst og fremst að verða til á grundvelli frjáls markaðar, þótt gagnlegt sé að stjórnvöld séu meðvituð um hvernig þau geta gert slíka klasamyndun líklegri og auðveldari. Raunverulegir nýsköpunarklasar byggjast fyrst og fremst á því að frumkvöðlar hópast saman og að á milli þeirra ríkir heppileg blanda af samkeppni og samvinnu; en það er einmitt einkenni á góðum nýsköpunarklösum að það er álitin skylda þeirra sem njóta velgengni að gefa af sér og styðja frumkvöðla sem eru á fyrstu stigum sinnar vegferðar.
Á Íslandi er mikilvægt að greiða fyrir alþjóðlegu samstarfi, þannig að frumkvöðlar hér á landi hafi sem auðveldastan aðgang að alþjóðlega samkeppnishæfri sérþekkingu. Ein líklegasta leiðin til þess að stuðla að slíku er að leggja áherslu á hlutverk vísifjárfesta (e. VC investors), sem taka þátt í bæði fjármögnun og stefnumótun fyrirtækja, auk þess sem slíkir fjárfestar búa að tengslaneti sem eykur líkurnar á því að efnileg fyrirtæki geti sótt aukið fjármagn til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum. Það er einmitt ein mikilvægasta aðgerðin á grunni nýsköpunarstefnunnar að stuðla að vexti og þroska vísifjárfestingarumhverfisins, meðal annars með stofnsetningu Kríu, nýsköpunar- og sprotasjóðs.
- Nýtið styrk rannsókna- og vísindasamfélagsins
Grundvöllur nýsköpunar er gjarnan lagður í umhverfi vísindarannsókna, þar sem þekkingarleitin sjálf getur leitt til hagnýtingarhugmynda. Það er hins vegar algengt að mjög skorti á þá færni sem þarf til þess að búa til fyrirtæki sem grundvallast á rannsóknum og vísindastarfi. Meðal annars á grundvelli stefnumótunarvinnu sem Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið lagði af stað í með MIT-háskóla í Bandaríkjunum var lögð áhersla á að stofnuð yrði skrifstofa sem aðstoðar við slíka þekkingu. Í árslok 2018 var sett á fót Auðna, tækniyfirfærsluskrifstofa sem hefur það hlutverk að aðstoða háskólafólk sem telur sig hafa hugmynd sem gæti orðið grundvöllur að lífvænlegu fyrirtæki.
Í okkar huga er mikilvægt að sköpunarkrafturinn í háskólum og vísindasamfélaginu nýtist ekki bara í þágu vísindanna heldur einnig til þess að byggja upp ný fyrirtæki. Til þess að svo megi vera þarf að hlúa að hugarfari frumkvöðulsins innan slíkra stofnana. Það ætti ekki að vera keppikefli hins opinbera að hagnast sjálft með beinum hætti á slíkri nýsköpun, heldur einfaldlega að hún eigi sér stað og að rannsakendur, uppfinningafólk og vísindafólk líti á það sem eftirsóknarvert að eiga frumkvæði að, eða taka þátt í, uppbyggingu fyrirtækja og sé tilbúið að taka áhættu í þágu slíkrar starfsemi.
Í nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að starfsmenn háskóla og rannsóknarstofnana hafi möguleika á því að stofna fyrirtæki á grundvelli vinnu sinnar. Það væri í okkar huga mjög eftirsóknarverð þróun að starfsmenn háskóla og rannsóknarstofnana (til dæmis Veðurstofunnar og Hafrannsóknastofnunar) hafi tækifæri til þess. Mikilvægt er að í slíkum stofnunum sé ríkjandi jákvætt hugarfar í garð slíks einkaframtaks. Stjórnendur og starfsmenn ættu að líta á það sem raunhæfan og spennandi valkost að stofna fyrirtæki utan um þekkingu sína og reynslu, þannig að þessar stofnanir verði ekki aðeins mikilvæg undirstaða þekkingar og vísinda, heldur útungunarstöðvar fyrir alþjóðlega samkeppnishæf hátæknifyrirtæki.
- Berið virðingu fyrir nauðsyn þess að falla vel að alþjóðlegum viðmiðum
Í leiðarljósum nýsköpunarstefnunnar er lögð áhersla á nauðsyn þess að horfa til alls heimsins þegar nýsköpun er annars vegar. Þjóðir sem eru jafnvel tíu til tuttugu sinnum fjölmennari en Íslendingar líta á sig sem örsmáar í alþjóðlegu samhengi (Danir í nýsköpunarbransanum líta til dæmis gjarnan á Danmörku sem prufumarkað).
Það er nefnilega ekki neitt til nú til dags sem heitir „séríslensk nýsköpun“ og meira að segja risastór markaðssvæði eins og Þýskaland og Frakkland þurfa að horfast í augu við að blómleg nýsköpun innan landamæra þeirra verður jafnframt að standast samkeppni við það sem best er gert annars staðar í heiminum.
Fyrir Ísland felast mikil tækifæri í þessu, eins og nú þegar hefur sannast á ýmsum sviðum. Það er hins vegar nauðsynlegt að undirstrika mikilvægi þess að regluverk og umgjörð nýsköpunar á Íslandi séu þannig úr garði gerð að þau falli sem best að alþjóðlegum venjum og viðmiðum. Gera þarf íslenskum fyrirtækjum eins auðvelt og hægt er að sækja fjármagn til alþjóðlegra vísifjárfesta án hindrana. Hér mætti til dæmis skoða vandlega hvort ekki sé tilefni til þess að leyfa sprotafyrirtækjum að notast við alþjóðlega mynt í starfsemi sinni og að stofnskjöl og samþykktir félaga geti verið settar þannig fram að útgáfa á ensku gildi til jafns eða umfram þá íslensku, til þess að draga úr hættu á tortryggni og misskilningi í samskiptum við alþjóðlega fjárfesta.
- Látið markaðsöflin vísa veginn
Nýsköpunarstefnan sem kynnt var, og þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið í kjölfarið, ganga út frá því að hið opinbera sé í styðjandi fremur en leiðandi hlutverki þegar kemur að fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Skýrasta dæmið um þetta er stofnun Kríu, sprotaog nýsköpunarsjóðs. Sjóðurinn mun ekki fjárfesta beint í fyrirtækjum heldur taka þátt í stofnun sjóða sem svo fjárfesta í sprotaog nýsköpunarsjóðum; svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds). Þessi tegund fjármögnunar áhættusamra nýsköpunarfyrirtækja er álitin eiga rætur sínar að rekja til hvalveiða við austurströnd Bandaríkjanna á ofanverðri átjándu öld, en hefur síðan einkum verið tengd við hátæknigeirann í kringum San Francisco-flóa og önnur þau svæði heims þar sem hugvitsdrifin frumkvöðlastarfsemi er undirstaða verðmætasköpunar og lífsgæða.
Meðal þeirra sem helst hafa rannsakað nýsköpun er lítið deilt um það hvort hið opinbera hafi einhvers konar hlutverki að gegna í nýsköpun. Alls staðar þar sem nýsköpun er kraftmikil má sjá merki þess að opinber stefnumótun og fjármögnun hefur átt hlut að máli. Nýsköpunarstefnan sem kynnt var síðastliðið haust leggur áherslu á að beinn stuðningur hins opinbera eigi sér stað fyrst og fremst á stigi óvissunnar í frumrannsóknum og vísindum, en þegar fyrirtæki og viðskiptahugmyndir verði til á grundvelli rannsókna breytist óvissan smám saman í áhættu sem fjárfestar geta lagt mat á. Eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnunnar – „Ekki þykjast vita það sem ekki er hægt að vita“ – er einmitt ítrekun á mikilvægi þess að opinberu fjármagni sé ekki stýrt í tiltekna farvegi umfram aðra þegar kemur að stuðningi við fyrirtæki. Í þessu ljósi er líka umhugsunarvert hvort ríkið og sjóðir í eigu þess eigi að takmarka þátttöku sína í fjárfestingum á sama hátt og tíðkast á Norðurlöndum, þannig að opinberir sjóðir taki ekki frumkvæði í fjárfestingum en geti tekið þátt í samfloti við einkaaðila sem taka forystu í fjárfestingum.
- Varist tilhneiginguna til að flækja hluti umfram þörf
Eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnunnar er að fjármagni sé veitt beint til þeirra sem stunda rannsóknir og frumkvöðlastörf en ekki í yfirbyggingu og stofnanir. Annað leiðarljós segir að áherslu beri að leggja á árangur frekar en útgjöld og fyrirhöfn, en það er ekki óalgengt að stjórnmálafólk stytti sér leið með því að benda á útgjöld til málaflokks þegar spurt er um árangur. Eins er það mjög algeng tilhneiging að opinber stuðningur verði þunglamalegur og þjakaður af skriffinnsku, eftirliti og afskiptum. Þetta er að sumu leyti skiljanlegt og óhjákvæmilegt í ljósi þeirrar varúðar sem jafnan þarf að gæta í meðferð opinbers fjár. Hins vegar er fín lína á milli þess annars vegar að gera réttmætar kröfur um formfestu og hins vegar að setja kæfandi klafa á athafnafrelsi fyrirtækja sem eru í hraðri mótun.
Umhverfi bæði hins opinbera og stórra fyrirtækja gerir allt aðrar kröfur um stefnufestu og áætlunarheldni heldur en hægt er að gera til hratt vaxandi sprotafyrirtækja og mikilvægt er að halda flækjustigi opinberrar þátttöku í nýsköpunarumhverfinu í lágmarki.
- Verið meðvituð um að langur tími getur liðið þar til árangur kemur fram
Gjarnan er rætt um nýsköpunarumhverfi í „kynslóðum“ þar sem nýir frumkvöðlar njóta góðs af því að geta leitað eftir ráðleggingum, fjármagni og tengslum hjá þeim sem áður hafa gengið í gegnum svipuð ferli. Í nýsköpunarstefnunni er lögð áhersla á að í þessum efnum er sígandi lukka oftast best. Eitt af leiðarljósum stefnunnar er: „Ósigrar eru óhjákvæmilegir en uppgjöf er óásættanleg“ og í þessu felst að leiðin að velgengni í nýsköpun getur verið löng og þyrnum stráð.
En þótt árangur af aðgerðum í þágu nýsköpunar kunni að vera lengi á leiðinni þýðir það sannarlega ekki að óhætt sé að fara rólega eða sýna værukærð. Þvert á móti er mikilvægt að setja málefni nýsköpunar mjög framarlega í forgangsröðina.
Sú margtuggna samlíking er gjarnan notuð að verkefni sem þessu séu langhlaup, en ekki spretthlaup, og það má vissulega til sanns vegar færa. Og það gildir einmitt um langhlaup að það má aldrei slá slöku við í undirbúningi, hvað þá í hlaupinu sjálfu, jafnvel þótt hamagangurinn á yfirborðinu virðist minni en í spretthlaupi.
Ísland er í harðvítugri samkeppni við aðrar þjóðir um að tryggja verðmætasköpun til langrar framtíðar, og í því verkefni má engan tíma missa, jafnvel þótt árangurinn komi ekki fram fyrr en hægt og bítandi á löngum tíma.
- Gætið þess að ekki sé gripið til of stórra eða of smárra aðgerða
Það er mikilvægt að stjórnvöld fari ekki of hratt í þeim efnum að dæla fjármagni inn í nýsköpunarumhverfið því þá getur ekki átt sér stað sú nauðsynlega grisjun sem þarf til þess að markaðurinn leiði fram þau fyrirtæki og hugmyndir sem líklegastar eru til að ná árangri. Það getur verið freistandi að berja sér á brjóst fyrir að setja háar upphæðir í tiltekna málaflokka en eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnunnar er að áhersla skuli lögð á að meta raunverulegan árangur en ekki á útgjöldin sjálf. Stjórnvöld hafa vissulega boðist til að halda áfram að auka stuðning við nýsköpun á öllum stigum, en sú aukning þarf að taka mið af aðstæðum og þroska nýsköpunarumhverfisins.
Vera má að nú, í kreppunni sem fyrirsjáanleg er í kjölfar kórónuveirunnar, verði meiri þörf en búist hafði verið við fyrir að styðja við frumkvöðla og nýsköpunarstarfsemi. Það þarf samt sem áður að fara að slíkum aukningum með gát svo að nýsköpunarumhverfið þenjist ekki út að stærð án þess að eflast samtímis að gæðum. Nú þegar uppstokkun er fyrirsjáanleg bæði milli og innan atvinnugreina gæti verið ráð að gera sem flestum kleift að gerast frumkvöðlar í eigin rekstri í von um að einhver ný fyrirtæki geti orðið burðarásar í atvinnulífi á næstu árum og áratugum.
- Gerið ykkur grein fyrir mikilvægi alþjóðlegra tengsla
Við mótun nýsköpunarstefnunnar var mikil áhersla lögð á að íslensk nýsköpun þyrfti í raun alltaf að hafa það markmið að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Það er nánast óhugsandi að hægt sé að halda á lofti nokkurs konar nýsköpun innanlands sem ekki stenst samkeppni við það sem best gerist á alþjóðlegum mörkuðum.
Sem betur fer bendir ekkert til þess að Ísland sé illa í stakk búið til þess að mæta alþjóðlegri samkeppni og þess vegna felur gott aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum mikið tækifæri í sér fyrir íslenskt atvinnulíf. Þegar kemur að nýsköpun er einkum mikilvægt að fyrirtækin okkar hafi aðgang bæði að markaði til að selja vörur sínar og þjónustu, en ekki síður að fjármagni sem getur stutt við hraðan og alþjóðlegan vöxt efnilegra fyrirtækja.
Í nýsköpunarheiminum skiptir gott tengslanet miklu máli. Góðar hugmyndir virða í raun engin landamæri og þeir sem vinna að góðri hugmynd verða að gera ráð fyrir því að annars staðar í heiminum hljóti að vera til staðar hópar sem séu að stefna að svipuðum hlutum. Í slíku umhverfi hafa hraðinn og tengslin oft úrslitaþýðingu. Leiðarljós númer tíu segir að þegar við horfum út í heim líti heimurinn til okkar, og það er einmitt mjög í samræmi við þessa þumalfingursreglu Lehrers að hafa það sjónarmið ætíð í huga við mótun aðgerða sem stuðla eiga að betra umhverfi nýsköpunar.
- Leggið áherslu á kerfisbundið mat á árangri
Nýsköpunarumhverfið þarf að vera stöðugt í mótun og til þess að komast hjá því að góður upphaflegur tilgangur verði stofnanavæðingu að bráð er nauðsynlegt að hafa ætíð opinn huga gagnvart því að endurmeta og endurskoða. Þessi hugsun kristallast meðal annars í leiðarljósi númer 5 þar sem segir: „Engar lausnir eru endanlegar.“
Nú þegar hefur verið tekin stór ákvörðun um uppstokkun í stofnanaumhverfi nýsköpunar með því að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands í núverandi mynd. Þessi ákvörðun felur ekki í sér neins konar dóm yfir því stórkostlega starfi sem þar hefur verið unnið, heldur endurspeglar hún einmitt mikilvægi þess að ákvarðanir séu teknar út frá verkefnunum sjálfum, en ekki út frá þörfum stofnananna sem ætlað er að sinna verkefnunum.
Hlutverk ólíkra stofnana og skipulag í kringum verkefna í nýsköpunarumhverfinu verður áfram til skoðunar á næstu misserum.
- Hafið í huga að verkefni krefjast sköpunargáfu og sveigjanleika
Eitt af því sem gerir aðkomu hins opinbera að nýsköpunarmálum flókið er að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi eru í eðli sínu óreiðukennd ferli. Stjórnmál (og stórfyrirtækjamenning) gera hins vegar oft mikla kröfu um fyrirsjáanleika, áætlanagerð og vel skilgreinda verkferla. Frumkvöðlamenning byggist oftast ekki á hlýðni og fylgispekt við fyrirframgefnar forsendur, heldur einmitt á því að ríkjandi hugmyndir og aðferðir séu skoraðar á hólm. Fyrir utan óreiðuna sem gjarnan fylgir nýsköpunarferlinu verður að horfast í augu við að þeir einstaklingar sem eru líklegir til þess að ná árangri í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi eru ekki endilega alltaf þeir sem eru flinkastir að sigla á milli skerja í skriffinnsku opinberra sjóða og stofnana. Það að kunna að tala mjúklega við embættismenn og skrifa lipurlegar styrkumsóknir eru ekki endilega þeir hæfileikar sem koma að bestum notum við brokkgengan og óvissan rekstur sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.
Það þarf þolinmæði og skilning hjá stjórnvöldum til þess að tryggja að opinberir fjármunir leiti í raun til þeirra sem líklegir eru til þess að nýta þá vel til nýsköpunar, en ekki að þekking og kunnugleiki í stofnanaumgjörðinni ráði mestu. Leiðarljós númer 6 segir: „Nýsköpun er ekki línulegt ferli“ og undirstrikar það mikilvægi þess að gera sér grein fyrir því hversu ólíkt viðfangsefni nýsköpun er frá flestum öðrum sem stjórnvöld hafa á sinni könnu.
- Gerið ykkur grein fyrir að umboðsvandinn er alltumlykjandi og grípið til aðgerða til að lágmarka skaðann sem af honum hlýst
Við hönnun á opinberum aðgerðum til stuðnings nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi þurfum við að vera mjög meðvituð um að þar blandast saman háleitar hugsjónir og hefðbundnir hagsmunir. Um leið og einhvers konar kerfi er sett á laggirnar þar sem opinbert fjármagn kemur við sögu þarf að gæta sérstaklega vel að því að viðhalda skilningi á upprunalegum tilgangi (hugsjóninni) en gæta þess að kerfið fari ekki að snúast um sig sjálft (hagsmunina). Það er til að mynda umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að huga með reglulegu millibili að uppstokkun á stofnanaumgjörð í nýsköpunarmálum til þess að reyna að koma í veg fyrir að málaflokkurinn verði stofnanavæðingu að bráð.
Allra fyrsta leiðarljós nýsköpunarstefnunnar: „Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar“ er í raun árétting um þá staðreynd að nýsköpun á ætíð uppruna sinn hjá einstaklingum, en ekki stofnunum eða fyrirtækjum. Vissulega geta einstaklingar innan ýmiss konar skipulagsheilda verið uppsprettur nýsköpunar en reynslan sýnir að frumkvöðlakrafturinn er að jafnaði líklegasti farvegurinn fyrir nýsköpun, og mikilvægt er að hanna umgjörð nýsköpunar þannig að þeim krafti sé ekki haldið í skefjum til þess að viðhalda óbreyttu ástandi eða hagsmunum stofnana og rótgróinnar hugsunar.
Leiðarljós númer átta og níu – þar sem lögð er áhersla annars vegar á að fjármagn rati til frumkvöðla og rannsókna, og hins vegar að útgjöld verði ekki mælikvarði árangurs – eru einmitt sett fram til þess að hamla gegn þeirri tilhneigingu að varðstaða um sérhagsmuni skyggi smám saman á upprunaleg markmið með þeim stofnunum og áætlunum sem stjórnvöld setja á fót.
- Gerið menntun að lykilþætti
Nýsköpunarstefnan tilgreinir mannauð sem einn af hornsteinum nýsköpunar. Þar skiptir menntun í samfélaginu, bæði innan skólakerfisins og utan þess, mjög miklu máli. Hér á Íslandi er lögð mikil áhersla á tengsl nýsköpunarumhverfisins við menntakerfið, einkum í háskólunum. Til þess að vera samkeppnishæf á alþjóðlega vísu þurfa íslensk nýsköpunarfyrirtæki að byggjast á framúrskarandi mannauði, þar sem fer saman bókvit, hugvit, verkvit og viðskiptavit. Sköpunargleði og hugrekki til framkvæmda þurfa að vera eiginleikar sem raunveruleg rækt er lögð við í skólakerfinu, þótt vitaskuld sé mikilvægast af öllu að tryggja að nemendur fái tækifæri til þess að öðlast og þroska þá grundvallarfærni sem þarf til þess að fóta sig í heimi alþjóðlegrar samkeppni. Þar skiptir kunnátta í raungreinum, verklegum greinum og tungumálum líklega mestu máli.
Niðurstaða
Margt gott hefur gerst í umhverfi nýsköpunar á Íslandi á undanförnum árum og áratugum. Góðar fyrirmyndir eru til staðar í hugvitsdrifnum fyrirtækjum sem náð hafa aðdáunarverðum árangri á alþjóðlegum markaði.
Markmið nýsköpunarstefnunnar er að það geti fjölgað í þessum hópi þannig að fleiri traustar stoðir séu undir þeim miklu lífsgæðum sem við viljum að Íslendingar njóti. Ekki er síður mikilvægt að hafa í huga að gott umhverfi fyrir alþjóðlega samkeppnishæf nýsköpunarfyrirtæki er líka undirstaða fyrir spennandi vinnumarkað þar sem margir eiga kost á vel launaðri og áhugaverðri vinnu.
Eins og getið er um í þessu yfirliti á nokkrum stöðum í þessari grein er ljóst að árangur af mótun nýsköpunarstefnu getur ekki dæmst af neinu öðru en árangri sem langan tíma tekur að koma fram. Og jafnvel á löngum tíma er erfitt að meta raunverulegan árangur hinnar opinberu stefnumótunar, því á endanum eru það einstaklingarnir sjálfir sem skapa verðmætin með hugviti sínu, hæfileikum og dugnaði.
Það er óskandi að sem best samstaða geti myndast um að stefna að því markmiði að Ísland verði raunverulegt nýsköpunarland þar sem fer saman framúrskarandi veraldleg lífsgæði og kraftmikið umhverfi hvers kyns sköpunar sem þarf að fá að blómstra á grundvelli frumkvæðis einstaklinganna.
Þórlindur er sjálfstætt starfandi ráðgjafi og var formaður verkefnisstjórnar um nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, Guðmundur er formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu og Þórdís Kolbrún er ráðherra nýsköpunarmála.
—
Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.