75 árum síðar

Margir þeirra sem fengu höfnun um landvistarleyfi á Íslandi á tímum seinni heimsstyrjaldar enduðu í útrýmingarbúðunum í Auschwitz.

Fyrr á árinu 2020 var þess minnst að 75 ár eru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar og afhjúpunar grimmdarverka þýskra nasista og bandamanna þeirra. Meðal annars var þess minnst að Rauði herinn frelsaði Auschwitz og nærliggjandi búðir, sem stóðu nærri Kraká í Póllandi, í janúar 1945 en þá hafði um 1,1 milljón manns verið myrt í búðunum, þar af um 90% Gyðingar.

Ég, undirritaður, hef í tímans rás nokkuð rannsakað Helför seinni heimsstyrjaldar og þau grimmdarverk sem þá voru framin. Hvað Ísland snerti rannsakaði ég flóttamannavanda Gyðinga á fjórða áratug og skrifaði MA-ritgerð (1995) hjá prófessor Þór Whitehead um það efni og önnur skyld, en Þór var fyrstur Íslendinga til að rannsaka það á fræðilegan hátt, meðal annars í bókunum Ófriður í aðsigi (1980) og Stríð fyrir ströndum (1985). Efnissöfnunin hélt þó áfram með hléum, meðal annars við Yad-Vashem helfararsafnið í Jerúsalem og Bandaríska helfararsafnið í Washington DC (United States Holocaust Memorial Museum, USHMM), þar sem ég bæði rannsakaði skjalasöfn þeirra og skoðaði sýningar. Á síðara safninu var ég reyndar gistifræðimaður hluta árs 1998 og sneri heim með miklar og góðar heimildir. Hluti þeirra upplýsinga birtist í bókinni Erlendur landshornalýður? Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853–1940 sem kom út hjá Almenna bókafélaginu 2017.

Vegna umræðu um stríðslokin og frelsun Auschwitz ákvað ég að heimsækja USHMM í marsbyrjun og var stefnan að bæta um betur og skoða Varsjá og Kraká í sumar, þar á meðal Auschwitz og fleiri minjar. Slíkt virðist úr sögunni núna vegna kórónuveirunnar. Heimsóknin í Bandaríska helfararsafnið var þó eftirminnileg, en þar stóð yfir sýning um viðbrögð Bandaríkjanna við flóttamannavandanum og Helförinni. Ég hafði lesið fjölda bóka um málið (og rætt það lítillega í Landshornalýðnum) en aldrei séð umræðuna flutta jafn skilmerkilega í bæði rituðu og myndrænu formi. Þar voru sýndir gripir sem komu við sögu slíkra mála, meðal annars bréf sem var ritað með ritvél af tegundinni Corona, myndir af útifundum nasista, forsíður tímarita og svæsnar fyrirsagnir í blöðum – ekki ósvipaðar því útlendinga- og kynþáttahatri sem til dæmis Vísir og Morgunblaðið höfðu stundum í frammi á fjórða áratug.

Norðurlandabúar hafa gert misheiðarlegar tilraunir til að gera upp stríðsárin með tilliti til viðhorfa í garð þýskra nasista annars vegar og fórnarlamba þeirra hins vegar. Þar hefur skipst í tvenns konar horn á innlendum vettvangi með því að sumir hafa reynt að bera í bætifláka fyrir útlendinga- og kynþáttahatur, sem var því miður töluvert útbreitt á Norðurlöndum á fyrri hluta 20. aldar, en aðrir gagnrýnt framferði landa sinna. Hér á Íslandi hefur farið hljótt um slík mál en Erlendur landshornalýður? var tilraun til að koma umræðu um þessi mál af stað. Hér á eftir birtist aðeins styttur kafli úr bókinni og er hann um tilraunir ofsóttra Gyðinga með lífið að veði til að fá hér hæli.

Landvistarumsóknir Gyðinga á Íslandi 1935–1940

Landvistarumsóknir Gyðinga voru lengst af tiltölulega fáar og bárust jafnan ekki beint til íslenskra stjórnvalda fyrr en síðla árs 1937. Frá 1933 höfðu riðið yfir tvær fyrstu bylgjur flóttamanna frá Þýskalandi en þær fóru fram hjá íslenskum stjórnvöldum að mestu. Það var annars vegar vegna þess að danska utanríkisþjónustan sá iðulega um að svara beiðnum flóttamanna um dvalarleyfi og hins vegar sökum eftirlitsleysis. Því þurftu flóttamenn sem komust hingað fyrir 1937 ekki nauðsynlega að sækja um dvalarleyfi fyrir eða við komuna.

Með fyrirmælum um útlendingaeftirlit haustið 1937 lokuðu stjórnvöld landinu svo að hingað kæmust eftir atvikum aðeins þeir sem hefðu gilt vegabréf eða norræna ferðaskírteinið. Í báðum tilvikum þurftu útlendingar þessir í orði kveðnu að sækja fyrirfram um atvinnuleyfi ætluðu þeir að setjast hér að. Þar varð þó töluverður misbrestur á, svo að hlutfallslega fáir erlendir menn sem komu hingað gerðu það löglega. Með fyrirmælunum frá 1937 hafði Hermann Jónasson forsætis- og dómsmálaráðherra öll ráð í hendi sér varðandi innflutning gyðingaflóttamanna, eða um svipað leyti og umsóknir þeirra tóku að berast stjórnvöldum. Þeim var nær undantekningarlaust hafnað. Sundurliða má fjölda þeirra eins og hér segir:[1]

Hér eru taldir 406 einstaklingar en einstakar umsóknir voru um 235. Ofangreind mynd er þó ekki tæmandi vegna þess að margir umsækjendur sóttu jafnframt um dvalarleyfi fyrir óskilgreinda fjölskyldu sem ekki er talin með hér. Þó eru tvítaldar umsóknir þegar hjón sóttu um undir nöfnum beggja. Einnig má nefna að ræðismenn Danmerkur í Þýskalandi, Austurríki og Tékkóslóvakíu þurftu að vísa ókunnum fjölda Gyðinga frá. Ræðisskrifstofurnar spurðust einnig árangurslaust fyrir um dvalarleyfi fyrir bæði einstaklinga og hópa. Síðast en ekki síst þurftu Sveinn Björnsson í Kaupmannahöfn og Helgi P. Briem í Berlín að snúa frá töluverðum fjölda Gyðinga.[2] Þessa óskilgreinda fjölda er vitaskuld ógetið í töflunni hér að ofan. Einnig sótti 130 manna hópur ónafngreindra tékkneskra Gyðinga um landvistarleyfi 1939 í einni umsókn. Því mætti í raun segja að rúmlega 150 Gyðingar hafi sótt um landvistarleyfi frá Tékkóslóvakíu á umræddu tímabili. Athygli vekur að 1939–1940 sóttu 72 Gyðingar um landvistarleyfi frá öðrum löndum en þessum þremur. Þar áttu jafnan í hlut þýsk-austurrískir Gyðingar sem fengið höfðu „transitvisa“ í öðrum Norðurlandaríkjum og í nágrannaríkjum Þýskalands, auk 33 nafngreindra ungverskra Gyðinga sem vildu flytja hingað af einhverjum ástæðum.[3]

Kápa bókarinnar Erlendur landshornalýður? Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853–1940 sem kom út hjá Almenna bókafélaginu 2017.

Sumir umsækjendur útskýrðu í bréfum sínum að þeir ættu enga framtíð í hinu nýja Þýskalandi og báðu auðmjúklegast um hæli. Stundum mátti greina örvæntingu í bréfum þessa fólks, enda má ætla að það hafi þá þegar reynt að fá hæli í nokkrum álitlegri löndum Vestur-Evrópu en verið synjað. Einstaka menn leituðu eftir íslenskum ríkisborgararétti og aðrir sóttu um slíkan rétt fyrir hönd ættingja í fanga- eða þrælkunarbúðum. Aðrir báru sig mannalega og höguðu bréfum sínum eins og um atvinnuumsókn væri að ræða. Rafeindavirkinn Fritz Hahlo, sem sótti hér um dvalarleyfi í desember 1938 fyrir sig og konu sína Edith (f. Pinner), var einn þeirra, en hann hafði mátt sæta ofsóknum vegna ætternis síns. Svar ráðherra var samkvæmt venju „Nei HJ“. Hahlo-hjónin áttu síðan eftir að kynnast ofsóknum nasista betur á komandi misserum. Þau styttu sér aldur í janúarlok 1942 og fækkaði því um tvo væntanlega farþega í gripaflutningalestum nasista til Póllands.[4]

Annar „starfsumsækjandi“ var Berlínarbúinn Erich Salinger, sem óskaði eftir dvalarleyfi í Reykjavík fyrir sig og fjölskyldu sína um svipað leyti og Hahlo. Hann hafði á undangengnum misserum starfað við fatahreinsun og viðgerðir og vonaðist þannig til að sjá sér farborða á Íslandi. Hann óskaði eftir bráðu svari í ljósi aðstæðna þar sem hann gæti þurft að yfirgefa landið hið fyrsta. Í hjálögðu æviágripi sagði Salinger (f. 1892) frá fjölskylduhögum sínum, námi og störfum. Hann hefði meðal annars barist í fremstu víglínu 1915–1918 og síðar verið yfirmaður hjá Landssambandi handverksmanna af gyðingaættum, gengið að eiga Gertrud Lohde 1929 og eignast með henni dóttur, Steffi, í nóvember 1930. Ráðherra neitaði.[5] Fyrr en varði var fokið í flest skjól og í nóvemberlok 1942 var Erich Salinger sendur ásamt 997 öðrum Gyðingum til Auschwitz með „sendingu 23“ og myrtur þar.[6] Gertrud og Steffi fóru með „sendingu 29“ frá Berlín til Auschwitz hinn 19. febrúar 1943 og virðast hafa verið myrtar við komuna í búðirnar. Í þeim hópi voru einnig átta gyðingaflóttamenn sem Finnar höfðu framselt í hendur Þjóðverja í Eistlandi.[7]

Þriðja Berlínarbúann má nefna, timburkaupmanninn Alfred Pulvermacher (f. 1889), sem talaði reiprennandi fjögur höfuðtungumál auk móðurmálsins og einnig ágæta tyrknesku. Hann hafði barist í heimsstyrjöldinni en tekið við fyrirtæki föður síns í stríðslok. Pulvermacher var kvæntur og átti tvö börn. Einnig átti hann nokkurt fé utanlands. Hann bauðst til að taka verksmiðju sína með sér og setja hana upp á Íslandi en ætlaði að öðrum kosti að koma á fót bifreiðasölu eða píanóframleiðslu, vildi íslenska ríkisstjórnin það frekar. Hvernig sem málin æxluðust yrði Pulvermacher-fjölskyldan aldrei byrði á Íslendingum. Dómsmálaráðherra synjaði beiðni hans.[8] Hinn 12. mars 1943 fór Pulvermacher ásamt tæplega 1.000 öðrum Gyðingum með „sendingu 36“ frá Berlín til Auschwitz, þar sem hann var myrtur við komuna í búðirnar.[9]

Erna Rosenthal (f. 1901) með syni sínum, Denny (f. 1939). Erna og Denny voru myrt í Auschwitz en eiginmaður hennar, Siegbert, var fluttur til Natzweiler-Struthof fangabúðanna nærri Strassborg þar sem hann og 85 aðrir Gyðingar voru myrtir á hroðalegan hátt 2. ágúst 1943.

Meðal annarra farþega í sendingu 36 má nefna Siegbert Rosenthal (f. 1899), bróður Hennýjar Goldstein og Harrys Rosenthals, ásamt konu hans Ernu (f. Baerwald, 1901) og ungum syni þeirra, Denny (f. 1939).[10] Erna og Denny voru myrt í Auschwitz en Siegbert var fluttur til Natzweiler-Struthof fangabúðanna nærri Strassborg þar sem hann og 85 aðrir Gyðingar voru myrtir á hroðalegan hátt 2. ágúst 1943. Nota átti beinagrindur þeirra í mannfræðisafn sem sýna ættu einkenni „undirmálsfólks“ á vegum rannsóknarstofnunar svartliðsins, Ahnenerbe, við Háskólann í Strassborg.[11]

Margir umsækjendur frá Berlín virðast hafa orðið eftir í borginni þegar þýsku landamærin lokuðust haustið 1941. Þeir virðast hafa verið meðal þeirra 15.000 Gyðinga sem björguðu lífi sínu fram í nóvember 1942 með því að vinna hörðum höndum í verksmiðjum í Berlín. Fólk þetta var talið „nauðsynlegt vinnuafl“ og komst því jafnan hjá brottflutningi austur. „Sending 23“ í nóvember 1942 var fyrsta ferðin í nýju átaki sem átti að hreinsa Berlín af eftirlifandi Gyðingum. Hámark þess var svokölluð Fabrik Aktion (verksmiðjuaðgerð) í febrúar og mars 1943.[12]

Málavextir voru þeir að 20. febrúar 1943 gaf SS-foringinn Adolf Eichmann út skipun um að eftirstandandi Gyðingar, sem áður hefðu komist hjá brottflutningi vegna starfa í mikilvægum verksmiðjum, yrðu nú sendir austur eins og aðrir, að undanskildum einstaklingum í blönduðum hjónaböndum og börnum þess háttar foreldra, samkvæmt fyrirmælum frá æðstu leiðtogum nasista. Viku síðar réðust hermenn úr lífvarðarsveit Adolfs Hitlers, SS-Leibstandarte, til atlögu og hreinsuðu fólk úr verksmiðjunum með svipur og byssustingi að vopni. Á sama tíma fóru lögreglusveitir á stjá í Berlín og tóku með sér alla Gyðinga sem þær fundu og máttu handtaka samkvæmt fyrirmælum leiðtoganna. Fólk þetta var flutt í nokkrar söfnunarbúðir þar sem það var geymt uns hægt væri að senda það til Putlitzstrasse-lestarstöðvarinnar í Moabit-hverfinu. Þar var fólkið skráð og flutt um borð í gripaflutningalestir undir svipuhöggum.

Hinn 2. mars 1943 sóttu SS-liðar um 1.500 fanga í fjórar söfnunarbúðir í Berlín og fluttu þá um borð í gripaflutningalest á Putlitzstrasse-stöðinni, þar sem um 300 aðrir Gyðingar biðu, þeirra á meðal um 220 manna hópur sem var nýkominn frá Noregi. Samtals voru um 1.830 Gyðingar nafngreindir á farþegaskrám þessarar ferðar, sem taldist vera „sending 32“ í skrám þýskra embættismanna. Við komuna til Auschwitz sendu SS-verðir 535 karla og 145 konur í þrælkunarvinnu en aðrir fóru beint í gasklefana í Auschwitz-Birkenau II. Meðal þeirra var Pauline (Paula) Weg, fædd Marcus í bænum Znin í Póllandi árið 1896.[13] Hún hafði þá sérstöðu meðal farþega lestarinnar að hafa gilda vegabréfsáritun til Íslands, síðast útgefna í maí 1941.[14] Einnig má nefna að maður hennar, Otto Weg, hafði dvalið á Íslandi frá desember 1939. Það bjargaði henni þó ekki frá þessum hræðilegu örlögum.

Fleiri farþegar í „sendingu 32“ höfðu tengsl við Íslendinga. Í október 1942 hóf norska borgaralögreglan að safna saman Gyðingum og flytja þá í gæslubúðir. Andspyrnuhreyfingin reyndi á hinn bóginn að koma þeim undan, bæði með því að fela þá innanlands og smygla þeim yfir til Svíþjóðar. Vilhjálmur Finsen yngri, stofnandi Morgunblaðsins og áhugamaður um ætlað gyðinglegt ætterni útlendinga í Reykjavík við upphaf 20. aldar, var þá sendierindreki Íslands í Noregi og Svíþjóð. Nokkrir ofsóttir Gyðingar höfðu leitað liðsinnis hans við að flýja: Hjónin Felix Georg og Elfriede Lomnitz, sem voru um fimmtugt og höfðu flúið til Noregs frá Þýskalandi, flóttamaðurinn Clothilde Hanauer (f. 1882) og Fritz Josef Türkheimer (f. 1907 í Noregi) sem var verkfræðingur í Harðangri, sonur Clöru (f. Mayer) frá borginni Trier. Ekki er vitað um nákvæm málsatvik en sænsk stjórnvöld blönduðu sér í leikinn og fékk sænski erindrekinn í Ósló það hlutverk að ítreka við Finsen, sem þá var staddur í Noregi, beiðni um að aðstoða Gyðinga þessa ef hann gæti. Af ýmsum ástæðum gekk það ekki eftir. Fólkið var handtekið skömmu síðar í allsherjarátaki lögreglunnar og sent í gæslubúðir í Noregi.

Af Gyðingum þessum kvaddi Fritz Josef Türkheimer fyrstur. Hann fór með skipinu Donau í nóvember 1942 og var myrtur í Auschwitz-búðunum 14. janúar 1943.[15] Hinir Gyðingarnir voru fluttir með skipinu Gotenland til Þýskalands seinni hluta febrúarmánaðar 1943. Þeir héldu síðan áfram til Berlínar og komu þangað í tæka tíð til að fara samtímis Paulu Weg og fleirum með „sendingu 32“ til Auschwitz í marsbyrjun. Vitað er að Lomnitz-hjónin, Clara Türkheimer og Clothilde Hanauer voru myrt í dauðabúðunum.[16]

Sumir aðrir umsækjendur Gyðinga um landvistarleyfi á Íslandi voru myrtir eða létust af ýmsum ástæðum í gyðingahverfum eða einhvers konar fangabúðum nasista. Einhverjir þeirra lifðu af stríðsárin í Þýskalandi eða létust þar í landi af ókunnum ástæðum.[17] Svipað var að segja um umsækjendur Gyðinga frá Austurríki, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi en finna má suma þeirra í gagnabönkum Yad Vashem-helfararsafnsins í Jerúsalem, Bandaríska helfararsafnsins í Washington, í ættfræðibönkum á Netinu og víðar.[18] Sumir umsækjendur virðist hafa fengið hæli í öðrum löndum og komist lífs af. Um marga er þó ekkert vitað.

Íslendingar hefðu vitaskuld aldrei getað tekið við öllu þessu fólki en þeir hefðu að minnsta kosti getað tekið skerf sinn í samanburði við aðrar vestrænar þjóðir. Það gerðum við ekki, eins og rætt var í Erlendum landshornalýð. Jafnframt má helst ekki ræða þessi mál opinberlega og stjórnvöld hunsa staðfastlega þennan sorglega og á köflum vafasama þátt í sögu landsins.

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Tilvísanir:

[1] Tölur um fjölda umsækjenda eru einkum fengnar úr skjölum dómsmálaráðuneytisins („Eftirlit með útlendingum,“ einkum db. 14/513, 517 og 15/331, 335), atvinnumálaráðuneytisins vegna umsókna útlendinga um atvinnuleyfi, bréfabókum forsætisráðuneytisins, gögnum Háskóla Íslands, skjölum sendiráðs Danmerkur í Berlín og sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn, gögnum Reykjavíkurborgar og úr bréfabókum utanríkismáladeildar Stjórnarráðsins.
[2] Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi (Rvík 1980), 90.
[3] ÞÍ. For. db. 3/450: Danska ræðisskrifstofan í Búdapest til forsætisráðherra, 16. mars 1939 og meðfylgjandi bréf Istvans Gerö, fyrir hönd 33 nafngreindra ungverskra Gyðinga, 19. febrúar 1939. Þar má nefna sex manns sem báru hið skáklega nafn Fischer.
[4] ÞÍ. DR. db. 14/513: Fritz Hahlo til dómsmálaráðherra, 15. desember 1938 (og handrituð athugasemd ráðherra) og dómsmálaráðuneyti til Fritz Hahlos, 10. janúar 1939. Gedenkbuch Opher der Verfolgung der Juden unter der nationalsozialistischen Gewaltherrschaft in Deutschland 1933–1945 (Koblenz 1986): Hahlo, Fritz. http://yvng.yadvashem.org – Hahlo, Fritz.
[5] ÞÍ. DR. db. 14/513: Erich Salinger til dómsmálaráðherra, 5. desember 1938 (og handrituð athugasemd ráðherra).
[6] Um sendingu 23, sjá http://db.yadvashem.org/deportation/transportDetails.html?language=­en&itemId=5092727 (síðast lesið í febrúar 2017). SS-foringinn Adolf Eichmann stjórnaði þessum aðgerðum. Farþegalisti er birtur á http://www.statistik–des–holocaust.de/list_ger_ber_ot23.html.
[7] Sjá skrár Yad Vashem-safnsins, http://yvng.yadvashem.org – Salinger: Erich, Gertrud, Steffi og farþegaskrár á: http://www.statistik–des–holocaust.de/list_ger_ber_ot23.html og http://www.statistik–des–holocaust.de/list_ger_ber_ot29.html.
[8] ÞÍ. For. db. 2/965: Alfred Pulvermacher til forsætisráðherra Íslands, 8. nóvember 1938. Forsætisráðuneytið til A. Pulvermachers, 18. nóvember 1938.
[9] Sjá gagnagrunn Yad Vashem á http://yvng.yadvashem.org: Pulvermacher, Alfred. Um „sendingu 36,“ sjá http://db.yadvashem.org/deportation/transportDetails.html?language=en­&itemId=5092745 (síðast lesið í maí 2016).
[10] Um sendingu 36, sjá farþegalista í: http://www.statistik–des–holocaust.de/list_ger_ber_ot­36.html (síðast sótt 6. febrúar 2017).
[11] Sjá gagnagrunn Yad Vashem–helfararsafnsins, http://yvng.yadvashem.org. Rosenthal: Siegbert (f. 1899), Erna (f. 1901) og Denny (f. 1939). Sjá einnig, Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Gyðingastjarnan og hakakrossinn. Örlög tveggja útlendinga á Íslandi,“ Þjóðmál (vor 2012), 57–71. Um þá 86 Gyðinga sem létust í þessum aðförum Ahnenerbe, sjá: http://www.jewishgen.org/­databases/holocaust/0154_Natzweiler_medical.html (skoðað síðast 6. febrúar 2017). Þar segir á minningarskildi: „Hér hvíla lík 86 manna og kvenna sem voru sótt frá ýmsum vinnubúðum í Austur-Evrópu til búðanna í Struthof [Natzweiler]. Dauðinn kom eftir hryllilegar þjáningar þar sem þau voru tilraunadýr í nafni vísinda í þjónustu illskunnar.“
[12] Sjá til dæmis Beate Meyer: „The Deportations,“ í Jews in Nazi Berlin. From Kristallnacht to Liberation, 172–183.
[13] Farþegalistann má sjá á http://www.statistik–des–holocaust.de/list_ger_ber_ot32.html. Um „sendingu 32“ má lesa víða, meðal annars á heimasíðu Yad Vashem–helfararsafnsins í Jerúsalem, http://db.yadvashem.org/deportation/transportDetails.html?language=en&item­Id=5092741 (síðast lesið 19. febrúar 2017).
[14] ÞÍ. UR. db. 2/965: Utanríkismáladeild til dómsmálaráðuneytisins, 3. maí 1941. Í bréfinu vísar Stefán Þorvarðsson í fyrirspurn sendifulltrúa Íslands í Stokkhólmi um hvort Paula Weg hefði fengið innflutnings- og dvalarleyfi á Íslandi. Dómsmálaráðuneytið (Gústav A. Jónasson) svaraði því til að hinn 3. apríl 1940 hafi ráðuneytið veitt konu þessari þriggja mánaða dvalarleyfi með símskeyti til danska sendiráðsins í Berlín og vildi ítreka heimild hennar.
[15] http://www.vg.no/spesial/2015/vaare_falne/?personId=20762, Türkheimer, Franz Josef (síðast lesið 19. febrúar 1942).
[16] Heimildir um þetta eru komnar frá norska sagnfræðingnum Bjarte Bruland við Háskólann í Bergen, meðal annars úr gögnum norska utanríkisráðuneytisins, „Frågot rör nationella minoriteres ställning Norge“, frá desember 1942 til janúar 1943. Einnig koma upplýsingar frá Yad Vashem–safninu í Jerúsalem: http://www.yadvashem.org. Clothilde Hanauer, f. Mayer, var frá Berlín en hafði komist til Harðangurs, þar sem hún bjó í Aalvik. Feliz Lomnitz fæddist í bænum Gera í Túringíu, nærri Weimar, árið 1884. Hann bjó í Berlín fyrir stríð. Kona hans Elfriede, f. Herschel 1883, er skráð með heimilisfang í Ósló fyrir stríð. Farþegalisti á sendingu 32 er á slóðinni http://www.statistik–des–holocaust.de/list_ger_ber_ot32.html (síðast sótt 19. febrúar 2017). Sumt af þessu fólki var meðal söguhetja í nýlegri metsölubók um helför norskra Gyðinga, Marte Michelet: Den største forbrytelsen. Ofre og gjerningsmenn i det norske Holocaust (Ósló 2014).
[17] Sjá, Peter Lande, „Jews who Died in Berlin. July 1943 – March 1945. Berlin’s Invisible Holocaust Victims“ á www.jewishgen.com.
[18] Um látna Gyðinga frá Þýskalandi, sjá Gedenkbuch Opher der Verfolgung der Juden unter der nationalsozialistischen Gew­alt­­herr­schaft in Deutschland 1933–1945 (Koblenz 1986). Upplýsingar um eftirlifendur fann höfundur fyrst 1998 þegar hann dvaldist sem gistifræðimaður við Bandaríska helfararsafnið (The United States Holocaust Memorial Museum) í Washington DC en ein deild safnsins, Survivors Registry, safnar nöfnum þeirra sem komust lífs af og vitað er um. Á sama safni má enn fremur finna ítarlegar skrár með nöfnum austurrískra og tékkóslóvakískra Gyðinga sem létust í Helförinni. Einnig spurðist höfundur fyrir hjá Yad Vashem-helfararsafninu í Jerúsalem og fékk þar góða hjálp. Einnig má finna ýmislegt á Netinu, til dæmis í ættfræðibönkum Gyðinga (svo sem jewishgen.org) og á www.geni.com.