„Mamma, hún er gift Mogganum“

Agnes Bragadóttir (Mynd: Þjóðmál/HAG).

Agnes Bragadóttir á að baki farsælan og eftirminnilegan feril sem blaðamaður. Í viðtali við Þjóðmál fer hún yfir eftirminnilega þætti frá ferlinum, um hlutverk fjölmiðla, um hlutleysi og sanngirniskröfu fjölmiðla, samskiptin við áhrifafólk í stjórnmálum og viðskiptum og persónulegar hliðar þess að vera alltaf á vaktinni sem fjölmiðlamaður.

Eftir 35 ár í starfi lét Agnes af störfum á Morgunblaðinu haustið 2019. Ferill hennar spannar þó lengra tímabil, því hún hafði starfað á Tímanum frá því haustið 1980 og þar áður fyrir Frjálsa fjölmiðlun við skrif í ýmis blöð. Agnes segir þó að upphaflega hafi hún ekki ætlað sér að verða blaðamaður.

„Ég ætlaði, alveg frá því að ég var krakki, að verða íþróttakennari,“ rifjar Agnes upp.

„Ég var alltaf mikil keppnismanneskja, keppti í handbolta og hafði almennt mjög gaman af íþróttum. Það rann þó síðar upp fyrir mér að það var skemmtilegra að stunda íþróttir en kenna þær. Ég gifti mig ung, aðeins 22 ára gömul, og flutti í kjölfarið með þáverandi eiginmanni mínum til Ísafjarðar og hóf að kenna í bæði gagnfræðaskólanum og menntaskólanum þar.“

Þar kynntist Agnes Jóni Baldvini Hannibalssyni, síðar formanni Alþýðuflokksins og utanríkisráðherra, og eiginkonu hans, Bryndísi Schram. Agnes flutti þó aftur til Reykjavíkur tveimur árum síðar og hóf nám í ensku og þýsku. Hún hafði að eigin sögn alltaf þráð að skrifa og fékk sumarvinnu með náminu hjá Frjálsri fjölmiðlun, þar sem hún skrifaði um íþróttir, sjávarútveg og iðnað.

„Þar fékk ég bakteríuna og það fyrsta sem ég gerði þegar ég lauk námi var að sækja um starf sem blaðamaður. Ég byrjaði á því að sækja um á Morgunblaðinu en Styrmir Gunnarsson ritstjóri sagði bara „nei takk“,“ rifjar Agnes upp og glottir við.

„Ég þræddi öll blöðin í Síðumúlanum nema Þjóðviljann, því ég vissi að þar þyrfti ég flokksskírteini og það kærði ég mig ekki um. Ég reyndi að selja Jóni Baldvini, sem þá var orðinn ritstjóri Alþýðublaðsins, háleitar hugmyndir um frekari íþróttaumfjöllun en hann keypti ekki þá hugmynd. Ég endaði á því að ganga inn á Tímann. Þegar ég bað um að fá að tala við ritstjórann komst ég að því að þeir voru tveir, þannig að ég bað um að fá að tala við þann sem var yngri til að selja honum hugmyndina að ráða mig.“

Sá „yngri“ var Jón Sigurðsson, sem síðar varð seðlabankastjóri, formaður Framsóknarflokksins og ráðherra. Hann keypti söluræðuna og Agnes hóf störf daginn eftir, 1. september 1980.

Hinn ritstjórinn var Þórarinn Þórarinsson en meðal annarra samstarfsmanna Agnesar á Tímanum í þau rúmu þrjú ár sem hún starfaði þar má nefna Pál Magnússon, Illuga Jökulsson og Egil Helgason. Agnes talar vel um þessa samstarfsmenn sína og árin á Tímanum.

„Ég myndaði góð og mikilvæg sambönd, sem mörg hver halda enn í dag. Ég fékk líka mikið frelsi í starfinu, líklega meira en ég hefði fengið sem nýgræðingur á Morgunblaðinu,“ segir Agnes.

„Þetta reyndist því mjög góður skóli og ég var dugleg að afla frétta. Við náðum oft fréttum sem aðrir voru ekki með. Gunnar Thoroddsen, sem þá var forsætisráðherra, var einhvern tímann spurður að því af hverju Agnes væri svona oft með fréttir sem aðrir væru ekki með. Hann svaraði að bragði, „Ætli það sé ekki af því að Agnes er fljótari að hlaupa en aðrir,“ en ég sat oft fyrir honum fyrir utan stjórnarráðið og hljóp hann uppi þegar hann rölti þaðan yfir á Alþingi.“

Gott samband við stjórnmálamenn

Eins og gefur að skilja var þessi tími nokkuð frumstæður, horft með augum nútímans. Þetta var fyrir tíma farsíma, internets, ferðatölva og samskiptaforrita – og því fór töluverður tími og vinna í að viðhalda samböndum við viðmælendur og heimildarmenn.

„Í dag eru blaðamenn með númerin hjá ráðherrum og forstjórum, það dugar því að hringja í þá eða senda SMS og þeir svara iðulega um hæl. Það fer því ekki hálfur dagurinn í að reyna að ná í fólk, nema auðvitað ef það viljandi lætur ekki ná í sig,“ segir Agnes.

„Það sem hefur þó ekki breyst er að þegar það er einu sinni komið á samband við stjórnmálamenn þá heldur það yfirleitt ef það er byggt á trausti og ef blaðamaðurinn kemur fram af sanngirni. Á þessum tíma reyndist mikilvægt fyrir mig að ráðherrar gáfu mér yfirleitt beina símann inn á skrifstofu til sín, þannig að ég þurfti ekki að fara í gegnum skiptiborð eða aðstoðarmenn.“

Þó ber að nefna að ólíkt því sem er í dag höfðu fjölmiðlamenn áður fyrr greiðan aðgang að þingmönnum og ráðherrum inni á Alþingi, þar sem hægt var að nálgast þá hvar sem er í Alþingishúsinu. Spurð hvort í því hafi ekki falist aðgangsharka, jafnvel dónaskapur, að ónáða þingmenn hvar sem er í húsinu segir Agnes að eflaust megi telja hvoru tveggja rétt.

„Það vældi þó enginn yfir því, þannig var það bara þá,“ segir Agnes.

Agnes rifjar þó upp eitt atvik þar sem kastaðist í kekki á milli hennar og fyrrnefnds Gunnars Thoroddsen.

„Þá hringdi ég beint í ráðherrabústaðinn á Þingvöllum. Hann ætlaðist nú ekki til þess að ég hefði númerið þar, enda gaf hann mér það ekki. „Hver gaf þér þetta númer?“ spurði hann grimmur eftir að ég hafði kynnt mig. Ég hló og sagði að ég gæfi ekki upp heimildarmenn. Honum fannst það ekki jafn fyndið en hann svaraði þó spurningunni sem ég hafði hringt til að spyrja hann um, reyndar í stuttu máli,“ segir Agnes og hlær þegar hún rifjar þetta upp.

Agnes nefnir þó einn stjórnmálamann sem iðulega reynist erfitt að ná í, Dag B. Eggertsson borgarstjóra.

„Hann svarar bara þegar honum sýnist og ef hann hefur grunsemdir um að erindið sé óþægilegt fyrir hann svarar hann bara alls ekki. Hann hefur einstakt lag á því,“ segir Agnes.

„Ég fann þó aðferð, sem ég hef þó bara einu sinni beitt. Þá skrifaði ég frétt um hvað það var sem ég vildi ræða um við hann og hversu oft ég hefði reynt að ná í hann vegna málsins, án árangurs. Hann svaraði símanum næst þegar ég hringdi. Maður verður bara að taka þessa gaura og kenna þeim.“

Agnes Bragadóttir (Mynd: Þjóðmál/HAG).

Fjölmiðlar þurfa að vera sanngjarnir

Menn tala iðulega um flokksblöðin og það má segja að blöðin hafi hvert um sig verið pólitísk. Hefur pólitísk afstaða fjölmiðla eitthvað breyst með árunum?

„Ég get ekki tekið undir það að öllu leyti,“ svarar Agnes að bragði.

„Ritstjórnarefni blaðanna var og er vissulega pólitískt, en fréttastofurnar voru það ekki. Auðvitað hafa allir sínar skoðanir en þegar maður skrifar fréttir þá hlýtur að vera gerð sú krafa að maður sé ekki flokkspólitískur í skrifum sínum. Ef maður er það missir maður allan trúverðugleika og það er ekki tekið mark á manni.“

Og finnst þér fjölmiðlar almennt gæta að því?

„Það er mismunandi eftir því hver á í hlut, en það á að vera lykilatriði fyrir fjölmiðla að segja sannleikann og sýna sanngirni í fréttaskrifum sínum. Fjölmiðlafólk þarf ekki að vera hlutlaust, en það þarf að vera sanngjarnt. Allir hafa skoðanir og það er eðlilegt. Síðan er bara spurning hvernig fólk vinnur úr þeim skoðunum og hvort það lætur þær smita fréttaskrif sín. Þetta snýst um vinnubrögðin,“ segir Agnes.

Þú tókst oft þátt í umræðu og varst álitsgjafi um pólitísk málefni, viðskipti og fleira. Reyndist það erfitt?

„Ég leit þannig á að ég væri ekki fulltrúi míns fjölmiðils, hvort sem það var Tíminn eða Morgunblaðið, ég tæki bara þátt á eigin vegum,“ segir Agnes.

„Ég man eftir einu tilviki þegar ég var í Silfrinu hjá Agli Helgasyni að Sóley Tómasdóttir, sem þá var borgarfulltrúi, veittist að mér í þættinum af því að ég hafði skoðanir. Ég svaraði að bragði: „Fyrirgefðu, til hvers heldur þú að ég hafi verið beðin um að koma í þennan þátt? Til að hafa engar skoðanir?“ Ég skrifaði síðan fastan pistil um nokkurra ára skeið, sem hét Agnes segir. Mér fannst það skemmtilegt því það var augljóst að ég var að segja mína skoðun. Þar gat ég hjólað í hvað sem er og skrifað með þeim hætti sem ég gerði auðvitað ekki í fréttaskrifum.“

Óvænt ferð til Washington

En aftur að blaðamannsferlinum. Það dró til tíðinda í árslok 1983 þegar allir starfsmenn Tímans fengu uppsagnarbréf í hendur eftir að stofnað hafði verið nýtt félag um útgáfuna, NT. Upp úr því hafði Styrmir Gunnarsson samband við Agnesi og bauð henni vinnu á Morgunblaðinu. Eftir að hafa nuddað honum aðeins upp úr því að hafa ekki ráðið hana þremur árum fyrr, þó meira í gamni, þáði hún boðið og hóf störf á blaðinu vorið 1984.

„Ég hafði, þótt ég segi sjálf frá, staðið mig vel á Tímanum og sannað mig sem blaðamaður. Þetta mikla keppnisskap sem ég hafði frá því að stunda íþróttir á unga aldri fylgdi mér í starfinu og ég var dugleg að afla frétta,“ segir Agnes þegar hún er spurð um þennan tíma þegar blaðamannastéttin var að miklu leyti byggð upp á körlum. Aðspurð segir hún þó að hún telji sig ekki hafa þurft að sanna sig sérstaklega vegna þess að hún væri kona.

„Þegar eitthvað stórt var í gangi kom Matthías Johannessen stundum stormandi inn á ritstjórnina og kallaði „Strákar, komiði“ en þá þýddi það strákarnir á ritstjórninni og ég. Einhvern tímann var ég spurð hvort þetta færi ekki í taugarnar á mér, ég hélt nú ekki eigandi fjóra eldri bræður og ýmsu vön,“ segir Agnes.

Agnes naut mikils trausts hjá ritstjórum Morgunblaðsins. Spurð nánar um það rifjar hún upp sögu frá árinu 1993 þegar Styrmir og Matthías kölluðu hana inn á skrifstofu og báðu hana um að fljúga við fyrsta tækifæri til Washington. Tilefnið var að Matthías hafði orðið þess áskynja kvöldið áður að eitthvað væri að gerast í málefnum hersins á Keflavíkurflugvelli og að kanna þyrfti málið frekar.

 

Hér má sjá forsíðu Morgunblaðsins fimmtudaginn 6. maí 1993, hvar fjallað er um fyrirhugaðan niðurskurð bandarískra stjórnvalda á herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Á þessum tíma heyrði það til undantekninga að fjallað væri um innlend málefni á forsíðu Morgunblaðsins. Eftir að hafa nýtt sér tengslanet sitt í Washington og aflað heimilda hringdi Agnes fréttina inn í gegnum síma kvöldið áður en hún birtist og las upp úr minnispunktum sínum fyrir samstarfsmenn sína.

„Ég fann á þeim að það var eitthvað til í þessu þó að þeir gæfu ekki upp hvaðan þeir hefðu sínar heimildir. Ég flaug vestur um haf án nokkurs undirbúnings en nýtti mér það að vera það sem kallað er Nieman Fellow,“ segir Agnes. Nieman Fellowship er félagsskapur sérvalinna fjölmiðlamanna í Harvard-háskóla en Agnes hafði fengið Nieman Fellowship eftir leiðtogafundinn í Höfða 1986, þar sem hún starfaði með bandarískum fjölmiðlamönnum sem fjölluðu um Hvíta húsið og skrifstofu forseta Bandaríkjanna. Þar kynntist hún fjölmiðlamönnum á borð við Dan Rather, Peter Jennings, Samuel Adams og Helen Thomas svo fáein séu nefnd. Agnes var og er eini íslenski Nieman-félaginn. Hún gat nýtt það öfluga tengslanet sem felst í því að vera Nieman og bað kollega á Washington Post um að koma sér í samband við þann aðila sem hefði með málefni Íslands að gera í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Daginn eftir var hún komin í ráðuneytið og eftir samtöl þar fékk hún það staðfest að til stæði að fjarlægja allar orrustuþotur frá Keflavík og skera töluvert niður í rekstri herstöðvarinnar, jafnvel að loka henni.

„Ég dreif mig beint upp á hótel, var auðvitað með allt handskrifað og hringdi heim seint um kvöld að íslenskum tíma. Ég las upp úr mínum minnispunktum og við smíðuðum þessa frétt saman í gegnum símann, sem síðan var á forsíðu blaðsins daginn eftir. Þannig var þetta gert þá. Það varð allt brjálað hérna heima og Davíð var ekki ánægður með mig,“ segir hún og vísar þar til Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra.

„Það var þó ekki fyrr en í fyrra sem ég komst að því hvernig þetta mál kom til. Kvöldið áður en þeir Matthías og Styrmir kölluðu mig á skrifstofuna hafði Matthías farið ásamt Hönnu, eiginkonu sinni heitinni, út að borða á Naustinu. Þar rákust þau á Jón Baldvin [Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra] og Bryndísi [Schram, eiginkonu Jóns], sem buðu þeim heim í drykk í lok kvöldsins. Þar fékk Matthías tilfinningu fyrir því að eitthvað væri í gangi með herinn þó að hann fengi engar nákvæmar upplýsingar frá Jóni Baldvini. Matthías hafði bara þetta sjötta skilningarvit og skynjaði að eitthvað væri ekki með felldu og í kjölfarið var ég send út. Það var mjög oft þannig, bæði Matthías og Styrmir voru með puttana á púlsinum og fylgdust vel með öllu.“

Sambandið, Íslandsbanki og Suðurlandið

Fréttin um mögulega lokun Keflavíkurstöðvarinnar vakti athygli. Það voru þó stærri greinaflokkar sem Agnes er þekktari fyrir, þá helst greinaflokkur hennar um endalok Sambandsins frá 1995 og átökin um eignarhald á Íslandsbanka frá 2003.

Því hefur verið haldið fram að Sverrir Hermannsson, þáverandi bankastjóri Landsbankans (sem var viðskiptabanki Sambandsins), hafi verið einn helsti heimildarmaður Agnesar í umfjöllun hennar um endalok Sambandsins. Þegar Agnes rifjar þetta upp tekur hún þó fram að hún hafi skrifað mikið um Sambandið frá þeim tíma sem hún var blaðamaður á Tímanum og kynnst mörgum sem höfðu með reksturinn að gera. Hún hafi viðhaldið þeim tengslum eftir að hún hóf störf á Morgunblaðinu.

„Ég hafði vissulega átt traust samband við Sverri allt frá því að hann starfaði í stjórnmálum. Aftur á móti talaði ég við fjölda manns um málefni Sambandsins og náði þannig að setja saman þær fréttaskýringar sem á eftir fylgdu. Ég mun þó aldrei gefa upp hverjir það voru enda hef ég Hæstaréttardóm þess efnis,“ segir hún og glottir við. Þar vísar hún til þess máls sem vakti nokkra athygli á sínum tíma, en eftir að hafa sætt yfirheyrslum af hálfu þess sem þá hét Rannsóknarlögregla ríkisins var Agnesi stefnt fyrir dóm og þess krafist að hún gæfi upp heimildarmenn sína. Hún tapaði málinu í héraði en hafði sigur í Hæstarétti.

„Jón Steinar Gunnlaugsson var lögmaður Morgunblaðsins og minn. Hann sagði við mig, „það er alveg sama hvað þeir spyrja þig um, þú segir bara no comment,“ með öðrum orðum „Agnes, þú þegir“,“ rifjar hún upp og það má sjá að hún hefur nokkurt gaman af því.

Nokkrum árum síðar, í byrjun árs 2003, skrifaði hún greinaflokk um baráttu ólíkra fjárfestahópa um yfirráð í Íslandsbanka sem staðið hafði yfir um nokkurn tíma. Fyrir þá umfjöllun hlaut hún blaðamannaverðlaun sem þá höfðu verið endurvakin.

„Það var gríðarleg vinna í kringum það mál,“ segir Agnes.

„Það sem var ólíkt umfjölluninni um Sambandið var að ég hafði engan aðgang að frumgögnum á borð við fundargerðir, minnisblöð og fleira. Þeir aðilar sem áttu í baráttu um Íslandsbanka ráku sig ekki þannig og þau gögn voru því ekki til. Ég þurfi því að herja á menn til að fá upplýsingar. Ég náði í alla sem ég þurfti að tala við en fékk auðvitað mismikið frá hverjum og einum, þannig að það var mikil handavinna að vinna úr því. Á þessum tíma fékk maður þó mikið svigrúm til að vinna svona fréttaskýringar og sinna rannsóknarblaðamennsku, enda stóðu fjölmiðlar mun betur þá. Styrmir og Matthías fylgdust vissulega með, tékkuðu á því hvernig gengi og veittu mér mikinn stuðning.“

Agnes er þekkt fyrir skrif sín um stjórnmál og viðskipti, en það eru þó fleiri mál og annars eðlis sem koma upp í huga hennar þegar hún er beðin um að rifja þau upp. Hún nefnir sérstaklega þegar Suðurlandið fórst á jólanótt 1986. Daginn eftir fór hún ásamt Árna Johnsen, þá blaðamanni, og Ragnar Axelssyni ljósmyndara til Færeyja og tók þar á móti þeim áhafnarmeðlimum sem hafði verið bjargað. Starfsmenn Morgunblaðsins voru einu íslensku fjölmiðlamennirnir á svæðinu og gátu flutt fréttir af afdrifum áhafnarmeðlimanna.

Spurð hvernig það hafi verið að nálgast menn sem höfðu nýlega gengið í gegnum svo miklar hörmungar segir hún að þeir hafi tekið blaðamönnunum vel.

„Við nálguðumst þá líka af tillitssemi og varfærni. Þeir fundu samhuginn og hlýjuna og við vorum ekki bara á eftir fréttunum. En þetta var vissulega átakanlegt,“ segir Agnes.

„Ég hef sjaldan verið eins fegin að komast frá nokkrum stað“

Agnes rifjar upp eina eftirminnilegustu lífsreynslu sína frá þeim tíma þegar hún starfaði á Tímanum. Árið 1983 barst Þórarni Þórarinssyni ritstjóra boð um að sækja Norður-Kóreu heim, þar sem til stóð að halda mikla hátíð til að fagna því að 30 ár voru liðin frá lokum Kóreustríðsins, eða réttara sagt frá því að samið var um vopnahlé. Hann bauð Agnesi að fara í sinn stað og hún var eini íslenski blaðamaðurinn sem fór í ferðina. Þar hitti hún fyrir Kim Il-sung, þá leiðtoga Norður-Kóreu, í höfuðborginni Pyongyang.

„Þetta var eftirminnileg ferð en um leið óhugnanleg,“ segir Agnes.

„Þó að þeir hafi reynt að draga upp glansmynd fyrir erlendu blaðamennina sá maður vel fátæktina og hungursneyðina en um leið skoðanakúgunina sem þar var viðhöfð – og reyndar enn í dag. Fólkið í landinu var algjörlega heilaþvegið af meintum afrekum leiðtogans og það var varla sögð setning af þess hálfu án þess að minnast á okkar mikla og vitra leiðtoga sem hafði gert hitt og þetta, reist heilu mannvirkin og þannig mætti áfram telja. Ég hef sjaldan verið eins fegin að komast frá nokkrum stað.“

Hún átti þó eftir að hitta fleiri þjóðhöfðingja, þar á meðal Ronald Reagan Bandaríkjaforseta í mýflugumynd á skrifstofu hans í Hvíta húsinu. Á leiðtogafundinum 1986 fékk hún aðgang að fjölmiðlahópi Hvíta hússins eins og áður hefur komið fram og stuttu eftir fundinn heimsótti hún kollega sína vestanhafs. Þegar Larry Speaks, talsmaður Hvíta hússins, leiddi hana um Hvíta húsið fóru þau meðal annars inn á skrifstofu forsetans þar sem verið var að undirbúa sjónvarpsávarp. Þegar forsetinn kom óvænt inn á skrifstofuna sagði hann eina setningu við Agnesi: „Hi, how are you doing“!

Agnes Bragadóttir (Mynd: Þjóðmál/HAG).

Farsælt hjónaband með Morgunblaðinu

Þegar rifjað er upp að Agnes hafi flogið til Færeyja um jól kemur upp í hugann að blaðamannsstarfið hefur væntanlega ekki verið mjög fjölskylduvænt starf, þá sérstaklega í ljósi þess að hún var þá einstæð með tvö lítil börn eftir að hún og eiginmaður hennar skildu.

„Það var gott fólk í kringum mig, ég hafði mikinn stuðning og það kom sér vel,“ segir Agnes.

„Það var, og er, gott á milli mín og barnsföður míns og börnin voru reglulega hjá honum. Auk þess voru foreldrar mínir á lífi þá og föðuramma barnanna, sem er enn lifandi, hjálpaði líka til. Þannig gat ég sinnt starfinu og ég tel ekki að ég hafi fórnað fjölskyldulífinu fyrir vinnuna. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og mér fannst alltaf gaman í vinnunni.“

Agnes rifjar þó upp í gamni að þegar börnin hennar voru reglulega spurð hvort móðir þeirra ætlaði ekkert að gifta sig aftur svöruðu þau að bragði: „Mamma, hún er gift Mogganum.“

Og hvernig var að vera gift Mogganum?

„Það var farsælt hjónaband,“ segir hún og hlær.

„Ég hugsa til baka með miklu þakklæti. Ég fékk þau ár sem henta mér og skapferli mínu fullkomlega.“

Hvernig er skapferli þitt?

„Ég er yfirgangssöm, ákveðin og mér er sagt að ég sé frek,“ segir Agnes.

„Mér er þó líka sagt að ef ég væri karlmaður væri ég sagður vera staðfastur og ákveðinn. En af því að ég sé kona sé ég gribba og frekja. Ég heyrði það allan minn starfsferil og jafnvel enn í dag. En það fer inn um annað og út um hitt, ég tek það ekki nærri mér og er ekki viðkvæm fyrir því. Afrakstur minn sem blaðamaður talar sínu máli.“

Viðtalið birtist í vorhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.