Af hverju hægrimenn eiga að hafna Trump og trumpisma

Í daga fara fram forsetakosningar í Bandaríkjunum og óvíst hvort Bandaríkjaforseti nær endurkjöri. Raunar er myndin dökk fyrir Trump. Sem betur fer. Fyrir hægrimenn hefur forsetatíð Trumps undanfarin fjögur ár verið þörf áminning um það hvernig stjórnmálaflokkur getur á tiltölulega skömmum tíma snúist algerlega gegn flestum grunnsjónarmiðum sínum og orðið óþekkjanlegur þeim sem til hans þekkja.

Allir sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum hafa séð hvernig Repúblíkanaflokkurinn hefur undanfarin ár og áratugi sokkið dýpra í að verða dogmatískur kristilegur flokkur þar sem andstaðan við rétt kvenna til að ráða eigin líkama hefur orðið að inngönguskilyrði. Íslenskir hægrimenn, sumir hverjir, hafa látið sér það lynda og stutt flokkinn úr fjarska eða tekið til varna fyrir hann, því önnur stefnumál sem þeim eru kær hafa líka verið ofarlega á baugi. Hefðbundin stefnumál hægrimanna eins og frelsi fylgir ábyrgð, viðskiptafrelsi, ábyrg ríkisfjármál og áhersla á samstarf vestrænna ríkja í varnar- og öryggismálum. Það er allt fyrir bí í Repúblikanaflokki Trumps. Sá flokkur er ekki hægriflokkur heldur rasískur aftuhaldspopúlistaflokkur, sem er alger andstaða við hugmyndafræði íslenskra hægrimanna.

Hver hefði trúað því að ein mesta ógn við vestrænt varnarsamstarf væri íbúi Hvíta hússins sem hefur á forsetaferli sínum hafnað og svo viðurkennt aftur 5. grein NATO-sáttmálans, hótað bandalagsþjóðum sínum og ítrekað sagt ósatt um eigin aðgerðir og annarra í málefnum Atlantshafsbandalagsins? Hann hefur gengið erinda óvinaþjóða á kostnað vina og hampað harðstjórum. Svo rammt kveður að ógninni af Bandaríkjaforseta að hans eigin þjóðaröryggisráðgjafi, John Bolton, segir hættu á því að Bandaríkin yfirgefi NATO ef Trump fær til þess tíma. Það er því með ólíkindum að til séu hefðbundnir íslenskir hægrimenn sem bera af honum blak þegar Donald Trump stendur fyrir allt það sem þeir gera ekki. Eða ættu ekki að gera.

Hver hefði líka trúað því að við ættum eftir að upplifa það að Bandaríkin yrðu aflvaki hafta og tolla og ein mesta ógn sem komið hefur fram við alþjóðaviðskipti í seinni tíð? Tolla- og haftastríð og átök við þjóðir í öllum heimsálfum, meira að segja Kanada og Mexíkó eftir að nýr samningur í stað NAFTA var undirritaður. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa hægrimenn um allan heim sameinast um gildi alþjóðaviðskipta og við hér á Íslandi ekki síst verið meðvituð um það hvað frjáls viðskipti skipta miklu máli. Það er því með ólíkindum að hægrimenn sem hafa sumir alist upp í höftum og muna þá tíma skuli bera blak af stjórnmálamanni sem vill draga alþjóðaviðskipti aftur fyrir miðja síðustu öld þegar tollamúrar veittu stjórnmálamönnum stundarfró en löndum þeirra langtímaskaða.

Hver hefði trúað því að flokkur sem hefur kennt sig við fjölskyldugildi, siðlega stjórnun og gert kröfur til allra um siðferðileg viðmið geri að leiðtoga sínum mann sem ítrekað hefur viðurkennt hjúskaparbrot og ofbeldi gegn konum, niðurlægt þá sem minna mega sín og sem nýlega óskaði velfarnaðar konu sem situr í gæsluvarðhaldi fyrir að vera höfuðpaurinn í barnavændishring Jeffreys Epsteins? Það er með ólíkindum að hér á landi sé fólk sem vilji láta taka sig alvarlega í þjóðfélagsumræðu og beri blak af slíkum manni.

Myndin sýnir fjárlagahalla bandaríska alríkisins síðustu 13 ár. Stökkið sem sést 2009 var aðgerðapakki Obama-stjórnarinnar til að vinna bug á hruninu haustið 2008. Nokkuð sem tókst án aðkomu „stjórnlagaráðs“.

Hver hefði trúað því að stjórnmálaflokkurinn sem kennir sig við ábyrg ríkisfjármál hafi keyrt upp svo stjórnlausan fjárlagahalla í bullandi góðæri að halda mætti að hann nyti ráðgjafar sama fólks og stýrir fjármálum Reykjavíkurborgar? Það er ekki nóg að kunna að teikna Laffer-kúrfuna, hún gengur út á jafnvægi. Það er ekkert í henni sem segir að því meira sem skattar lækki, því meira aukist tekjur ríkisins, það er ekki í kúrfu Laffer og sú stefna hefur beðið skipbrot víða í Bandaríkjunum. Það er ekki hægt að lækka skatta og auka samhliða umsvif hins opinbera og halda að hirslurnar fyllist af gulli.

Í uppgangi fyrstu áranna eftir valdatíð Obama jukust skuldir Bandaríkjanna mikið áður en Covid-19 faraldurinn skall á. Skuldastaða Bandaríkjanna vegna fjármálaóreiðu Trump-stjórnarinnar stefndi í óefni og nú í miðjum faraldri er öllum ljóst að Bandaríkin eru líklega ekki lengur fjárhagslega sjálfbær. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði nýverið athugasemd við skuldastöðu Bandaríkjanna. Þessi grunnsannindi um að eyða ekki meira en maður aflar hafa aldrei verið í vopnabúri Trump og því kemur það kannski ekki á óvart að þegar hann tekur um taumana á ríkinu fari allt úrskeiðis. Kannski sér ekki á svörtu þegar kemur að Covid-tímum og öll ríki steypa sér í skuldir en það hefði óneitanlega verið aðeins bærilegra fyrir þá sem þurfa að borga þessar skuldir að Trump-stjórnin hefði ekki eytt svona um efni fram áður en kom að heimsfaraldri sem hún ræður ekki við.

Að lokum finnst manni erfitt að samræma rasískar hundaflautur Bandaríkjaforseta og klassíska hægristefnu sem byggist á einstaklingsfrelsi og ábyrgð. Það er að ákveðnu leyti ekki skrítið að þegar stjórnmálaflokkur hefur tekið þá ákvörðun að tala helst bara við hvíta meirihlutann í landinu glati hann hæfileikanum til að tala við aðra hópa. Repúblikönum í Bandaríkjunum verður lítið ágengt hugmyndafræðilega. Þeir hafa glatað tækifærinu á samtali við stóra hópa kjósenda sem eru íhaldssamir í mörgu en geta ekki kosið flokkinn vegna þess að hann hefur ákveðið, undir forystu Trumps, að tala ekki við þessa hópa nema í mýflugumynd vegna hörundslitar þeirra. Það er ekkert hægri í stuðningi við Trump, einungis furðulegur undirlægjuháttur við mann sem langar að vera harðstjóri en hefur hvorki völdin til að gera það né gáfurnar til að koma því í kring. Trump er í raun andstæðingur alls þess sem hægrimenn á Íslandi standa fyrir og hafa barist fyrir í áratugi.

Fyrir hægrimenn er hugmyndafræðileg niðurlæging Repúblikanaflokksins ákveðið hættumerki. Merki um það hvernig flokkur getur á skömmum tíma snúist gegn flestu sem hann hélt í heiðri, bara til að halda völdum eitt andartak.

Ef til vill hafa einhverjir hægrimenn metið málið sem svo að Trump ætti sömu óvini og þeir og á þeim grunni væri hægt að styðja hann. Fyrir okkur á Íslandi á engu að breyta þótt óvinum Trumps og trumpista sé hampað af vinstrinu hér á landi. Það skiptir engu máli, kvarði stjórnmálanna er allt annar hér en þar.

Við megum ekki falla í sömu gildru og vinstrið lenti í, að afsaka harðstjórn því hún kallaði sig eitthvað annað en hún var. Alþýðulýðveldin voru aldrei fyrir alþýðuna. Hugsjónalaus en valdagírugur stjórnmálaflokkur mun, í lýðræðisþjóðfélagi, á endanum uppskera eins og hann sáir Það koma nefnilega aðrar kosningar eftir þessar og kjósendur eru ekki allir asnar. Inn á kjörskrá koma nýjar kynslóðir kjósenda sem hafa önnur gildi en kynslóðirnar á undan, kynslóðir sem meta einstaklingsfrelsi á ólíkan hátt en þær sem á undan gengu. Frelsi til að skipta um útvarpsstöð er sjálfsagt núna þótt einu sinni hafi það ekki verið. Þeir sem börðust fyrir útvarpsfrelsi verða að átta sig á því að frelsi nýrra kynslóða til að taka ákvarðanir sem þeir eldri tengja lítið við er jafn mikilvægt eða mikilvægara en hitt. Frelsið til að líða vel í eigin líkama er þannig mikið mikilvægara en frelsið til að skipta um útvarpsrás. Og það þarf að virða þann rétt jafnvel þótt unga fólkið viti ekkert hver Egon Krenz var.

Þess vegna er mikilvægt fyrir þá sem unna frelsi einstaklinganna að hafna stjórnlyndi Donalds Trumps rétt eins við höfnuðum stjórnlyndi alræðisstjórnanna í austri á sínum tíma.

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020 sem kemur út á næstu dögum. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.