Fall múrsins – og sigur kommúnismans?

Leonard Bernstein stjórnar níundu sinfóníu Beethovens í gamla konunglega leikhúsinu í Austur-Berlín á jóladag 1989, mánuði eftir fall Berlínarmúrsins. Lítið hefur því orðið úr þeim fyrirheitum sem jóladagstónleikar Bernsteins gáfu, því þó að efnisleg ummerki um múrinn kunni að mestu leyti að vera horfin lifir hann áfram í ríkjandi hugmyndum um markmið og leiðir í stjórnmálum og réttmæta beitingu opinbers valds.

Á jóladag árið 1989 stjórnaði Leonard Bernstein níundu sinfóníu Beethovens í gamla konunglega leikhúsinu í Austur-Berlín í tilefni af falli Berlínarmúrsins, sem átt hafði sér stað flestum að óvörum rúmum mánuði fyrr. Nú þegar liðlega 30 ár eru liðin frá þessum merka atburði í Evrópusögunni er óhjákvæmilegt að staldra við ákveðna þversögn: þó að Sovétríkin séu horfin af sjónarsviðinu hafa ýmis afbrigði þeirrar hugmyndafræði sem þau kenndu sig við farið sigurför um Vesturlönd á undanförnum áratugum. Þeir sem fögnuðu sigri í kalda stríðinu voru of fljótir á sér; vofan sem Marx og Engels vísuðu til í Kommúnistaávarpinu svífur enn enn yfir vötnum þótt í eilítið annarri mynd sé – enn sem komið er.

Til að setja þessa fullyrðingu í viðeigandi samhengi er rétt að huga stuttlega að „ættfræði“ múrsins og hugmyndafræðilegum og sögulegum aðdraganda þess að hann var reistur. Rétt er að hefja söguna í upplýsingunni, sem hægt er að tímasetja í grófum dráttum frá lokum þrjátíu ára stríðsins árið 1648 og til upphafs frönsku stjórnarbyltingarinnar árið 1789. Með nokkurri einföldun má segja að helsta einkenni upplýsingarinnar hafi verið sú viðleitni að beita mannlegri rökhyggju til að endurmeta ríkjandi þjóðskipulag og menningararfleifð miðalda í ljósi þeirra framfara sem orðið höfðu í vísindum og skilningi manna á náttúrunni á þeim tveimur öldum eða svo sem á undan fóru. Upplýsingin átti sér hins vegar tvær hliðar, aðra róttæka og hina hófsamari.

Þekktastir róttæku hugsuðanna eru líklega Voltaire og Rousseau. Hinn fyrrnefndi var þekktur fyrir háðslega gagnrýni á menningu og hugmyndaheim miðalda, ekki síst trúarbrögð, sem hann taldi merki um heimsku og hjátrú; meðfædd rökhyggja mannsins væri lykillinn að öllum framförum. Hinn síðarnefndi er þekktur fyrir kenningu sína um hinn göfuga villimann, sem eignarrétturinn á að hafa hneppt í fjötra, og um hinn „almenna vilja“, sem átti eftir að réttlæta mestu öfgar frönsku stjórnarbyltingarinnar. Þau skilaboð sem þessar hugmyndir virtust fela í sér voru að nauðsynlegt væri að að frelsa mannkyn undan oki fortíðarinnar með því að sópa öllum gömlum hefðum burt og byggja nýtt samfélag frá grunni á vísindum og rökhyggju mannsins einum saman.

Nálgun hófsamari hugsuða upplýsingarinnar var hins vegar sú að framfarir í vísindum og beiting rökhyggju væru fyllilega samrýmanlegar virðingu fyrir siðum og hefðum, en í þeim væri margt gott sem rétt væri að hlúa að. Einn þessara hugsuða var Montesquieu, sem áttaði sig á því að einstaklingsfrelsið, sem er svo einkennandi fyrir vestræna menningu, liggur ekki í eðli mannsins eða náttúrunnar heldur á það rætur sínar að rekja til sögu, hefða og menningar Vesturlanda. Það þróaðist frá menningu Forngrikkja og rómverskri lagahefð, siðum germönsku ættflokkanna, kristilegri siðfræði miðalda, átökunum milli andlegs og veraldlegs valds, siðaskiptunum og togstreitunni milli krúnu og aðals. Það dreifða vald sem einkenndi Evrópu skapaði þau menningarlegu skilyrði sem gerðu einstaklingsfrelsinu kleift að þrífast.

Ólíkt róttæklingunum litu þessir hugsuðir þannig á sig sem arftaka menningarheims miðalda og töldu að til þess að varðveita þetta brothætta frelsi og önnur gildi sem sú menning hefði gefið okkur væri nauðsynlegt að byggja framtíðina á henni. Í þekktasta verki sínu, Anda laganna, reynir Montesquieu þannig að festa hendur á því hvaða stofnanafyrirkomulag væri best til þess fallið að hlúa að þessu frelsi. Meðal hugmynda hans má nefna þrískiptingu valdsins, sem hafði meðal annars afgerandi áhrif á höfunda bandarísku stjórnarskrárinnar. Nýja lýðveldið byggði stjórnskipan sína þannig á hugmyndum hófsömu upplýsingarinnar og forðaðist að sinni áhrif róttæklinganna á þjóðskipulag sitt. Ásamt hugmyndum Lockes um jafnrétti þegnanna urðu þessar hugmyndir að grunnstefi frjálslyndisstefnunnar og liggja nú til grundvallar stjórnskipan flestra vestrænna ríkja.

Frjálslyndisstefnan var ekki nóg

Nítjánda öldin einkenndist af baráttu frjálslyndisstefnunnar og evrópsku konungseinveldanna. Kröfur um frjálslyndari stjórnarskrár og opnari hagkerfi samtvinnuðust ákalli um stofnun nýrra þjóðríkja á Ítalíu og í Þýskalandi. Í þeirri baráttu héldust frjálslyndis­stefnan og þjóðernishyggjan í hendur; hér var í grunninn um að ræða sömu strauma og leiddu Jón Sigurðsson og fleiri til að vinna að endurreisn íslenska þjóðríkisins og sem stóðu að baki kröfum um sjálfstæði Noregs frá Svíþjóð. Ýmsum þótti frjálslyndisstefnan þó ekki ganga nógu langt og hófu hugsuðir eins og Proudhon og Marx fljótlega að ímynda sér róttækari valkosti. Marx hélt því raunar fram að þróun mannlegs samfélags lyti vísindalegum lögmálum sem einkenndust af stigbundinni framþróun. Lokastigið væri kommúnískt samfélag þar sem algjör jöfnuður myndi ríkja og valdbeiting yrði óþörf. Marx var þannig verðugur arftaki vísinda- og framfarahyggju róttæku upplýsingarinnar.

Fyrri heimsstyrjöld, sem braust út árið 1914, skók hins vegar sjálfstraust Vesturlanda og varpaði efa á fyrirheit frjálslyndisstefnunnar um ævarandi framfarir og friðsamlega þróun Evrópu. Enn verra var þó í vændum; með valdatöku bolsévíka í Rússlandi haustið 1917 sneri Rússland af þeirri leið sem Pétur mikli hafði markað með stofnun Sankti Pétursborgar í upphafi átjándu aldar, og sagði sig úr samfélagi vestrænna þjóða til að stytta sér leið til fyrirheitna landsins, sem Marx hafði haldið fram að væri óhjákvæmilegur endapunktur sögunnar. Í Þýskalandi gat eitruð arfleifð endaloka fyrri heimsstyrjaldar og endurómurinn af rússnesku byltingunni af sér óstöðugleika Weimar-lýðveldisins og leiddi til valdatöku þjóðernissósíalismans, sem ekki byggði síður á andvestrænum hugmyndum og höfnun á vestrænum menningararfi. Valdataka þessara hreyfinga þýddi endalok einstaklingsfrelsisins fyrir þá sem lifðu í skugga þeirra.

Bandalag Hitlers og Stalíns, sem handsalað var í aðdraganda innrásar Þjóðverja í Pólland, birtist andstæðingum þessara ógnarstjórna í vestrænu lýðræðisríkjunum því sem rökrétt þróun. Víglínurnar væru nú skýrt dregnar; öðru megin væri vestræn siðmenning í formi vestrænu lýðræðisríkjanna og hinum megin andvestræn villimennska fasismans og kommúnismans. Innrás Þýskalands þjóðernissósíalismans í Sovétríkin í júní 1941 breytti hins vegar þessari stöðu með öllu. Með bandalagi Stalíns og vestrænu lýðræðisríkjanna gegn Hitler öðlaðist kommúnisminn ákveðið lögmæti – jafnvel þó að glæpir Stalíns væru, ef eitthvað var, enn víðtækari en Hitlers.

Þetta bandalag stríðsáranna gat af sér ákveðna hugmyndafræði eftir stríð – andfasismann – sem leit á Sovétríkin sem afl til góðs sem, þrátt fyrir tímabundna erfiðleika og harðindi, væri fulltrúi réttlætis og mannúðar og sem hlyti á endanum að sigra. Á sama tíma væri þjóðskipulag Bandaríkjanna og vestur-evrópsku lýðræðisríkjanna, sem byggði á markaðshagkerfi og einstaklingsfrelsi, í eðli sínu fasískt. Algjör tortíming þjóðernissósíalismans og þær miklu fórnir sem baráttan við Hitler hafði krafist af Sovétríkjunum margfaldaði síðan tilfinningaleg áhrif þessarar hugmyndafræði. Þá spilaði áróður austantjaldsríkjanna einnig stórt hlutverk enda andfasismi opinber hugmyndafræði Austur-Þýskalands, sem vísaði iðulega til Berlínarmúrsins sem „andfasíska varnarveggsins“. Óhætt er að segja að andfasisminn hafi náð valdi á stórum hluta menningarelítu Vestur-Evrópu frá stríðslokum, jafnvel meðal þeirra sem annars litu ekki á sig sem kommúnista.

Jöfnuður og jafnrétti

Öllu heilli björguðu Bandaríkjamenn Vestur-Evrópu frá þeim örlögum sem féllu í hlut ríkjanna austan járntjaldsins. Andfasisminn dafnaði hins vegar vel í vestanverðri álfunni í skjóli bandarískrar herverndar og krafti sterkrar stöðu kommúnistaflokka. Í París voru eftirstríðsárin sérstaklega rík uppspretta róttækra hugmynda, frá tilvistarhyggju Sartres til póstmódernisma og póststrúktúralisma Foucaults, Derrida, Deleuze og Lyotards. Þessir hugsuðir endurómuðu gagnrýni róttæku Upplýsingarinnar á menningararf Vesturlanda en þó frá sjónarhóli andrökhyggju. Byggðist nálgun þeirra ekki síst á kenningu Marx um að öll hugmyndafræði sé aðeins birtingarmynd ríkjandi hagsmuna. Póstmódernistarnir bættu hins vegar um betur og héldu því fram að öll þekking, þar á meðal sú sem leiddi af náttúruvísindunum, væri í raun huglæg og menningarlega skilyrt.

Sigurför póstmódernisma og póststrúktúralisma innan félagsvísindadeilda háskólanna hefur varpað enn frekari vafa á tilkall félagsvísindanna til vísindalegrar hlutlægni. Það tilkall var raunar alltaf frekar veikt; það var jú Marx sem taldi að mannlegt samfélag stjórnaðist af vísindalegum lögmálum. En í kjölfar þeirrar öldu róttækni sem skók háskólasamfélagið upp úr 1968 hóf póstmódernisminn að geta af sér hinar ýmsu undirgreinar, sem kalla mætti „gremjufræði“, og sem áttu það sameiginlegt að fordæma sögu Vesturlanda sem samfellda vegferð óréttlætis og undirokunar. Nálgun þessara fræða byggðist á að endurtúlka söguna á grundvelli tíðaranda nútímans og að skipta öllum einstaklingum upp í tilbúna hópa byggða á kyni, hörundslit og öðrum ytri einkennum. Óháð eigin fjölskyldusögu eða einstaklingsbundnum aðstæðum væru einstaklingar ekki annað en fulltrúar sinna tilbúnu hópa. Tilvera þeirra sem tilheyrðu sögulega undirokuðum hópum ætti að byggjast á sífelldri meðvitund um fórnarlambsstöðu sína en þeir sem tilheyrðu ætluðum forréttindahópum ættu að nálgast lífið af ævarandi iðrun fyrir syndir forfeðranna og lotningu fyrir hlutskipti fórnarlambsins. Úr varð pólitísk hugmyndafræði undir yfirskini vísindalegrar hlutlægni, sem blandaðist andfasismanum og endurómaði ákall hans um róttæka menningarbyltingu.

Áhrif póststrúktúralismans og póstmódernismans eru ekki síst greinileg í þeirri sjónhverfingu sem felst í því að gera ekki greinarmun í opinberri umræðu á jafnrétti og jöfnuði. Hugtakið jafnrétti á sér víðtæka skírskotun í vestrænni hugsun; það má rekja aftur til sumra af forngrísku heimspekingunum, til kristilegrar siðfræði og síðari tíma hugsuða eins og Hobbes og Locke. Það endurspeglaðist síðar í kröfu frjálslyndisstefnunnar til þess að þau mismunandi réttindi og skyldur einstaklinga sem einkenndu þjóðskipulag síðmiðalda yrðu afnumin og allir nytu sömu réttinda og skyldna að lögum. Hugtakið jöfnuður rekur aftur á móti uppruna sinn til rangtúlkana Rousseaus, samfélagsverkfræði Saint-Simons og útópískrar efnishyggju Marx. Þegar jafnaðarhugtakið er sett í samhengi við delluheimspeki póstmódernismans og gremjufræði félagsvísindanna ættu leiðir við frjálslyndisstefnuna alfarið að skilja.

Síbylja um meintan skort á jafnrétti kynjanna er ef til vill nærtækasta dæmið um þá fölsku orðræðu sem hlýst af því að gera ekki greinarmun á ólíkum hugtökum, því hún snýst í raun að mestu um jöfnuð. Jafnframt byggir hún á þeirri röngu forsendu að kynin séu í raun eins og að jöfn kynjaskipting á öllum sviðum samfélagsins væri þar með „eðlileg“ niðurstaða ef ekki væri fyrir mismunun, undirokun og menningarlega skilyrðingu. Sú forsenda á sér hins vegar enga stoð í náttúruvísindunum eða hlutarins eðli. Hið opinbera hefur því enga forsendu til að meta hvað teljist eðlileg kynjaskipting á mismunandi sviðum samfélagsins. Opinber stefnumótun ætti þess í stað að byggja á því að einstaklingar geti ræktað hæfileika sína og tekið þátt í samfélaginu í samræmi við eigin getu og áhugasvið og óháð kyni og öðrum óviðkomandi einkennum.

En hugtökin jafnrétti og jöfnuður eru að auki í mótsögn hvort við annað. Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli jöfnuðar­­sjónarmiða byggðra á ímyndaðri aðild einstaklings að einum eða fleiri tilbúnum hópum brjóta gegn jafnréttinu sem byggir á því að einstaklingar séu metnir á grundvelli eigin verðleika en ekki ómálefnalegra forsendna hópskilgreininga póstmódernismans. Í kröfu um mismunandi meðferð einstaklinga eftir því hvaða hópi viðkomandi tilheyrir felst í raun krafa um afturhvarf til þjóðskipulags síðmiðalda. Í þeirri kröfu endurspegla gremjufræðin vel höfnun póstmódernismans á rökhyggju upplýsingarinnar.

Þörfin á að leiðrétta það meinta óréttlæti sem felist í ójafnri skiptingu milli tilbúinna hópa póstmódernismans á mismunandi sviðum samfélagsins er samt í síauknum mæli notuð til að réttlæta útþenslu opinbera báknsins og umfangsmikil afskipti þess, í krafti valdboðs og ritskoðunar, af einstaklings- og atvinnufrelsinu. Svo lengi sem slíkum hugmyndum er leyft að eiga sviðið virðist lítið því til fyrirstöðu að misráðin barátta gegn meintu félagslegu óréttlæti teygi sig sífellt lengra í aðförinni að hinu frjálsa samfélagi með enn frekari afskiptum hins opinbera af alls kyns málefnum sem betur færi á að samfélagið sjálft hefði forræði yfir.

Uppgjafarfrjálslyndi

Þeir sem aðhyllast frjálslyndisstefnu ættu með réttu að standa gegn tilraunum hins póstmóderníska vinstris til að snúa jafnréttinu upp í andhverfu sína, grafa undan einstaklingsfrelsinu og gera samfélagið að tilraunastofu fyrir hugmyndafræði sína. En þá virðist oft skorta sannfæringu til að verjast vinstriróttækri gagnrýni á vestræna siðmenningu og þjóðskipulag og kjósa þess í stað að gefast upp og ljá slíkri orðræðu trúverðugleika. Danski sagnfræðingurinn David Gress hefur kallað þessa tilhneigingu „uppgjafarfrjálslyndi“. Gress heldur því fram að fyrirbærið megi að hluta til rekja til þess að sú sjálfsmynd af Vesturlöndum sem byggt var á eftir seinni heimsstyrjöld, og einskorðaðist að mestu við lýðræði og kapítalisma, hefði í eðli sínu verið ófullkomin; í henni hefði falist málamiðlun sem byggði á lægsta mögulega samnefnara milli frjálslyndisstefnu og hugmyndafræði andfasismans. Þessi sjálfsmynd, sem ætlað var að viðhalda einingu Vesturlanda í kalda stríðinu, hefði orðið róttækri gagnrýni vinstrisinnaðra áróðurstækna 7. áratugarins auðveld bráð.

Sú tilhneiging frjálslyndisstefnunnar að einblína á markaðshagkerfið og aðskilja frelsið frá því samhengi sem vestrænn menningararfur býr því hefur því veikt hana. Þó að myndlíkingin um „ósýnilegu höndina“ sé þekktasta hugmynd hans lét einn mikilvægasti hugsuður frjálslyndisstefnunnar, Adam Smith, sig líka siðfræði miklu varða. Þannig er kapítalismi mikilvægur hluti vestrænnar siðfræði en hann felur ekki í sér siðfræði í sjálfu sér – hann þarf að grundvallast á þeirri siðfræði sem leiðir af þróun vestrænnar siðmenningar undanfarin þrjú árþúsund. Að kalda stríðinu loknu hefði því þurft að fara fram ákveðið uppgjör við kommúnismann ásamt endurnýjun á hugmyndafræðilegum grundvelli frjálslyndisstefnunnar. Í stað þess hefur hún, í sinni takmörkuðu útgáfu kaldastríðstímans, haldið áfram að haldast í hendur við andfasismann á hugmyndafræðilegum forsendum hins síðarnefnda.

Þegar allt kemur til alls virðist fall múrsins ekki hafa haft neina sérstaka þýðingu á Vesturlöndum. Uppgjörið við kommúnismann fór aldrei fram; og þeim sem hafna vestrænum menningararfi og predika þess í stað alhyggju, afstæði allra gilda og varanlega menningarbyltingu vex ásmegin í krafti tómlætis þeirra sem ættu að vita betur. Það aukna fylgi sem sósíalískar hugmyndir virðast njóta í Bandaríkjunum er vísbending um frekari hnignun í landi sem áður virtist ónæmt fyrir slíkum hugmyndum. Kollektívismi og miðstýring sækja hvarvetna í sig veðrið nema raunar í þeim samfélögum sem kynntust þeim á eigin skinni. Í því liggur meðal annars skilningsleysi milli ríkja í austan- og vestanverðri Evrópu. Lítið hefur því orðið úr þeim fyrirheitum sem jóladagstónleikar Bernsteins gáfu, því þó að efnisleg ummerki um múrinn kunni að mestu leyti að vera horfin lifir hann áfram í ríkjandi hugmyndum um markmið og leiðir í stjórnmálum og réttmæta beitingu opinbers valds. Meginmunurinn er sá að núna snýr hann öfugt.

Höfundur er fyrrverandi nemandi franska stjórnsýsluskólans.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.