Fyrir hvern er rafmyntaútgáfa seðlabanka?

Þegar fólk á bitcoin eða aðrar svipaðar dulkóðunarrafmyntir er það ekki vegna þess að seðlabankar hafi enn ekki gefið slíka peninga út. Þvert á móti vill fólk eiga bitcoin til að forðast takmarkanir, verðbólgu og neikvæða vexti sem fylgja peningastefnu stjórnvalda, en einnig til að njóta persónufrelsis og einkalífs – stjórnarskrárvarinna borgararéttinda til að fá að vera í friði fyrir eftirliti og upplýsingasöfnun hins opinbera.

Árið 2020 var heldur niðurdrepandi. Ríkisstjórnir um allan heim hafa lagt efnahagslífið í rúst og lofað „Endurræsingunni miklu“ – langstökki inn í sósíalíska framtíð, þar sem seðlabankar hafa uppi ítarlegar áætlanir um útgáfu eigin rafmynta– jafnvel strax á næsta ári. En hver er hvatinn að baki þessari nýjung? Bitcoin og aðrar dulkóðunarrafmyntir sem urðu til á bálkakeðjum, í dreifðu kerfi almennings á frjálsum markaði, virðast við fyrstu sýn hafa orðið seðlabönkunum innblástur.

Englandsbanki hóf árið 2015 umræður um seðlabankarafmynt, Seðlabanki Svíþjóðar byrjaði á því árið 2016 og fyrstu tilraunir með e-krona hófust á þessu ári. Alþýðulýðveldið Kína hefur unnið að því að gefa út rafmyntir síðan árið 2014 í verkefni sem kallast DC/EP, eða Rafmyntir/Rafgreiðslur. Notkun á rafmyntinni hófst þar í apríl á þessu ári. Mörg lönd hafa leynt og ljóst hafið aðgerðir sem virðast miða að því að útrýma reiðufé.

Skýrslur sem nýlega voru gefnar út af Alþjóðabankanum og Seðlabanka Evrópu veita þó gleggri innsýn í það sem knýr seðlabankana raunverulega áfram, í stöðnuðum hagkerfum Evrópu og þeim alvarlegu vandamálum sem blasa við þeim um þessar mundir, eins og t.d. lágir eða neikvæðir vextir, og ofan á það efnahagshrun og kreppa vegna aðgerða stjórnvalda í heimsfaraldri.

Seðlabankastjórarnir virðast telja æskilegt að seðlabankarafmynt beri vexti og þak skuli sett á hve mikið einstaklingur getur átt. Þessi atriði miða greinilega að því að styðja við peningastefnu. Þakið verði til þess að fólk eyði peningunum sínum, sem eigi að ýta undir neysludrifna verðbólgu eða fjárfestingu. Með því að láta rafmyntina bera vexti verði hún tæki til að ákvarða og miðla breytingum á stýrivöxtum, þar með töldum neikvæðum vöxtum.

Seðlabanki Svíþjóðar tilkynnti um rafmynt árið 2016 og fyrstu tilraunir með e-krona hófust á síðasta ári.

Í skýrslu Seðlabanka Evrópu um evrurafmynt segir frá nauðsyn þess að takmarka eða draga úr „stórfelldri notkun evrurafmyntar sem fjárfestingar“. Þar sem peningastefnan hafi sökkt vöxtum niður í að verða neikvæðir ætti Seðlabanki Evrópu ekki að leyfa stórfellt eignarhald á evrurafmynt. Fjárfestar myndu þá selja skuldabréf með neikvæðri ávöxtun og kaupa þess í stað evrurafmynt – geti þeir átt hana sér að kostnaðarlausu. Seðlabanki Evrópu vill ekki leyfa fólki að umbreyta bankainnistæðum sínum í evrurafmynt, sem myndi þá liggja inni á einstökum rafmyntaveskjum, frekar en inni á bankareikningi. Hrollur er í bankamönnum vegna þess sem í skýrslu Alþjóðabankans og Evrópska seðlabankans er kallað „aðskilnaður fjár“. Haldi fólk peningunum sínum utan bankakerfisins hafa bankarnir minna fé til útlána, sem myndi hækka lántökukostnað.

Í skýrslu Alþjóðabankans segir að ótakmarkað framboð á evrurafmynt gæti gert áhlaup á bankana tíðari, með áður óþekktum hraða og umfangi vegna „stafrænna keyrslna“. Í stuttu máli, ef bankar byrji að missa innlán yfir í rafmyntir verði þeir með tímanum að styðjast í meiri mæli við heildsölufjármögnun, og hugsanlega takmarka lánaframboð, sem hefði áhrif á hagvöxt.

Austurrísku hagfræðingarnir skilja að „aðgreining fjár“ getur verið blessun. Í þessu samhengi þýddi það að fólk geymdi það magn reiðufjár, sem það telur æskilegt, utan bankanna. Það geymdi aðeins þann hluta sparifjárins í bönkum, sem það þarf ekki að hafa laust við hendina. Við þær kringumstæður væru bankar ófærir um að lána meira en sem næmi innlánum, og gætu því aðeins lánað það fé sem viðskiptavinir þeirra hefðu gagngert lagt inn í þeim tilgangi. Það myndi ekki aðeins hafa í för með sér einfaldara og traustara fjármálakerfi, heldur myndi það koma í veg fyrir reglulegar niðursveiflur í hagkerfinu. Framboð lána yrði ekki takmarkað, heldur myndi það sjálfkrafa samsvara sparnaði í hagkerfinu. Þessi skilningur á hagfræði virðist framandi starfsmönnum seðlabankanna.

Gefið er í skyn að með evrurafmynt verði möguleiki á að lækka vexti enn meira og leysa um leið núll neðri marka vandamál neikvæðra vaxta. Sem er að ómögulegt sé að setja á neikvæða vexti, þar sem innstæðueigendur myndu þá flytja peningana sína yfir í reiðufé. Þegar vaxtastýring er helsta stjórntæki seðlabankanna er þetta augljóst vandamál. Hvernig geta bankarnir tryggt sér viðunandi mismun á milli stýri- og markaðsvaxta þegar vextir eru mjög lágir? Með því að gera ráð fyrir kostnaði við að eiga reiðufé virðist mínus hálft prósent vera lágmarkið.

Útgáfa miðstýrðrar rafmyntar seðlabanka gæti leyst vandamálið og myndi um leið falla vel að stefnu seðlabankanna. Seðlabankinn gæti sett hámark á hve mikið hver einstaklingur eða fyrirtæki gæti átt af rafmynt bankans sér að kostnaðarlausu. Yfir þessum mörkum þyrftu þeir að greiða neikvæða vexti (eða „endurgjald“). Reiðufjáreign fólks myndi þá ekki trufla peningastefnuna, þar sem handbært fé yrði að fullu undir stjórn seðlabankans.

Vandamálið við þessa hugmynd er að hún virkar aðeins ef reiðufé er bannað. Að öðrum kosti myndi reiðufé áfram gegna því hlutverki sem það gegnir m.a. í dag, sem auðveld og örugg leið til að forða peningum undan neikvæðum vöxtum.

Fólk gæti þó af eigin rammleik komið seðlabönkum heimsins til bjargar. Samkvæmt yfirmanni nýsköpunarmiðstöðvar Alþjóðabankans vill fjöldi fólks rafmynt seðlabanka. Bankinn lítur á samdrátt í notkun reiðufjár sem þróun sem krefst útgáfu stafrænnar evru.

Þótt sumir gætu viljað rafmynt seðlabankanna er í raun engin ástæða til að halda, þrátt fyrir órökstuddar ályktanir, að mikil eftirspurn sé henni. Reiðufé er enn hinn ríkjandi greiðslumáti á evrusvæðinu og nemur yfir helmingi allra greiðslna í smásölu. Árið 2018 komst sérfræðingur Alþjóðabankans að þeirri niðurstöðu að reiðufé væri enn langt frá því að hætta að vera vinsælasti greiðslumátinn. Samkvæmt Tímariti Seðlabankanna er reiðufjárnotkun ekki að minnka, heldur vex mikilvægi hennar.

Alþýðulýðveldið Kína hefur unnið að því að gefa út rafmyntir síðan árið 2014 í verkefni sem kallast DC/EP, eða Rafmyntir/Rafgreiðslur. Notkun á rafmyntinni hófst þar í apríl á síðasta ári.

Vaxandi eftirspurn er eftir greiðslumiðlun og rafmyntum. En það er rangt að draga þá ályktun að vegna þess sé nú eftirspurn eftir rafmyntaútgáfu seðlabanka. Krafa um fleiri greiðslumiðlunarleiðir er ekki sú sama og krafa um nýja gerð peninga. Hún þýðir einfaldlega að fólk vill greiðsluþjónustu sem gerir því kleift að eiga ódýrari viðskipti sín á milli. Slík þjónusta er ríkulega veitt af fyrirtækjum eins og Visa, Mastercard, Paypal og fjármálafyrirtækjum. Það er engin ástæða til að halda að seðlabankar þurfi að veita þessa þjónustu, né að þeir gætu veitt hana betur en bankar og fyrirtæki á markaði. Það eru mistök að jafna eftirspurn eftir greiðslumiðlun við eftirspurn eftir nýrri gerð peninga.

Villan þegar ályktað er um dulkóðaðar rafmyntir er enn alvarlegri. Þegar fólk á bitcoin eða aðrar svipaðar dulkóðunarrafmyntir er það ekki vegna þess að seðlabankar hafi enn ekki gefið slíka peninga út. Þvert á móti vill fólk eiga bitcoin til að forðast takmarkanir, verðbólgu og neikvæða vexti sem fylgja peningastefnu stjórnvalda, en einnig til að njóta persónufrelsis og einkalífs – stjórnarskrárvarinna borgararéttinda til að fá að vera í friði fyrir eftirliti og upplýsingasöfnun hins opinbera. Ef til vill hefur gleymst að dulkóðunarrafmyntin bitcoin varð eftir alþjóðlegu fjármálakrísuna árið 2008. Fólk vildi eignast ódýra greiðslumiðlun og gjaldmiðil undir dreifðri stjórn, geta geymt féð án þess að þurfa á bankakerfinu að halda – þar sem bankinn getur tekið upp á því að vilja ekki, eða geta ekki, greitt út peningana. Það varð til dæmis raunin víða í bankahruninu og bankakerfið tapaði trausti. Einnig til að njóta friðhelgi einkalífsins og sleppa við miðstýringu og rýrnun peninga í meðförum stjórnvalda. bitcoin, eins og gull, er gefið út í takmörkuðu magni, verður því ekki „prentað“ eftir hentisemi og getur ekki tapað verðgildi sínu á þann hátt. Hægt er að nota bitcoin í viðskiptum um heim allan án þess að þurfa að stunda gjaldeyrisviðskipti.

Það ætti að vera augljóst að í alræðisríkjum eins og Kína, og í raun vegna þeirrar alvarlegu þróunar á Vesturlöndum að borgararéttindi eins og eignarétturinn, persónufrelsi og rétturinn til friðhelgi einkalífs virðast vera á undanhaldi gagnvart stjórnsemi og eftirliti hins opinbera, hefur rafeyrir seðlabankanna enga þá kosti sem fólk sækist eftir sérstaklega þegar það notar dulkóðunarrafeyri eins og bitcoin. Þvert á móti gerir hann fólk enn útsettara fyrir hættunni á alræðistilburðum og mannréttindabrotum stjórnvalda.

Útgáfa á rafmyntum seðlabanka myndi ekki draga úr þeirri hættu heldur auka hana, vegna þess að seðlabankarnir myndu öðlast miðstýrt vald yfir peningum með afnámi reiðufjár. Eftirspurn eftir friðhelgi einkalífsins, verðbólguvörn og flótti undan neikvæðum vöxtum og þaki á hámarkseign myndi aðeins aukast.

Niðurstaðan er því sú að rafmyntaútgáfa seðlabankanna og afnám reiðufjár snýst einungis um að herða stjórn hins opinbera og velta kostnaði og vandamálum yfir á almenning, en ekki til að mæta eftirspurn neytenda. Eina skynsamlega skýringin á innleiðingu rafmyntar seðlabanka væri að tilgangurinn væri að afnema reiðufé, til að koma á þeirri neikvæðu vaxtastýringu sem seðlabankastjórarnir telja nauðsynlega. Peningaprentun, takmarkanir á peningaeign og neikvæðir vextir eru allt tæki sem auðveldast væri að fá í hendurnar með útgáfu miðstýrðrar rafmyntar seðlabanka. Í eftirlitsþjóðfélögum og alræðisríkjum fá stjórnvöld að auki gríðaröflugt tæki til að fylgjast afar nákvæmlega með nánast öllu sem einstaklingurinn gerir í sínu einkalífi. Þannig verður ekki með góðu móti séð að rafmyntir seðlabankanna séu til gagns og hagsbóta fyrir almenning, heldur mikið fremur til að tryggja stjórnvöld í bak og fyrir – og alræðisríkin í sessi.

Útgáfa rafmyntar seðlabanka er þannig langt frá því að styðja við hlutverk seðlabanka og peninga ríkisvaldsins, heldur getur hún haft alveg þveröfug áhrif. Að skipta út reiðufé fyrir rafmynt seðlabanka myndi aðeins magna upp óæskilega eiginleika peninga ríkisins, hindra enn frekar frjálsan markað peninga- og fjármálaþjónustu og auka enn frekar eftirspurn almennings eftir frjálsum gjaldmiðlum, svo sem gulli og bitcoin.

Ritað af Ernu Ýr Öldudóttur. Misfarið var með nafn Ernu í prentútgáfu Þjóðmála og er beðist velvirðingar á því. Greinin byggir að mestu á þýðingu á grein Kristoffer Mousten Hansen, Central Bank Digital Currencies and the War on (Physical) Cash, sem birtist hjá Mises Institute 7. desember 2020, og eldri umfjöllun Ernu, Stríðið gegn reiðufé harðnar, sem birtist á Eyjunni 4. febrúar 2017.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.