Fyrir rúmum áratug hafði byggst upp varhugavert ójafnvægi í fjármálakerfi heimsins. Það kom að skuldadögum og stíflan brast. Sársaukafullar leiðréttingar þurftu að fara fram á efnahagsreikningum sem settu allt atvinnulíf úr skorðum á meðan nýs og traustara jafnvægis var leitað.
Íslendingar þekkja vel ókosti þess að búa í litlu og sveiflukenndu hagkerfi og voru neikvæð áhrif kreppunnar um margt verri hér en hjá stærri og voldugri þjóðum, að minnsta kosti til skemmri tíma. Þegar fjármálakreppan raungerðist hrundi gengi krónunnar, verðbólga jókst, vaxtastig hækkaði skarpt, eignamarkaðir féllu saman og strangar takmarkanir voru settar á fjármagnsflutninga og gjaldeyrisviðskipti. Afleiðingarnar voru snörp skuldasöfnun heimila, fyrirtækja og ríkis og stóraukið atvinnuleysi. Höftin áttu eftir að vara árum saman.
Viðbrögð Íslendinga við fjármálakreppunni, sem skall á af fullum þunga hér á landi, voru um margt merkileg. Raunar þannig að önnur lönd gætu líklega dregið lærdóm af viðbrögðunum lendi þau sjálf í viðlíka vanda síðar meir. Íslenska ríkið forðaðist til að mynda að ábyrgjast skuldir einkaaðila og að vissu leyti var það okkur til happs að lánsfjármarkaðir lokuðust okkur. Eftir á að hyggja má segja að það hafi neytt okkur til að horfast í augu við vandann og taka á honum í stað þess að fresta sársaukanum eins og mörg önnur ríki kusu að gera og glíma því mörg hver jafnvel enn við skuldavanda.
Sameiginlegur óvinur
Fjármálakreppan var mannanna verk. Andrúmsloftið var því þrungið og sökudólga var víða leitað. Stórt skarð var hoggið í traust til fjármálakerfisins og stofnana sem ljóst var að taka myndi langan tíma að endurheimta. Nú stöndum við frammi fyrir annars konar ógn – sameiginlegum, ósýnilegum vágesti sem sýkir ekki aðeins líkama manna og dýra heldur drepur allt efnahagslíf í dróma. Áfallið er því annars eðlis, en rétt eins og eftir bankahrun hafa yfirvöld kosið að bregðast við með þeim hætti að neikvæð efnahagsleg áhrif til skamms tíma séu lágmörkuð, hið opinbera verði rekið með miklum halla og bilið brúað með aukinni skuldsetningu svo um munar.
Skuldir jukust einnig mjög eftir fjármálaáfallið en úrlausn þeirra mála sem þá stóðu eftir varð þess valdandi að unnt var að grynnka á þeim mun hraðar en vonir höfðu staðið til. Árið 2015 markaði ákveðin þáttaskil í íslenskri hagsögu þegar íslensk yfirvöld unnu langdregna störukeppni við kröfuhafa föllnu bankanna eftir margra ára greiningu á þeim vanda sem steðjaði að þjóðarbúinu vegna eigna þeirra. Þökk sé þeirri ótrúlegu niðurstöðu fengust ríkissjóði afhent svonefnd stöðugleikaframlög, sem voru 384 milljarðar í formi ýmissa eigna, á silfurfati. Fjárhæðin nam hátt í 20% af opinberum skuldum þess árs. Samstaða var um að tekjum af framlögunum skyldi fyrst og fremst varið til niðurgreiðslu hinna íþyngjandi skulda ríkissjóðs.
„This time it really is different“
Árið 2009 náði skuldsetning hins opinbera hámarki sínu í 65% af vergri landsframleiðslu. Á þeim tíma var lánshæfi íslenska ríkisins ekki langt frá því að lenda í ruslflokki. Vaxtakostnaðurinn var eftir því. Vaxtabyrði skuldanna var af þeim sökum afar þung og nálguðust vaxtagjöld hins opinbera 6% af landsframleiðslu á því ári. Þrátt fyrir áætlanir um stóraukna skuldsetningu mun kostnaðurinn að þessu sinni ekki verða nærri því eins íþyngjandi og eftir hrun, enda hefur vaxtastig farið sífellt lækkandi á tímabilinu.
Það verða þó engir erlendir kröfuhafar með djúpa vasa til að leysa okkur úr snörunni í þetta sinn. Vonir um kröftugan hagvöxt á komandi árum eru fallegar og munu vonandi rætast, en það væri varhugavert að treysta alfarið á slíkar væntingar til að vinna á skuldunum. Jafnvel þó að hagvöxtur yrði í takt við meðalhagvöxt síðastliðinna 25 ára tæki það 15 ár að ná skuldaviðmiði samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það mun taka ferðaþjónustuna, sem nú er á hnjánum, tíma að finna fyrri styrk. Aukin áhersla á nýsköpun og fjárfestingu mun án efa skila okkur sterkari inn í framtíðina en afrakstur slíkra verkefna er ekki fastur í hendi. Þó að við gróðursetjum tré er ekki víst hvort eða hvenær við fáum ávaxtanna notið.
Rétt eins og eftir bankahrunið mun þurfa þverpólitíska sátt um aðhald í rekstri hins opinbera og niðurgreiðslu skulda. Það gæti þó orðið erfiðara en áður að sannfæra stjórnmálamenn um ágæti þess að halda skuldsetningu í lágmarki. Svo virðist sem margir þeirra hafi lagt sig fram við að finna upp nýjar leikreglur, í stað góðra og gamalla gilda, til réttlætingar sífelldri útþenslu ríkisins og hinu ómissandi hlutverki embættismanna.
Auka vaxtagreiðslur velferð?
Sumir hafa þannig sagt að skuldirnar skipti ekki máli, að stjórnmálamenn muni sjá til þess að fjármunirnir verði nýttir til góðra verka meðan slaki sé í hagkerfinu og að við munum því vaxa hratt og örugglega upp úr skuldunum. Það er þó ekki það sem fyrirliggjandi fjármálaáætlun og þjóðhagsspár gefa til kynna. Samkvæmt þeim mun skuldasöfnunin ekki stöðvast nema gripið verði sérstaklega til ráðstafana, skattahækkana eða aðhaldsaðgerða, fyrir tugi milljarða á næstu árum. Ekki er því sérstök ástæða til að ætla að hagvöxtur verði vel umfram árlegan vaxtakostnað á tímabili fjármálaáætlunar.
Þá hefur verið bent á að skuldir okkar sem hlutfall af landsframleiðslu verði þrátt fyrir allt ekki svo miklar í samanburði við önnur ríki. Það getur verið rétt, en vaxtabyrði okkar verður engu að síður líkari vaxtabyrði þeirra ríkja þar sem skuldastabbinn er mun stærri í hlutfalli við hagkerfið. Jafnvel svo stór að vandi steðji að. Einnig ber að nefna að fyrir þá fjármuni sem fara í vaxtagreiðslur væri margt annað, og þarfara, hægt að gera. Aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs í fjármálaáætlun 2021–2025 er um 100 milljörðum hærri en í þeirri áætlun sem lögð var fram fyrir árin 2020–2024. Fyrir slíka fjárhæð mætti byggja tvo nýja Landspítala eða sinna allri uppsafnaðri viðhaldsþörf vegakerfisins. Jafnvel mætti skilja fjármunina eftir í vasa skattgreiðenda ef það þykir ekki of byltingarkennd hugmynd.
Trúverðugleiki í húfi
Þrátt fyrir að lánshæfismat ríkissjóðs hafi farið stöðugt batnandi glíma Íslendingar enn við hærri lánsfjárkostnað en stærri ríki, en þau kjör væru án efa verri ef ekki hefði verið fyrir samstöðu um að taka á ríkisskuldunum í kjölfar hrunsins. Raunar nefnir lánshæfismatsfyrirtækið Fitch þá samstöðu sem eina ástæðu þess að nýlegt lánshæfismat fyrir íslenska ríkið hélst óbreytt. Í matinu segir: „Parliamentary elections in 2021 could lead to a fiscal strategy with a slower debt reduction path, but Fitch believes that broad political support for rebuilding fiscal buffers and a strong track record of public debt reduction of 55pp of GDP in 2011-2019 support fiscal policy credibility over the long run.“ Með öðrum orðum: Þið gætuð villst af braut á kosningaári, en við höfum trú á ykkur í ljósi sögunnar. Slíkt traust er ekki auðveldlega áunnið.
Í kjölfar fjármálakreppunnar risum við eins og Fönix upp úr öskunni með nýja stoð útflutnings. Tilkoma ferðaþjónustu veitti okkur byr undir báða vængi og hjálpaði okkur að vinna á atvinnuleysinu og skuldaklafanum. Við einsettum okkur að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og finna nýtt jafnvægi í okkar smáa en harðgerða hagkerfi. Það tók tíma en með þrautseigju, staðfestu og dugnaði tókst okkur að byggja undir nýtt og kröftugt framfaraskeið. Hluti af þeirri endurreisn var að setja niðurgreiðslu skulda í forgang svo að heimili, fyrirtæki og ríkissjóður yrðu óháðari lánardrottnum og vel í stakk búin að takast á við næsta áfall. Það vorum við.
Sígandi lukka er best
Vonandi mun aftur ríkja samstaða meðal þeirra sem bera ábyrgð á fjármunum skattgreiðenda um að koma opinberum fjármálum á réttan kjöl á ný, kynna hallalaus fjárlög og grynnka á skuldum fyrir komandi kynslóðir. Þær þurfa að hafa svigrúm til að takast á við sín eigin áföll. Það sem mun ráða úrslitum um árangurinn er það hvort eining næst um að sýna ábyrgð og stefnufestu í þessum efnum eða hvort pólitískt karp og þras muni byrgja mönnum sýn. Þegar kemur að meðförum skattfjár er skammsýni böl, en hvatar stjórnmálamanna til að afla sér vinsælda hafa iðulega í för með sér loforð um útgjaldaaukningu án þess að hugað sé að fjármögnun. Undir núverandi kringumstæðum munu aukin útgjöld óhjákvæmilega fela í sér enn frekari skuldsetningu og þar af leiðandi hærri skatta.
Ef við getum dregið einhvern lærdóm af fjármálakreppunni er hann sá að skuldir einar og sér skapa ekki verðmæti. Uppblásnir efnahagsreikningar auka aftur á móti áhættu og geta myndað ójafnvægi og jafnvel kreppur. Það kemur alltaf að skuldadögum. Raunveruleg verðmætasköpun fer fram með hugviti, eljusemi og framtíðarsýn öflugra einstaklinga sem sameinast um að leggja krafta sína fram til verðugra verkefna, sér og öðrum til hagsbóta. Sígandi lukka er best og engar auðveldar flýtileiðir eru til í þessum efnum.
Rétt eins og gildir almennt um áföll í lífinu eru það viðbrögð okkar við þeim, fremur en áföllin sjálf, sem skilgreina okkur. Hættan er sú að stjórnmálamenn muni láta skammsýni fremur en skynsemi ráða för þegar kemur að því að taka á þeim vandamálum sem blasa við. Það væri óheppilegt ef viðbrögðin við áfallinu yrðu þess eðlis að eftirmálar þess yrðu lengri og verri en vera þyrfti. Við höfum alla burði til að rísa upp úr öskunni á ný, sterkari en áður. Á næsta ári verður kosið til þings. Það verður einnig árið sem við hefjum endurbygginguna eftir kófið. Látum það verða okkur til heilla.
Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
—
Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.