Öfgar við upphaf kosningaárs

Þeir eru ófáir mótmælafundirnir sem hafa verið haldnir á Austurvelli sl. 12 ár. í lok árs 2008 og í ársbyrjun 2009 var efnt til mótmælafunda sem að lokum breyttust í aðför að Alþingishúsinu. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá mótmæli þegar ákveðið var að slíta viðræðum við Evrópusambandið 2013. (Mynd: VB/HAG).

Þess gætir í störfum alþingis að þetta er lokaþing kjörtímabilsins, en boðað er að gengið verði til þingkosninga 25. september 2021.

Steingrímur J. Sigfússon þingforseti hefur þegar sagt að hann bjóði sig ekki fram að nýju. Hann hefur nú setið á þingi frá 23. apríl 1983. Ljúki kjörtímabilinu 25. september 2021 verður þingseta hans alls 38 ár og um fimm mánuðir, sem er það fjórða lengsta í sögunni. Pétur Ottesen sat í 42 ár og tæpa 8 mánuði (1916–1959 (júní)); Eysteinn Jónsson í 40 ár og um 9 mánuði (1933–1946, 1947–1974; varaþingmaður 1946–1947); Ólafur Thors í 39 ár, tæp (9. janúar 1926 til ársloka 1964); þá kemur Steingrímur J. og í fimmta sæti Gunnar Thoroddsen í 37 ár og um 8 mánuði (1934–1937, 1942–1965, 1971–1983).

Stærsta stjórnmálaafrek Steingríms J. Sigfússonar er að hafa staðist þrýsting um að stofna einn vinstriflokk, Samfylkinguna, í lok síðustu aldar og beitt sér þess í stað fyrir Vinstrihreyfingunni – grænu framboði (VG) til vinstri við Samfylkinguna. (Mynd: VB/BIG)

Ólíklegt er að nokkur skjótist upp fyrir Steingrím J. í bráð sé litið til lengdar þingsetu. Stærsta stjórnmálaafrek hans er að hafa staðist þrýsting um að stofna einn vinstriflokk, Samfylkinguna, í lok síðustu aldar og beita sér þess í stað fyrir Vinstrihreyfingunni – grænu framboði (VG) til vinstri við Samfylkinguna.

VG er í aðra röndina aktívistaflokkur, það er flokkur fólks sem er svo ákaft vegna hugsjóna sinna, venjulega minnihluta sjónarmiða, að það lætur að sér kveða á torgum og götum sé það utan valdastofnana samfélagsins. Þetta eðli VG sannaðist vel í átökunum vegna bankahrunsins undir árslok 2008 og í ársbyrjun 2009 þegar reglulega var efnt til mótmælafunda á Austurvelli sem breyttust í aðför að Alþingishúsinu og hörkuátök við lögregluna. Allt datt svo í dúnalogn eftir að Steingrímur J. varð fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 1. febrúar 2009.

Hér hafa orðið harðar deilur eftir 6. janúar 2021 þegar minnt er á búsáhaldabyltinguna í sömu andrá og árásina á þinghúsið í Washington þennan janúardag. Hún var gerð til að trufla störf þingsins þegar Mike Pence varaforseti og þingheimur lagði blessun sína yfir niðurstöðu kjörmanna um að Joe Biden nyti stuðnings 306 þeirra (51,4% atkv.) en Donald Trump 232 (46,9% atkv.).

Donald Trump flutti 70 mínútna ræðu á æsingafundi skammt frá Hvíta húsinu á sömu stundu og Pence fór í þinghúsið. Vildi Trump að Pence hefði niðurstöðu kjörmannanna að engu. Þúsundir manna streymdu að þinghúsinu, brutu sér leið inn í það og í þingsalina. Var lýðræðishelgidómur Bandaríkjanna svívirtur á ógnvekjandi hátt. Fimm manns týndu lífi í átökunum. Varaforsetinn og margir þingmanna áttu fótum fjör að launa.

Vegna þessa voru rúmlega 20.000 þjóðvarðliðar kallaðir á vettvang til að gæta með lögreglu öryggis þegar Joe Biden tók við forsetaembættinu 20. janúar 2021 að Donald Trump fjarstöddum.

II.

Þessar óeirðir sem sumir lýsa sem tilraun til valdaráns eru til rannsóknar. Að baki þeim bjó reiði sem magnaðist stig af stigi þar til upp úr sauð á þennan hörmulega hátt.

Strax að kvöldi kjördags þegar allt benti til sigurs Joes Bidens flutti Donald Trump ræðu yfir innsta kjarna stuðningsmanna í Hvíta húsinu og sagði að kosningunum hefði verið „stolið“ frá sér. Síðan beitti hann lögfræðingum og pólitískum samherjum fyrir sig í von um að fá kosningarnar ógiltar.

Allt var þetta brölt hjá Trump niðurlægjandi fyrir hann og flokk hans. Að kunna ekki að tapa er alltaf ömurlegt og aðeins til þess fallið að gera illt verra.

Trump og flokkur hans gátu bærilega við unað miðað við allt sem var á undan gengið. Sjálfur fékk hann stuðning 74,3 milljóna kjósenda, sem er annað mesta fylgi einstaklings í bandarískri kosningasögu.

Aðeins Joe Biden hefur fengið meira fylgi en Trump. Biden hlaut stuðning 81,2 milljóna kjósenda. Til samanburðar má geta þess að áður hafði Barack Obama fengið flest atkvæði, þegar hann var endurkjörinn 2012 með 65,9 milljónum atkvæða.

Þessar háu atkvæðatölur Bidens og Trumps á tíma COVID-19-farsóttarinnar sýna hve vel tókst að virkja bandarísku þjóðina til pólitískra átaka á örlagatímum. Margir greiddu atkvæði utan kjörstaðar eða í pósti. Trump skynjaði hættuna af þeim atkvæðum og reyndi í kosningabaráttunni að sverta þessa lýðræðislegu aðferð, að talningu lokinni dró hann réttmæti talninga í efa. Krafðist endurtalningar eða beinlínis að dómarar ógiltu kosningar í sumum ríkjum.

Allt kom fyrir ekki. Hann varð sér til skammar með tilraunum sínum til að grafa undan trú manna á lýðræðislega stjórnarhætti Bandaríkjanna í von um að geta haldið völdum þrátt fyrir dóm kjósenda.

Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hvarf úr embætti. Hann naut ekki stuðnings forsetans, þar sem hann tók ekki undir ásakanir Donalds Trumps um kosningasvik. Allir hæstaréttardómarar Bandaríkjanna höfnuðu öllum tilraunum manna Trumps til að fá kosningarnar ógiltar. Hann hafði ekki heimild til að reka þá.

Mánudaginn 14. desember staðfesti meirihluti kjörmanna að Biden yrði næsti Bandaríkjaforseti. Venjulega dregur sá formlegi gjörningur litla athygli að sér en vegna gjörningaveðursins sem Trump-liðið magnaði komu kjörmenn saman með leynd í ríkjunum 50 svo að ekki yrði gerður aðsúgur að þeim eða ráðist á fundarstaði þeirra. Þetta er ótrúlegt en þó satt og ekki annað en staðfesting á því hve tryllt og ofsafengin framganga Trumps er og á skjön við allt sem sæmir lýðræðislegum háttum.

Joe Biden var óvenjulega harðorður þegar hann ávarpaði þjóðina að lokinni afgreiðslu kjörmannanna. Hann sagði Trump og bandamenn hans „neita að virða vilja fólksins, neita að virða réttarríkið og neita að hafa stjórnarskrá okkar í heiðri“.

Biden bar lof á kjósendur fyrir metkjörsókn 3. nóvember þrátt fyrir COVID-19-farsóttina og „gífurlegan pólitískan þrýsting, fúkyrði og jafnvel hótanir um líkamlegt ofbeldi“ til að hindra framgang kosninganna.

„Logi lýðræðisins var tendraður með þjóð okkar fyrir löngu. Og nú vitum við að ekkert, ekki einu sinni farsótt eða valdníðsla, getur slökkt hann,“ sagði verðandi Bandaríkjaforseti.

Í kosningunum töpuðu repúblíkanar meirihluta sínum í öldungadeildinni og á nú hvor flokkur 50 þingmenn þar. Standi atkvæði á jöfnu ræður varaforseti Bandaríkjanna úrslitum. Í fulltrúadeildinni sitja 222 demókratar, 10 færri en á síðasta kjörtímabili, og 211 repúblikanar, níu fleiri en síðast.

Donald Trump skildi flokk sinn eftir valdalausan í Washington þegar hann hvarf þaðan til Flórída að morgni 20. janúar 2021. Þá hafði fulltrúadeild þingsins ákveðið að ákæra hann öðru sinni. Hefur enginn forseti Bandaríkjanna sætt tvisvar sinnum ákæru fulltrúadeildarinnar. Öldungadeildin tekur afstöðu til ákærunnar eftir brotthvarf Trumps úr embætti. Lögfræðingar velta fyrir sér hvort slík málsmeðferð standist.

Joe Biden heitir því að vinna að sáttum meðal Bandaríkjamanna. Hörkumálaferli gegn Trump í öldungadeildinni magna pólitískar öldur frekar en lægja.

Eitt er víst: Sættir en ekki sundrung er það sem bandaríska þjóðin þarf um þessar mundir eins og lýðræðisþjóðirnar almennt þegar bóluefni vekur vonir um að sigrast verði á farsóttinni.

III.

Takist Joe Biden að halda aftur af aktívistunum í Bandaríkjunum verður strax friðsamara þar innan lands en í stjórnartíð Trumps. Hér má sjá dæmi um framgöngu róttækra á vinstri vængnum þegar litið er til keppninnar milli Pírata og Samfylkingar. Innan VG halda menn aftur af sér enda er Katrín Jakobsdóttir flokksformaður forsætisráðherra. Þó geta ekki allir haldið sig innan VG-flokksbandanna, eins og sjá má á úrsögn þingmannanna Andrésar Inga Jónssonar og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur úr þingflokki VG.

Í ljós kemur hvort Andrés Ingi fer að nýju í framboð en Rósa Björk hefur gengið til liðs við Samfylkinguna við mikinn fögnuð Loga Einarssonar, flokksformanns og þingmanns fyrir Norðausturkjördæmi. Væri Logi á höfuðborgarsvæðinu kynni fögnuður hans að vera minni því að augljóst er að Rósa Björk ætlar að ryðja einhverjum úr öruggu sæti á framboðslista til að ná endurkjöri á þing undir nýjum flokksfána, ef ekki í Reykjavík þá í Suðvesturkjördæmi.

Átök hafa oft verið mjög hörð meðal Pírata og nú dregur þar enn til tíðinda vegna ákvarðana um skipan framboðslista. Einhverjir þingmanna Pírata ætla ekki að gefa kost á sér til endurkjörs; aðrir vilja sitja áfram. Oft hefur komið til harðra átaka innan flokksins vegna deilna um framkvæmd prófkjörs og hafa forystumenn í flokknum hrökklast þaðan vegna pólitísks ofríkis annarra. „Flöt“ stjórnskipan flokksins kallar á að þar ráði sá sem beitir mestu valdi. Þetta hugarfar birtist meðal annars í málflutningi helsta talsmanns flokksins á þingi, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Hún er eini þingmaðurinn sem sætt hefur formlegu ámæli fyrir brot á siðareglum alþingismanna. Athygli vekur hve uppsigað henni er við lögregluna.

Píratar halda úti evrópskum samtökum, PPEU. Fulltrúanefnd íslenskra Pírata (PPIS) kemur fram fyrir þeirra hönd í PPEU. Oktavía Hrund var fulltrúi PPIS í stjórn evrópsku samtakanna en sagði af sér 28. nóvember 2020 eins og sagt er frá á vefsíðu PPIS. Frásögn Oktavíu Hrundar ber vott um pólitíska ofbeldishneigð innan Evrópusamtakanna, þar ríki mismunun, einelti, áreiti, þar á meðal kynferðislegt og kynbundið áreiti, og ofbeldi. Gegn þessu vilji fulltrúar PPIS berjast.

Oktavía Hrund birtir ávarp (á ensku) þar sem hún kveður stjórnarráð evrópska Pírataflokksins eftir þriggja ára setu þar sem formaður, varaformaður og venjulegur fulltrúi. Hún segist hafa beitt sér fyrir innleiðingu siðareglna fyrir PPEU. Af þeim sökum sé hræðilega erfitt fyrir sig að geta ekki tekið beinan þátt í fjarfundi ráðsins núna vegna þess að hún finni þar til öryggisleysis. Hún hafi sætt áreiti á meðan hún gegndi formennsku. Hún segir að sá sem ofsótti hana sitji fundinn og þess vegna verði hún að halda sig fjarri honum. Þá segir hún:

„Áreiti hindrar fólk frá þátttöku – einkum konur og kynsegin (e. non-binary) – og frá flokkum okkar og hreyfingum og kallar á þöggun um meðvirkni. Það hefur áhrif á okkur öll. […]

Takið áreiti og dónaskap alvarlega. Þetta er ekki „persónulegt mál“. Í grunninn er þetta dónaleg framkoma sem líðst í hópnum að frumkvæði fárra.“

Bera má þessa lýsingu saman við orðbragðið sem sumir þingmenn og borgarfulltrúar Pírata hafa um þá sem eru þeim ósammála. Einmitt á þessu prófi féll Þórhildur Sunna þegar siðareglum alþingismanna var beitt á orðbragð hennar.

Það er áhyggjuefni þegar framkoma af þessu tagi setur svip á störf alþingis og borgarstjórnar Reykjavíkur og keppni vinstrisinna snýst um að afla sér fylgis með því að ganga sem lengst á þessari braut.

IV.

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) birti niðurstöðu sína í svonefndu landsréttarmáli þriðjudaginn 1. desember 2020. Málið má rekja til ársins 2017 þegar landsrétti var komið á fót með atkvæðagreiðslu á alþingi.

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. lýsti málinu á þennan veg í Morgunblaðinu 5. desember:

„Farið var eftir íslenskum lagareglum við skipun dómarans í embætti. Ráðherra lagði tillögu sína um skipun 15 dómara í Landsrétt fyrir Alþingi, eins og henni bar að gera samkvæmt þeim lagareglum sem um þetta giltu. Þeir höfðu allir verið metnir hæfir til að gegna þessum embættum. Hvergi var kveðið á um neina skyldu ráðherrans til að gera tillögu um einhver tiltekin dómaraefni. Fyrir lá niðurröðun dómnefndar á umsækjendum í excelskjalinu fræga, sem er líklega vitlausasta matsgerð sem þekkst hefur í málum af þessu tagi (hér má vísa til greinar minnar „Stórisannleikur“ sem birtist í Mbl. 10. janúar 2018). Hvergi var kveðið á um að tillögur ráðherrans skyldu fara eftir þeirri uppröðun.

Alþingi samþykkti tillögu ráðherra. Hver og einn alþingismaður hefði getað óskað eftir að atkvæði yrðu greidd um hvert dómaraefni sérstaklega. Enginn gerði slíka kröfu og voru atkvæði greidd um alla í einu, eins og heimilt var samkvæmt lögum um þingsköp.

Forseti Íslands staðfesti afgreiðslu Alþingis að sérstaklega athuguðu máli.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómarinn væri réttilega kominn í embætti.“

Jón Steinar telur að MDE hafi komist að „fráleitri“ niðurstöðu í landsréttarmálinu og hún feli „ekkert annað í sér en afskipti eða inngrip í fullveldisrétt Íslands“.

Eftir það sem á undan var gengið var rétt af íslenskum stjórnvöldum að fá niðurstöðu yfirdeildar MDE í landsréttarmálinu. Með henni er eytt allri óvissu í íslenska réttarkerfinu. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, vildi jafna hlut karla og kvenna að ósk þingmanna og breytti röð dómaraefna frá tillögum dómnefndar áður en hún lagði málið fyrir alþingi og forseta Íslands að afgreiðslu þingsins lokinni. Aldrei hefur átt að vanda meira aðferðina við að velja dómara á Íslandi en í þessu tilviki.

Þegar þeir sem sættu sig ekki við niðurstöðu framkvæmdavalds og löggjafarvalds létu reyna á rétt sinn fyrir dómsvaldinu taldi hæstiréttur að samkvæmt stjórnsýslulögum hefði dómsmálaráðherra átt að gefa sér lengri tíma til að rannsaka og rökstyðja breytinguna á röðinni frá dómnefndinni. Þarna er um matskennt atriði að ræða en dómsvaldið vildi eiga síðasta orðið.

Í aðdraganda úrskurðar MDE 1. desember gaf fréttastofa ríkisútvarpsins til kynna að um 300 landsréttarmál yrðu í uppnámi vegna ákvörðunar MDE. Þetta var úr lausu lofti gripið, MDE tekur af skarið um það. Fyrir MDE var gerð krafa um skaðabætur eða sýknu fyrir þann sem var dæmdur í landsrétti og hæstarétti. MDE hafði þær kröfur að engu. Lögmaðurinn sagðist hafa 12 sambærileg mál á hendi. Frekari meðferð þeirra í Strassborg er tilgangslaus.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati, Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þá utanflokka, fóru mikinn vegna niðurstöðu MDE sama dag og hún birtist. Ætlunin var greinilega að þyrla upp eins miklu moldviðri og unnt yrði með árásum á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Sigríði Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, úr Sjálfstæðisflokknum.

Efnislega rann atlagan út í sandinn þegar lögfræðingar, vandir að virðingu sinni, tóku að skýra niðurstöðu MDE. Hún breytti í raun engu. MDE bjó hins vegar til nýja reglu, sem er landlæg aðferð dómaranna í Strassborg við leit að niðurstöðu.

Æsingur fréttamanna vegna málsins var mikill. Lögfræðingar létu almennt ekki berast með honum. Eftirfarandi orðaskipti birtust á visir.is 3. desember. Rætt er við Eirík Elís Þorláksson, deildarforseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Skáletruð er spurning fréttakonunnar Margrétar Helgu Erlingsdóttur:

En það er samt sem áður grafalvarlegt fyrir íslenska ríkið að fá á sig slíkan áfellisdóm. Hvaða afleiðingar telur þú að dómurinn hafi í för með sér fyrir Ísland í alþjóðasamfélaginu?

„Ég veit það svo sem ekki. Þarna er látið reyna á eitthvað atriði sem varðar túlkun á 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu og þarna virðist vera að dómstóllinn í Strasbourg sé í raun að móta þessa reglu. Ég held að valdhafar á Íslandi sem fá mjög mikla gagnrýni; Hæstiréttur, framkvæmdavaldið og Alþingi, hefðu ekki getað áttað sig á þessari túlkun, sérstaklega í ljósi þess að túlkunin innan Mannréttindadómstólsins er misjöfn eftir því hvort um er að ræða undirdeildina eða yfirdeildina. Auðvitað er það bara þannig að þegar svona dómur kemur þá verða stjórnvöld að skoða það hvort og þá hvernig eigi að grípa til aðgerða í kjölfarið.“

Það reyndist sem sagt ekkert púður í málinu. Eftir standa ofsafengin viðbrögð fáeinna þingmanna sem vilja ekki horfast í augu við efni málsins.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, sagði á vefsíðu sinni 3. desember 2020:

„Sömu aðilar, á meðal alþingismanna og lögmanna, sem vörðu för forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands fyrr á árinu að taka við heiðursnafnbótum frá helstu mannréttindaböðlum álfunnar, fagna nú þeirri niðurstöðu þessa sama dómstóls um að brotin hafi verið mannréttindi á einstaklingi sem ók próflaus undir áhrifum eiturlyfja og var dæmdur sekur á öllum dómstigum, vegna þess að einn dómarinn í Landsrétti hefði verið skipaður í embætti með ólögmætum hætti.

Auðvitað var mergurinn málsins sá hjá dómstólnum í Strassborg að reyna að sýna fram á að skipað hefði verið í Landsrétt með ólögmætum hætti. Það er hins vegar í besta falli álitamál.“

Þarna vitnar Ögmundur til þess að þingmennirnir Þórhildur Sunna og Rósa Björk báru blak af Róberti Spanó, forseta MDE, þegar hann fór í dæmalausa ferð til Tyrklands og hitti meðal annars Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta.

Samtök evrópskra blaðamanna ályktuðu 3. nóvember 2020 að vegna 45 mínútna fundar með Erdogan og viðtöku á heiðurdoktorsnafnbót frá háskóla í Istanbúl þaðan sem um 200 prófessorar voru reknir í pólitískum ofsóknum hefði forseti MDE orðið vanhæfur í um 10.000 málum sem bíða óafgreidd hjá MDE og honum bæri að víkja.

V.

Nýtt ár verður átakaár í stjórnmálum við aðstæður þar sem vonandi tekst að virkja alla krafta í þágu endurreisnar eftir ár farsóttarinnar.

Eftir hrun tók mun lengri tíma en ætlað var að losa efnahags- og atvinnulífið úr fjármagnshöftum. Meira að segja var reynt að telja þjóðinni trú um að það tækist ekki án aðildar að ESB. Það reyndist rangt, eins og að nauðsynlegt væri að breyta stjórnarskránni til að atvinnulífið dafnaði samhliða lýðræði.

Vafalaust dettur einhverjum stjórnmálamönnum í hug að nota farsóttina og endurreisnina eftir hana til að festa ríkisafskipti og ríkisfjármálaíhlutun í sessi. Allar tilraunir í þá átt verða aðeins til að gera illt verra. Mestu skiptir að létta af stjórn forræðis og regluverks svo að einstaklingsframtakið fái notið sín. Kosningarnar eiga að snúast um að stækka þetta svigrúm en ekki þrengja það.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.