Silfur Egils er í sögumanninum

Egill Helgason er góður sögumaður. Hann kann að draga fram allt í senn áhugaverða, skondna og mikilvæga þætti í bland við alvarleikann sem fylgir lífsbaráttunni á svo afskekktum stað sem Siglufjörður er. (Skjáskot af vef RÚV)

Siglufjörður – Saga bæjar
Umsjón og handrit: Egill Helgason
Dagskrárgerð og klipping: Ragnheiður Thorsteinsson
Myndataka og samsetning: Jón Víðir Hauksson
Þáttaröð í fimm þáttum, sýnd í Ríkissjónvarpinu í upphafi árs 2020.

Fyrir nokkrum árum var ég staddur á Siglufirði með fjölskyldunni. Við dvöldum þá á Akureyri og ákváðum að gera okkur dagsferð norður á Ólafsfjörð (hvaðan ég á ættir að rekja) og í framhaldinu keyra í fyrsta sinn í gegnum Héðinsfjarðargöng á Siglufjörð. Eins og íslensk hjón með börn gera stoppuðum við í bakaríi og ákváðum að rölta aðeins um bæinn, enda veðrið gott. Ég tók mynd á símann minn og sendi Illuga Gunnarssyni (þetta var fyrir tíma Instagram og myndir sendar með SMS-i), þá alþingismanni, vitandi að hann væri ættaður frá Siglufirði. Eftir stutt spjall sagði Illugi að ég þyrfti meira en einn dag til að upplifa þennan merkilega bæ. Eins og svo oft í pólitíkinni hafði hann rétt fyrir sér.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég í upphafi ársins horfði á þáttaröðina Siglufjörður – Saga bæjar, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu í umsjón Egils Helgasonar. Í fimm þáttum rekur Egill sögu bæjarins svo gott sem allt frá landnámi fram til dagsins í dag.

Eðli málsins samkvæmt fer meginþorri þáttanna í umfjöllun um síldarævintýrin og allt sem þeim tengist; uppbyggingu bæjarins, skemmtanalífið, verkalýðsbaráttuna og einstakan bæjarbrag Siglufjarðar á síðustu öld. Af nægu er að taka.

Þættirnir eru viðamiklir. Fjallað er um um upphaf byggðar í firðinum og í raun á Tröllaskaganum öllum. Lýsingarnar á lífsbaráttu fólks á hjara veraldar, ægilegum snjóflóðum og öðrum náttúruhamförum á snjóþungum vetrum síðustu alda, sjósókn íbúa í firðinum sem bjó til margar ekkjur og föðurlaus börn, hákarlaveiðum og gífurlega erfiðum samgöngum sem settu svip sinn á bæinn allt að opnun fyrrnefndra Héðinsfjarðarganga.

Í fyrsta þætti er jafnframt fjallað um áhugaverða viðskiptahætti íbúa á svæðinu. Íbúar á Tröllaskaga stunduðu launverslun við Englendinga, Hollendinga og aðra erlenda kaupmenn sem þangað komu, framhjá einokun Dana. Það var ekki eins og hið opinbera vald næði svo langt norður til að stöðva þau viðskipti. Þetta setti tóninn fyrir það sem koma skyldi, Siglfirðingar létu ekki sérfræðinga að sunnan segja sér hvernig þeir áttu að lifa og starfa – hvorki fyrr á öldum né á tímum þeirrar uppbyggingar sem fylgdi síldarævintýrunum á 20. öld.

Siglufjörður var fámennt og afskipt þorp í upphafi. Og það er einmitt kjarni málsins. Byggðin var afskekkt, sem hvort í senn gerir söguna áhugaverða og spennandi, enda mikið um viðburðaríkar og dramatískar sögur af svæðinu – ekki allar með farsælan endi.

Það var síðan í upphafi 20. aldar sem Norðmenn komu með bæði þekkingu og efnivið til að gera bæinn að höfuðstað síldarveiða og í kjölfarið hófst fyrsta stóriðjan á Íslandi eins og Egill kemst að orði. Farið er vel yfir uppbyggingu Norðmanna á síldarverksmiðjum í bænum – og reyndar hinum megin í firðinum undir Staðarhólsfjalli. Sú verksmiðja sem þar var reist fór síðar undir snjóflóð ásamt nærliggjandi bæjum. Síðar tóku Íslendingar síldveiðar og -vinnslu í sínar eigin hendur.

Þessu fylgdi að sjálfsögðu mikil aðsókn aðkomufólks og í kjölfarið fór Siglufjörður að fá á sig stimpil sem hálfgert syndabæli, bær sem lýst var sem skítugum og illa þefjandi. Skemmtanalífið í bænum var töluvert eins og gefur að skilja, margar knæpur og skemmtistaðir sem seldu áfengi, þrátt fyrir að um tíma hafi ríkt áfengisbann hér á landi. Um leið var því haldið fram Siglufjörður væri að öllum líkindum stærsti hjónabandsmarkaður Íslands, bærinn fullur af ungu fólki þar sem stelpur að vestan og strákar að austan gátu ruglað saman reytum. Öllu þessu eru gerð góð skil í þáttunum.

Þá kemur einnig fram að það ríkja ákveðnar mýtur um ljóma síldarævintýranna. Vissulega sóttust konur eftir því að vinna í síld og unnu sína erfiðisvinnu með bros á vör, eins og Anita Elefsen safnstjóri rifjar upp í þáttunum.

En vinnan var erfið og aðbúnaður lélegur, jafnvel þótt miðað sé við þann tíma og það sem þá þekktist. Þarna átti sér stað hörð verkalýðsbarátta og baráttan við kapítalið, síldarspekúlanta og útgerðarmenn, tók á sig ýmsar myndir. Deilt var um það hvort arðurinn hefði orðið eftir á Siglufirði eða ekki, en þættirnir svara sjálfir þeirri spurningu. Arðurinn varð eftir í öflugri uppbyggingu bæjarins og er að hluta til enn. Þá er einnig fjallað með áhugaverðum hætti um marga þá einstaklinga sem settu svip sinn á bæinn, svo sem séra Bjarna Þorsteinsson tónskáld (og stjórnmálamanninum sem var allt í öllu á helsta uppgangstíma bæjarins við upphaf 20. aldar og á heiðurinn að skipulagi Siglufjarðar), Gústa guðsmann, Óskar Halldórsson útgerðarmann og marga fleiri.

Siglufjörður – Saga bæjar er hvort í senn upplýsandi og skemmtileg þáttaröð. Það má telja til þrjú atriði sem gera þættina svo vandaða sem þeir eru.

Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, fv. skólastjóri og bæjarstjórnarmaður, Örlygur Kristfinnsson myndlistarmaður, Anita Elefsen safnstjóri og Alda Möller matvælafræðingur eru meðal fjölmargra viðmælenda þáttaraðarinnar og gefa með frásögnum sínum góða sýn inn í líf Siglfirðinga.

Í fyrsta lagi er handritið að þáttunum gott – sem gerir frásögnina góða. Egill er góður sögumaður, hann kann að draga fram allt í senn áhugaverða, skondna og mikilvæga þætti í bland við alvarleikann sem fylgir lífsbaráttunni á svo afskekktum stað. Uppbygging þáttanna er vel skipulögð, sögulínan er skýr og skilmerkileg og mörgum ólíkum þáttum mannlífsins og sögunnar gerð góð skil.

Í öðru lagi er mikið til af myndefni, bæði ljósmyndum og myndböndum, sem augljóslega nýttist vel við gerð þáttanna og er mikið notað. Myndefnið gerir mikið fyrir þáttaröðina og færir sögunni mikið líf.

Í þriðja lagi eru það frásagnir þeirra sem þekkja sögu bæjarins. Innlegg viðmælenda, sem flestir upplifðu þann tíma sem helst er fjallað um eða hafa sterka tengingu við hann, eru fróðleg og bæta enn í við góða frásögn Egils og fyrrnefndar myndir.

Að öðrum ólöstuðum má sérstaklega minnast á frásagnir Anitu Elefsen safnstjóra, Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar, fv. skólastjóra og bæjarstjórnarmanns, Jónasar Ragnarssonar, fv. ritstjóra, Örlygs Kristfinnssonar myndlistarmanns og Öldu Möller matvælafræðings.

Dagskrárgerð er í höndum Egils, Jóns Víðis Haukssonar og Ragnheiðar Thorsteinsson. Þau hafa einnig gert þáttaraðirnar Vesturfarar og Kaupmannahöfn – höfuðborg Íslands, sem báðar voru áhugaverðar og vandaðar, og kunna augljóslega vel til verka. Miðað við þessar þrjár þáttaraðir hafa þau vonandi áætlanir um önnur sambærileg verkefni. Þetta góða efni réttlætir næstum því útvarpsgjaldið.

Þáttaröðin er aðgengileg á vef RÚV. Eftir að hafa horft á þættina má ætla að dagsferðir mínar til Siglufjarðar verði fleiri.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson
.