Þroskasaga fyrirliðans

Aron – Sagan mín
Höfundar: Aron Einar Gunnarsson og Einar Lövdahl
Útgefandi: Fullt tungl
Reykjavík, 2018
302 bls.

Ósjálfrátt setur maður alltaf spurningamerki við það þegar einstaklingar, sem ekki eru orðnir þrítugir, gefa frá sér ævisögu. Þó svo að einstaklingur hafi náð langt á sínu sviði fyrir þrítugt má öllum vera ljóst að lífshlaupinu er langt frá því lokið og í raun er ekkert vitað um það hvað framtíðin ber í skauti sér.

Hafandi sagt það vil ég þó taka fram að mér finnst alltaf mikilvægt að lesa um reynslu annarra og því er mikilvægt að einstaklingar séu tilbúnir að segja sögu sína. Allir hafa sögu að segja, hvort sem það er saga af sigrum og árangri, saga af mistökum og tapi og þannig mætti áfram telja.

Þessar fyrrnefndu efasemdir fara þó fljótt út um gluggann við lestur á bók Arons Einars Gunnarssonar, knattspyrnumanni og fyrirliða íslenska landsliðsins síðustu ára. Í bókinni Aron – Sagan mín sem kom út fyrir jólin rekur Aron Einar söguna á bak við það hvernig ofvirkur strákur (eins og hann lýsir því sjálfur) frá Akureyri varð atvinnumaður í knattspyrnu sem að lokum leiddi landslið sitt út á völlinn á tveimur stórmótum. Það er stutta lýsingin, því Aron Einar gefur lesendum nokkra innsýn inn í eigið líf, undirbúninginn fyrir stórmótin, líf atvinnumannsins sem og sitt eigið fjölskyldulíf.

Eftir jól var ég með lista af nokkrum bókum sem ég ætlaði mér að lesa á næstunni – bókum sem ýmist tengjast sögu, stjórnmálum eða öðru því tengt (svo það sé látið hljóma gáfulegt). Þegar 10 ára sonur minn fékk bók Arons Einars í jólagjöf varð þó úr að ég lagði aðrar bækur til hliðar í bili. Saga og stjórnmál er eitthvað sem ég get spilað á heimavelli og vekur áhuga minn. Það að grípa bók Arons Einars er aftur á móti nokkuð lýsandi fyrir þann áhuga sem þjóðin hefur á strákunum okkar í landsliðinu. Ég er þar ekki undanskilinn.

Bókin er auðlesin og erfitt að leggja hana frá sér. Aron Einar rekur tímaröðina vel, allt frá því að hann er ungur drengur að hamast í íþróttum fyrir norðan, þegar hann fer fyrst á reynslu erlendis, þegar hann skrifar undir sinn fyrsta samning, færir sig á milli liða og stígur sín fyrstu skref með landsliðinu. Restina af sögunni þekkjum við, eða teljum okkur þekkja að mestu leyti. Það kemur þó fljótt í ljós hversu einfalda mynd við höfum fengið af landsliðinu og lífum þeirra sem það skipa – þrátt fyrir alla fjölmiðlaumfjöllunina um landsliðið á síðustu árum.

Eins og gefur að skilja hefur þjóðin fylgst vel með strákunum í landsliðinu síðustu fimm árin eða svo. Allt frá því að Íslendingar eignuðust von um að komast á HM í Brasilíu 2014, undankeppni EM 2016 og auðvitað mótið sjálft og í framhaldinu undankeppni HM 2018 og mótið sem fór fram síðasta sumar. Landsliðið hefur átt hug og hjörtu landsmanna á öllum aldri. Mér er minnisstætt að hafa fylgt syni mínum á knattspyrnumót sumarið 2016. Í hvert skipti sem eitthvað lið fékk innkast sá maður hvað eftir annað þann sem taka átti innkastið reka sína menn inn í teig því viðkomandi myndi kasta boltanum þangað – eins og Aron Einar. Þegar einhver tók skriðtæklingu heyrði maður drengina tala um að þeir hefðu tekið einn Ragga Sig (eftir að Ragnar Sigurðsson tók ógleymanlega tæklingu Jamie Vardy í leiknum á móti Englendingum á EM) og þannig mætti áfram telja. Þetta er auðvitað útúrdúr, en engu að síður áminning um það hversu miklar fyrirmyndir landsliðsmennirnir eru fyrir ungar kynslóðir.

En eru landsliðsmennirnir fyrirmyndir fyrir fullorðið fólk? Það var spurningin sem ég velti fyrir mér þegar ég hóf lestur.

Segja má að bókin sé nokkurs konar þroskasaga. Hún er augljóslega áhugaverð fyrir þá sem hafa áhuga á knattspyrnu, því Aron Einar rekur nokkuð ítarlega einstaka og sögulega leiki – hvaða leikaðferðir voru notaðar, hver átti að gera hvað inn á vellinum, hvaða mistök hann og aðrir gerðu og svo framvegis. Það koma nokkrar sögur úr búningsklefanum sem aðallega snúast um það hvernig menn komu sér í gang fyrir leiki, hvöttu hvorn annan í hálfleik og eftir tilvikum sögur af liðsfundum landsliðsins. Við lestur bókarinnar vakna þó vissulega spurningar sem snúast helst um aukna forvitni á landsliðinu og leikmönnum þess, hvað gerist á bakvið tjöldin, hvernig menn tala saman, undirbúa sig, styrkja liðsheild og svo framvegis. Eftir á að hyggja má þó telja skynsamlegt hjá Aroni Einar að hleypa lesendum ekki of nálægt, bæði af tillitssemi við aðra leikmenn og framtíðina – og þá er líka rétt að muna að þetta er sagan hans en ekki annarra landsliðsmanna.

Aron Einar er hreinskilinn í bókinni, sem er vissulega mikill kostur (maður sér fljótt við lestur ævisagna þegar höfundar ætla að fegra eða draga úr). Það væri ofsögum sagt að sumir þjálfarar, umboðsmenn, fjölmiðlamenn og fleiri fái það óþvegið – en hann hlífir engum. Aftur, það er mikill kostur við svona frásagnir og ég efast um að Aron Einar hafi brennt brýr að baki sér með því að setja söguna á prent með þessum hætti. Hann er einfaldlega að lýsa sinni upplifun af öðrum einstaklingum og vinnubrögðum þeirra. Að sleppa þeim frásögnum hefði skilið eftir mikið gat í sögunni. Fyrir þá sem ekki þekkja knattspyrnuheiminn þarf að útskýra hvaða hlutverki umboðsmenn gegna, ekki bara við það að koma leikmönnum á framfæri heldur líka við samningsgerð um kjör leikmanna og fleira – svo tekið sé dæmi.

Aron Einar hlífir ekki sjálfum sér heldur. Hann er hreinskilinn með það hvernig hugafar og árangur fer saman (hvort sem það er með landsliðinu eða félagsliðum), hvernig hann hefði mátt gera hlutina betur og öðruvísi og hann er ófeiminn við að draga úr glamúr-myndinni sem við kunnum að hafa af lífi atvinnumannsins í knattspyrnu. Með því að fylgja Aroni Einari frá unga aldri á Akureyri og þangað til að hann kemur heim frá Rússlandi eftir HM sl. sumar fá lesendur að fylgjast með því hvernig ofvirki strákurinn þroskast í ábyrgðarfullan fjölskylduföður sem metur fjölskylduna meira en nokkuð annað. Það skín í gegn hversu mikilvæg fjölskyldan er honum, bæði foreldrar og systkini og ekki síður eiginkona hans og synir. Það sem gleymist oft í umfjöllun um líf atvinnumanna í knattspyrnu er líf maka og barna sem þurfa oft á tíðum að færa miklar fórnir. Kristbjörg Jónasdóttir, eiginkona Arons Einars, kemur nokkuð við sögu í seinni hluta bókarinnar og það fer ekkert á milli mála hversu mikilvæg hún er í lífi fyrirliðans. Hún er ekki bara á hliðarlínunni til að fagna með sínum manni þegar vel gengur. Það er fellur í hennar skaut að þurrka tárin þegar illa gengur og þá sérstaklega þegar meiðsli og annað koma upp. Það hlutverk verður seint fullmetið.

Án þess að fjalla um einstaka kafla bókarinnar tel ég þó ástæðu til að staldra við þann hluta þar sem Aron Einar lýsir því hvernig meiðsli komu næstum því í veg fyrir að hann næði að spila á HM sl. sumar. Það var fjallað nokkuð um meiðsli hans í fjölmiðlum og við vitum auðvitað núna hvernig sú saga endaði, hann leiddi lið sitt inn á völlinn í öllum leikjunum. Í bókinni fáum við þó fyrst nákvæmari lýsingu á því hvað gerðist í líkama knattspyrnumannsins og það sem mikilvægara er – hvernig hann sigraðist á þeim meiðslum, hvað hann hugsaði á meðan og aftur hversu mikilvægt hlutverk Kristbjargar var í því ferli.

Til að ná þeim árangri sem Aron Einar hefur náð þarf mikla vinnu og þrautseigju en ekki síður karakter og þroska. Það er alveg ljóst að Lars Lagerback veðjaði á réttan hest þegar hann gerði Aron Einar, sem þá var ekki orðinn 23 ára gamall, að fyrirliða landsliðsins árið 2012. Eftir lestur bókarinnar sér maður að fyrirliðinn Aron Einar ber titil með rentu. Sagan er allt í seinn áhugaverð, spennandi og gefandi – og til að svara minni eigin spurningu um það hvort að landsliðsmennirnir geti verið fullorðnum fyrirmynd, þá er svarið svo sannarlega já.

Ef finna á galla á bókinni er það helst að umbrotið á henni mætti vera betra. Texti fer langt út í spássíur á alla kanta, þó rétt sé að taka fram að það skemmir ekki lestur bókarinnar. Myndir og myndatextar mættu vera stærri og mögulega hefðu fleiri myndir gert góða bók enn betri. Bókin er skrifuð á talmáli, sem er í raun allt í lagi en á sumum stöðum hefði mátt bæta orðalag og framsetningu. Allt eru þetta þó smávægileg atriði og ekkert þeirra rýrir hvorki skemmtanagildi né notagildi þess að lesa söguna.

Sagan er mikilvæg og Aron Einar á skilið mikið hrós fyrir að setja hana fram með þessum hætti. Hún er áhugaverð fyrir fólk á öllum aldri og það er rétt að taka fram að menn þurfa ekki að vera sparkspekingar til að njóta hennar eða læra af henni. Hugarfar og árangur fer líka saman utan vallarins og í lífum okkar allra. Þessi bók er vonandi fyrra bindi af merkilegri sögu sem er enn í mótun og getur verið öðrum innblástur. Hvort seinna bindið kemur út eftir 10, 30 eða 50 ár verður tíminn að leiða í ljós. Í millitíðinni stefnir allt í að Aron Einar haldi áfram að veita fólki á öllum aldri innblástur.

 

Höfundur er ráðgjafi og ritstjóri Þjóðmála.