Jordan Peterson sálfræðingur heldur úti sérlega áhugaverðu hljóðvarpi þar sem hann ræði við áhugavert fólk og hugmyndir og stefnur. Á meðal gesta hjá honum vorið 2021 var Matt Ridley, höfundur bókarinnar Heimur batnandi fer, sem Almenna bókafélagið gaf út árið 2014.
Á meðal þess sem þeir ræddu var trú sumra um hve allir höfðu það gott og hve lífið var miklu einfaldara í fortíðinni. Ekki þessi hraði og sú spenna sem fylgir lífi nútímamannsins. Jordan Peterson las þá upp brot úr bókinni Heimur batnandi fer, sem honum þótti mikið til koma. Þjóðmál endurbirta þennan hluta úr bókinni hér, auk inngangsorða, lesendum til bæði glöggvunar og ánægju.
—
Þegar kemur fram á miðja þessa öld mun mannkyninu hafa fjölgað úr innan við tíu milljónum í nærri tíu milljarða á tíu þúsund árum. Sumir af þessum milljörðum búa enn við meiri örbirgð og skort en verst þekktist á steinöld. Sumir standa verr að vígi en þeir gerðu fyrir aðeins nokkrum mánuðum eða árum. Yfir- gnæfandi meirihluti fólks er miklu betur nærður, hefur miklu betra húsaskjól, nýtur miklu fjölbreyttari dægrastyttinga og miklu betri sjúkdómsvarna og auk þess eru miklu meiri líkur á að fólk geti lifað fram í hærri elli en forfeður þess höfðu nokkru sinni möguleika á.
Aðgengi að næstum öllu því sem manneskju gæti langað í eða hún þurft á að halda hefur aukist hröðum skrefum á síðustu 200 árum og óreglulegar á næstu 10.000 árum þar á undan: þetta á við um auknar lífslíkur, aðgengi að hreinu vatni, hreint loft, tíma til að vera í einrúmi, leiðir til að ferðast hraðar en maður getur hlaupið og aðferðir til að hafa samskipti hraðar en maður getur hrópað. Þótt tekið sé tillit til þeirra hundruða milljóna sem enn búa við ömurlega fátækt, sjúkdóma og skort, hefur þessi kynslóð fólks aðgang að fleiri hitaeiningum, vöttum, lúmenstundum, fermetrum, gígabætum, mega- hertzum, ljósárum, nanómetrum, skeppum á ekru, kílómetrum á lítra af elds- neyti, matvælaflutningum, flugmílum og vitaskuld bandaríkjadölum en nokkur kynslóð á undan henni. Hún hefur fleiri franska rennilása, bóluefni, vítamín, skó, söngvara, sápuóperur, mangósneiðara, kynlífsmaka, tennisspaða, fjarstýrðar eldflaugar og allt annað sem hún gæti ímyndað sér að hún hefði þörf fyrir. Einn matsaðili telur að hægt sé að kaupa yfir tíu milljarða mismunandi afurða.
Þetta ætti ekki að þurfa að segja nokkrum manni en þarf þó. Enn er til fólk sem heldur að lífið hafi verið betra í fortíðinni. Það segir að í fjarlægri fortíð hafi lífið ekki einungis einkennst af einfaldleika, kyrrð, félagslyndi og andlegri viðleitni, sem nú sé glötuð, heldur einnig dyggð. Veitið því athygli að þessa rósrauðu fortíðarhyggju er almennt einkum að finna hjá hinum auðugu. Auðveldara er að syngja harmaljóð yfir glötuðu lífi fátækra bænda þegar maður þarf ekki að notast við útikamar.
Ímyndið ykkur að nú sé árið 1800 einhvers staðar í Vestur-Evrópu eða Norður-Ameríku. Fjölskyldan safnast saman við eldstæðið í fábrotnu timburhúsi. Faðirinn les upphátt úr Biblíunni á meðan móðirin skammtar nautakjöts- og lauksúpu á diska. Ein af systrunum huggar litla nýfædda drenginn sem grætur og elsti sonurinn eys vatni úr fötu í leirkrukkur sem standa á borðinu. Eldri systir hans er að brynna hestunum í hesthúsinu. Engin umferðarhávaði berst að utan, engir eiturlyfjasalar eru til og hvorki díoxín né geislavirkni hafa mælst í kúamjólkinni. Allt er friðsælt og fugl syngur fyrir utan gluggann.
Bíðum þó við! Þótt þetta sé ein af mest velmegandi fjölskyldunum í þorpinu verður faðirinn að gera hlé á ritningarlestrinum á meðan hann hóstar af völdum berkjubólgunnar sem er undanfari lungnabólgunnar er dregur hann til dauða 53 ára gamlan — og ekki hjálpar reykurinn af viðnum sem logar í eldstæðinu. (Hann er lánsamur: lífslíkur voru innan við 40 ár árið 1800, jafnvel á Englandi.) Litla barnið mun látast af völdum kúabólunnar, sem veldur því að það grætur nú, systirin verður brátt eign drukkins eiginmanns, mykjubragð er af vatninu sem sonurinn er að ausa vegna þess að kýrnar drekka vatnið í læknum. Móðirin þjáist af tannpínu, leiguliði nágrannans er að barna hina dótturina í hlöðunni og barnið hennar verður sent á munaðarleysingjahæli. Súpan er grá og fitug og kjötsúpa er sjaldgæf tilbreyting frá hafraseyðinu. Hvorki salat né ávexti er að hafa á þessum árstíma. Súpan er borin fram í tréskálum og borðuð með tréskeiðum. Kerti eru of dýr og eini ljósgjafinn er eldurinn í eldstæðinu. Enginn í þessari fjölskyldu hefur nokkru sinni séð leikrit, málað mynd eða heyrt leikið á píanó. Skólaganga er nokkur ár af leiðinlegu latínustagli sem þröngsýnn tyftunarmeistari kennir á prestsetrinu. Faðirinn fór eitt sinn til borgarinnar en ferðin kostaði hann vikulaun og hinir í fjölskyldunni hafa ekki farið lengra en tuttugu kílómetra fjarlægð frá heimilinu. Hvor dóttirin á tvo ullarkjóla, tvær línskyrtur og eitt par af skóm. Jakki föðurins kostaði hann mánaðarlaun og er nú grár af lús. Börnin sofa tvö og tvö saman á hálmdýnu á gólfinu. Og á morgun veiðir strákurinn fuglinn sem syngur fyrir utan gluggann og fjölskyldan borðar hann.