Ríkisvaldið mun á næstu dögum afhenda hverjum einstaklingi, 18 ára og eldri, 5.000 kr. gjafabréf sem hægt verður að nýta hjá innlendum ferðaþjónustufyrirtækjum. Þó ekki þeim sem leigja út tjöld, því einhverra hluta vegna hafa embættismenn ríkisins ákveðið að það sé ekki hluti af ferðaþjónustu. Styrkurinn verður afhentur í gegnum smáforrit sem einstaklingar þurfa að virkja til að nota hann sem greiðslu fyrir þeirri þjónustu sem veitt er.
Tilgangurinn með þessu framtaki ríkisins er að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands í sumar og þannig mögulega bjarga því sem bjargað verður hjá þeim fjölmörgu aðilum sem starfað hafa í ferðaþjónustu á liðnum árum. Væntanlega mun styrkurinn, sem ríkisstjórnin hefur ranglega nefnt „gjöf“, skila sér í aukinni veltu ferðaþjónustuaðila sem horfðu fram á erfitt sumar – og um leið hærri skatttekjum fyrir ríkissjóð sem hefði öllu jafna fengið litlar tekjur af ferðaþjónustunni í ár, ólíkt undaförnum árum. Þess má vænta að þeir einstaklingar sem nýti styrkinn verji auknu fjármagni í aðra tengda þjónustu.
Þetta er hægt að gera í landi þar sem skattar eru háir, bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Talsmenn lítilla ríkisútgjalda geta horft í gegnum fingur sér með þetta þar sem ríkið hefur haft óhemju miklar tekjur á liðnum árum og er að skila hluta af þeim tekjum til baka í því erfiða ástandi sem nú ríkir.
Eins og alltaf er þó hægt að finna undarlega hegðun ríkisvaldsins gagnvart borgurunum. Það kom meðal annars fram í umsögn Ferðamálastofu um frumvarpið um ferðastyrkinn. Þar kemur fram að með því að notast við stafræna lausn, fyrrnefnt smáforrit, muni safnast saman „mikilvægar upplýsingar um neytendahegðun sem eru gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ eins og segir í endursögn Viðskiptablaðsins.
Ferðamálastofa talar í umsögn sinni um að lítið sé vitað um neytendahegðun á innanlandsmarkaði og því sé smáforritið vel til þess fallið að bæta mælingar á þessu sviði. „Þannig verður til dæmis hægt að sjá hvar er verið að nota gjafabréfið, s.s. eftir landsvæðum, sveitarfélögum og í hvers konar þjónustu, greint eftir aldri, kyni o.þ.h.,“ segir í umsögninni.
Ríkisvaldið er með öðrum orðum að segja; „Hér er „gjöf“ en við ætlum að fylgjast með því hvar, hvenær og hvernig þú leysir hana út.“
Þetta er auðvitað tóm þvæla. Það er engin sérstök ástæða fyrir ríkið til að vita nákvæmlega hvort, hvar og hvenær Jón keypti sér nótt á hóteli eða að Gunna hafi keypt sér ferð í hvalaskoðun. Reyndar falla öll rök með því að ríkið eigi alls ekki að hafa vitneskju um það hvar Jón og Gunna vörðu frítíma sínum.
Sumarið 2020 mun heldur ekki gefa ríkinu neina raunsæja mynd af neytendahegðun landsmanna á innanlandsmarkaði. Hér ríkja óvenjulegar aðstæður og það hvort að hjón ákveði að verja nótt á hóteli í Húsafelli, á Akureyri eða á Egilsstöðum segir ekkert til um neytendahegðun þeirra og það er ekki sjálfgefið að þau geri slíkt hið sama á næsta ári. Sá sem fylgir barni sínu á fótboltamót á landsbyggðinni gæti nýtt styrkinn til að kaupa veitingar eitt kvöld, en það segir hins vegar ekkert til um útgjöld hans í framtíðinni. Sá sem fer á ættarmót verslar sér mögulega þjónustu en ríkið veit ekkert hvar og hvenær næsta ættarmót verður haldið. Dæmin eru óteljandi og sýna enn frekar að ríkið hefur ekkert að gera með það að vita hvar, hvenær og hvernig landinn varði hinni svokölluðu gjöf.
Það er stundum sagt að frelsið sé skorið af manninum með ostaskera, eitt lag í einu. Hér er gott dæmi um slíka hegðun ríkisvaldsins. Stjórnmálamenn hljóta að taka fram fyrir hendurnar á embættismönnunum. Það er hlutverk þeirra, stjórnmálamannanna, að verja friðhelgi einkalífsins.