Af nokkrum þekktum hljóðritunum

Hljóðritanir á klassískri tónlist skipta tugum þúsunda og þær sem standa sérstaklega upp úr skipta sjálfsagt hundruðum. Þó eru nokkrar upptökur sem allir sem leggja sig eftir klassískri tónlist ættu að þekkja. Hér í þessari grein hef ég valið þá leið að minnast á 10 slíkar en listinn gæti hæglega innihaldið að minnsta kosti 50 titla – fyrir utan þá staðreynd að um svona lista má alltaf deila. Einhvers staðar verðum við þó að byrja og allar þessar upptökur má nálgast á helstu streymisveitum, svo sem á Spotify, Idagio og Tidal.

Listinn er ekki í sérstakri röð og hér er ekki gert upp á milli hljóðritana, heldur tíndar til 10 upptökur sem standa mér nærri og hafa fylgt mér lengi. Sumar þeirra eru umdeildar (t.a.m. Bruckner með Celibidache og (seinni) Goldberg-tilbrigðin með Gould) en aðrar njóta óskoraðrar hylli (t.a.m. Beethoven og Brahms með Kleiber). Þá eru upptökur á listanum sem hafa nokkurs konar „költ-status“ í heimi klassískrar tónlistar (þ. á m. Elgar með du Pré/Barbirolli og Puccini með de Sabata).

Bruckner með Celibidache

Rúmenski hljómsveitarstjórinn Sergiu Celibidache var ólíkindatól. Hann neitaði að gera hljóðritanir og krafðist óheyrilega mikils æfingatíma með hljómsveitum sem hann stjórnaði (dæmi voru um að hann fengi sjö til níu æfingadaga með Lundúnasinfóníunni (LSO) þegar aðrir urðu að gera sér í mesta lagi þrjá daga að góðu). Á seinni hluta ferils síns stýrði hann Fílharmóníusveitinni í München og eftir að Celibidache lést árið 1996 fóru að koma út tónleikaupptökur sem hafa opnað nýjan heim í túlkunum á verkum tónskálda á borð við Tchaikovsky og Bruckner. Celibidaches verður einmitt helst minnst fyrir ótrúlega túlkun sína á verkum Bruckners, sem er afar ólík meginstraumi túlkana annarra hljómsveitarstjóra. Það er ekki bara að túlkun Celibidaches sé hægari en gengur og gerist, það er í henni ljóðræna sem heyrist ekki annars staðar. EMI/Warner hefur gefið út sinfóníur nr. 3-9 (Celibidache neitaði að stjórna nr. 1 og 2) ásamt messu nr. 3 og Te Deum. Hlustið á niðurlagið (Coda) í lokaþætti 4. sinfóníunnar sem Celibidache tekur rúmar fimm mínútur í, þ.e.a.s. tempóið er helmingi hægara en hjá öðrum hljómsveitarstjórum.

Tchaikovsky með Mravinsky

Það er til urmull af hljóðritunum af verkum Tchaikovskys, enda eitt vinsælasta tónskáld veraldar. Fáar útgáfur af seinni þremur sinfóníum hans (nr. 4-6) njóta þó hylli á borð við þá sem Evgeny Mravinsky stjórnaði og gerð var árið 1960 í frægri heimsókn Fílharmóníusveitarinnar í Leníngrad (nú St. Pétursborg) til Bretlands. Túlkunin er mjög „rússnesk“, þ.e.a.s. hún er hröð og gróf, en hún inniheldur um leið ákafa sem oft vill vanta í túlkunum annarra hljómsveitarstjóra. Spilamennskan er fyrsta flokks og upptakan er mikilvægur minnisvarði um þá ótrúlegu hljómsveit sem Mravinsky byggði upp í Sovétríkjunum en heyrðist því miður allt of sjaldan á Vesturlöndum.

Beethoven með Kleiber

Talandi um sérstaka hljómsveitarstjóra, þá má segja að enginn í veröldinni hafi notið jafn mikillar hylli og Carlos Kleiber. Gallinn var sá að hann fékkst nánast aldrei til að stjórna, þess þá heldur til að gera hljóðritanir. Sú saga var sögð af honum að hann stjórnaði bara þegar fór að vanta mat í frystikistuna hjá sér og Karajan lét hafa eftir sér að frystikistan hjá Kleiber væri djúp – í hana vantaði aldrei mat. Á löngum ferli sínum stjórnaði hann innan við 100 hljómsveitartónleikum og rúmlega 400 óperusýningum og efnisskráin var ekki stór (Tristan und Isolde, Otello, La traviata, La bohème, Der Freischutz, Elektra, Carmen, Der Rosenkavalier og Die Fledermaus í óperuhúsinu og Beethoven 4, 5, 6, 7 og Coriolan-forleikurinn, Brahms 2 og 4, Mozart 36, Schubert 3 og 8, Dvorák píanókonsertinn með Richter, Vínartónleikar á nýársdag með Vínarfílharmóníunni og örfá fleiri verk í tónleikasalnum). Á árunum 1975 og 1976 komu út hljóðritanir á 5. og 7. sinfóníu Beethovens með Vínarfílharmóníunni og Kleiber sem allt frá útgáfudegi hafa þótt þær bestu sem fáanlegar eru af þessum verkum. Það er ekki lítið afrek, enda sennilega mest hljóðrituðu verk tónlistarsögunnar.

Brahms með Kleiber

Á pari við Beethoven 5 og 7 kom Brahms 4 með Kleiber og Vínarfílharmóníunni út árið 1981, en þetta var síðasta stúdíóhljóðritunin sem Kleiber gerði með umræddri hljómsveit. Það er sama orka í túlkun Kleibers á Brahms og Beethoven, og þetta er upptaka sem margir sverja við.

 

 

 

Tosca með de Sabata

Af mörgum frægum hljóðritunum sem Maria Callas gerði stendur Tosca með Victor de Sabata upp úr. Hún var gerð á Scala í ágúst 1953 og skartar auk Callas þeim Giuseppe di Stefano og Tito Gobbi í aðalhlutverkum. Allir söngvararnir eru í toppformi en þetta er því miður eina stúdíóhljóðritunin af óperu sem de Sabata gerði. Það neistar á milli Callas og di Stefano á upptökunni og Gobbi er eftirminnilegt illmenni (hann söng hlutverk Scarpia 800 sinnum á sviði). Sú saga er sögð að þegar Karajan var að hljóðrita fyrri útgáfu sína á Toscu árið 1962 hafi hann hlustað reglulega á upptökuna með de Sabata til að fá innblástur.

Mahler með Karajan

Þannig háttar til að Herbert von Karajan hljóðritaði 9. sinfóníu Mahlers tvisvar sinnum með skömmu millibili (í bæði skiptin með Berlínarfílharmóníunni), fyrst 1980 og svo aftur á tónleikum 1982. Báðar upptökurnar eru frábærar og margverðlaunaðar en seinni upptakan hefur vinninginn og er eitt af sjö undrum veraldar í sögu hljóðritana, svo vitnað sé í gagnrýnanda breska tónlistartímaritsins Gramophone. Skömmu áður en Karajan gerði seinni upptökuna hafði hann gengið í gegnum erfið veikindi og það er eins og þau hafi dýpkað túlkun hans á verkinu. Árið 1982 lék Berlínarfílharmónían þetta verk undir stjórn Karajans í Berlín, Salzburg og New York en hljóðritunin sem gefin var út var gerð á einum tónleikum í Berlín (generalprufan var að vísu hljóðrituð til öryggis) og hljómsveitarleikurinn er fádæma góður.

Elgar með du Pré og Barbirolli

Sjaldan hefur nokkurt einleiksverk verið samofið flytjanda með sama hætti og sellókonsert Elgars með breska sellóleikaranum Jacqueline du Pré. Hún var aðeins tvítug þegar hún hljóðritaði þetta verk með Lundúnasinfóníunni (LSO) og Sir John Barbirolli og upptakan sló strax í gegn. Jacqueline du Pré var einungis 28 ára gömul þegar hún hætti að koma fram. Þá hafði hún greinst með MS-sjúkdóminn sem að lokum dró hana til dauða árið 1987. Hljóðritun hennar á Elgar-konsertinum hefur hins vegar aldrei hætt að koma út og hefur ætíð síðan skipað sér í hóp helstu hljóðritana tónlistarsögunnar.

Verdi með Abbado

Flestir kannast við þrjár frægustu óperur Verdis, Il trovatore, Rigoletto og La traviata, og af þeim eru til fjölmargar hljóðritanir – margar prýðilegar. Færri þekkja þó meistaraverkið Simon Boccanegra en þannig vill einmitt til að í hópi bestu hljóðritana sögunnar er einmitt upptaka af því verki, gerð á Scala árið 1977. Hér fer saman ótrúlegur söngur, hljómsveitarleikur, hljómsveitarstjórn og upptökutækni sem gerir upptöku Abbados á verkinu að ómissandi hluta af tónlistarsafni tónlistarunnenda. Söguþráður óperunnar kann að reynast mörgum ráðgáta en tónlistin, maður lifandi! Abbado var stundum uppnefndur „lyfjafræðingurinn“ á Ítalíu fyrir hversu nákvæmur hann var (2 mg af forte, 3 ml af pianissimo o.s.frv.) en það er mikil dýpt í túlkun hans á þessari perlu Verdis. Ein af eftirlætishljóðritunum mínum.

Wagner með Solti

Hljóðritun Sir Georgs Solti af Niflungahring Wagners er meðal mest seldu klassísku hljóðritana í heiminum. Því var einmitt spáð í öndverðu að þessi hljóðritun, sem gerð var á tímabilinu 1956-65, myndi einmitt ekkert seljast en annað kom á daginn. Hringurinn hafði aldrei verið hljóðritaður í heild sinni áður í stúdíói, hvað þá í steríó. Á þessum tíma urðu líka miklar framfarir í upptökutækni sem gerðu upptökustjóranum, John Culshaw, mögulegt að hljóðrita þetta risaverk Wagners á afar sannfærandi hátt. Ekki spillir fyrir að söngur á upptökunni er fyrsta flokks. Hér má nefna sem dæmi Kirsten Flagstad, Hans Hotter, Birgit Nilsson, Christu Ludwig og Wolfgang Windgassen, en allt voru þetta söngvarar í fremstu röð á sinni tíð. Vínarfílharmónían leikur af fádæma öryggi og innlifun og öllu saman stjórnar Solti af sama kraftinum og einkenndi öll störf hans.

Bach með Gould

Kanadíski píanistinn Glenn Gould skiptir heiminum í tvennt, annaðhvort sverja menn við leik hans (einkum í Bach) eða þá að hann þyki einfaldlega tilgerðarlegur (sem hann gat vissulega verið). Gould hljóðritaði Goldberg-tilbrigðin tvisvar, fyrst árið 1955 og svo aftur árið 1981. Fyrri upptakan var fyrsta hljóðritunin sem Gould gerði fyrir Columbia-útgáfufyrirtækið og seldist hún gríðarvel, sem kom á óvart, enda Goldberg-tilbrigðin ekki vel þekkt á þessum tíma. En það átti eftir að breytast, eins og túlkun hans á verkinu. Gould settist aftur við píanóið árið 1981 og túlkun hans þá er hægari og að því er virðist gætnari. Fyrri upptökuna er að finna á mörgum listum yfir helstu hljóðritanir sögunnar en ég hef alltaf verið hrifnari af seinni upptökunni. Arían í upphafi (og lok) verksins hefur sjaldan verið leikin með ljóðrænni hætti (í lúshægu tempói).

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.